Hversvegna þá ekki að trúa á sjálfa listina, á sköpunarmáttinn sem býr innra með okkur? Á tímum þegar litið er á manninn sem neytanda á ýmiskonar framleiðslu og vörumerkjum, megum við ekki gleyma að við getum hvenær sem er tekið völdin í okkar hendur.
– Erna Ómarsdóttir í leikskrá Fórnar.
Stöðnuð kerfi, þröngur rammi, ofbeldishneigð boðun; hömlur á mannsandann. Framleiðsla á skoðunum, úrvinnsla á arfleifð sem gefur einstaklingnum takmarkað rými til að máta reynslu sína við. Niðurstaða sem veldur vonbrigðum. Framtíðarsýn sem er á einhvern undarlegan máta full af vonleysi. Trúarathöfn sem skilur mann eftir með ófullnægjandi svör.
Mér er spurn. Það er að mörgu leyti einfalt mál að setja sig í dómarasæti þegar forsendur og áhugi er jafn mikill og raun ber vitni í tilviki verks eins og þess sem Borgarleikhúsið, Íslenski dansflokkurinn og ýmsir myndlistarmenn bera á borð í hinni viðamiklu sýningu sem ber nafnið Fórn og sýnd er um þessar mundir. Verksins hefur undirritaður beðið í ein tvö ár að komist á fjalirnar, að því standa nokkrir af þeim listamönnum sem hafa borið hróður íslenskra lista hvað víðast á síðustu árum og yfirlýst inntak sýningarinnar er rannsókn á helgisiðum og ritúölum trúarbragðanna og einhverskonar samræða við þá. Niðurstaðan á að innihalda einhverskonar útkomu úr rannsókninni og sýna okkur fram á að tengsl lista og trúarbragða séu staðreynd, að sköpunarþörf mannsins hafi verið í ákveðnum farvegi í yfir 12000 ár og að listsköpun og trúarþörfin spretti af sömu rót. Verandi myndlistarmaður sem snéri sér að guðfræði má segja að ég sé fyllilega sammála og rannsóknarspurningin sé eitthvað sem mér finnst koma mér við; og skýrir það áhuga minn á verkinu, tilurð þess og spurningunum sem það ætlar sér að takast á við. Ég var að vonast eftir meiru. Eftir opnun.
Það er spurning hvort það er þess virði að rekja sögu verksins, hvernig það var kynnt í upphafi, hvað gerðist á leiðinni (eða gerðist ekki), og hvað það síðan er sem borið er á borð. Það hvernig hugmyndum og heildarhugsun er lýst í viðtölum af aðstandendum er eitt, það sem fram fer á sviði og í myndverkum heildarverksins Fórn er svo annað. Í raun má segja að mér sé skapi næst að segja að það fyrra (áætlunin) sé áhugavert – en það síðara (gjörningurinn) sé einhverskonar redding úr ýmsum áttum til að varpa upp þeirri „hátíð nýrra helgisiða“ sem við fyrstu sýn virðist vera mun flóknari en hún í raun og veru er.
Í turnum úr beini dansa fílarnir
Það er búinn að vera mikill „fílingur“ í kringum Fórn eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson. Miðað við að ætlað er að þetta sé – eða hafi átt að vera – stærsta verkefni sem Borgarleikhúsið hefur nokkurn tíma ráðist í, má segja að lítið hafi farið fyrir gagnrýni eða umfjöllun um verkið. Eða réttara sagt, mestur parturinn af „gagnrýninni“ hefur verið einhverskonar umfjöllun þar sem farið hefur verið yfir verkin sem „hátíðin“ samanstendur af. Ef það er hægt að draga umfjallanirnar saman í tvö atriði almennt má segja að fyrirsögnin væri „áhugavert en langdregið“. Ég skil bæði. Og ég er ósammála báðu. Það er að segja – það að kalla listaverk langdregið er bara kurteisileg leið til að segja að það hafi misst marks. Og lýsingin áhugavert er afsökun fyrir því að þurfa ekki að útskýra hvað það er sem talar til manns – sem felur það um leið í sér að það sem maður skyldi ekki búi yfir einhverju sem gæti haft áhrif á mann ef maður hefði náð einhverjum tökum á því. En ég ætla ekki að fjalla um það hvað aðrir hafa sagt. Og ég ætla ekki að rekja röð atriða að reyna skýra hið meinta heildarsamhengi sem aðstandendur segja að verkið feli í sér. Það myndi þýða að ég væri að taka þátt í meinsærinu um að verkið hafi skýra sögn sem gangi upp og komist til skila.
