Falstaff velur sér liðsmenn. Cawse, 1818.

Að afhlaupnum hornum

Atburðarás
Þrátt fyrir afgerandi sigur yfir uppreisnarseggjunum við Shrewsbury í lok fyrra leikrits neitar hluti þeirra að leggja niður vopn. Hinrik konungur er tekinn að eldast og gamlast, og hefur þungar áhyggjur af krónprinsinum og hæfni hans. Prinsinn Hal er samt í rólegheitum að búa sig undir framtíðarstarfið og hefur fjarlægst drykkjubræður sína. Falstaff er líka orðinn roskinn og auralaus og fer um sveitir til að smala í herinn, en er alveg til í að leyfa aflögufærum mönnum að borga sig frá þjónustunni. John, bróðir Hals, nær með bellibrögðum að fá uppreisnarmennina til að gefast upp og tekur forsprakkana af lífi. Falstaff heimsækir gamlan félaga, Justice Shallow, slær lán og rifjar upp gamla tíma, en fær síðan fréttir af dauða konungs og drífur sig til London til að heimta fé og frama af fóstursyninum. Hal afneitar honum og skipar honum að bæta ráð sitt.

You’re starting up and I’m winding down;
Ain’t it big enough for us both in this town?
Laudon Wainwright III, A father and a son

Í uppfærslu Gregory Doran á fyrra leikritinu um Hinrik fjórða lætur hann krónprinsinn löðrunga dómstjóra (Lord Chief Justice) nokkurn sem kemur inn á krána, þar sem þeir Falstaff sitja að sumbli, í leit að ránsfeng. Þetta er skrítið augnablik. Ekkert í texta leikritsins styður þessa athöfn, viðbrögð og eftirmál verða engin. Skýringuna er að finna í framhaldsleikritinu. Þar er þessi löðrungur mikið umtalaður, og reyndar fangelsun prinsins fyrir þetta brot gegn valdstjórninni. Fangelsun sem sér engan stað í fyrra leikritinu. Dómstjóri þessi verður einn af rauðum þráðum síðara verksins, og fyrsta embættisverk Hinriks yngri í lok verks, þegar kórónan er flutt á höfuð hans, er að gera dómstjórann að nánasta ráðgjafa sínum, þvert ofan í það sem embættismaðurinn óttaðist. Fyrstu merki þess að Hinrik ætlar að standa við stóru orðin um að vera öðruvísi kóngur en allir héldu, og annarslags en faðir hans.

Tengsl leikritanna tveggja eru forvitnilega óskýr. Ef við horfum á textana sjálfa er annarsvegar eins og það seinna hefjist síðar sama dag og því fyrra lauk. Í fyrsta atriðinu er hinum veika hertoga af Northumberland borin tíðindi af ósigri uppreisnarmanna við Shrewsbury og fall sonar hans, Henry Hotspur. En það er líka eins og langur tími hafi liðinn. Allt er á fallanda fæti, allir hafa elst. Sumir veikst og gamlast, aðrir eru óðum að þroskast.

Það er erfitt að sjá Part II standa einan og sjálfan sem leikrit, en jafnframt er þar að finna merki um að það sé ekki hreint framhald. Nýjar persónur birtast sem rökrétt væri að hefðu líka sést í fyrra verkinu. Aðrar hafa aðra stöðu og jafnvel nokkuð breyttan persónuleika.

Ef horft er út fyrir textana þá er samband verkanna jafnvel enn áhugaverðara. Í The New Cambridge Shakespeare útgáfunni, sem ég las (nýjasta Ardenútgáfa verksins er ekki til á íslenskum bókasöfnum) setur ritstjórinn, Giorgio Melchiori (verulega ótraustvekjandi nafn á Shakespearesérfræðingi), fram kenningu um tilurðina sem er skýr og sannfærandi og ég nenni satt best að segja ekki að grafast fyrir um hvar hún er á rófinu galin–róttæk–viðtekin.

