Lilli Palmer og Maurice Evans í hlutverkum sínum í Taming of the Shrew.

Kassavanin snjáldurmús

THE TAMING OF THE SHREW

Arden-útgáfan  af verkum Shakespeares eru nokkurskonar „Industry Standard“. Þar er leit að hinum fullkomnasta texta eilífðarverkefni, um leið og búið er að prenta hefst vinnan við næstu útgáfu (þriðja umferð er langt komin núna). Fræðin í kringum leikritin eru einatt fyrirferðarmeiri en þau sjálf, enda í mörg horn að líta. Það þarf að spá í ritunartíma, velta fyrir sér handritum, bera saman prentaðar samtímaútgáfur ef þær eru fleiri en ein. Það þarf að grúska í hvaðan skáldið sótti sér efni og hvort hann var einn að verki. Það þarf að kíkja á uppfærslu- og túlkunarsöguna og svo þarf að spá smá í innihaldið.

í tilfelli The Taming of the Shrew er mikið að smjatta á á öllum þessum vígstöðvum. Góðu heilli er ritstjóri verksins, Brian Morris, vel ritfær og skýr, sem ekki verður sagt um þá alla. Hann leiðir lesandann af miklu öryggi um hið ótrúlega völundarhús sem eru textatengsl Folio-textans og annars verks, Taming of A Shrew.  A Shrew var lengi álitið annað hvort fyrirmynd að verki Shakespeares eða sprottið af sömu rót, en er nú almennt talið byggt á verki okkar manns, skrifað upp eftir minni nokkurra leikara (Morris setur fram trúverðug gisk um hvað viðkomandi léku, út frá því hvaða kaflar og rullur eru líkastir Shakespeares-texta) og fyllt í skörðin af frekar lélegum skáldum sem jafnframt nota glefsur úr dr. Faustus eftir Marlowe til þess arna. Morris teiknar upp trúverðuga mynd af hugsanlegum kringumstæðum þessa, sem á rót sína í klofningi í leikhópi Edwards Alleyn og James Burbage. Saga sem verður næstum æsileg innan um öll fræðin og neðanmálsgreinarnar. Allavega ef maður er lúði.

Jafnframt eyðir Morris töluverðu plássi í að tengja verkið við æskuslóðir Shakespeares í Warwickshire en þó aðallega við þjóðsagnir um ögun óþekkra og latra brúða, þekkt minni um allan heim.

Síðan víkur sögunni að framhaldslífi verksins, sem er dásamlega skrautleg. Á 18. öld voru unnar upp úr því hálfgerðar Torture-Porn versjónir þar sem Katrínu var t.d. hótað tanndrætti ef hún lærði ekki að hegða sér en rétt fyrir aldamótin 1800 vann sviðsdýrið David Garrick stutta og haganlega (og prúða) hápunktagerð upp úr verki Shakespeares sem var standardversjónin áratugum saman.

Eins og aðrir Arden-ritstjórar endar Morris yfirferð sína á því að túlka verkið sjálft. Sumir kollegar hans eru afspyrnuvondir og andlausir þegar kemur að þessum kjarna málsins, en svo er ekki með Brian. Hann vekur sérstaklega athygli á snjallri byggingu verksins, leggur á hugkvæman hátt út frá atferli snjáldurmúsarinnar  (Shrew er enskt heiti þeirrar tegundar) sem ein nagdýra notar hvæs og öskur í bardögum, og sýnir hvernig orðaforði og aðferðir hinnar fornu listar fálkatamninga er innblástur fyrir og hliðstæða við framferði Petrútsíós.

Ég er mikið til sammála Brian Morris um ágæti The Taming of the Shrew. Gæðamunurinn á því og The Two Gentlemen of Verona er ótrúlegur. Þráðurinn er spennandi, persónurnar mannlegar og fjölbreyttar, byggingin örugg og snjöll og textinn litríkur og augljóslega innblásinn af raunveruleikanum í kringum höfundinn. Það er engin lampaolíufýla af þessum skáldskap. Meira að segja sumir brandararnir virka svona hérumbil enn, þó feluleikjaflækjan í sub-plottinu sé einum eða tveimur of mikil og gangi að lokum varla 100% upp.

