Okurlánararnir eftir Marinus van Reymerswaele. Mynd: Wikicommons.

Lánað mér

Smásaga

1. Winona Ryder

„Manstu hvar þú varst nænelleven? Ég man ég kom heim úr skólanum og mamma sat fyrir framan sjónvarpið og gapti, tvíburaturnarnir við það að hrynja, og ég varð ekki hræddur eða neitt, fannst þetta eiginlega bara magnað, eins og ég væri að verða vitni að einhverju heimssögulegu og það í beinni útsendingu. Eða ég man það þannig, ég var náttúrulega bara ellefu ára. Allavega, þremur mánuðum seinna var Winona Ryder handtekin fyrir búðarþjófnað, stal drasli fyrir alveg þrjár og hálfa milljón (finnst þér það ekki skrítið, moldrík leikkona að hnupla?) og kaninn varð alveg brjálaður, hvernig geturðu hnuplað á tímum sem þessum?, en ég tengi alveg svolítið við hana. Ég var nefnilega stelsjúkur unglingur, stal öllu steini léttara: nammi og stórum dósum af appelsíni, dvd, bókum af bókasafninu, stundum bara einhverju drasli: pennum, kveikjurum (ég reykti ekki einu sinni), jafnvel hnífapörum. Það var eitthvað við það, rushið sem maður fékk við það að taka eitthvað ófrjálsri hendi, auk þess sem ég hef alltaf verið hrifinn af ókeypis dóti. Arðbærasti vettvangur þessarar sýki minnar var skemmtistaður sem ég stundaði mikið á þessum tíma. Ef maður kom sér fyrir á enda barsins og beið þangað til barþjónninn leit annað gat maður gripið flösku tiltölulega auðveldlega, troðið henni inná sig og komið sér út. Sem ég náttúrulega gerði og það margoft, heima hjá mér átti ég flöskusafn sem dugði mér í ár (ef ekki lengur). Nema hvað, í eitt skiptið, þegar ég var að læðast út með flösku af Southern Comfort, var ég böstaður af dyraverði. Hann kallaði á annan eiganda staðarins, óhugnanlegan mann, risavaxið vöðvabúnt, þakinn tattúum og slæmri áru (eða maður er kannski ekki „þakinn áru“ en þú veist hvað ég meina). Eigandinn greip í mig og nánast hvíslaði: mér er skapi næst að taka þig hérna á bakvið og berja úr þér líftóruna. Oft hef ég verið nálægt því að skíta í mig en þarna var ég nær því en nokkurntímann á lífsleiðinni. Hann gerði það þó ekki, tók bara af mér símann og sagði að ef ég vildi fá hann aftur þyrfti ég að borga 20.000 kall. Ég sagðist ekki vera með slíka fjármuni á mér, en lofaði því að koma daginn eftir og borga. Sem ég gerði, ég er ekki meiri maður en það að borga þegar menn sem líta út eins og handrukkarar segja mér að borga. Ég þurfti reyndar að fá lánað hjá kærustunni minni (eða fyrrverandi, við erum ekki saman í dag), ég var ekki í vinnu á þessum tíma og félítill (sem var kannski ástæðan fyrir stelsýkinni til að byrja með). Allavega, ég hef ekki stolið síðan þá, en ég var að spá, geturðu nokkuð lánað mér smá pening?“

