Límonaði er ljóðaverk – drottningin Bey hefur talað

Allt frá árinu 1981 hefur meðvitund mín verið sósuð í tónlist, til að byrja með í syntapoppinu frá Ultravox og Human Leage, síðar í poppmaukinu frá Rick Astley og álíka Stock/Aitken/Waterman-verksmiðjum og enn síðar í tilfinningaþrungnu nýbylgjunni frá Depeche Mode og The Cure. Síðar tók við slatti af pönki, enn síðar djass, klassík og nýklassík. Í dag er svo komið að ég hlusta á tónlist daginn út og daginn inn – ég er svo heppinn að vinna daglega með orð og Spotify er því stöðugt á fóninum.

Þegar ég horfi til baka sé ég síbreytilegan tónlistarheim – svo sem eins og vitað er þá snýst þessi heimur almennt og hreyfist á stöðugt meiri hraða. Við erum komin langan veg frá upphafsdögum poppsins, sveiflurnar hafa verið stórar og forsendurnar stökkbreytast reglulega, stundum er plötuútgáfa helsta tekjulindin, stundum eru það tónleikaferðir og alls kyns varningur. Í myndrænu inntaki hefur poppið líka hreyfst mjög hratt, ekki síst í átt að auknum kynferðislegum undir- og yfirtónum (klámvæðingin margumrædda) og jafnvel í átt að grófu ofbeldi, en eitt besta dæmið um það var myndbandið við lagið „Bitch Better Have My Money“ frá söngkonunni Rihanna. Í þessum hrærigraut hefur þó almennt lítið farið fyrir því að popptónlistarmenn ávarpi heiminn á pólitískum nótum, sérstaklega þeir allra poppuðustu, þeir allra ríkustu og þeir allra mest glansandi.

Og alveg allra síst svokallaðar poppdrottningar.

Mynstrið brotið upp

Síðustu fáein ár höfum við orðið vitni að nokkrum áhugaverðum snúningum og tilraunum til að brjóta upp valdastöðu núverandi Spotify-streymimynsturs. Taylor Swift ákvað að hafa plöturnar sínar ekki á Spotify. Stórstjarnan Adele fór skylda leið og setti aðeins fyrstu smáskífuna sína á Spotify en seldi nýju plötuna, 25, aðeins sem niðurhal, fýsískan geisladisk eða vínýlplötu. Í fyrstu þótti ýmsum þetta glapræði mikið og vanmat á kröfum neytenda – niðurstaðan varð sú að platan varð söluhæsta plata ársins 2015 og seldist í 17,4 milljónum eintaka. Þannig er greinilegt að stærstu nöfnin í popp- og rokkgeiranum átta sig á því að til að ná eyrum í yfirmettuðu samfélagi nútímans þurfi að gára vatnið rækilega. Rokksveitin Radiohead setti að mörgu leyti tóninn hvað varðar leiðir til að gára vatnið með útgáfu In Rainbows árið 2007, en plötuna gáfu þeir sjálfir út og buðu neytendum að hlaða henni niður af heimasíðu og velja hversu mikið þeir vildu borga fyrir verkið. Þann 1. maí 2016 hreinsaði sveitin síðan allt efni af heimasíðu sinni og öllum samfélagsmiðlum og tveimur dögum síðar sendu þeir frá sér nýtt lag og smáskífu. Svona gjörningur hjá listamönnum af þessu kalíberi vakti vitanlega heimsathygli.

Allt fyrir athyglina – í dag þarf allt fyrir athyglina og stundum er leiðin sú að hafna gildandi reglum markaðarins og búa til nýjar.

Bowie – blessuð sé minning hans

Það er ekki bara unga fólkið sem storkað hefur ríkjandi hefðum í tónlistarbransanum undanfarið. Snemma árs 2016 átti sér stað einhver magnaðasti listgjörningur síðari tíma þegar David Bowie gaf út nýja plötu sína, Blackstar, á 69 ára afmælisdaginn sinn, 8. janúar 2016. Tveimur dögum síðar var hann allur – og gjörvallt mannkyn lagðist í katalóginn hans og lá þar í marga daga samfleytt með eyrun límd við heyrnartólin. Ziggy Stardust og Major Tom gengu aftur um alla heimsbyggðina.

Blackstar var dramatísk, úthugsuð, falleg, örlát og symbólsk brottför hins mikla listamanns af sjónarsviðinu. Og stór hluti af henni fólst í tveimur krassandi myndböndum sem eru ólík flestu því sem sést hefur á poppsviðinu. Blackstar-myndbandið var upptakturinn að útgáfu plötunnar, yfirhlaðið myndband upp á tæpar tíu mínútur, gefið út í nóvember 2015. Lagið var frábær og flókinn ópus, textinn súrrealískur og vísandi í allar áttir, myndbandið svakalegt. Í tvo mánuði velti heimsbyggðin vöngum yfir nýju plötunni hans Bowies, markaðssetningin var fullkomin.

