Mál og menning gefur út
Viðvörun: Hér er að finna spilla um þemu og söguþráðinn í heild en ekki um atburðarrás bókarinnar beint.
Það er orðið þekkt stef í fantasíum að nota nasista til illra verka. Oft er það til að gera grín að hernaði eða í það minnsta gera mann ónæmann fyrir ofbeldi, eins og í Inglourius Basterds eða Iron Sky. Þar er sagan einnig endurrituð að einhverju leyti. Hin notkun á nasistagrýlunni er helst til að gefa til kynna hvert við gætum verið að stefna, eins og í Agents of S.H.I.E.L.D, þar sem sagan er notuð til að tala við samtímann og nasistar standa sem statistar fyrir öfgamenn nútímans. Þriðja leiðin er að nota nasista til að skoða hið illa í mannskepnunni, eins og í Illsku eða Schindler´s List. Sagan er þá notuð til skilnings, ekki endurrituð, ekki sem gagnrýni á ástand, heldur til að gera eitthvað upp. Örninn og fálkinn gerir ekki grín að hernaði, dásamar ekki ofbeldi og gerir ekkert upp per se, en sagan er svo sannarlega endurrituð með fullt af vísunum í samtímann. Nasistar eru notaðir til að skilja þjóðina, hlutverk hennar og hlutskipti. Það kom mér í hug þegar ég las hana að kannski væri hér kominn leiðarvísir að uppreisninni sem mun verða þörf á að lokum. En ég er komin fram úr mér.
Við upphaf lesturs var mér skemmt yfir endursögn Vals á viðburðum fortíðar. Mér fannst koseptið skemmtilegt og myndin sem er dregin upp af Reykjavík eftir fyrra stríð áhugaverð, næstum kvikmyndaleg. Ég hugsaði oft hve nálægt sannleikanum sagan væri en sú hugsun skilaði sér þó aldrei í því að opna sögubækur til að sjá hver raunveruleg atburðarrásin var, þó löngunin væri til staðar. Upplifunin var léttvæg, svo að segja. En svo dýpkaði heimurinn og skilningur lesandans með á hvað var verið að fara með bókinni. Hér var ekki bara verið að skrifa fantasíu. Hér var saga full af kjöti, blóði og hugsjónum. Hugmyndin er einföld, hvað ef nasistar hefðu hertekið Ísland í stað Bandamanna? Hið augljósa er að varpa ljósi á hernaðarlegt mikilvægi lítils lands í norðri, og það er vissulega gert, en það sem liggur meðfram finnst mér mun mikilvægara. Sagan af því hvernig einhver fer frá því að leyfa hlutunum að gerast yfir í að berjast gegn því sem kúgar hann. Sagan af því hvernig við venjumst yfirgangi og óréttlæti og ofbeldi þangað til að við getum ekki meir, hvernig viljinn er brotinn á bak aftur. Sagan af því hvað litlar þúfur geta steypt þungu hlassi. Sagan af því hvernig sagan er alltaf í mótun, og það af fólki, eins og þér og mér.
Sagan er sögð af svo mikilli nákvæmni, enda er stíllinn í formi endurminninga, að um miðja bók þarf lesandinn að minna sig á að hér er ekki verið að lýsa raunverulegum atburðum úr Íslandssögunni. Persónur eru teiknaðar í grófum dráttum, sem lesandinn getur fyllt upp í með eigin hugarflugi. Helst er að bókinni að finna að aðalpersónan er næstum bragðlaus, svo einföld er hún. En það er þó nóg bragð af henni að við treystum að frásögnin sé þess virði að lesa áfram. Það sem skiptir mestu máli er atburðarrásin. Og hvílík atburðarrás! Valur gerir vel að gefa brot af sögunni til að byrja með, með því að blanda saman tveimur tímalínum, báðum frá sjónarhorni sömu persónunnar. Þetta gerir það að verkum að lesandinn er teymdur áfram, sífellt spyrjandi sig hvernig viðkomandi komst í þær aðstæður sem lýst er í þeirri tímalínu sem gerist seinna. Fullt af svokölluðum páskaeggjum er að finna um alla bókina, litlum tilvísunum í hina raunverulegu mannkynssögu (ef slíkt er þá til) sem fá lesandann til að brosa kankvíst í barm sér og finnast maður vera snjall og vel lesinn. Reykjavík birtist lesandanum sprelllifandi og tími stríðsáranna virðist manni að mörgu leyti svo líkur nútímanum hvað varðar ástand heimsins að stundum fær maður hroll.
Ég fyrirgef Val næstum Hollývúdd nálgun í síðasta hlutanum, mér finnst hann hafa unnið sér inn þær sprengingar sem þar verða bæði á sögu og stíl, þar sem ég sat enn límd við og annar hlutinn var enn ferskur í minninu, en lýsingar hans á lífinu á Kleppjárnsreykjum finnst mér sterkastar, þegar alvarleiki málsins er orðinn öllum ljós. Notkun hans á þjóðþekktum mönnum og sögum gefa frásögninni þann þunga sem fyrsti hlutann vanhagaði eilítið um. Bókin öll er sterk, skemmtileg, vel unnin og mikilvæg núinu, ekki útaf meðferð sinni á heimssögunni þannig séð, heldur þess sem hún segir um framgang yfirgangs yfir þá sem sofna á verðinum. Viva la revolution.