Grái fiðringurinn

Atburðarás
Anthony, Octavius og Leipidus stýra Rómarveldi eftir fall Júlíusar, Brútusar og Cassiusar. Anthony sér um austurhlutann og hefur sest að í Alexandríu og lifir þar í svallsælu með drottningunni Cleopötru, í óþökk Octaviusar. Þegar Pompey ógnar yfirráðum þrívaldanna yfir Miðjarðarhafinu og eiginkona Anthonys deyr hverfur hann heim til að jafna ágreininginn við félaga sína og sameinast gegn ógninni. Hann fellst á að giftast systur Octaviusar til að treysta böndin og saman knýja þeir Pompey til uppgjafar. Anthony fer til Aþenu með konu sinni en fljótlega koma í ljós brestir í bræðralaginu, enda Octavius með einvaldsdrauma og Anthony með hugann við Cleopötru sem hann hverfur nú til. Octavius fer að honum með her sinn og hefur sigur í sjóorustu eftir að Cleopatra hafði hörfað með sín skip og hinn ástsjúki Anthony elt hana úr bardaganum. Samherjar hans yfirgefa hann umvörpum, meðal annars Enobarbus, hans nánasti herforingi, sem deyr af harmi yfir eigin svikum. Engu að síður virðist Anthony muni hafa sigur í úrslitaorustunni, en aftur bregst egypski hluti hersins og um leið tapast bardaginn. Cleopatra ákveður að gera honum orð um að hún hafi svipt sig lífi. Að sjálfsögðu ræður Anthony sér umsvifalaust bana og er fluttur helsærður til drottningar. Octavius tekur öll völd í Egyptalandi og undirbýr sigurgöngu um Róm með drottninguna í hlekkjum, en henni tekst að láta smygla til sín eitursnákum og deyr af biti þeirra.

To the monument!
There lock yourself, and send him word you are dead.
The soul and body rive not more in parting
Than greatness going off.

4.13.4–8

Er Charmian, hirðmær Cleopötru, versti ráðgjafi í Shakespearekanónunni? Þessi hugmynd er stórkostlega vond og viðbrögð Anthonys algerlega fyrirsjáanleg. Þetta er heldur ekkert sérstaklega fullnægjandi dramatúrgía, en þar er ekki við Shakespeare að sakast, heldur Plútark. Eða Guð. Eða Charmian sjálfa. Nema að svo miklu leyti að Shakespeare hefði mátt sýna heimildum sínum örlítið minni virðingu. Stundum. Þess má líka geta að einn af eftirtektarverðum styrkleikum verksins er hvað smáhlutverkin í fylgdarliði Cleopötru, Anthonys og jafnvel Octaviusar eru skýrt teiknuð. Enobarbus og aðrir hermenn gegna nánast hlutverki sögumanns/kórs og gera það oft vel. Frægasta ræða verksins, lýsing Enobarbusar á fyrsta fundi titilpersónanna, er til dæmis úr þannig samtali. Annað minna þekkt dæmi, en einkennilega glæsilegt eru þessi orð Mecaenasar þegar hann horfir á Octavius horfa á sverð Anthonys, sem honum hefur verið fært af sendiboða sem tilkynnir honum dauða kappans:

When such a spacious mirror’s set before him,
He needs must see himself.

5.1.42–43

Nákvæmlega hvernig harmleikir Shakespeares eru flokkaðir í gæðatilliti er flókið og persónubundið. En ætli Anthony and Cleopatra sé ekki vinsæll kostur sem það verk sem er næst því að komast í úvalsdeildina, þar sem flestir eru sammála um að Hamlet, Lear, Macbeth og Othello spili. Já og Coriolanus, segja fræðingarnir (hinir hafa aldrei séð hann eða nennt að lesa). Af almennt viðurkenndu meistarastykkjunum er þetta það sem ég þekki minnst. Aldrei séð það, hvorki á sviði né skjá og bara lesið einu sinni, og þá í þýðingu. Við þann lestur greip mig ekkert sem kallaði á að A+C flyttist upp í deild þeirra bestu. Það breyttist ekki við þennan frumlestur frumtextans, áhorf og frekara grúsk. Það er ekki nálægt því eins mikið leikið og H, L, M og O, og ef maður gúgglar „Anthony and…“ býður leitarvélin manni fyrst Anthony and the Johnsons en ekki egypska ástardramað.