Það er stundum talað um að fræðaheimurinn sé í einhverjum fílabeinsturni; að frá þeim sem þar búa komi aðeins einhverskonar óskiljanleg babelónska. Það er góður fílingur í að reyna skilja fílamálið í Fórn. Dumbó og Babar bara bugta sig. Dumbó viðurkennir að staðreyndavillur í fræðimannamálinu fá ekki á hann en Steini er reiður. Babar fagnar því að það hafi verið allskonar hlé. Þá fékk hann að fara bara á bar. Og vera bara Babar. Hjúkk.
Þversagnarkenndin
En við getum ennþá ákveðið hverju við viljum trúa. Og við getum tekið ákvörðum um að endurheimta eitthvað af þeim frumkrafti sem fær okkur til að snúa hlutum á hvolf og tigna það sem talið er hversdagslegt eða vanheilagt.
– segir Erna Ómarsdóttir ennfremur í inngangi sínum að Fórn.
Stundum hafa listaverk skýra sögn og stundum eru þau tilraun til einhvers annars; til að mynda birta brotakennda sýn eða varpa fram þversögnum til að kveikja spurningar. Eða eins og Erna segir; snúa hlutunum á hvolf. Hvötin til þess kviknar að hennar mati fyrir tilstuðlan einhvers (andlegs) frumkraftar sem manneskjan þarf að endurheimta tengslin við. Ef maður setur sig í stellingar til að skilja þann kraft (guðsmynd) þá er um einhverskonar andkraft við þá tilhneigingu að hemja sólgosið, beisla flæðið, setja stafina í orð og orðin í setningar; gera logos úr kaosinu til að hið skapaða verði skiljanlegra en ómiðluð tilfinning. En það sýnir fram á djúpstæðan misskilning á eðli og sögu trúarbragðanna að ætla þeim að forðast snertingu við hið forboðna. Mannfræðin og trúarbragðafræðin kenna okkur nefnilega að tilurð þeirra snýst einmitt fyrst og síðast um að „fulltrúar fjöldans“ stíga inn á svið hins forboðna (lat. profanum – þýð. vanheilaga) til að færa fram fórn til þess að utan hringsins fái kassinn (hið hversdagslega) að haldast ósnertur af hinu eyðandi sköpunarafli. Að hversdagurinn haldi áfram að vera heilög og fullkomin birtingarmynd hinnar guðlegu reglu hlutanna; að sólin gangi sinn hring, á eftir vetri komi vor, að maðurinn uppskeri eins og hann sáir. Þegar hið vanheilaga sleppur úr búri sínu – ef maðurinn fórnar ekki – þá verða katastrófurnar.
Listaheimurinn er eins og hver annar, veröld sem er háð lögmálum iðnaðar og framleiðslu; Fórn er afurð listframleiðslu sem menningarneytendur máta sig við; hún er gæðavara skreytt vinsælum og viðurkenndum vörumerkjum ( sem áður voru nefnd ) og sú staðreynd setur yrðingar verksins í mótsögn við sjálfa sig að „merkin í verkinu“ skipta meiru máli en einmitt sú frelsun sem Fórn vill kynna fyrir hinum mögulegu sóknarbörnum; að neytandinn geti tekið völdin í sínar eigin hendur. Með því á ég við að það er furðulega mikil áhersla á stýringu á upplifun leikhúsgestsins – og „hátíðin“ alls ekki sniðin að því að hann geti „tekið völdin í sínar eigin hendur“ (eins og boðað er í kynningartexta að sé markmið hugvíkkunarinnar).
Það eru til margar spennandi leiðir til að kynna slíkar hugmyndir með tólum upplifunarleikhússins, og þrátt fyrir einhverskonar tilraun til þess með „markaðnum“ í anddyri Borgarleikhússins, þá verður að segjast að aðstandendurnir kikna undan lögmálum þeirrar dramatúrgíu sem leikhúsið virðist setja sýningunni – sem var boðað að yrði tímamótaverk í markaleysi og samruna listgreina; ef maður túlkar þær yfirlýsingar sem voru settar fram þegar verkið átti að verða „opnunarhátíð“ Listahátíðar í Reykjavík árið 2016.
