Óskabörn

1. Í höll Þyrnirósar

Nú heimta ég orðið
ég sem ánauðug þjónaði höfðingjaslekti
og fékk ævintýrið gegn mér
að launum.

Fárra kosta átti ég völ
mátti stýfa úr hnefa
meðan drottningin taldi gulldiska sína.

Ég stóð að jafnaði við spunann
en starfi minn var hvergi lofaður
ætíð skyldi vegsamað
iðjuleysi kóngsdótturinnar.

En svo mættumst við yfir snældunni
fulltrúi vinnandi lýðs
og óskabarn hrörnandi ríkis …

Hlustið á mig
látið kóngsdótturina sofa
látið hana um eilífð sofa
og vorkennið henni ekki.

Freisti þess prinsinn að vekja hana
taki þá smiðirnir hann í læri.
Sveinsstykkið verði rammgerð kista.

Látið kóngsdótturina sofa
en komið sjálf úr afkimunum og vakið.

2. Bak við fjöllin sjö

Í okkar húsi skorti ekki traust;
nú uppskerum við efann.
Hún sem naut stuðnings
er sest að veislu og völdum.

Fyrrum heyrðist deilt
á miskunnarleysið í höllinni.
Er við komum þreyttir heim úr námunum
fengum við jafnan nýjustu tíðindi
af klækjum drottningar mót falsleysinu.

Við héldumst í stöðugri spennu
grétum
þegar uppáhaldinu var meinað að tala.

En fegurð okkar komst aldrei á dagskrá
hins vegar var dylgjað með gáfnafarið
og sannarlega höfðum við einfaldan kost.

Við gröfum áfram málma úr jörð
þótt ævintýrið þegi um hver hagnist.
Og miskunnarleysið ríkir í höllinni.

Hún sem naut áður stuðnings
er sest að veislu og völdum
og þú veiðimaður
verður aftur sendur út í skóg.

En varastu töfrana
sú næsta verður líka alþýðleg.
Búðu hennar síðustu för
og snúðu til hallar með rýtinginn hvesstan.

Látum endinn vera óbreyttu fólki í vil
látum upphafsorðin rætast:
Einu sinni var …