Reyndar er einhvernvegin alveg á mörkunum að telja verkið til harmleikja, svo mjög greinir það sig frá fyrrnefndri fernu. Eitt er nú að hér snýr Shakespeare aftur í episódískt form krónikuleikanna sem eru stundum kallaðir svo, fyrstu söguleikritin hans. Senur eru stuttar og margar, sumar örstuttar, oft farið hratt yfir sögu og stokkið ótt, títt og kröftuglega milli heimshluta. Samkvæmt formála John Wilders að Ardenútgáfunni er Anthony and Cleopatra það Plútarkosarleikrit Shakespeares þar sem hann heldur sig næst heimildum sínum, en til grískrómverska sagnaþáttaritarans sótti hann efni í fjögur verk; Julius Caesar, Timon of Athens, Coriolanus og þessa harmsögu af endalokum rómverska stríðsgarpsins og egypsku drottningarinnar.

Harmsaga já, en tæpast harmleikur. Tætingslegt söguleikjaformið dreifir athygli okkar, við fáum ekki nógu góðan aðgang að hugskoti helstu persóna, varla að við fáum almennilega að vita hver sú persóna eigi að vera. Einn söguleikjanna er sem kunnugt er kallaður „Tragedie“ í Folio-útgáfunni: Richard III, og Richard II sver sig mjög harmleikjaættina. Bæði þessi leikrit líkjast Hamlet og Macbeth mun meira en A+C gerir.

Annað verk á harmleikjarófinu kemur sterklega upp í hugann við lestur Anthony and Cleopatra. Og það eru ekki bara fáfengileg yfirborðsatriði eins og nafnið sem tengja verkið við ástarharmleikinn frá 1595 (10–11 árum fyrr). Einnig hér ráða falsfréttir um dauða annars elskendanna úrslitum. Einnig hér má ræða hvort verkið sé réttnefnd tragedía. Shakespeare hefur hinsvega lært af mistökum sínum í Romeo and Juliet þar sem parið nær ekki að kveðjast áður en þau kveðja. Hér lætur skáldið (eða var það kannski Plútarkos?) drösla Anthony helsærðum til unnustunnar, sem er einsdæmi um dauðvona menn á sviði Shakespeares. 

Eitt á Anthony and Cleopatra svo sameiginlegt með Ríkarði III, eins og Wilders bendir á: Mynd Shakespeares af titilpersónunum hefur orðið MYNDIN sem allir hafa af þessum karakterum. Fyrir utan reyndar nefið á drottningunni. Það höfum við frá Uderzo. Shakespeare minnist ekki á það einu orði. Og þá væntanlega ekki Plútarkos heldur.

Það er kannski rétt að þrengja þessa fullyrðingu Wilders aðeins: það er myndin af Cleopötru sem við höfum úr verki Shakespeares. Enda er hún langsamlega skýrast dregna, frumlegasta og eftirminnilegasta persóna verksins. Í humátt á eftir kemur hermaðurinn Enobarbus og Anthony þar á eftir. Rétt svo, sjónarmun á undan machíavellísku skuggaverunni Octaviusi, sem við þekkjum úr mannkyns- og biblíusögunni sem Ágústus.

Anthony í 3. sæti? Hvað gerðist eiginlega? Anthony hefur nefnilega áður komið við sögu hjá Shakespeare. Hann drottnar yfir leikritinu sem heitir Julius Caesar, en er harmleikur Brutusar og Cassiusar, ef það pólitíska drama fellur í harmleikjaflokkinn yfirleitt (sem má vel deila um). Þar kynnumst við útsmognum, lýðskrumandi Anthony, sem ég hélt fram í ritgerð minni um það verk að væri nokkuð augljóslega „vondi kallinn“. 

