Sunna svikaskáld

 

Svik II

Við gerum ekki mistök

við svíkjum

ættmæður okkar bylta sér í moldinni
undir rótum furunnar

hún skelfur í austanvindi
nötrar af sorg
og vanmáttugri reiði

og við svíkjum villum
á okkur heimildir gleymum
að skafa moldina undan nöglunum

við vöxum eins og
furan
erum jafnt ysta lagið sem innsta
lágvaxin formóðir

við svíkjum ættmæður okkar
fortíð og framtíð
en við gerum aldrei

mistök

Fullkomnun

Ég drekk formalín
á hverjum degi
á eftir engiferskotinu
og fjórföldum dagskammti af d-vítamíni
til að sporna við skammdeginu

fataskápurinn er fullur af líkklæðum
sérsaumuðum á Balí
úr lífrænt vottaðri bómull og hör
ofnu úr dökku hári

farðinn smýgur inn í vel nærða húðina
síðast smyr ég þykku lagi af hunangi yfir andlitið

þegar maðurinn minn kemur heim
er ég lögst til hvíldar
á blómum stráðan beð

líf okkar er fullkomið