2. Pulsur

„Hvort segirðu pulsur eða pylsur? Djók, ekki svara. Ef það er eitthvað sem mér leiðist þá er að umræðan um u gegn upsilon. Sérstaklega þegar upsiloningar setja nefið uppí loftið og leiðrétta mann, maður segir pylsur, eins og það skipti einhverju máli, eins og að við séum ekki öll dauðleg og að tíminn hér á jörðu sé ekki naumur. Og ég er sko frá Hvolsvelli, mekka pulsunnar, þar eru þær sko framleiddar: Lyktin af pulsum færir mig á æskuslóðir, eins og einhverja verkamannaútgáfu af Proust, svo að hver ert þú að segja mér hvort það sé u eða upsilon? Hey, var ég búinn að segja þér þegar ég var á þjóðhátíð einu sinni að kaupa mér pulsur með vini mínum? Vinur minn ætlaði að splæsa og á meðan ég beið komu tveir menn (óhugnanlegir, þaktir tattúum og slæmri áru (eða maður er kannski ekki „þakinn áru“ en þú veist hvað ég meina)) og gerðu sig líklega til vera með eitthvað vesen, stóðu svona yfir mér og störðu á mig ansi illgjörnum augum, án þess að ég hafi gert nokkurn skapaðan hlut notabene. Vinur minn kom aftur með pulsurnar og ætlaði að skerast í leikinn, ég hafði ekki hugrekki í að gera annað en að standa kyrr og vonast til þess að þeir færu, og sleit fyrir einhverja undarlega slysni hálsmenið á öðrum þeirra (svona kaþólskt perluhálsmen með krossi). Hann trylltist og kýldi vin minn. Ég brást við með því að henda pulsunni minni í gæann (extra sinnep takk og bless). Þá fór allt í bál og brand og þeir gjörsamlega gengu frá okkur. Á einhverjum tímapunkti sat sá stærri ofan á vini mínum og lét höggin dynja. Þá var tími til kominn að sýna hvað í mér bjó. Ég kreppti hnefann, hljóp að honum (eða kannski ekki hljóp, ég man þetta ekki nákvæmlega) og kýldi náungann í andlitið. Eða kýldi, það mætti segja að ég hafi snert á honum kinnina með hnúanum á mér, svo aumingjalegt var það, og gaurinn hætti að lemja vin minn og horfði á mig eins og ég væri það allra aumkunarverðasta í Vestmannaeyjum (sem ég var). Hann kýldi vin minn einu sinni í viðbót, stóð svo upp og lamdi mig í klessu. Sparkaði í mig liggjandi, alls ekki að spara kraftinn. Ég veit ekki alveg hvað skeði næst (þetta gerðist svo hratt allt saman), ég lá þarna aðra stundina í hnipri á meðan nike-skórnir skullu á mér í gríð og erg, lofandi sjálfum mér því að fara aldrei á þjóðhátíð aftur, hina var ég á spítalanum með vini mínum sem hafði axlarbrotnað í látunum. Allavega, þegar við vorum loksins komnir heim frá þessum ósköpum hringir gæinn (hvernig hann varð sér út um símanúmerin okkar er ráðgáta) og rukkar okkur um 100.000 krónur, ef við myndum ekki borga kæmi hann ásamt einvala liði handrukkara og lemdi okkur aftur og fjölskyldur okkar í kaupbæti. Sem við gerðum, við vorum ekki meiri menn en það að borga þegar menn sem eru handrukkarar segja okkur að borga. Ég þurfti reyndar að fá lánaðan pening hjá vini mínum, ég var félítill á þeim tíma (þjóðhátíð er dýrt sport). Allavega, ég hef ekki farið á þjóðhátíð síðan þá, en ég var að spá, geturðu nokkuð lánað mér smá pening?“

3. Job

„Hey, hefurðu samt lesið Jobsbók? Þegar ég er leiður finnst mér gott að grípa til hennar, þá finn ég gleði mína á ný vegna þess að guð er ekki til í alvörunni. Þvílíkt skítamúv hjá honum að láta hörmungarnar dynja svona á aumingjans Job, bara til þess að monta sig fyrir framan Lúsifer, ég meina hver gerir svona? Sjálfur hefði ég kastað öllu lauslegu til himna í sporum Jobs, ef ég hefði frétt af ástæðu ólukku minnar, að Guð væri í raun að grobba sig af trygglyndi mínu. Ég er ekki betri en það. Ég hefði samstundis gengist Lúsifer á hönd, og kastað öllu lauslegu: grjóti, flöskum, allri hnífaparaskúffunni, pennum, kveikjurum, glösum, diskum og skálum. Ekki í eiginlegri von um að hitta Guð í hnakkann, ekki til þess að skaða sjálft almættið, svo einfaldur er ég ekki. Nei, ég myndi kasta öllu lauslegu til himins í mótmælaskyni. Það væri yfirlýsing: Að svona háttsemi væri ekki boðleg drottni lífs og dauða. Að svona færi maður ekki með heiðarlegt fólk í veröldinni. Talandi um yfirlýsingar, þegar ég var ungur maður, eða drengur öllu heldur, kýldi vinur minn mig í punginn og hljóp á brott hlæjandi. Vænt punghögg getur nægt til að snúa manni af braut hins góða og rétta (eins og þú kannski veist), og ég brást við með því að grípa næstu steinvölu og kasta í átt til hans. Ekki í eiginlegri von um að hitta hann í hnakkann, ekki til að skaða vin minn, nei, það var yfirlýsing: að svona háttsemi væri ekki boðleg vinum, að svona færi maður ekki með heiðarlegt fólk í veröldinni. Ég mölvaði hinsvegar afturrúðuna á bíl eldri bróður míns í þúsund mola, fyrir slysni auðvitað, og hann var ekki par sáttur. Hann var sjáðu til ekki með afturrúðutryggingu, og ég þyrfti að gjöra svo vel að borga fyrir þessa yfirlýsingu mína. Pabbi var afar hneykslaður á háttsemi minni, maður kastar ekki steinum útí loftið sísona sagði hann og gerði sér ekki far um að skilja tilgang kastsins, yfirlýsing mín flaug yfir höfuð hans líkt og steinvalan yfir höfuð vinar míns. En hann borgaði þetta samt fyrir mig (ég var ekki í vinnu á þessum  tíma og félítill, enda þrettán ára) og ég var laus allra mála. En hvernig er það samt, geturðu nokkuð lánað mér smá pening?“