Túristi innan veggja verslunar

Flotað gólfið hefur verið lakkað svo glampar á það. Eins og fólki finnst gaman að minna mig á, er ég ekki hár til lofts og líður óþægilega í háreistu iðnaðarhúsinu með tröllvaxna innkaupakerru í höndunum. Mér finnst ég einfaldlega dvergvaxinn. Sem betur fer eru þeir fæstir sem líta stórir út við stýrið á risavöxnum kerrunum.

Rekkarnir eru virkisveggir. Í hverri hillu eru vörubretti, olíuvörur á fyrsta gangi, verkfæri á þeim næsta. Allt er risavaxið: átta pepsíflöskur plastaðar saman á þrettánhundruð krónur, tuttugu og fjórar kókdósir saman á sextánhundruð krónur, fjörutíu og átta snickers stykki á tvöþúsund og fjögurhundruð krónur. Heitur kjúklingur bíður kaupanda í hitaklefa og pizzur — tilbúnar í ofninn — í kæli merktar: „take and bake”.

Fólksfjöldinn er hafsjór andlita í allskonar útfærslum: eftirvænting, reiði og óþolinmæði. Fólk er svo agndofa á stærð og umfangi verslunarinnar að það gleymist að hylja tilfinningar og fyrirætlanir. Í fyrsta sinn standa allir naktir saman, ferðamenn í algleymingi sem kasta kurteisinni á glæ og láta kapítalismann og viðskiptavitið hlaupa með sig í gönur.

Umræðan, sem fæst okkar hafa farið varhluta af, síðustu mánuði hefur verið — að manni finnst — pólitísk. Afstaða fólks er í flestum tilvikum öfgakennd, það annaðhvort hatar eða elskar verslunina. Áður en ég hafði nokkurn grundvöll til að meta verslunina sjálfur hafði ég þurft að horfa upp á samstarfsmann minn rífast við launagreiðandann um gildi þess að versla þarna og í framhaldi lögmæti þess að frysta ferska matvöru; ef ég horfði ekki upp á þessar dýrindis æfingar í tilgangsleysi og pirringi þá fékk ég að heyra af þeim frá báðum aðilum — þegar þeir náðu mér einum — oft með leiksýningum á skondnum atvikum sem höfðu átt sér stað meðan á umræðunum stóð, allt vitaskuld sagt og gert í þeirri von um að ég tæki undir með afstöðu viðmælandans hverju sinni.

Ívið færri hafa tekið þann pólinn í hæðina að reyna að sjá hvort tveggja, hið góða og hið slæma, sem koma þessarar gríðarstóru, alþjóðlegu og vélrænu raddar bandarískrar gróðahyggju og öfgakennds frjálsræðis í viðskiptalífinu hefur í för með sér. Nóg hefur verið skrifað um síðasta hluta fyrri setningar til að halda hinum allrasvæsnustu gróðablætispervertum uppteknum um ókomin ár. Því losa ég mig — blessunarlega — undan þeirri uggvænlegu kvöð að skrifa um möguleg áhrif eða afdrif einstaka viðskiptaeininga í kjölfar komu þessa risa á íslenskan markað. Hugðarefni hins vinnandi manns, hins dyggðuga verkamanns sem skapar fjölskyldu sinni farborða með átta tíma vinnudegi, skarast í fæstum tilfellum ef nokkurntímann við hin margbreytilegu þunglyndisvaldandi fréttaskot sem berast á annarri hverri stundu úr viðskiptaheiminum.

Aðspurður um álit sitt á Costco, segir bróðir minn: „Þetta er dálítið eins og að vera kominn til Bandaríkjanna. Menn bara missa sig.” Í framhaldi lýsir hann atviki þar sem fullorðinn maður ekur kerru sinni á barn og gengur á brott, framhjá barninu, án þess að skeyta nokkuð um afdrif barnsins eða líðan.

Sú reynsla er þó frá þeim tíma þegar Costco, þetta hof hins frjálsa markaðar og hagvaxtarkláms, var nýtt af nálinni. Þegar kerrurnar voru uppurnar af stæðunum og fólk kepptist við að koma höndum sínum yfir fimmtíu og fimm tommu LED sjónvarpið og BMW-inn sem stóð við útganginn.

