Það hlýtur að teljast undarlegt hversu þögul listin hefur verið um þær gríðarlegu miklu og neikvæðu breytingar sem nýfrjálshyggjan hefur haft í för með sér síðustu áratugi. Að einhverju leyti er þetta skiljanlegt. Hugmyndafræðin er vissulega lúmskt fyrirbæri, skilvirkt verkfæri til að girða fyrir gagnrýni og útiloka önnur sjónarhorn. Breytingarnar hafa líka gerst hægt, yfir nokkra áratugi, og ef fjármálakrísan 2008 er undanskilin hefur ekki verið neinn einn atburður eða hneyksli sem fékk fólk til að draga línu í sandinn og segja hingað og ekki lengra.
Viðbrögðin við fjármálakrísunni í kvikmyndum voru hins vegar þó nokkur og athyglisverð að mörgu leyti. Fyrir utan ýmsar heimildarmyndir eins og Inside Job (Charles Ferguson, 2010) þá voru gerðar þónokkrar tilraunir til að varpa ljósi á rót vandans, hvað fór úrskeiðis og reiða fram gagnrýni eins og Margin Call (J.C. Chandor, 2011) og Wall Street: Money Never Sleeps (Oliver Stone, 2010). Þessar tilraunir heppnuðust þó misvel. Það er hins vegar athyglisvert að svo virðist sem vinsælustu myndirnar sem þessi kvikmyndagrein – ef svo má kalla hana – hefur gefið af sér eru fyrst og fremst kómedíur sem gefa sig út fyrir að vera gagnrýni á klikkun og græðgi fjármálageirans, en sýna hann samt einhverra hluta vegna líka í mjög gamansömu ljósi, jafnvel jákvæðu – og sinna afleiðingum krísunnar á líf venjulegs fólks lítið sem ekkert. Hér á ég við myndir eins og The Wolf of Wall Street (Martin Scorcese, 2013) og The Big Short (Adam McKay, 2015).
Í nýjustu mynd sinni, I, Daniel Blake, sýnir Ken Loach loks þessa hlið málsins á hrikalega brútal og miskunnarlausan hátt, en fyrir myndina fékk hann gullpálmann í Cannes á síðasta ári (í annað skiptið). Loach er auðvitað vel að þessu verkefni kominn, en af mörgum frábærum myndum hans mætti til dæmis nefna eina allra bestu kvikmynd sem hin fræga hefð bresks sósíalrealisma státar af, Kes frá 1969, ásamt nýlegri heimildarmynd, The Spirit of 45′, sem fjallar einmitt um hvernig hörmungar Seinni heimsstyrjaldarinnar leiddu til nýrrar sýn á betra og réttlátara samfélag með öflugu velferðarkerfi, ókeypis heilbrigðiskerfi fyrir alla, þjóðnýttum almenningssamgöngum og þjónustu, o.s.frv. – samfélag sem nýfrjálshyggjan hefur ráðist á með miklum krafti.
I, Daniel Blake fjallar um titilpersónuna, smið sem býr í Newcastle og hefur misst konu sína eftir langvarandi veikindi. Í byrjun myndarinnar er hann nýbúinn að fá hjartaáfall og er því óvinnufær. Af þeim sökum neyðist hann til að sækja um bætur, sem leiðir til ferðalags í gegnum bjúrókrasíu velferðarkerfisins í Englandi samtímans. Eftir að hafa spurt hann ótal óskiljanlegra spurninga sem hafa ekkert að gera með hvað í rauninni amar að honum og komist að því að hann getur gert hluti eins og að ganga fimmtíu metra, dæmir vinnumálastofnunin hann fullvinnufæran og synjar honum um sjúkrabætur. Því þarf hann að sækja um atvinnuleysisbætur og ganga í gegnum óskiljanlegt kerfi reglna og uppfylla skyldur eins og að sækja um vinnur sem eru ekki til og hann gæti ekki tekið hvort eð er. Þetta þarf hann að gera í gegnum tölvu í þokkabót – hann kann ekki á tölvu og starfsmönnum stofnunarinnar er beinlínis bannað að hjálpa honum. Á leiðinni kynnist hann ungri einstæðri móður með tvö börn sem er í svipaðri örvæntingu. Hún er nýkomin til Newcastle frá London þar sem þar var eina íbúðin sem hún gat fengið. Hún er því langt frá öllum vinum og ættingjum og enga vinnu er að hafa. Hún fær heldur engar atvinnuleysisbætur í nokkrar vikur vegna þess að hún mætti aðeins of seint í viðtalið eftir að hafa villst á leiðinni.