Áralangur undirbúningur
Þegar mikið hefur staðið til árum saman og búið að vinna og spinna, kryfja og sjóða og framkalla og mynda og eima og strömma og teygja lopann – út í hið óendanlega – þá er eins gott að hafa aðgang að góðum ljósabúnaði. Ein mögnuð ljós-mynd-sviðsetning sem kemur á óvart getur getur reddað fagurfræðilegri upplifun efasemdamanns. Það mómentum átti sér stað í upphafsverkinu Shrine. En það er ekki nóg. Því að þrátt fyrir intermezzo „Ekkert á morgun“ (Brycner, Kjartansson, Bjarnadóttir) – sem er einfalt og látlaust verks sem ber sterk einkenni meðhöfundarins Margrétar Bjarnadóttur – þá hefði heildarverkið Shrine, Dies Irae og The Union of the North ekki myndað sögn sem fæli í sér vísi að nýstárlegri nálgun á helgisiðaform samtímans. Til þess eru vísanirnar í hefðbunda helgisiði (t.d. að prestur gefi saman hjón) of lítið uppbrot þó „fulltrúi valdsins“ sé svört afgreiðslustúlka í lægst settu sjoppunni í musteri neyslunnar. Það að benda á vísanir eða innri tengsl verkanna nægir ekki til að réttlæta skortinn á umburðarlyndi sem prédikun heildarinntaksins felur í sér.
Þrátt fyrir hástemmdar lýsingar á öllum markmiðum þessa „risaviðburðar“ sem hefur verið í bígerð frá 2015 – eða samkvæmt aðstandendum í fjögur ár – þá virðist manni þar lítið hafa orðið ágengt í að víkka hugmyndafræðilega rammann frá því að Erna og Valdimar sýndu verkið To the Bone; einhverskonar fjöllista dansverk í formi sjónvarpsþáttarlíkis um árið. Mig minnir að ég hafi séð það á Litla sviði Þjóðleikhússins. Það var árið 2014. Og þar var kynnt til sögunnar grunnhugmynd Fórnar; að listin geti tekið við af trúarbrögðunum, sköpunargáfan og hinn skapandi kraftur sem býr í manninum sé verðugt viðfang trúar og að í raun væri skynsamlegast að starfrækja lífsskoðunarfélag um þetta form átrúnaðar. Í lok sjónvarpsþáttarins To the bone var fólk einmitt hvatt til að skrá sig í óskráða lífsskoðunarfélagið sem í dag virðist ganga undir nafni sýningarinnar; að skrá sig í Fórn.
Fórnaristar
Í kynningu sinni á félagsskapnum lýsa félagar Fórnar sér sem iðkendum „óheftrar tjáningar og listsköpunar“ – og er það vel. Að einhverju leyti. En Fórn ætlar sér líka að koma upp MUSTERI eða einhverskonar aðstöðu þar sem félagar og almenningur fá stuðning til að skapa og í því musteri mun væntanlega vera einhverskonar heimavöllur tilbeiðslunnar – ef til vill eftirmynd „frum-listhofsins“ sem Fórnarliðar beina sjónum að í leiksskrá; fornminjum í Göbekli Tepe í Tyrklandi. Nú getur hver sem er haft sína skoðun á því hvort það ætti að vera hægt að skrá félagsskap þeirra Ernu og Valdimars sem lífsskoðunarfélag og beina þannig fjármunum í þann göfuga farveg að listamenn hafi aðstöðu og rými fyrir sköpunarstarf sitt; en spurningin er – fyrir mér – sú hvort að listrænir stjórnendur sýningarinnar séu ekki aðeins of uppteknir af því að hið skapandi starf eigi að hljóta viðurkenningu sem trúarbrögð í íslensku samhengi laganna um trúfélög. En gott og vel. Ef það er markmiðið; má ég þá líta á verkið sem drög að trúfræðslu félagsins? Sem messu? Sem dæmi um nálgun á framkvæmd athafna eða eins og segir í verkinu; drög að nýjum helgisiðum?