Svo kom platan. Hún var frábær.

Og svo kom skellurinn. Tilkynnt var um andlát Bowies aðeins tveimur dögum eftir útgáfudaginn og í ljós kom að hann hafði barist við krabbamein – í kyrrþey – í átján mánuði. Blackstar var meðvitaður svanasöngur, úrvinnsla Bowies sjálfs á eigin tilvist og tilfinningum. Og gjöf hans til aðdáendanna var hlutdeild í þessari persónulegu úrvinnslu, ekki á tilfinningasaman hátt heldur á ofurlistrænan og ríkan hátt, bæði myndrænt og tónrænt.

Búmm! Límonaði!

Það er alþekkt strategía í markaðsfræðum að byggja upp spennu, rétt eins og David Bowie gerði í tveggja mánaða aðdragandanum að Blackstar. En hin leiðin? Hún er allt eins fær.

Að skella einhverju fyrirvaralaust fram.

Þetta gerði Beyoncé við heimsbyggðina í apríl 2016 þegar ný plata hennar, Lemonade, var sett án nokkurra tilkynninga inn á iTunes og síðar til streymis á tónlistarveitunni Tidal. Plötunni fylgdi samnefnd klukkustundarlöng kvikmynd – ávallt kölluð ‘visual album’. Og síðan var allt breytt. Rétt eins og David Bowie náði Beyoncé að endurskilgreina ótal svið innan popplistarinnar, ekki síst hvernig hægt er að blanda saman popptónlist, aggressívu myndmáli, ljóðum, persónulegri tilfinningaúrvinnslu, tískuyfirlýsingum og pólitískum skoðunum.

Lemonade var því sannkölluð sprengja inn í poppheiminn og sér ekki fyrir endann á áhrifum hennar. Reyndar beitti Beyoncé sumpart svipuðum meðulum árið 2013 þegar platan Beyoncé kom út. Strax þá var hún farin að gerast pólitískari en áður í textum sínum og þeirri plötu fylgdi líka „myndræn plata“. Munurinn á milli þessara tveggja verka er engu að síður mikill og augljóst að ef fyrri platan var æfing þá er þessi magnaða listakona nú mætt til leiks í öllum sínum mætti.

Tólf laga plata og klukkutíma ljóðrænt og margrætt myndbandsverk verður ekki greint á augabragði í nokkrum málsgreinum, en þó er óhætt að draga saman nokkra þræði sem skipta meginmáli. Lemonade-kvikmyndina er t.d. hægt að skoða sem úrvinnsluferli söngkonunnar vegna svika og framhjáhalds eiginmanns hennar. Í fyrstu lögunum í myndinni er hún æf af reiði og í miklum hefndarhug; hún gengur örugg, mystísk en brosandi meðfram bílum á gangstétt, dregur svo upp hafnaboltakylfu og smallar bílrúðu, heggur ofan af brunahana, ræðst að umhverfi sínu með bros á vör og stekkur að lokum upp í monster-truck og ekur yfir nokkra bíla. Þetta er bráðfyndið en pólitískt atriði þar sem frjáls, falleg og munúðarfull dívan hefnir sín, með gleðina og fegurðina að leiðarljósi.

En myndin er ekki síður hávært öskur í átt að bandarísku samfélagi sem haldið hefur þeldökkum konum niðri um áratugaskeið. Þetta er miðlun á arfleifð þeldökkra Bandaríkjamanna; sársaukinn yfir lúmskri kúguninni og ekki síst lögregluofbeldinu skín rækilega í gegn og útkoman verður eins konar níðstöng hinu kúgandi bandaríska samfélagi.

Tónlistin sjálf er stökkbreytt útgáfa af gömlu Beyoncé. Hún er mun meira töff og harðari en áður og eitt rokkaðasta lagið er þannig unnið í samstarfi við rokkarann Jack White. Í raun eru það aðeins tvö síðustu lögin í myndinni sem minna á eldri tónlist Beyoncé.

Framan af ríkir mikil aggressjón, klippingar eru örar, hreyfingar stundum undarlegar og myndmálið mjög abstrakt, en þegar kemur að fyrirgefningarkaflanum undir lok myndarinnar verður áferðin aftur hefðbundnari. Þar situr Beyoncé ein með hljómborðinu og syngur fremur látlausa en átakanlega ballöðu. Þarna táraðist ég, ekki vegna dramatíseringar í myndmáli heldur einfaldlega fyrir átakanlegan og fallegan söng hennar.

Hér er skrifað eins og Lemonade sé sjálfsævisögulegt verk en ekki þarf að slá mörg leitarorð inn í Google til að skilja að ekki er allt sem sýnist í þeim efnum. Hélt Jay-Z í alvöru framhjá Beyoncé? Eða eru þau bara saman í risastóru plotti sem snýst um að græða ógrynni peninga á þessari dramatísku slúðursögu? Mjög skiptar skoðanir eru um þetta.