Þessi rótfesta verksins í veruleikanum (en ekki í útlendum gervimennsku-fyrirmyndum) sést vel í þessu dæmi, sem líka er ágætis sýnishorn af því hvað Helga Hálfdanarsyni lét vel að koma safaríkum orðaflaumi úr daglegu lífi til skila í þýðingum sínum (mögulega enn betur en háfleygari köflum). Hér lýsir vikapilturinn Bíondelló útganginum á Petrútsíó á leiðinni í brúðkaup sitt (og ekki síður hestinum hans):

Why, Petruchio is coming in a new hat and an old jerkin, a pair of old breeches thrice turned, a pair of boots that have been candle-cases, one buckled, another laced, an old rusty sword ta’en out of the town-armory, with a broken hilt, and chapeless; with two broken points: his horse hipped with an old mothy saddle and stirrups of no kindred; besides, possessed with the glanders and like to mose in the chine; troubled with the lampass, infected with the fashions, full of wingdalls, sped with spavins, rayed with yellows, past cure of the fives, stark spoiled with the staggers, begnawn with the bots, swayed in the back and shoulder-shotten; near-legged before and with, a half-chequed bit and a head-stall of sheeps leather which, being restrained to keep him from stumbling, hath been often burst and now repaired with knots; one girth six time pieced and a woman’s crupper of velure, which hath two letters for her name fairly set down in studs, and here and there pieced with packthread. 

3.2.42–61

Og Helgi:

Nú, Petrútsíó er að koma, með nýjan hatt og í gömlum jakka, gömlum buxum þríventum, stígvélum sem hafa verið kerta-skjóður, annað spennt og hitt reimað, með gamalt ryðgað sverð, gripið úr bæjar-vopnabúri, með brotin hjölt og oddbjargarlaust, og með slitnar lykkjur; hrossið hans lendsigið, með gamlan mölétinn söðul, og ístöðin sitt af hvoru tagi, bólgið undir kverk, með vilsu í nös og sollinn flipa, þrimla á skrokk, þrota í hófum og bólgu í liðum, útsteypt í gulu, ólæknandi af kláða, illa haldið af riðu, nagað innan af ormum, hryggsligað og herðaskakkt, kiðfætt að framan, beizlið hálf-brostið, með hausólar úr sauðskinni, margslitnar af átökum til að forða frá falli, og nú hnýttar saman, gjörðin bætt á sex stöðum, en reiðinn af kvensöðli, flauelsfóðraður, og fangamarkið hennar sett í hann fagurlega með bólum, og hér og þar stagaður með seglgarni.

Snegla tamin, eins og Helgi kallar verkið, var fyrsta Shakespeareleikritið sem ég sá. Ég hef verið svona 11 ára og Einar Þorbergsson, mesti Shakespearenörd sem ég hef kynnst, var kennari í Gagnfræðaskólanum og lét nemendur sína leika þessa brjáluðu ástar- og uppeldiskómedíu. Sjálfur lék Einar Petrútsíó á móti Aðalbjörgu Sigurðardóttur sem Katrínu. Mér fannst þetta stórkostlegt. Meira man ég ekki. Jú, þarna voru trúðar í risastórum skóm. Sé ekki alveg hvað þeir hafa verið að gera þarna, svona miðað við handritið. En ég sé nú svosem ekki heldur hvað unglingar á fermingaraldri eiga með að fást við þetta verk, sem ólíkt öðrum „ítölskum“ gamanleikjum Shakespeares hverfist ekki nema aukalega um hvolpaástir heldur um „harðan“ raunveruleika hjónalífsins, og nauðsyn þess að þar ríki í það minnsta friður og helst líka virðing. Jafnvel ást.

Hin fræga og glæsilega lokaræða Katrínar í fjölskylduboðinu, þar sem hún ein sýnir bónda sínum tilhlýðilega virðingu, er reyndar ansi sterk röksemd fyrir því að þrátt fyrir ótvíræða tæknilega og fagurfræðilega kosti verksins þá eigi það ekkert erindi við nútímafólk á hvaða aldri sem er:

Fie, fie! unknit that threatening unkind brow,
And dart not scornful glances from those eyes,
To wound thy lord, thy king, thy governor:
It blots thy beauty as frosts do bite the meads,
Confounds thy fame as whirlwinds shake fair buds,
And in no sense is meet or amiable.
A woman moved is like a fountain troubled,
Muddy, ill-seeming, thick, bereft of beauty;
And while it is so, none so dry or thirsty
Will deign to sip or touch one drop of it.
Thy husband is thy lord, thy life, thy keeper,
Thy head, thy sovereign; one that cares for thee,
And for thy maintenance commits his body
To painful labour both by sea and land,
To watch the night in storms, the day in cold,
Whilst thou liest warm at home, secure and safe;
And craves no other tribute at thy hands
But love, fair looks and true obedience;
Too little payment for so great a debt.
Such duty as the subject owes the prince
Even such a woman oweth to her husband;
And when she is froward, peevish, sullen, sour,
And not obedient to his honest will,
What is she but a foul contending rebel
And graceless traitor to her loving lord?
I am ashamed that women are so simple
To offer war where they should kneel for peace;
Or seek for rule, supremacy and sway,
When they are bound to serve, love and obey.
Why are our bodies soft and weak and smooth,
Unapt to toil and trouble in the world,
But that our soft conditions and our hearts
Should well agree with our external parts?
Come, come, you froward and unable worms!
My mind hath been as big as one of yours,
My heart as great, my reason haply more,
To bandy word for word and frown for frown;
But now I see our lances are but straws,
Our strength as weak, our weakness past compare,
That seeming to be most which we indeed least are.
Then vail your stomachs, for it is no boot,
And place your hands below your husband’s foot:
In token of which duty, if he please,
My hand is ready; may it do him ease.