Hann er ekki vondi kallinn í A+C. En hann er líka tæpast sami kallinn. Eitt er nú að það er farinn í honum kalkúlatorinn. Þessum Anthony er lífsins ómögulegt að hafa nokkra stjórn á gangi mála, að gera annað en bregðast við þeirri atburðabraut sem yfirburðaplottarinn Octavius leggur. Horfinn er lýðskrumarinn sem vafði Rómarpöplinum um fingur sér. Aðallega er það samt þannig að „Hvað gerðist eiginlega“ er ekki rétta spurningin. Það sem gerðist var að Shakespeare byrjaði með „autt blað“. Þetta er nýtt leikrit um nýtt fólk. Ok. gamalt fólk. Það er nú ein vísbendingin um að þetta er óskylt verk en ekki hugsað sem framhald. Þó hinir sögulegu atburðir séu nálægir lokum JC í tíma kýs Shakespeare að sýna okkur Anthony og Cleopötru sem síðmiðaldra fólk. Þau voru n.b. um þrítugt þegar atburðarás verksins hefst og þá um 45 þegar þeim lýkur, þó tilfinningin sé að þetta gerist nánast í rauntíma en ekki á 15 ára tímabili. Meira um tímann síðar.

Ef við horfum framhjá ætlun Shakespeares er eina mögulega svarið við spurningunni „hvað gerðist eiginlega?“ eitt orð:

Cleopatra.

Eða tvö orð:

Cleopatra. Austurlönd.

Byrjum þar. John Wilders bendir á hina skýru tvíhyggju verksins. Andstæðuleik hinnar pragmatísku, köldu, meinlætalegu og „siðprúðu“ Rómar og svo nautnaþrungins dekadensins í Alexandríu. Gott ef hér er ekki mættur til leiks, seglum þöndum, hinn margumræddi og illræmdi óríentalismi. Anthony hefur kolfallið fyrir hinu ljúfa lífi. En þó einkum fyrir hinni ógurlegu drottningu. Frægasta ræða verksins lýsir henni best. Þar segir Enobarbus félögum sínum heima í Róm frá fyrsta fundi þeirra Anthonys og klikkir út með mest ívitnuðu orðum verksins:

Age cannot wither her, nor custom stale
Her infinite variety: other women cloy
The appetites they feed: but she makes hungry
Where most she satisfies; for vilest things
Become themselves in her …

2.2.276–280

Annars er textatónninn æði margvíslegur í verkinu. Sumt af máli Octaviusar og Anthonys er alveg á mörkum hins skiljanlega. Flókin orðaröð og dularfull fágætisorð rugla lesanda/hlustanda illa í ríminu. Þessum þyrrkingsblæ bregður oft fyrir á þessu mikla blómaskeiði Shakespeares, en er alls ekki einráður. Sem þýðir að torfið er þarna af ásettu ráði höfundar, ekki einhver ósjálfráður grunntónn. Ekki skemmtilegra fyrir það, en auðveldara að bíða það af sér.

Torfið er eitt,  hraðinn sem farið er á yfir sögu er annað sem ruglar, og varð til þess að ég leitaði á náðir Isaacs Asimovs, sem skrifaði stórkostlegan og ákaflega kverúlanskan doðrant sem fact-tékkar leikritin, til að átta mig hreinlega á hvað nákvæmlega gerist í orrustusenunum furðulegu, og ekki síður því sem gerist milli atriða. 

Þess ber að geta að sum fyndin í verkinu eru bara í alvörunni fyndin, nokkuð sem ekki tekst alltaf hjá okkar manni. Hér er Anthony að spæla þriðja hjólið undir Rómarvagninum, Lepidus, sem er búinn að fá sér aðeins of mikið í tærnar og langar að heyra sögur úr hinu dulúðuga austri:

LEPIDUS
What manner o’ thing is your crocodile?

