BLÁAR ÓSKIR


þú flaust út af baðherberginu
náttkjóllinn hvítur, gegnsær
brjóstin misstór
svartir taumar frá augunum
munnurinn æpandi, rauður
eiginlega skildi ég ekki
hvernig varaliturinn hélst enn á vörunum
þú skipaðir mér að óska mér
augnaráðið tryllingslegt, skakkt bros
ég þorði ekki öðru
en að blása nokkrum bláum óskum
í áttina til þín
vonaði að þú næðir ekki að grípa þær
þú hlóst að mér
kallaðir mig asna fyrir að velja bara bláar óskir
kaldar, merkingarlausar óskir
þú reifst þær í tætlur
fleygðir þeim upp í loftið, hlóst
dansaðir berfætt um stofuna í undarlegum nútímadansi með jazzívafi
ég komst að niðurstöðu:
þú varst að grínast
en ég ákvað að þykjast taka þér alvarlega
hneppti skyrtunni frá
beindi fingrum hægri handar að brjóstholi mínu
ýtti og þrýsti þar til ég fann holdið gefa undan
tróð hendinni inn fyrir
og gramsaði í líffærum mínum þar til ég fann eina rauða
rauða, heita, ástríðufulla ósk
ég lokaði bringunni og hneppti skyrtunni að í rólegheitum
á meðan óskin sveif við hliðina á höfðinu á mér
þú hættir að dansa og stóðst grafkyrr
horfðir á mig
augun spyrjandi, undrandi
tryllingurinn horfin
ég skipaði þér að koma til mín
þú lagðist á hnén og skreiðst eftir trégólfinu
ég reif í hárið á þér og reisti þig við
kannski aðeins of snöggt því stór hárlokkur varð eftir í lófanum
ég sýndi þér óskina
spurði hvort þetta væri það sem þú vildir
þú svaraðir ekki
þagðir og horfðir á óskina
eins og hún væri það merkilegasta síðan klósettpappírinn var fundinn upp
greipst hana svo skyndilega, reifst hana af mér
hljópst í hinn enda herbergisins
settist klofvega á hana
og hossaðir þér
kramdir hana
kreistir úr henni rauða tauma
vonir, rauða drauma
þú hættir ekki fyrr en óskin lá líflaus á gólfinu
draumarnir láku milli tréfjalanna
(nágranninn á neðri hæðinni eflaust ósáttur
því maður vill ekkert fá annarra manna drauma niður úr loftinu
yfir rúmið sitt eða ofan í kaffibollann)
mér þótti þetta fyndið
ekki svo fyndið að ég færi að hlæja
og þó
tilgangsleysi tilverunnar
getur verið alveg bráðfyndið
á sinn hátt

Sólveig Johnsen er kvikmyndafræðingur og meistaranemi í ritlist við Háskóla Íslands. Hún skrifar reglulega kvikmyndagagnrýni fyrir Engar Stjörnur (vefrit Kvikmyndafræðideildar Háskólans) og sendir annað slagið frá sér greinar um málefni hinsegin fólks.