5.2.137–180

Það þarf ævintýralegt „spin“ til að sjá þetta ekki sem nákvæmlega það sem Katrín og höfundur hennar vildu sagt hafa um stöðu konunnar. Bókstaflega. Enda fittar þetta fullkomlega inn í þá stigveldisheimsmynd sem gengur gegnum öll verkin og var viðtekin á blómaskeiði Shakespeares. Það er svo sérstakt umhugsunarefni af hverju það er næstum bara hér sem það er ekki hægt að kyngja henni eða horfa framhjá.

Sjálf „tamningin“ og dæmin um breytta hegðun hinnar tömdu snjáldurmúsar í aðdraganda ræðunnar eru allt annað mál. Þó aðfarirnar séu harkalegar þá eru þær líka snjallar, ganga fyrst og fremst út á „speglun“ á óásættanlegu framferði Katrínar, sem tæpast er í húsum hæf. Þetta eru frábær atriði og auðvelt að sjá þau og túlka í friði og sátt við „sálfræðilegt raunsæi“ nútimaleikhússins. Þau eru um taumleysi og tamningu þess, ekki stöðu karla og kvenna. Það er hins vegar þessi ræða.

Augnablikin í fimmta þætti, þegar storminum er lokið og Petrútsíó og Katrín eru orðnir kammeratar, samherjar, samsærismenn gegn heiminum, eru dásamleg, þó hann sé óneitanlega og óumdeilt foringinn í teyminu.

En svo kemur þessi skrambans ræða.

Einar Þorbergsson strikaði hana út, svo mikið man ég. Þarna var sjálfum Shakespeare-púristanum ofboðið.

Ljúkum tali um eintal Katrínar með smá fróðleiksmola, og óvæntu samhengi:

Your Maiestie doth right well know, neither I my self am ignoraunt, what great imperfection & weakenes by our first creation, is alotted vnto vs womē, to beordeyned and appoynted as inferiour and subiect vnto man as our head…euen so also made hee woman of man, of whom and by whom shee is to bee gouerned,commaunded and directed. Whose womanly weakenes and naturall imperfection, ought to be tolerated, ayded and borne withall, so that by his wisedome such thingesas be lackyng in her, ought to be supplyed.

…your Maiestie beyng so excellent in giftes and ornamentes of wisedome, and I a seely poore woman so much inferiour in all respectes of nature vnto you…I referremy Iudgement in this and all other cases to your Maiesties wisedome, as my onely anker, supreme head, and gouerner here in earth next vnder God, to leane vnto.…

If your Maiestie take it so then hath your Maiestie very much mistaken me, who haue euer bene of the opinion…to learne of her husbande, and to bee taught by him…I assure your Maiestie I haue not missed anye part of my desire in that behalfe, alwayes referring my selfe in all such matters vnto your Maiestie, as byordinaunce of nature it is conuenient for me to doo.

Þetta er raunveruleg ræða, flutt af eiginkonu fyrir bónda sinn. Önnur Katrín, Catherine Parr, síðasta eiginkona Hinriks áttunda. Kunnuglegar röksemdir?

Það er vel þess virði að leita uppi BBC-sjónvarpsgerðina frá 1980 og njóta þess hvernig leikararnir smjatta á texta sínum, enginn þó jafn glæsilega og John Cleese í hlutverki Petrútsíós. Spurning hvort farangur hans í hlutverkum næstum-klikkaðra orðháka vinni með eða á móti honum, lagnir sumra persóna orka tvímælis, og tilþrif sumra leikendanna (Einkum Söruh Badel í hlutverki Katrínar) fyrir neðan flestar hellur. En veisla fyrir eyrun.

Afbragðsleikrit með vafasömum boðskap sem það veifar óþægilega stolt.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðn verk endast. 

Texti verksins.