Í stuttu máli: Um 1596 skrifar Shakespeare leikrit um aðdragandann að valdatöku Hinriks V, sem samsvarar atburðarásarlega tvennunni sem við höfum nú. Hann byggir verkið á eldra vinsælu verki eftir óþekktan höfund, The Famous Victories of Henry the Fifth, sem varðveist hefur í mjög ófullkominni gerð, sennilega skrifaðri upp eftir minni leikaranna. Eitt af því sem Shakespeare kemur með nýtt inn í fléttuna er persóna drykkjufélaga og „mentors“ krónprinsins, Sir John Oldcastle, sem Shakespeare gefur nafn raunverulegs og nokkuð þekkts manns. Verkið slær í gegn, en valdamiklir afkomendur hins raunverulega Oldcastle, sem var fylgismaður siðbótarmannsins John Wycliffe og hefur nú stöðu píslarvotts, neyða Shakespeare til að skipta um nafn á persónunni, sem í engu líkist heldur forföður þeirra. Við þá endurskrift ákveður Shakespeare að stækka fyrirferð persónunnar, sem nú fær nafnið Falstaff, og spara slatta af sögulega efninu, eiga það uppi í erminni í framhaldsverk ef vel gengur. Sem verður raunin og þess vegna höfum við núna þessi tvö verk sem standa í örlítið mótsagnarkenndu sambandi hvort við annað, en geta enganvegin án hvors annars verið. Sem á sér ýmsar hliðstæður í efni þeirra. Hin prúða hirð væri illa stödd ef enginn væri illa þefjandi og síðúðrandi almúginn.

Seinna verkið er dálítið tætingslegt. Fléttan – pólitíska framvindan – eiginlega ekki neitt neitt. Allt rennur einhvernvegin út í sandinn i þessu leikriti. Að sumu leyti er það greinilega hugmyndin. Aldrei áður hefur Shakespeare skrifað eins mikið um veikindi, sýkingar og skemmdir. England er sjúkt og rotið. Enda fer allt meira og minna í handaskolun á öllum vígstöðvum. Uppreisnarmenn væflast og velkjast í vafa, einn stingur af, hinir taka slaginn en eru gabbaðir til að leggja niður vopn og afhöfðaðir. Hér sárvantar Hotspur til að skera sig úr í garpskap. Falstaff reynir að nýta sér aðstöðu sína sem hálfgildings stríðshetja, en hefur verið stíað frá prinsinum og er auk þess orðinn vígamóður og dapur. Kóngur veikist og deyr. Óstírlátur prins lætur af ósiðum sínum hægt og rólega.

En stundum er eins og það sé tilgangurinn að hafa þetta laust í reipunum. Eða í það minnsta sé ætlun höfundar önnur en að fleyta fram æsilegri atburðarás. Þá reynist margt safaríkt.

Einkum eru það Falstaff-senurnar. Þær eru enn bitastæðari en í fyrra verki, fyrir utan að vera fyrirferðarmeiri. Hér eru engar stórar fylleríissenur eða ófyndin hrekkabrögð í gangi. Þær ganga út á auraleysi og allar klærnar sem Falstaff hefur úti þess vegna. Einkennast af því hvað skarpt hallar undan fæti hjá þessum gömlu djömmurum. Partítjón og alkalífsskemmdir gefa tóninn. Fyrir vikið eru þær bæði dýpri og fyndnari en Falstaffsenur fyrra verksins.

Og það er hreinlega eins og nútíminn í leikritun hefji innreið sína þegar Shallow og Silence fara yfir málin:

SHALLOW
The same Sir John, the very same. I see him break Skogan’s head at the court-gate, when a’ was a crack not thus high: and the very same day did I fight with one Sampson Stockfish, a fruiterer, behind Gray’s Inn. Jesu, Jesu, the mad days that I have spent! and to see how many of my old acquaintance are dead!

SILENCE
We shall all follow, cousin.

SHADOW
Certain, ’tis certain; very sure, very sure: death, as the Psalmist saith, is certain to all; all shall die. How a good yoke of bullocks at Stamford fair?

SILENCE
By my troth, I was not there.

SHALLOW
Death is certain. Is old Double of your town living yet?

SILENCE
Dead, sir.

SHALLOW
Jesu, Jesu, dead! a’ drew a good bow; and dead! a’ shot a fine shoot: John a Gaunt loved him well, and betted much money on his head. Dead! a’ would have clapped i’ the clout at twelve score; and carried you a forehand shaft a fourteen and fourteen and a half, that it would have done a man’s heart good to see. How a score of ewes now?

