Vantar upp á

Gímaldin gaf út tvær plötur á síðasta ári, fyrst var það metalplatan Blóðlegur Fróðleikur og seinna á árinu gaf hann út að mestu minimalíska elektróníska vefplötu er nefnist Eurovision Ré C Ktúr 2012 – 2016. Seinni platan er til umfjöllunar hér. Á henni eru átta lög, 24 mínútur að lengd og Gísli Magnússon gefur út sjálfur. Vandinn við vefplötur er að manni finnst þetta varla vera alvöru útgáfa. Eins og listamaðurinn hafi ekki haft næga trú á efninu sjálfur til að leggja í þann kostnað að senda frá sér fýsíska vöru til að selja á markaði. Ég skil vel að á þessum síðustu og verstu tímum eru sífellt færri og færri sem eru að kaupa vöruna en samt…

Ég hef í gegnum tíðina verið hrifin af tónlist Gímaldins síðan ég heyrði fyrst í honum með 5tu herdeildinni á Grand Rokk fyrir afar mörgum árum. En það verður að segjast sem er að flest sem ég hef heyrt af sólóferli hans hefur ekki náð mér, fyrir utan Sungið undir radar. Nýja platan á sína góðu punkta en á heildina vantar heilmikið uppá.

Platan hefst á laginu 2 sem tala og er um innihaldsleysi og spillingu í íslenskum stjórnmálum. Vonleysið um betrumbætur skín í gegn allt lagið. Þetta er líklegast skásta lag plötunnar.

Næst er Leyfum þeim að lifa sem satt best að segja meikar lítinn sens fyrir mér. Lagið er í sjálfu sér þokkalegt og hljómar mjög einlægt en ég er ekki að ná textanum og mér það fer mikið í taugarnar á mér þegar hann syngur með endurteknum hljóðum eins og „hugsana na na na“ eða „hi hi hinu“. Þetta eru líka einu lögin á plötunni þar sem Gímaldin hljómar ekkert eins og pabbi sinn. Hann mætti alveg reyna það oftar.

Næstu tvö lög eru svo sem ekkert alslæm lög en eitthvað vantar upp á. Svo eru það lögin Fífa og og Alltaf eins sem passa alls ekki inn á plötuna, það fyrra hljómar eins og það eigi heima í tölvuleik og hitt  er einhvers konar reggae lag og missir alveg marks sem slíkt. Síðustu tvö lögin þykja mér svo bara alls ekki góð lög fyrir utan trallalalla kaflann í því síðasta. Platan, sem og flest annað sem ég hef heyrt af sólóferli Gímaldins þjáist af litleysi í útsetningum auk þess að lagasmíðarnar mættu oft vera um heilt sterkari.

Eurovision …  er ekki afleit plata en það er varla hægt að kalla hana góða heldur. Gímaldin er leitandi listamaður og er það gott og vel. En á hinn bóginn finnst mér nokkuð um liðið síðan hann hefur fundið sig neins staðar og það er verra.