Þegar ég kem inn í Costco er mesta bræðin runnin af landanum, stærstu átökin hafa komið og farið af feisbúkkhópum Costco-unnenda ásamt hinni nær fantasísku atburðarás er varðar eltingarleiki við Shell-tankbíla og fanatískan verðsamanburð Costco við aðrar verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Sú sturlun sem yfirtekur nær alla sem hér búa, ræðst á þann hluta heilans sem tekur skynsamlegar ákvarðanir, — og veldur því að sölumet falla hjá hverri einustu alþjóðlegu verslunarkeðju sem opnar sínar dyr hér á landi — hefur lokið sér af þegar dyrnar opnast fyrir mér í fyrsta sinn.

Costco reynslan hefst, í raun, úr fjarska. Þegar vöruhúsið er fyrst borið augum. Verslunin sker sig úr með persónuleika einum saman. Allt frá útliti til umgengni um bílastæðið hrópar: „AMERÍKA,” eins og suðurríkjamaður með þrjár tennur og tíu börn í taumi á göngum Costco. Þegar inn er komið breytist viðmótið lítið sem ekkert, bólugrafnir unglingar á lágmarkslaunum gera sig eins þrekna og þeir geta og krefjast þess að sjá skilríki. Hvað sextán ára unglingur með minnimáttarkennd gerir ef einhver fer í gegn án tilskilinna pappíra veit ég ekki en eflaust kæmi um þann atburð færsla á feisbúkk.

Að vegabréfaeftirliti loknu getur verslunartúrinn hafist fyrir alvöru. Upphafsreiturinn er raftækjadeildin svo verkfæradeild, matvörudeild, þrifnaðarvörur og loks apótek — sé farinn hringvegurinn, sem ég mæli ekki með, best er að sikksakka eins og ölvuð býfluga um gangana án nokkurs kerfis og láta umferð ráða stefnu — fyrir miðju vöruhúsi er fataborð sem lítur út fyrir að koma beina leið úr Kolaportinu. Engir mátunarklefar eru sjáanlegir en fólk lætur það ekki á sig fá, heldur flíkum upp að sér, teygir sig á alla kanta með höfuðið í þeirri stöðu sem kallar fram ófagrar undirhökur og reynir að gera sér í hugarlund hvernig klæðnaðurinn muni fara þeim. Við fatadeildina finnst nammideildin, þótt úrval mæti ekki væntingum  er stærð pakkninga mun nær lagi. Snakkpokarnir eru á stærð við feitan border-collie hund og nammið selt í kílóapakkningum. Ýmislegt, misgáfulegt, tínist til. Stærðarinnar doritos poki sem inniheldur sex minni doritos poka af þremur bragðgerðum; Tveggja kílóa haribo dunkur, barmafullur af súru gúmmíi og nefndur „Tangfastic”, sem undirritaður gerir sér allt of seint grein fyrir að er of mikið af nammi — eftir að hafa komist u.þ.b. hálfa leið gegnum dunkinn er stærsti ótti lífs míns orðinn sá að ég verði uppiskroppa með tennur áður en ég verð búinn með nammið.

Sem túristi innan veggja verslunarinnar er viss óvissa fólgin í ferðalaginu, óreiðukenndu ráfinu um gangana, þá sér í lagi þegar vinur minn — réttmætur viðskiptavinur Costco — reikar of fjarri mér. Hugrenningatengslin sem verða við inngöngu í verslunina eru við barina. Þá á maður von á því á meðan á innkaupum stendur, rétt eins og á djamminu, að einhver — í þessu tilfelli bólugrafin ungmenni sem erfitt er að láta möglunarlaust undan ef þau koma með kröfur — komi og krefjist skilríkja á ný og vísi manni út hafi maður ekki til reiðu mútufé eða löggild skilríki. Eitt skipti mæti ég starfsmanni með hjartað í buxunum og eflaust reiðilegur í fasi þar sem ég stari í augu starfsmannsins og reyni að vekja innra með honum ótta við að yrða á mig.

