Jón Yngvi Jóhannsson.

Vegan Migas eða brauð handa hungraðri alþýðu á 1. maí

Þessi uppskrift er úr bók sem kemur út í lok vikunnar, hún heitir: Hjálp, barnið mitt er grænmetisæta! Matreiðslubók fyrir ráðvillta foreldra, vanafasta heimiliskokka, fátæka námsmenn og alla aðra sem ættu að borða meira grænmeti.

Þetta er einn af mínum uppáhaldsréttum í bókinni, hér er unnið gegn matarsóun með því að nota gamalt brauð, sótsporið er lítið, enda bulsurnar að megninu til búnar til úr íslensku byggi og svo er þetta fáránlega bragðgóður og mettandi matur.

Í evrópskri matargerð er rík hefð fyrir því að nota brauðafganga í alls konar rétti, bæði heita og kalda. Slík nýtni er til fyrirmyndar og þótt þessir réttir séu velflestir sprottnir úr þörf fátæks fólks til að nýta afganga geta þeir verið sannkallaður veislumatur. Hér á norðurhveli eigum við vissulega einn slíkan rétt sem mörgum af eldri kynslóðinni þykir hreinasta hnossgæti en brauðsúpa er eitt af því fáa sem ég get alls ekki lagt mér til munns og aðrir fjölskyldumeðlimir eru á sama máli.

Þennan spænska rétt sá ég einhvern tíma eldaðan yfir opnum eldi í frumstæðum potti í sjónvarpsþætti Íslandsvinarins Ricks Stein. Sú útgáfa var með spænskri chorizo-pylsu og í mörgum uppskriftum af réttinum er líka notað beikon og jafnvel skinka.

Almennt er ég lítið fyrir kjötlíki af ýmsu tagi, grænmetispylsur finnst heimilismönnum oft fremur ólystugar og grænmetispepperóní eða chorizo er í besta falli skrítið. Á þessu er þó ein heiðarleg undantekning. Íslenskar bulsur, gerðar úr byggi, chiafræjum og ýmsum kryddum, eru glettilega gott hráefni sem nýta má með ýmsum hætti.

Í þessum rétti eru bulsurnar skornar í sneiðar, skáhallt, þannig að sem mest af yfirborði þeirra komist í snertingu við beinan hita. Best finnst mér að nota súrdeigsbrauð, það þarf helst að vera dagsgamalt og má alveg vera eldra. Það borgar sig að nota stóra pönnu, ég nota yfirleitt wokpönnu til að elda þennan rétt. Ólífuolían er líka mikilvæg. Þótt það sé mikið af olíu í réttinum (það er engin önnur fita) þá borgar sig að splæsa í jómfrúarolíu, jafnvel af betra taginu.

750 g dagsgamalt brauð, eða jafnvel eldra
4 bulsur
1 dl ólífuolía
2–3 hvítlauksrif
2 rauðar paprikur
2 msk paprika
1 rautt chili
e.t.v. steinselja eða basilíka

Rífið brauðið í mátulega munnbita. Skerið bulsurnar í sneiðar á ská. Steikið sneiðarnar í tveimur til þremur matskeiðum af ólífuolíu og leggið þær svo á eldhúspappír og geymið. Lækkið hitann undir pönnunni, merjið hvítlaukinn og saxið smátt og skerið paprikuna í strimla. Bætið grænmetinu á pönnuna og látið það krauma þar til það er orðið mjúkt. Bætið þá fíntsöxuðu chilinu út í ásamt paprikuduftinu og að síðustu brauðbitunum. Steikið brauðbitana þar til þeir eru orðnir fallega brúnaðir og búnir að draga í sig alla olíuna. Bragðbætið með góðu salti og raðið bulsusneiðunum ofan á réttinn. Það er bæði fallegt og gott að dreifa saxaðri steinselju eða jafnvel basilíku yfir réttinn áður en hann er borinn fram.