Of mörg vandamál – ein lausn
Vandamál verksins eru mörg og ef til vill fyrst og síðast að setja á sig svo stóran hatt sem raun ber vitni. Það er virðingarvert í sjálfu sér, en eins og í öllum verkum þar sem á að taka eitthvað stórt, heilagt og ósnertanlegt (að mati listamannanna) þá verður að vera að baki því djúp og heilsteypt rannsókn sem hefur leitt til skilnings sem síðan er miðlað með nýjum eða afhjúpandi hætti. Krufningin á trúarþörfinni, eða snertifleti listarinnar og trúariðkunarinnar, eða manninum frammi fyrir hinum andlega veruleika; eða hvað sem hverjum finnst um listamennirnir vera að reyna segja um kjarna og markmið þessarar hátíðar nýrra helgisiða; hin ætlaða krufning er að mínu mati grunnhyggin yfirborðsskoðun sem gengur út frá gefnum forsendum allan tímann. Fyrir vikið verður hin gagnrýna skoðun á „heftandi menningu“ – sem er ætlaður merkimiði á skipulögð trúarbrögð – í raun og veru að vangaveltum um kapítalismann; hin æðstu trúarbrögð í samtíma okkar. Nú er það sök sér og verðugt umfjöllunarefni að taka neyslumenningu og ofstopafulla dýrkun skúrgoða hennar fyrir í listaverki – messu í hofi listarinnar – en það er óneitanlega tilfinning mín að prestarnir séu þrælfastir í því sama neti útlitsdýrkunar og hégóma.
Útlitsdýrkun í torkennilegum myndum
Við göngum inní alla heima – í hofi listarinnar – á ákveðnum forsendum. Það er ekki sama hverjir standa á bakvið sýningu, sama af hvaða tagi hún er, og því má nefna að margt er frábærlega gert og einstakar upplifanir vel tímans virði í þeirri „veislu“ sem boðið er uppá í Borgarleikhúsinu. Ég hef sjálfur mjög mikinn áhuga á öllum tilraunum með formið og nálgun sviðslista- og myndlistarmanna á það að skapa upplifun frekar en að segja sögu í leikhúsinu. Ég álít „óhefta sköpun“ (og flæði tilfinninga) að mörgu leyti vera göfugasta form átrúnaðar og óritskoðaðar tilraunir bera oft með sér mestan kraftinn og einlægustu tjáninguna. En fyrir mér er um leið mjög mikilvægt að „öll sköpun“ er í eðli sínu samtal við andlegt svið tilverunnar. Hún tjáir manninn frammi fyrir því óræða samhengi sem hefur skapað hann. En! Að mínu áliti verður sá sem er farvegur sköpunarinnar hverju sinni að vera meðvitaður um hlutverk sitt og stöðu. Er hann að lofa sköpunarmáttinn? Er hann að beita honum fyrir sig? Er sá sem hefur fullkomið vald yfir ímyndunarafli sínu kannski fjarlægastur frá því að eiga í samræðu við „innblásturinn“ eða „hið óvænta“ þegar kemur að gjörningnum sjálfum?
Þegar við göngum inn í hofið að upplifa Fórn, þá höfum við forsendur – þær geta framkallað fyrirframgefnar hugmyndir eða fordóma um verkið – sem eru mótaðar af goðaveröld listheimsins: Við mætum erkienglunum Matthew Barney, Gabríelu Friðriksdóttur og Ragnari Kjartanssyni. Æðstu prestar þeirra og „leikendur“ eru Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson – auk minni spámanna og er þá helst að nefna Friðgeir Einarsson og Sigtrygg Berg Sigmarsson. Prestarnir eru leiðsögumenn og gerendur – hofmeyjarnar Íslenski dansflokkurinn. Sjónarspilið heimfært á markað – sem á að minna á tvennt; torgið þar sem umræðan fer fram og yfirþyrmandi nærveru kapítalismans sem falbýður í sífellu „vörur“ sem eiga í sjálfu sér að vera ígildi andlegs fóðurs; rétt eins og dúfurnar og lömbin sem seld voru á mörkuðum framanvið fórnarhof fyrri tíma, eða kertin í anddyri kaþólskra kirkna. Við kaupum ekki til að „nálgast“ andlegan veruleika heldur til þess að upplifa fórnartilfinninguna; að fyrir peninga getum við sýnt prestunum fram á að við teljum eitt geta komið fyrir annað; bók er bæn, mynd er ákall, súpa er samkennd, húlla er trúarstökk, hatursjógatími er auðmýking, kaffibolli er grátur, sérríglas samþykki og hláturmild þáttaka er samfélag trúaðra. Og svo framvegis. Við erum uppábúin – sýnum okkur sjáum aðra; og guðirnir eru yfir okkur hafnir; ósýnilegir en vita allt. Sjá í gegnum okkur. Best að brosa. Og setja upp hattinn.