MARK ANTONY
It is shaped, sir, like itself; and it is as broad as it hath breadth: it is just so high as it is, and moves with its own organs: it lives by that which nourisheth it; and the elements once out of it, it transmigrates.

LEPIDUS
What colour is it of?

MARK ANTONY
Of it own colour too.

LEPIDUS
‘Tis a strange serpent.

MARK ANTONY
‘Tis so. And the tears of it are wet.

2.7.43–52

Gott stöff og engin áreynsla. Absúrdistinn Shakespeare á stundum samleið með Shakespeare með næma eyrað fyrir „venjulegum“ samræðum fólks. Oft undir áhrifum áfengis eða elli. Spjall Falstaffs og Justice Shallow í Henry IV part 2 rifjast upp. Þá er gaman.

En Cleopatra drottnar yfir verkinu. Geðsveiflur hennar og ástríða ræður veðri og vindum í atburðarásinni. Eða það er allavega tilfinningin – auðvitað er það plottarinn Octavius sem ræður för í raun. Eitt af því sem gerir verkið erfitt, stendur því mögulega dálítið fyrir þrifum sem leikverki, er að formið er epískt, meginatburðirnir heimssögulegir, en senurnar sjálfar, innihald verksins, er fínlegt, persónulegt og fókuserað á tilfinningar fremur en glóbal pólitíkina sem hreyfir þessi hjörtu. Til dæmis í byrjun: Þar taka sendiboðar Rómar sem færa Anthony fregnir af hinum aðskiljanlegustu krísum drjúgt pláss, en Cleopatra hefur, þrátt fyrir ást sína á honum, engan áhuga, skilning né þolinmæli fyrir svoleiðis. Manipúlatískir leikir eru hennar ær og kýr

Fyrst:

CLEOPATRA
Saw you my lord?

ENOBARBUS
No, lady.

[…]

ALEXAS
My lord approaches.

CLEOPATRA
We will not look upon him: go with us.

1.2.83–92

og skömmu síðar:

CLEOPATRA
Where is he?

CHARMIAN
I did not see him since.

CLEOPATRA
See where he is, who’s with him, what he does:
I did not send you: if you find him sad,
Say I am dancing; if in mirth, report
That I am sudden sick: quick, and return.

1.3.1–6

Þetta smágerða „domestic“ raunsæi er aðaleinkenni og höfuðstyrkur verksins. Cleopatra er að sönnu óþolandi, en óþolandi persónur eru þotueldsneyti fyrir leikskáld og Shakespearevélin vinnur frábærlega úr þessu. Hitt er annað mál hvort rétt er að kalla afstöðu Cleopötru til Anthonys „ást“. Hér er hún t.d. í þeirra fyrstu sameiginlegu senu. Hún er nýbúin (eins og hún gerir greinilega alltaf) að ögra honum með tali um eiginkonuna heima. Anthony er með fréttir af henni:

MARK ANTONY
She’s dead, my queen:
Look here, and at thy sovereign leisure read
The garboils she awaked; at the last, best:
See when and where she died.

CLEOPATRA
O most false love!
Where be the sacred vials thou shouldst fill
With sorrowful water? Now I see, I see,
In Fulvia’s death, how mine received shall be.

1.3.71–78

You can’t win with that one. En þó hún geti verið tík og padda hefur augljóslega verið gaman hjá þeim stundum:

That time,–O times!–
I laugh’d him out of patience; and that night
I laugh’d him into patience; and next morn,
Ere the ninth hour, I drunk him to his bed;
Then put my tires and mantles on him, whilst
I wore his sword Philippan

2.5.22–27

Eins gott að rómversku púrítanarnir heyrðu þetta ekki. En er þetta ást? Einhverjir kysu kannski að vitna til sjálfsmorðanna tveggja, en þar orkar nú aldeilis flest tvímælis – allavega er sjálfsvíg Cleopötru nánast í sjálfsvörn fyrir egóið, sem mun ekki þola að vera sýningargripur í sigurskrúðgöngu Octaviusar. Hitt er hafið yfir vafa að bæði eru þau óviðjafnanleg, sérstaklega hennar, og einstök, ekki síður hans. Þetta að láta hann vandræðast með þetta sjálfsvíg og mistakast það svo á endanum þannig að við náum að sjá hann borinn heim til drottningar. Antiklæmax, en líka dramatísk nauðsyn, við verðum jú að sjá þau kveðjast. Ekki gengur að endurtaka mistökin með Rómeó og Júlíu.