Að öðru leyti er andrúmsloft verslunarinnar afslappað. Eftir að hafa hrúgað einhverjum helling í körfuna, níutíu prósent tanneyðandi sykurleðju og viðbjóði, göntumst við með þau menningarlegu áhrif sem verslunin hefur haft á kaupóðan landann. Ég hef hrist af mér vænissýkina um að mér verði vísað út og komist stórslysalaust í gegnum svo stóran hluta ganganna að óttinn um að dauði minn komi aðsvífandi, í formi innkaupakerru með taumlaust kaupæði við stýrið, er að mestu horfinn. Hluta þess að óttinn sé minni má þó rekja til þess að ég er staddur í frystivörudeild verslunarinnar — líklegu uppáhaldi ömmu minnar sem er einn dyggasti aðdáandi frystikistunnar hér á landi — þar sem einstaka hræður skjótast ganginn á enda, grípandi einn ís eða frosin varning með hraði. Sjálfur fer ég mér hægt, rek augun í cornetto, minnist sprenghlægilegs augnabliks úr þáttunum „The Inbetweeners” og tek þrjá kassa af ísnum. Kassarnir eru plastaðir saman svo ekki er í boði að taka minna en þrjá, það gera þrjátíu og sex ísar í brauðformi á u.þ.b. 2.500 kr. sem telst í hærra lagi samanborið við aðrar ístegundir til sölu.

Vinur minn segir mér sögu af því þegar hann keypti jólagjöf handa systur sinni í Costco. Það var í byrjun september. Aðspurður um skilastefnu fyrirtækisins svarar þeldökkur, erlendur starfsmaðurinn: „Come on, man, this ain’t the Króna down the street. If she don’t like it, she’ll return it.” Þessi stefna er ekki normið í íslensku verslunarumhverfi. Þó verslanir taki við skilavörum þá er það sjaldnast gert án málþófs og almennra malaríueinkenna hjá starfsmönnum, að þeirri málamiðlun fenginni er síðan allt annað mál að fá samþykki verslunarinnar fyrir því að fá endurgreitt í peningum. Oftast, ef ekki alltaf, er innleggsnótu prangað upp á viðskiptavininn og honum bent á að skoða varninginn eða hypja sig — vitaskuld orðar engin verslun þetta svona en í grófum dráttum er aðferðafræðin á þennan veg.

Á jafn einsleitu landi og Íslandi er afar gleðilegt að koma í Costco, þar sem starfsmennirnir eru margir hverjir þeldökkir kanar, þjónustulundaðir og afar brosmildir. Á kassanum mæta okkur tveir starfsmenn, hvorugt pastelhvítt eða fýldulegt eins og starfsfólk í verslunum er gjarnan. Annar skannar vörurnar inn og hinn raðar þeim aftur ofan í innkaupakerruna. Þegar kemur að ísnum spyr afgreiðslukonan vin minn hvort hann geri sér grein fyrir að hann þurfi að greiða fyrir hvern kassa fyrir sig, hann gengst við því og borgar. Á meðan litast ég um hinum megin við kassann þar sem við blasir kaffitería, dekkjasala og spánýr Hyundai Santa Fe. Ég staldra stutt við en miðað við verðlagningu kaffiteríunnar er hún líkleg til að verða vinsæll áningarstaður meðal gesta Costco í innkaupaferðum. Dekkjasöluna skoða ég ekkert enda rekinn beint í flasið á starfsmanni sem heimtar að skoða kvittunina, lítur yfir hana og ber saman við körfuna og kvittar svo á hana sinnuleysislega. Það sem sést af dekkjasölunni, án þess að fara þar nærri, eru mannhæðarháir staflar af dekkjum í tugatali og svuntuklætt starfsfólk á ráfi innan um.  

Ég geng út með fulla körfu, tólf þúsund krónum fátækari. Karfan inniheldur ekkert nema ruslfæði að frátaldri einni pakkningu af kjöti og kassa af núðlum (sem teljast þó, eðli síns vegna, ekki til hollustuvöru). Skottið á bílnum er troðfyllt, ég brosi og grínast með veisluhöldin heima fyrir þegar ég mæti með fenginn.

Sitjandi undir stýri, áður en ég sný lyklinum, upplifi ég spennufall. Það er sem gangan um verslunina sé dáleiðandi ferli, draumi líkast, eftir því sem líður á gönguna eykst kaupviljinn og sjálfsstjórnin þverrar. Ég keyri út af planinu og inn á öfuga akrein, svefndrukkinn og einbeitingarlaus eftir gífurlegt áreiti mannmergðar, vöruframboðs og árangurslausra tilrauna til að halda uppi vörnum gegn markaðsgöldrum verslunarinnar.