Mess eða messa?
Aðstandendur sýningarinnar hafa lýst því hvernig þrjár megin „athafnir“ trúarbragðanna – manndómsvígslan (fermingin), einingarathöfnin (giftingin) og greftrunin – séu inntak verkanna þriggja sem bera sýninguna uppi. Um leið hefur ansi mörgu öðru verið haldið fram um sýninguna í heild, blöndun listgreina og hinn karnivalíska markað sem boðið er uppá í anddyri Borgarleikhússins, sem hefur vakið áhuga minn frá upphafi. Megin inntakið og úrvinnsla þess er þó það sem skiptir mestu í mínum huga; rannsókn og úrvinnsla á tengslum trúarbragða ( í gegnum mannkynssöguna? ) og listsköpunar. Helgisiðir og ritúöl, fyrir utan allt annað listtengt í umgjörð átrúnaðar (myndlist, tónlist osfrv.) eru auðvitað performatív fyrirbæri þar sem „leikari“ framkvæmir eitthvað samkvæmt reglum eða innblæstri og helgar þannig stund og stað í ákveðnum tilgangi – þar sem hið andlega svið og hið veraldlega skarast og skapar þannig sérstakar „fráteknar“ aðstæður; helgisiðirnir færa okkur úr hversdeginum inní „tíma og rými“ þar sem við ættum að vera opnari fyrir hinu óvænta eða frábrugðna; í ljósi þess að við tengjum okkur við þennan gjörning til að upplifa mögulega „annað svið tilverunnar“ og sjá tilveru okkar í fullkomnara ljósi.
Þessir „leikarar“ eru kallaðir ýmsum nöfnum í gegnum mannkynsöguna; shamaninn er einhverskonar proto-týpa en síðan má nefna miðla og aðra galdrapresta, nornir, völvur og fórnarpresta (sacerdotes) úr sögu fjölgyðistrúarbragðaskeiðs mannkyns; fólk með sérstakt hlutverk, frátekið óvenjulegt fólk sem bjó (og býr) yfir sérstökum hæfileikum til að „ná sambandi“ við annað og ósýnilegt svið tilverunnar og jafnvel lækna eða heila meinsemdir þess samfélags sem það tilheyrir með einhverjum aðferðum sem eru „venjulegu fólki“ óskiljanlegar að mestu leyti. Hofgyðjur, prestynjur og spámenn, auk þeirrar „embættismannalegu stéttar“ presta sem við þekkjum úr sögu eingyðistrúarbragða (fræðarar og fulltrúar trúarstofnana) mætti nefna – svo við höfum vítt svið undir – til að litrófið frá shamaninum til lúterskra biskupa sé spannað; en punkturinn er þessi: Almennt er einhverskonar milliliður í „hlutverki“ sem sér um það að hið andlega og hið veraldlega skarist ekki og komi þannig óreglu á hið kosmíska jafnvægi á hverjum tíma.
