Af litlum neista verður oft mikið bál svo og mál

Um skáldsöguna Móðurhug eftir Kára Tulinius. JPV gefur út. Verkið er 160 blaðsíður að lengd og kom út fyrr á þessu ári.

Ástin er eins og sinueldur.
Ástin er segulstál.
Af litlum neista verður oft mikið bál.
Ástin er eins og hvítigaldur,
gagntekur líkama’ og sál.
Af litlum neista verður oft mikið bál.

Svo söng Pálmi Gunnarsson um ástina. Á það ágætlega við sem eins konar inngangur að þessari umfjöllun um skáldsögu Kára Tuliniusar. Það vill nefnilega svo til að sagan atarna fjallar að stórum hluta til um ástina í mismunandi formum. Og í henni verður og sannlega bál af neista.

Saga þessi tekur þó ekki eingöngu á ástinni. Aukinheldur er komið inn á kynáttunarvanda með tilheyrandi sjálfsleit. En kynáttunarvandinn eða kynbreytingarferli hefir verið nokkuð í sviðsljósinu á þessu ári með t.a.m. leikverkinu Hún pabbi sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu í janúar.

Á bókarkápu segir að þetta sé „skáldsaga um ástina, lífið og dauðann, um leitina að sátt við sjálfan sig og aðra, um mörkin milli skáldskapar og veruleika.“ Er þar engu logið. Téð verk tekur á öllum þessum atriðum og gerir það meira að segja ekki illa.

Móðurhugur er önnur skáldsaga Kára Tulinius. Sú fyrsta, Píslarvottar án hæfileika kom út Anno Domini 2010. Kári hefir einnig gefið út ljóðabækur og er einn af stofnendum Meðgönguljóða. Þess má og geta að skrif Kára má finna hér á Starafugli.

Ef eitthvað eitt mætti segja um frumraunina á skáldsagnasviðinu er það að hún fjalli um leit að einhverju til að trúa á. Leit á tímum þar sem ekki skortir á viljann til að trúa, að finna sér einhvern tilgang í veröld endalausra möguleika. Erfitt kann þó að reynast að finna út frá hvaða forsendum best sé að trúa.

Að því skrifuðu og af því æ er móðins að spara sér sporin er ekki úr vegi að spyrða viðlíka leit við það verk sem hér um ræðir. Leit Móðurhugar snýr vissulega að áðurnefndum atriðum en fleira býr að baki.

Í raun og sanni er umrætt verk ágætis spegill á hinn breytilega veruleika sem við lifum í. Veruleika þar sem ekkert er útilokað, þar sem hægt er að storka öllum föstum kvörðum tilverunnar og meira að segja bæta orðum í lokaða orðflokka. Persónufornöfn hafa t.d. allajafna verið verið talin lokaður orðflokkur. Engu að síður hefir persónufornafnið hán nýverið verið að ryðja sér rúms á íslenskum orðakri. Kemur það og fyrir í téðu verki. Hán er notað fyrir þá sem hvorki skilgreina sig kvenkyns né karlkyns.

Alltént er óhætt að segja að þetta verk leyni á sér.

Söguþráður og sögusvið

Í stuttu máli segir sagan frá Ingibjörgu, Abel og skáldkonunni Theodóru, móður Ingibjargar. Ingibjörg er íslensk námskona í Providence í Bandaríkjunum. Hún leggur stund á fornfræðanám og spilar jafnframt tennis. Hún er á styrk sakir færni sinnar á því sviði. Hún hefir staðið í internet-spjall-sambandi við Abel sem leggur stund á trúarbragðafræði og fæst við að skoða nýheiðna söfnuði. Hann var áður hún og hét Jenny. Þau hafa þekkst í gegnum netið í ein átta ár. Þegar hún hittir hann í fyrsta sinn í persónu á lestarstöðinni í Providence er það ást, af hennar hálfu, við fyrstu sýn. Ingibjörg hefir hér orðið:

Ég óskaði þess að hann kyssti mig. Ég óskaði þess að heimurinn þurrkaðist út, tortímdist á einu augnabliki, og að í endalausu myrkrinu, nótt án sólarupprásar, myndum við elskast að eilífu.

(bls. 10).

Illu heilli deilir Abel ekki þessum tilfinningum. Hann segist þó ekki vera alveg mótfallinn hugmyndinni að vera með henni. Samt sem áður kemur hann honum bara ekki upp fyrir hana og  myndi aldrei vilja ríða henni (bls. 30) Honum er þó ljóst að þau eiga sitthvað sammerkt og vildi raunar óska þess að geta verið hrifinn af henni.