Shakespeare fylgir heimildum sínum smásmyglislega í þessu leikriti, en það er samt vissulega pláss fyrir bæði skáldskaparflugelda og formsprell. Við nefndum tímaþjöppunina róttæku áður. Hér er líka djarfasta dæmið um tvöfalda tímalínu sem ég man eftir. Í 2.5 flytur sendiboði Cleopötru fregnir af giftingu Anthony og Octaviu. Hún tekur fréttunum með jafnaðargeði (djók!). Fimm atriðum síðar, í 3.3,  kallar hún aftur á sendiboðann til að yfirheyra hann um fegurð brúðarinnar. Í Egyptalandi hefur ekkert gerst og enginn tími liðið en á meðan hafa þrívaldarnir samið frið við Pompey, farið á fyllerí með honum og Anthony haldið áleiðis til Aþenu með brúði sinni.

Allur lokakaflinn, pólitískar dauðateygjur Cleópötru, er snilld. Ég get ekki annað en glaðst yfir þessu stórkostlega póstmódern samtali – að ég segi ekki hreinlega hugleikska – þar sem Cleopatra útmálar hvað bíður hennar og hirðarinnar undir „vernd“ Rómverja:

Nay, ’tis most certain, Iras: saucy lictors
Will catch at us, like strumpets; and scald rhymers
Ballad us out o’ tune: the quick comedians
Extemporally will stage us, and present
Our Alexandrian revels; Antony
Shall be brought drunken forth, and I shall see
Some squeaking Cleopatra boy my greatness
I’ the posture of a whore.

5.2.261–268

Og svo er makalaus, senan þegar hún setur á svið „leikritið“ um undanskot eigna sinna til að telja Octaviusi trú um að hún hafi ekki í hyggju að svipta sig lífi. Við aðdáendur skáldsins viljum auðvitað eigna honum þessa glæsilegu fléttu, en „því miður“ er þetta nákvæmlega svona hjá þeim Plútarkosi og North:

[Selecus] to seeme a good servant, came straight to Caesar to disprove Cleopatra, that she had not set in al, but kept many things back on purpose. Cleopatra was in such a rage with him, that she flew upon him, and tooke him by the heare of the head and hove him welfavoredly. Caesar fell a laughing and parted the fray. Alas, said she, O Caesar: is not this a great shame and reproache, that thou having vouchesaved to take the peines to come unto me, and hast done me this honor, poor wretche, and caitife creature. brought into this miserable estate, and that mine own servaunts should coma now to accuse me, though it may be I have reseverd some juells and trifles meete for women, but not for me (poore soule) to set out y selfe withall, but meaning to geve some pretie presents and gifts unto Octavia and Livia, that they making meanes and intercession for me to thee, thou mightiest yet extend thy favor and mercie upon me? Caesar was glad to heare her say so, perswading him selfe thereby that she had yet a desire to save her life … and so he tooke his leave of her, supposing he had decieved her, but in deede he was deceived him selfe.

Pínu pirrandi að þessi sena er strikuð í báðum uppfærslunum sem ég horfði á. Þær reyndust hvorug alveg stórkostlegar, náðu ekki að „selja“ mér leikritið sem meistaraverk. Alveg prýðilegar engu að síður.