Loach var gagnrýndur nokkuð fyrir heimildarmynd sína The Spirit of 45′ vegna þess hversu lítið hann minntist á baráttu minnihlutahópa – að af myndinni að dæma mætti halda að saga Englands væri einungis saga hvítra. Nú veit ég ekki hvort hann hafi tekið þá gagnrýni til sín, en í I, Daniel Blake, er einn besti vinur titilpersónunnar og nágranni allavega ungur blökkumaður sem er í svipað harðri lífsbaráttu og hann. Vinskapur þeirra, hvernig þeir hjálpa hvor öðrum, og hvernig hann varar Daniel við því sem hann á í vændum með atvinnuleysisbæturnar, eru atriðin sem snerta mann hvað mest.
Raunar er þetta eitt það mest sláandi við myndina: Daniel leggur sig fram við að vera góður við og hjálpa nágranna sínum og ungri einstæðri móður sem hann kynnist og er í miklum vandræðum og af þeim sökum finnst áhorfandanum hann vera hetja – maður með einstaklega gott hjartalag. Þetta er einmitt dæmi um hversu sjúk sú hugmyndafræði einstaklingshyggjunnar sem tröllríður vestrænu samfélagi er og hversu langt hún hefur náð. Við lítum á þetta sem afrek hetju í staðinn fyrir ósköp venjulegt mannlegt atferli – undantekningu fremur en reglu.
Í Englandi er ástandið sérstaklega slæmt. Ríkisstjórn David Camerons og nú Theresu May (sem Loach kallaði „callous, brutal and disgraceful“ þegar hann tók nýlega við Bafta verðlaununum fyrir myndina) hefur staðið fyrir linnulausum og blóðugum niðurskurði á velferðarkerfið og beinni árás á hina lægra settu – kannski er frægasta dæmið hinn svokallaði svefnherbergisskattur („bedroom tax“) sem minnst er á í myndinni. Á sama tíma er gert svo vel við auðmenn og stórfyrirtæki að margir hagfræðingar og stjórnmálaskýrendur kalla England einfaldlega skattaskjól. Af öllum borgum heimsins búa langflestir milljarðamæringar í London. Heilu ríkramannahverfin standa tóm, auðmennirnir fjárfesta bara í villunum án þess að búa í þeim af því að einhvers staðar þurfa peningarnir jú að vera. Húsnæðisverð hefur hækkað svo mikið að það er að verða svo gott sem ómögulegt fyrir lægri stéttir að búa í borginni með góðu móti. Absúrdleikinn náði líklega einhvers konar hápunkti þegar Cameron hélt innblásna ræðu til stuðnings niðurskurðinum þar sem hann brýndi fyrir landsmönnum sínum að þeir þyrftu að sætta sig við að þetta ástand væri til frambúðar og að gera þyrfti meira með minna („do more with less“) – á sama tíma og hann sat í stól úr gulli umkringdur gullborðbúnaði og kræsingum.