Í einfölduðu máli leiðir hrifningarleysi Abels í garð Ingibjargar hana til sjálfsmorðstilraunar. Hún reynir að drekkja sér. Í kjölfarið komum við að þriðju aðalpersónu sögunnar, Theodóru, sem er stödd í Providence í byrjun bókar. Þar klárar hún sjálfsmorð dóttur sinnar (bls. 5) með því að láta taka slöngurnar úr sambandi og leyfa „líkama að deyja“ (bls. 5)

Að sönnu má segja að Theodóra sé aðalpersónan þrátt fyrir að hún komi minnst fyrir í verkinu. Það er hún sem setur verkið saman, er höfundur þess í þeirri merkingu að hún tekur skrif dóttur sinnar og setur saman í verk. Skrif Ingibjargar mynda 2/3 skáldsögunnar en sagan sjálf samanstendur af þrem hlutum. Síðasti hlutinn er skrifaður af Theodóru. Hlutar þessir bera lýsandi nafngiftir: „Vefdagbók Ingu“ (bls. 7), „Ævisaga Abels“ (bls. 75) og „Skáldskapur Theodóru“ (bls 119.

Sögusviðið er fljótafgreitt. Sagan á sér stað í Providence á Nýja Englandi og Boulder í Colorado. Sögutími er vor samtími og er svo nálægt okkur í tíma að appelsínuguli jókerinn er búinn að vinna forsetakosningarnar. Ekki er þó komið neitt sem heitið getur inn á kosningasigur Trumps. Innri tími sögunnar er 22. september til 25. nóvember og aðeins betur. 25. nóvember er dagurinn sem Ingibjörg finnst eftir sjálfsmorðstilraunina.

Aðeins nánar um hlutana þrjá

Það er gamalt stílbragð bókmenntanna að gera því skóna að handrit, bréf eða dagbók persónu hafi fundist. Í kjölfar þess eru skrifin svo gerð opinber. Hugsanlega fer formáli á undan þar sem útlistað er hví tekið var upp á því að splæsa í bók. Þessi aðferð hefir löngum verið notuð til að gefa frásögn trúverðugan blæ. Má hér t.a.m. minnast á Hetju vorra tíma eftir Lermontov og bréfaskáldsöguna Háskaleg kynni eftir Laclos.

Móðurhugur rær á svipuð mið. Fyrsti hlutinn inniheldur vefskrif Ingu þar sem kynni hennar og Abels eru tíunduð. Lýsir hún hrifningu sinni af honum, óendurgoldinni ást hans og samskiptum þeirra. Í lok hlutans eru svo athugasemdir („komment“) vinkvenna Ingibjargar við dagbókarfærslu 22. nóvember þegar ljóst er að hún hefir í hyggju að svifta sig lífi.

Nú er ég búin að tengja okkur tvö saman í huga ykkar, rafeindaboðum sem geyma mig. Við munum lifa í ykkur eins og Abel lifir í mér.

Elsku elsku, ég veit að þetta verður erfitt. Ég veit að ég haga mér eins og eigingjarnt skass. Ég get ekki beðið um fyrirgefningu. Það eina sem ég bið ykkur að gera er að segja mömmu að ég elski hana. Ég elska ykkur líka, elsku bestu vinkonur mínar.

(bls. 68)

Annar hluti er úrvinnsla Ingibjargar á orðum Abels. Hún tekur sér það bessaleyfi að skrifa ævisögu Abels. Þar segir hann t.a.m.: „Fram á níunda aldursár var ég sannfærður um að ég væri geimvera sem hefði lifað af brotlendingu á jörðinni, að mamma mín hafði fundið mig skríðandi með fram þjóðveginum seint um nótt og ákveðið að ala mig upp“. (bls. 77)

Ingibjörg setur saman ævisögu hans í fyrstu persónu og notar til þess orð Abels sjálfs sem hún hefir safnað saman á þessum átta árum. Ævisagan er saga barns (manneskju) sem veit að það er öðruvísi, að tilvera þess er skáldskapur af því það fæddist í líkama stelpu. (bls. 78) Barn þetta, sem heitir Jenny, er lagt í einelti, en kemst nálægt sínu sanna sjálfi með að leika karlmenn í leikritum:

ég vissi að leikarinn ætti að skilja persónuna eftir upp á sviði, en ég sneri því við, var ég á sviðinu en var utan þess áfram í hlutverki Jennyjar, sem ég hafði verið að leika síðan ég fór að skilja að persónan sem annað fólk sá þegar það horfði á mig var ekki ég, heldur Jenny, og þangað til ég gæti orðað sjálfan mig yrði ég að vera Jenny og horfa á heiminn í gegnum augu sem spegluðu það sem samfélagið sá og tala í gegnum varir sem voru ekki mínar eigin og héldu öllu því sem ég vildi segja í kokinu, öllum tilfinningum innan hugar þar sem þær reyndu að klóra sér leið út.

(bls. 91)

Abel á í baráttu við að koma sínu sanna sjálfi upp á yfirborðið og þarf, eins og gefur að skilja að glíma við allskyns hindranir. Ekki síst glímir hann við þær hindranir sem hann sjálfur skapar. Sem Jenny.

-Það vill enginn sjá þig, þess vegna sjá allir mig, því þú ert viðrini, skrímsli, og samfélagið kýs Jennyju umfram Abel, konu í kvenlíkama, en ekki karl í kvenlíkama, og þar sem við lifum í lýðræðisríki á fólkið að ráða og það hefur valið mig fram yfir þig af því að þú ert ógeðfelldur.