Skýrleiki og skotheld textagreining er ein af höfuðdygðum Trevors Nunn sem Shakespearetúlkanda og sjónvarpsgerð uppfærslu hans frá 1974 ber því vitni. Það stendur skilningnum aðeins fyrir þrifum hvað budgetið hefur verið rýrt, sem þýðir ofnotkun á nærmyndum og þröngum römmum þar sem við fáum ekki tilfinningu fyrir dýnamík. Svo afhjúpar skýrleikinn auðvitað líka bláþræðina og kaosið í hinni pólitísku framvindu. Aðalhlutverkin eru ágætlega túlkuð. Janet Suzman er prýðileg Cleopatra, en teflir á tæpasta vað með tæfulætin; eigum við semsagt EKKERT að trúa á tilfinningar drottingar? Frammistaða Richards Johnson í hinu titilhlutverkinu er eftirtektarverðari. Það sést til dæmis í einni af lykilsenum verksins, leiðtogafundinum. Þar er þetta litla samtal:

AGRIPPA
Thou hast a sister by the mother’s side,
Admired Octavia: great Mark Antony
Is now a widower.

OCTAVIUS CAESAR
Say not so, Agrippa:
If Cleopatra heard you, your reproof
Were well deserved of rashness.

ANTONY
I am not married, Caesar: let me hear
Agrippa further speak.

2.2.142–149

Það er augnablikið áður en Anthony talar sem er áhugaverðast. Hvað er þögnin löng og hvað gerist í Anthony í henni, segir okkur ansi mikið um afstöðu hans til Cleopötru, pólitísk klókindi hans, meðvitund um að nú er búið að segja skák og röng viðbrögð gera hann mát.

Richard Johnson neglir þetta augnablik. Skilur hvað er á seyði og sér að hann á enga leið út ef friður á að ríkja. Í myndinni er líka smá tilfinning fyrir því að þetta sé „leikrit“, að Octavius og Agrippa hafi verið búnir að plotta þetta. Þess má líka geta að Corin Redgrave er stórkostlegur Octavius, fláttskapur og pólitísk greind af fyrsta klassa.

Þetta fer algerlega forgörðum í sviðsetningu Iqbal Khan fyrir RSC frá því í fyrra. Anthony Byrne virkar meira og minna eins og hann hafi enga afstöðu til persónunnar sinnar og lætur alveg vera að gefa neitt til kynna um hvað nafni hans er að hugsa þegar hann segir „I am not married“ – hljómar eins og hann sé að svara manntalsspurningu (kannski er þetta langsóttur brandari um frægasta manntal sögunnar. Samt ekki). Sem er auðvitað túlkun líka: þessi Anthony er pólitískt barn og ótrúr elskhugi. Því miður eru fleiri slappar frammistöður í lykilhlutverkum: Ben Allen bara skrítinn sem Octavius og Andrew Woodall pínlega lélegur sem Enobarbus (Patrick Stewart er í þeirri rullu í Nunn-myndinni og neglir hana). Hnökralaus sviðsetning Khans heldur þessu á floti, sem og Josette Simon, sem er ekkert minna en stórkostleg Cleopatra í allri sinni mótsagnakenndu og óþolandi dýrð.

Aðdáendur og efasemdamenn um ágæti Anthony and Cleopatra geta verið sammála um að hér er djarft teflt í vali á frásagnarformi. Rykið dustað af verkfærakistu gömlu króníkuleikjanna og það látið bera fram harmsögu og skoðun á ástríðufullu ástarsambandi tveggja sögulegra risa, sem birtast okkur ýmist sem hokin af reynslu áranna eða sem vanþroskaðir vitleysingar á valdi nautna og neyslu, og falla loks fyrir eigin hendi, máluð út í horn af útsmognum og miskunnarlausum pólitískum meistara. Þetta gengur ekki alfarið upp. Frásagnarrökvísin fær ekki nóg pláss og lykilviðburðir – stríðsógæfan sem tvisvar ræður úrslitum – verða óskýrir og utanveltu. Á sama tíma gefst heldur ekki nægilegt rými til að fá fulla mynd af aðalpersónunum og þeirra prívathörmum. Það sem við þó fáum er einstakt og æðislegt. Það verður að duga, en dugar A+C ekki alveg upp í meistaradeildina frá mínum bæjardyrum séð.

Textinn.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.