SILENCE
Thereafter as they be: a score of good ewes may be worth ten pounds.

SHALLOW
And is old Double dead?

3.2.22–43

Hefði Jökull Jakobsson ekki skrifað þess senu nákvæmlega svona líka? Eða Beckett?

Og svona setningar og árásir á fjórða vegginn hefðu nú þótt í frásögur færandi vel fram á 20. öld. Falstaff er sakaður um þykjast yngri en hann er og svarar að bragði:

My lord, I was born about three of the clock in the afternoon, with a white head and something a round belly. 

1.2.147–148

Leiksýningar hófust að jafnaði um þrjú síðdegis. Svo verður að minnast á atriðið þar sem Falstaff velur menn í herdeild sína og þeir gæfulegustu kaupa sig undan herþjónustu. Þá senu hefur Brecht líklega lært utanað.

Aldur, veikindi og dauði eru gegnumgangandi. Northumberland er veikur (eða þykist vera það), konungurinn liggur banaleguna og Falstaff þjáist af þvagsýrugigt, sér gröfina í hryllingshyllingum en reynir hvað hann getur að ýta þeirri mynd frá sér með áreynslukenndum tilraunum til að komast aftur í stuð:

DOLL TEARSHEET
Thou whoreson little tidy Bartholomew boar-pig, when wilt thou leave fighting o’ days and foining o’ nights, and begin to patch up thine old body for heaven?

FALSTAFF
Peace, good Doll! do not speak like a death’s-head; do not bid me remember mine end.

2.4.187–192

Hamingjusama (eða allavega hjartahlýja) hóran Doll Tearsheet er ein af viðbótarkarakterum seinna verksins. Og ómögulegt annað en að geta þess að Helgi H. þýðir nafnið hennar sem „Gæla Voðrifa“. Menn hafa fengið verðlaun fyrir minna.

Eitt sem fær meira rými og áhugaverðari meðferð í 2 en í 1 er samband konungs og krónprins. Hér er kóngurinn að barma sér yfir hvernig fjölskyldufyrirtækinu mun reiða af:

Most subject is the fattest soil to weeds;
And he, the noble image of my youth,
Is overspread with them: therefore my grief
Stretches itself beyond the hour of death:
The blood weeps from my heart when I do shape
In forms imaginary the unguided days
And rotten times that you shall look upon
When I am sleeping with my ancestors.
For when his headstrong riot hath no curb,
When rage and hot blood are his counsellors,
When means and lavish manners meet together,
O, with what wings shall his affections fly
Towards fronting peril and opposed decay!

4.2.54–66

Hvaða foreldri vandræðaunglings hefur ekki liðið svona?  Nánasti ráðgjafinn hefur ekki miklar áhyggjur, hefur greinilega keypt hráa hina frægu einræðu fyrra verksins þar sem prinsinn útlistar áform sín og tilgang með djamminu:

WARWICK
My gracious lord, you look beyond him quite:
The prince but studies his companions
Like a strange tongue, wherein, to gain the language,
‘Tis needful that the most immodest word
Be look’d upon and learn’d; which once attain’d,
Your highness knows, comes to no further use
But to be known and hated. So, like gross terms,
The prince will in the perfectness of time
Cast off his followers; and their memory
Shall as a pattern or a measure live,
By which his grace must mete the lives of others,
Turning past evils to advantages.

4.2.67–78

Eitt einkenni verksins, eitt af því sem gerir það ósjálfstætt, er hve mikið er talað um það sem gerist í hinu fyrra. Hotspur svífur t.d. mjög yfir vötnum. Ég viðurkenni að það hlakkaði í mér á einum stað. Við munum hvernig kappinn lét hinn andlega þenkjandi (nú dauða) Glendower fara í taugarnar á sér, eiginlega að hætti Dawkins:

GLENDOWER
I can call spirits from the vasty deep.

HOTSPUR
Why, so can I, or so can any man;
But will they come when you do call for them?