Viðskiptavinir Costco eru varnarlausir gegn víðfeðmi verslunarinnar og verslunin nýtir sér varnarleysið. Í mínu tilfelli — með væntingar byggðar á orðræðunni — ætlaðist ég til að spara mér fáeina aura með innkaupum þar, en kom út hafandi selt sálu mína í skiptum fyrir óguðlegt magn af sykri. Tuttugu ára reynsla í að ráðskast með neytendur á bandarískum markaði myndar valdaójafnvægi milli neytenda og verslunarinnar. Því hugsa ég að viss ómöguleiki sé að eyða yfir tveimur tímum inni í Costco og ganga tómhentur út. Þá er vitaskuld nauðsynlegt að ganga inn með því hugarfari að ætla sér eingöngu að versla nauðsynjar og jafnvel bara þær nauðsynjar sem borgar sig að kaupa í Costco.

Þeir sem lifa og hrærast í viðskiptum — í það minnsta þeir fáu sem ég þekki og ræddi um Costco við — hafa djúpstætt hatur á versluninni. Fæstir geta komið því í orð, svo ég muni til úr samræðunum, hvað það er við Costco sem þeir hata en mig grunar að það sé sjötta skilningarvitið að vara við óstöðugleika og óvissu, sem Costco stendur vissulega fyrir í hugum íslenskra viðskiptamanna.

Costco er markaðslegur tvífari Dionaea muscipula, þ.e. fallegt og sakleysislegt yfirborð húsnæðisins og freistandi verðlag lokkar viðskiptavinina inn, rétt eins og plantan lokkar flugurnar inn með ljúfum ilmi, þegar inn er komið er flugan étin lifandi og viðskiptavinurinn er rúinn inn að skinni. Stórar pakkningar af rakvélarblöðum, gleraugu, lyf, dekk, bílar, fatnaður og afsláttarpakkningar af kjöti sem fer yfir á tíma eftir þrjá daga. Hægt er að versla í Costco og fá út úr því betri lífsgæði, ögn meira á milli handanna í samræmi við þann sparnað sem fæst í verslunarleiðangri hjá Costco; þörf er þó á að sýna aðgát, láta ekki glepjast af stórum pakkningum og fara sér hægt — mín reynsla var sú að um leið og ég byrjaði að tína ofan í körfuna hvarf sjálfsstjórnin í litlum skömmtum með hverri pakkningu sem tíndist til.

Hvort að ætlunin sé að selja vissa upplifun veit ég ekki, en þeir gera það nú samt. Að leggja í stæðin er létt og áhyggjulaust verk, strollið um gangana — fyrir hvern þann sem ekki upplifir sig utanveltu og jafnvel þjáist af léttvægu ofsóknaræði — er ánægjulegt og bandarískur andinn sem virðist fylla eitthvert óútskýranlegt tóm innra með hverjum þeim sem ratar inn í Costco: umbúðalaus þörfin til að selja þér hamingjuna og telja þér trú um að hana finnirðu einkaréttarvarða í hillum Costco; er eflaust þaulhugsuð stemning. Tómið sem ekki var hægt að fylla nægilega vel með Síríus rjómasúkkulaði og jólaöli er sem sérhannað fyrir eitt Twinkie og diet Dr. Pepper. Sárið sem aldrei greri eftir brottflutning hersins; jafnvel eftir að blokkirnar þeirra voru teknar í notkun og orrustuþotan þeirra gerð að nýnemasegli fyrir flugskóla Keilis á hersvæðinu, þurfti endurkomu Bandaríkjanna á raunverulegan máta að gæta svo hægt væri að jarðsyngja herinn. Því án kanans getum við ekki verið — að því er virðist. Þess vegna munum við kaupa mun stærri pakkningar en við þurfum, borga tannlæknum okkar meira og þvera landið endilangt til að hylla stjörnurnar fimmtíu og tvær. Allt í von um að heyra eintóna rödd unglings segja: „Welcome to Costco, I love you.”