(bls. 99)

Í þriðja hluta skrifar Theodóra um Ingibjörgu í þriðju persónu. Hún skrifar hana til baka og gefur henni „framhaldslíf í skáldskap“ (bls. 121) og skapar með því sinn eigin veruleika. Er það leið skáldkonunnar til að fást við ótímabæran dauða dóttur sinnar. Þar spilar hún sjálf og vissa rullu og lætur dóttur sína eiga við fortíð sína (þeirra). Hefir það mikinn uppgjörsbrag yfir sér. Þar að auki felur hún ekki eigin rödd sína og kemur sér sjálfri inn í frásögnina með því að tjá sig um dóttur sína.

Hugsun Ingu var mér ætíð ókunn. Jafnvel þegar hún var ómálga og leitaði í móðurfang eins oft og þyrstur kálfur. Tilfinningar hennar komu mér á óvart. Orðin líka þegar hún fékk málið. [ …] Hugur Ingu er mér myrkið eitt.

(bls. 128)

Í þessum hluta sendir hún Ingibjörgu til Colorado þar sem minningarathöfn um Abel kemur til með að eiga sér stað, en hann hefir verið týndur og tröllum gefinn um nokkurt skeið. Þar er hún í selskap vina Abels. Hluti þessi tekur nokkuð óvæntar beygjur enda ræður ímyndunarafl Theodóru för.

Úthugsuð, marglaga saga

Líkt og e.t.v. má ljóst þykja er umrædd saga ekki við eina fjölina feld. Í grunninn er um fremur einfalda sögu um óendurgoldna ást, móðurást og leit að sjálfum sér að ræða. Málið er samt ekki svo einfalt. Þessi stutta saga er nefnilega efniviður í allslags pælingar. Margvíslegar tengingar eru notaðar til að varpa ljósi á framvindu sögu og efniviðs. Tengist það þá oft því sem Ingibjörg og Abel leggja stund á eða hafa áhuga á: fornfræði, nýheiðni (tenging við Forn-Grikki og Rómverja) og rithöfundnum H. P. Lovecraft.

Einatt má spyrða tengingarnar við útilokun af einhverjum togi, það að vera framandi. T.d. finnst Abel „það sem gerði skáldskap hans [Lovecrafts] merkilegan vera óttann sem blundaði í fólki gagnvart þeim sem á einhvern hátt voru frábrugðnir öðrum.“  (bls. 64)

Auk þess er hægt að finna ýmislegan efnivið innan verks sem tengjast leit að sannleika og einhverju til að trúa á. Slíkt er oftlega tengt áhuga Abels (athuga að nafnið Abel getur verið dregið af nafni gríska guðsins Apollon) á nýheiðnum söfnuðum enda

sagðist [hann, Abel] þrá að finna algildan sannleika, en hann efaðist jafnframt um að nokkur slíkur væri til. Hann þráði að finna hugarveröld sem hann gæti deilt með öðrum. Ég óskaði þess að dvelja ein  með honum á stað utan tilverunnar.

(bls. 18)

Vart þarf að gera grein fyrir augljósum leik með mörk skáldskapar og veruleika eða því hvernig einn veruleiki er þýddur upp á annan. Má finna snjallar tengingar sem lúta að þýðingum almennt. Ingibjörg þarf sem dæmi oft og tíðum „ekki bara að þýða minningar sínar yfir á annað tungumál heldur líka útskýra heilan menningarheim í leiðinni.“ (bls. 125)

Ekki þarf heldur að gera frekari grein fyrir baráttunni fyrir því að vera maður sjálfur eins og maður er hvort sem það felur í sér hann, hana eða hán. Og auðvitað felur sú barátta sem hér er í sviðsljósinu í sér vangaveltur eins og Ingibjörg sýnir fram á:

Kyssir hann eins og stelpa eða strákur.

(bls. 16)

Hvernig leit líkami hans út? Var hann enn með brjóst? Stóð hann eða sat á klósettinu? Ef ég sæi hann nakinn myndi ég hætta að skynja hann sem karlmann? Ef líkami hans breyttist gæti ég þá haldið áfram að elska hann? Hvað myndu vinir mínir hugsa ef ég byrjaði með honum? Hvað myndi mamma segja? Þyrfti ég stöðugt að réttlæta mig og útskýra allt í vandræðanlegum smáatriðum?

(bls. 16)

Þetta er kannski ekki saga sem maður verður ástfanginn af við fyrsta lestur. Því síður vekur hún upp samræðisgirnd. Ekki að hún þurfi þess (til þess var internetklámið fundið upp). Ekki verður samt annað sagt en að vel sé að verki staðið. Verkið er nokkuð látlaust en leynir á sér og allslags vísanir eru til staðar sem dýpka á annars einfaldri sögu. Verkið er marglaga og verður ekki annað sagt en að það sé vel úr garði gert þótt ekki fái hann, hún eða hán endilega ballfró við lesturinn.