1HIV 3.1.52–54

Núna er hans minnst svona, fyrir álíka lausbeislað samband við raunveruleikann og hann sakaði velska galdrakónginn um:

… who lined himself with hope,
Eating the air on promise of supply,
Flattering himself in project of a power
Much smaller than the smallest of his thoughts:
And so, with great imagination
Proper to madmen, led his powers to death
And winking leap’d into destruction.

1.3.27–33

Eitt skrítnasta samræmi leikritanna tveggja er að hér á Hinrik skyndilega þrjá bræður en ekki einn eins og þar. Þessi eini, John af Lancaster, er þeirra fyrirferðarmestur. Bitastæðasta óskrifaða leikritið í atburðarás 2 Henry IV er tvímælalaus hin grimmu svik Johns, eða blekkingarleikur, við uppreisnarmennina, þegar hann segist munu taka öll klögumál þeirra til greina, en lætur síðan höggva þá fyrir landráð um leið og þeir hafa leyst upp her sinn. Samviskukvalirnar og málagjöldin yfir svona hegðun dyggðu alveg í eins og einn harmleik.

Á mælikvarða æsandi atburðarásar er 2 Henry IV ekki mjög gott leikrit. En það situr í manni. Og lokahnykkurinn – Gleði Falstaffs yfir væntanlegum frama og hin skynsamlega en grimma höfnun Hals á honum og gömlu félögunum – einhver átakanlegasti og bitastæðasti bútur í Shakespeare. „I know thee not, old man“ er ofboðsleg lína og tilraunir Falstaffs til að trúa á, og sannfæra áhangendur sína og skuldunauta um, að gamli drykkufélaginn muni þrátt fyrir allt hygla sér, jafnvel enn grátlegri.

BBC-myndin frá 1979 er fín. Anthony Quayle er algerlega frábær Falstaff, og ekki spillir að stundum sér maður Halldóri Laxness bregða fyrir í talandanum. Ég dáist að því hvernig leikhópurinn og leikstjórinn hafa náð að gera flókinn og á köflum mjög obskjúr textaflauminn í kráarsenunum fullkomlega natúralískan, og skýra hann um leið. Brenda Bruce og Frances Cuka sem Mistress Quickly og Doll Tearsheet eru hér fremstar meðal jafningja, og svo er Robert Eddison æðislegur Justice Shallow.

Já og vá hvað John Tordoff náði að setja mikla áreynslulausa vigt í hetjulega og stóíska afstöðu skraddarans Feeble, sem ætlar sko ekki (eða getur ekki) að kaupa sig frá herþjónustu eins og mun vörpulegri félagar hans:

By my troth, I care not; a man can die but once: we owe God a death: I’ll ne’er bear a base mind: an’t be my destiny, so; an’t be not, so: no man is too good to serve’s prince; and let it go which way it will, he that dies this year is quit for the next.

3.2.192–195

David Gwillim er kannski ekki hermannlegasti Prince Hal/Hinrik V sem um getur, og pínu kjánalegt að hann virkar yngstur bræðranna, en aftur á móti er Jon Finch afburðaflottur sem hinn deyjandi kóngur, og fyndið hvernig hann er orðinn álíka mikil dramadrottning og Ríkarður II, „the skipping king“.

Barry Stanton heldur áfram að vera fínn Falstaff í uppfærslu ESC. Minnir ekkert á Laxness, en þeim mun meira á Ármann vin minn Guðmundsson þegar hann fer í trúðshaminn, eða leikur Úlfljót í Undir hamrinum. Sundurgerðarlegur nútímabúningur fer þessu tætingslega leikriti ágætlega, sem og skýr pólitísk afstaða Bogdanovs, sem byrjar ritgerð sína um þessi verk á orðunum „I don’t buy Hal. He is a little shit“. Senan þar sem John prins gabbar uppreisnarmennina til uppgjafar er glæsilega einföld og sterk. Upptakan á Youtube er hinsvegar ansi nálægt því að vera ónýt, hljóðið horfið í skruðninga á köflum. Kveðjustund prinsins og Falstaffs er reyndar alveg bitlaus og sérkennilega illa leikin hér. Og Pennington er of gamall í Hal. Ári yngri þó en Michael Cronin sem leikur föður hans. Og heilum þremur árum yngri en Barry Stanton.

