Þýðing: Magnús Þór Snæbjörnsson

Maður nokkur gengur hjá með brauðhleif á öxlinni

Maður gengur hjá með brauðhleif á öxlinni.
Ætla ég að skrifa, að því loknu, um tvífara minn?

Annar sest, klórar sér, tínir lús úr handarkrikanum, drepur hana.
Stoðar þá eitthvað að tala um sálgreiningu?

Annar hefur potað priki inní brjóstið á mér.
Á ég svo svo að ræða Sókrates við lækninn?

Haltur maður gengur hjá og heldur í höndina á barni.
Fer ég, eftir það, að lesa André Bretón?

Annar skelfur af kulda, hóstar, spýtir blóði.
Verður einhverntíma hægt að tala aftur um hið djúpa sjálf?

Annar leitar í drullunni að beinum, matarleifum.
Hvernig á að skrifa, að því yfirstöðnu, um hið óendanlega?

Múrari dettur niður af þaki, deyr og borðar því ekki hádegismat framar.
Finna þá upp á nýju stílbragði, samlíkingu?

Verslunarmaður stelur grammi af vigtinni hjá viðskiptavini.
Tala svo um fjórðu víddina?

Bankastjóri falsar bókhaldið.
Með hvaða andliti á maður svo að gráta í leikhúsinu?

Útigangsmaður sefur með annan fótinn á bakinu.
Að tala, að því loknu, ekki við neinn um Picasso?

Einhver fer í jarðarför grátandi.
Hvernig verður maður eftir það félagi í Akademíunni?

Einhver þrífur riffill í eldhúsinu sínu.
Stoðar þá eitthvað að tala um handanlífið?

Einhver gengur hjá teljandi á sér fingurna.
Hvernig er hægt að tala um ekki-égið án þess að öskra?