Og það skiptir líka litlu máli vegna þess að Lemonade og samnefnd kvikmynd eru listaverk. Kannski er líklegasta skýringin sú að Jay-Z hafi sannarlega svikið Beyoncé upp að einhverju marki, en að hún hafi notað þá reynslu til að fara í gegnum löngu tímabært uppgjör vegna svika föður síns og vegna svika samfélagsins við sig og sínar kynsystur. Það væri þá ekki í fyrsta skipti í listasögunni sem listamaður notaði nærtæka reiði og sterkar tilfinningar til að vaða í stærra ranglæti innan samfélagsins.

Þegar upp er staðið skiptir sannleikurinn ekki máli – þetta er list og ansi hreint mögnuð list í þokkabót.

Hið unga stjörnuljóðskáld

Ekki er hægt að skrifa um Lemonade og samnefnda kvikmynd án þess að minnast á ljóðskáldið Warsan Shire, en hún er fædd árið 1988 og er Breti af sómölskum uppruna. Inn á milli laga í myndinni eru lesnar ljóðlínur frá þessari kornungu konu sem tengjast efni laganna og myndmálsins og hennar krassandi framlag bindur alla þræði saman á glæsilegan hátt. Óhætt er að segja að þarna hafi nýju ljóðskáldi skotið upp á stjörnuhimininn, því þótt Warsan Shire hafi lokið ritlistarnámi og þegar hlotið ljóðaverðlaun Brunel-háskólans í London hefur hún aðeins gefið út ljóðasmákverið Her Blue Body og eina ljóðabók, Teaching My Mother How To Give Birth. Samkvæmt sumum miðlum er þó væntanleg frá henni ný ljóðabók og líklegt verður að teljast að sú bók endi á metsölulistum um allan heim.

Popp og pólítík

Það er ekkert nýtt við það að nota tónlist til að koma pólitískum viðhorfum á framfæri, en þetta hefur þó hingað til verið nánast einskorðað við aðra kima tónlistar en poppið. Beyoncé er ekki Rage Against The Machine. Hún er drottning afþreyingar og skemmtunar, óumdeild drottning þess heims sem gjarnan er kenndur við yfirborðsmennsku og glamúr. Hún er á stað þar sem hún getur gert allt sem henni dettur í hug og völd hennar nú eru á pari við völd Michael Jacksons og Madonnu þegar þau voru upp á sitt besta og áttu heiminn. Einmitt þess vegna var svo merkilegt að sjá Beyoncé stíga fram og blanda öllum þessum ólíku sviðum saman í límonaðiseyðinn sinn.

Þess vegna er svo mikil valdefling í verkinu fólgin. Pólitík, fyrir mörgum, er jaðarfyrirbæri, eitthvað sem hinir pæla í. Þess vegna hefur pólitísk barátta sjaldan átt heima í meginstraumspoppinu sem fólk hlustar á við vinnuna eða þegar það fer út að skemmta sér.

Á margan hátt er límonaði Beyoncé skyldara hinni svörtu stjörnu David Bowies en nokkru öðru listaverki sem mér dettur í hug. Í þessum verkum gefa þau allt sem þau eiga, nota listina til að vinna úr eigin lífsreynslu og tilfinningum og nota til þess yfirburðastöðu sína innan listageirans til að geta framkvæmt allar sínar hugmyndir. Útkoman í báðum tilfellum er stórkostleg.

Að minnsta kosti er ljóst að Beyoncé hefur sett ný viðmið fyrir popptónlistarmenn næstu áratuga. Ekki hafa allir listræna stöðu eða fjármagn til að láta frá sér listaverk af þessari dýpt – en tíð hinna stóru viðburða virðist svo sannarlega runnin upp.

Og getur þá poppið almennt orðið minni froða og meira byltingarafl? Getum við séð fyrir okkur að það verði ekki pönkarar eða rokkarar sem miðli reiði almennings og leiði fram byltingar … heldur popparar sem við hlustum á, dönsum við, öskrum með? Hvað gerist ef boðskapur Beyoncé nær verulegum eyrum? Til dæmis boðskapur hennar úr laginu Formation, um hina svörtu sjálfsmynd og hið svarta afl? Gæti það virkjað nógu marga til að setja af stað fjöldahreyfingar sem hafa raunveruleg og varanleg áhrif? Eða er pólitískur boðskapur sem fluttur er á vettvangi poppsins alltaf dæmdur til að normalíserast og fjara fljótt út?

Það kemur í ljós, væntanlega innan tíðar, því að Beyoncé virðist vera rétt að byrja. Hún er búin að finna sig – og það sem hún fann var ekkert smáræði.