My Own Private Idaho er einhver skrítnasta Shakespeare-innblásna mynd sem ég hef séð. Mjög fín fyrir sinn hatt, og það kom mér á óvart þegar ég horfði loksins á hana um daginn að í henni er alveg slatti af texta og nánast óbreyttum senum úr bæði 1 og 2 af Hinriki fjórða og jafnvel upprifjunin á dauða Falstaffs úr Henry V er þarna að hluta. Ótrúlegt samt að nota þessi miklu „menningarverðmæti“ svona sem einn, og ekki endilega þann veigamesta, þráð í mynd sem virðist að mestu vera um eitthvað allt annað og gæti mikið til staðið óstudd af Shakespeare. William Richert er flottur Falstaff/Bob Pigeon og ég er svag fyrir Keanu Reaves, sem gæti held ég alveg hafa púllað Prince Hal í alvörunni á þessum árum.

Ég gafst upp á Doran/Sher sýningunni frá RSC. Ævintýralega leiðinleg, löturhæg og dauðhreinsuð. Sad.

„Löturhæg og dauðhreinsuð“ virkar ekki sem lýsing á á Chimes at Midnight, hápunktabíómynd Orsons Welles upp úr leikritunum. Ævintýrarlegar sögur fara af vinnubrögðunum og klókindunum sem þurfti til að koma verkinu á filmu, sem krafðist þess m.a. að Welles þóttist vera að taka upp Gulleyju RL Stevenson samhliða. Harðindanna sér svo sem alveg stað, sérstaklega í hljóðrásinni.

Orðið „sjarmatröll“ var væntanlega fundið upp fyrir Welles. Maður trúir alveg á að Jeanne Moreau (Doll Tearsheet) falli fyrir honum. Svo sannarlega á heimavelli í rullunnni, svoleiðis að stundum er eins og hann nenni ekki að leika hana. Furðulegt t.d. að heyra hann tuldra út úr sér „honour“-ræðunni frægu eins og hann sé að hugsa um eitthvað allt annað. Nokkrar kúkú ákvarðanir, eins og að láta persónur verða vitni að eintölum sem þær mega ekki fyrir nokkurn mun heyra. Stórvel leikin heilt yfir og dásamlegt að fá sæmilegan skammt af John Gielgud (Hinrik fjórði), en sorglega lítið hefur varðveist af hans Shakespeareleik á filmu – Olivier var alltaf fyrri til með kameruna. Þar fyrir utan er algerlega óborganlegt að heyra Welles og Keith Baxter (Hal) herma eftir Gielgud í senunni frægu þar sem Hal og Falstaff bregða sér í hlutverk þeirra H-feðga.

Orrustan við Shrewsbury er með flottustu miðaldabardögum sem ég hef séð kvikmyndaða, og ber peningaharðindum verkefnisins ekkert vitni. Fleiri senur eru stórkostlegar, t.d. ránsferðin að Gad’s Hill í glaðasólskini í spænskum skógi (myndin er að mestu tekin í Alicante). Atriðin í konungshöllinni eru sérlega glæsileg í nöktum einfaldleika risavaxinna veggjanna. Innblásin hugmynd að láta Gielgud flytja reiðilesturinn, þegar Hal hefur tekið kórónuna af kodda hans, gangandi um höllina, við sjálfan sig en þó hástöfum, en ekki augliti til auglitis við prinsinn. Raus deyjandi kóngs.

Handritið er snilldarlega unnið, margar brilljant samsteypur og klippingar milli verka. Kannski einhverskonar vísbending um hvernig Ur-Hinrikinn sem Giorgio Melchiori spáir að hafi verið til hefur hljómað. Með Oldcastle í Falstaff-stað.

Og lokafundur Hinriks og Falstaffs – maður minn! Hvílík snilld. Ótrúlegur leikur hjá Welles. Hvernig hann er greinilega fyrst og fremst að sannfæra sjálfan sig af veikum mætti í lokasetningum sínum:

Do not you grieve at this; I shall be sent for in private to him: look you, he must seem thus to the world … his that you heard was but a colour. … I shall be sent for soon at night. 

5.5.74–83

„I shall be sent for“

Beckett aftur.

Stórkostleg mynd. Og safarík verk. Nú bíðum við eftir Ólafi Darra.

 

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast. 

Textinn.