Ástandið sem sýnt er í myndinni er þó líklega að einhverju leyti fjarri raunveruleika flestra íslendinga í dag þar sem atvinnuleysi á Íslandi er í algjöru lágmarki. En í flestum löndum Evrópu og í Bandaríkjunum er ástandið slæmt og fer versnandi. Atvinnumálastofnanir og allskonar tengd ráðgjafarfyrirtæki eru í miklum vexti og eru orðin stór þáttur í daglegu lífi sífellt fleira fólks, einna helst ungs fólks, eða yfir fimmtugu sem missir vinnuna af einhverri ástæðu. Það er þá ekki endilega bara fólk sem berst við langtímaatvinnuleysi sem er vandamálið – atvinnuóöryggi með lágum launum, tímabundinni verkefnavinnu, „zero hour“ samningum sem minnst er á í myndinni, o.fl., er að verða venjan í lífi margra. Eina lausnin sem stjórnmálamönnum virðist detta í hug er að herða reglurnar og gera atvinnulausum lífið leiðara, þrátt fyrir að það gerir nákvæmlega ekki neitt til að taka á raunverulega vandanum sem er hinn mikli niðurskurður hins opinbera á sama tíma og skattar eru lækkaðir á hina efnameiri – sem ná þó auðvitað aðeins yfir þær tekjur og eignir sem þeir hafa ekki náð að stinga undan í skattaskjól.
Það má velta fyrir sér hvað sé hér á seyði. Líklegasta skýringin er sú að stjórnmálamenn vilja bara líta út fyrir að vera að gera eitthvað í málunum – þrátt fyrir að öllum sé ljóst að það að herða bótalöggjöfina gerir nákvæmlega ekkert til að leysa atvinnuleysi og óöryggi. Margir hafa bent á að þetta er bara bein stéttabarátta: að takmarkið sé að þjóna atvinnulífinu með því að brjóta verkafólk niður svo það geri minni kröfur um góða vinnu með háum launum og fríðindum. En þó væri einnig hægt að fara út í freudískari vangaveltur: að fólk sem er atvinnulaust eða óvinnufært og þarf á bótum að halda minni stjórnmálamenn og hina efnameiri á slæma samvisku sína, þeir viti þannig á einhverju leveli að þeir bera ábyrgð á eymd þeirra, en þeir bæli samvisku sína niður með því að ráðast harkalega á þennan hóp, kenna honum sjálfum um ófarir sínar, og refsa honum með tilgangslausum skyldum og reglum.
Við áhorf myndarinnar gat ég ekki hætt að hugsa um kenningu Marx um firringu. Þó verður að hafa í huga að það er margslungið hugtak sem vísar til ólíkra hluta. Í fyrsta lagi átti Marx við firringu í kapítalíska framleiðsluferlinu, að verkamaðurinn framleiðir ekki handa sjálfum sér, og er því firrtur vinnu sinni. Í öðru lagi er verkamaðurinn firrtur vegna þess að hann vinnur endurtekið við lítinn hluta framleiðslunnar án þess að hafa neina heildarsýn yfir tilgang hennar. Hann gerir þetta einungis launanna vegna. Verkamaðurinn í kapítalísku samfélagi er því, að mati Marx, einnig firrtur tegundareðli sínu. Eðli mannsins er að framkvæma ólíkar athafnir sem hann hefur áhuga á, sem bæta vellíðan hans og annarra og eykur þekkingu hans og sjálfsvirðingu. Hann verður með öðrum orðum að sjá tilganginn með vinnu sinni. Hugtak Marx er flóknari en þetta og kapítalisminn hefur vissulega breyst frá því á 19. öld. En það er samt sem áður erfitt að líta yfir vestræn samfélög nútímans og hina ýmsu faraldra af óhamingju, einmanaleika, þunglyndi, stressi, kvíðaröskunum, fíkniefnaneyslu, alkóhólisma, o.s.frv., og komast að annarri niðurstöðu en þeirri að við séum horfa upp á firringu í skilningi Marx, og það á massívum skala.
Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að vinstrið byrji aftur að tala til fólksins sem kaus Donald Trump og með Brexit. Til að það sé mögulegt er mikilvægt fyrsta skref að skilja hvað vandamálið snýst um. Við höfum ekki rithöfunda á borð við Dickens eða Émile Zola lengur, en þar sem kvikmyndir eru ráðandi listformið í dag verða leikstjórar eins og Ken Loach og Dardenne bræður að þjóna svipuðu hlutverki. I, Daniel Blake og Deux jours,une nuit gætu þá verið 21.aldar útgáfur af Hard Times og l’Assomoir.
Í heilbrigðu samfélagi – sem tekur listina ennþá alvarlega – er I, Daniel Blake ekki einungis góð kvikmynd. Hún er dínamít.