Messa – eða sambærilegar athafnir – er frátekin tími þar sem „sambandi er komið á“ á heilögum stað og upplýsingum er miðlað á milli sviða; fræðsla (tákn, reglur, skilaboð) er þegin frá æðra afli (Guði/guðum) og í staðinn færðar fram óskir/bænir og fórnir. Þetta kerfi er mjög einfalt, í grunninn algilt þó mikill munur geti verið á því sem er tekið við/fært fram og hin fjölmörgu trúarbrögð eða form átrúnaðar sem mannkynsagan geymir, bera vitni hugmyndum og þekkingu hvers tíma að einhverju leyti. Það sem er grundvallaratriði að mínu viti er að skilja þróun þessa fyrirbæris og táknheims þess áður en maður tranar sér fram á svið til að messa yfir fólki um það hvort eitt sé betra en annað, hvernig þetta ætti frekar að vera og/eða ef maður ætlar að „skapa þessa stund“ þá verði maður að vita í hvorn fótinn maður ætlar að stíga, ef svo má segja, að leysa upp eða binda saman. Skapa reglu eða glundroða. Og vilji maður bæði – eða afbyggja þessi hugtök – þá beri verkfærakistan keim af því að hin þaulreyndu tól trúarbragðasögunnar hafi verið skoðuð, ígrunduð og endursköpuð þannig að þau þrýsti á þá snertifleti í mannssálinni sem fyrir hendi eru; bæði vegna vísindalega sannaðra DNA-erfðavirkniþátta og félagslegrar skilyrðingar menningar okkar og táknheims.
Ef mann langar til að gerast gáfulegur má vel greina þessa sýningu og finna hliðstæður við táknheima og trúarbrögð; kannski er hún óður til dulda og hvata og sköpunarkrafts í grunninn – en gleymum því um leið ekki, að öll trúarbrögð eru óður til þess mysteriums og hinnar yfirskilvitlegu uppljómunar sem saga mannsandans sýnir að við komumst í tæri við á öllum tímum með einhverjum hætti. Formin eru mörg – og innan sumra þeirra er útrásin og hin óhefta sköpun einmitt markmið; losun á spennu sem hefur verið þrýst undir yfirborð einhvers samfélagslegs ramma. Dýrkun guðsins Pan er dæmi um þetta – og innan fjölgyðistrúarbragða er alltaf einhver hress og hamslaus Loki sem hefur það hlutverk að snúa öllu á hvolf. Brjóta upp form og hrista upp í heimsmyndinni. Frelsa okkur úr norminu.
Athafnir tengdum slíkum goðmögnum höfðu takmarkað form, enda krafturinn og sköpunin, æðið sjálft, inntak þeirra og markmiðið einhverskonar hreinsun og útrás í senn. Kannski staðfesting á samþykki takmarkaðs og lokaðs hóps á að „gerandinn“ væri samt í lagi.
Þegar ballið var búið var „guðinn“ samt búinn að rústa öllu; drekka allt, ríða öllum, brjóta allar reglurnar. Og gat þá orðið einhverskonar manneskja aftur þangað til á næsta fulla tungli.
Það eru reglur. Það er eitthvað sem er forboðið og það er búblan. Fílabeinsturninn og jarðhýsið, launhelgarnar og hin opinberi átrúnaður. Það er listin og kirkjan; listin í kirkjunni og kirkjan í listinni – menningarhofin og æðstuprestarnir – og órjúfanleg samleið trúarbragða og sköpunar, valds og borgarmenningar. Það er samþykkt forsenda dagsins í dag að listin prédikar um manninn og andleg iðkun á heima í liststofnunum, þar er samtíminn túlkaður. Kirkjan er þjónustustofnun sem á að hafa sig hæga og æmtir bara eitthvað um einhvern Jahve í óþökk vitsmunaaflanna; skynsemisveranna – þeirra sem hafa höndlað logosið.
Það er til lítils að ætla þessum pistli að snúa þeim meginstraumi eða skýra víðara samhengi inntaks eingyðistrúarbragðanna og öll þau tímamót sem orðið hafa í sögu mannsandans og á vegferð trúarbragðanna. Við stefnum afturábak til sjálfstæðis til upprunans til eilífðar. Því endirinn er nær og línulegum tíma sleppir bráðlega – eða um leið og hann bítur í skottið á sér. Þetta er ekki fræðslupistill um andsvör guðfræðinnar við oflæti listarinnar. Þetta snýst ekki um að benda bezzerwisserum á eitthvað með besservisserískum hætti. Það væri eins og að prédika Jesús Krist dauðan og upprisinn á Páskum og það væri nú ólógían sjálf.
Að endingu vil ég bara segja: Grunnhugsunin er góð og ég kann að meta hana. Sækið leikhús, kirkjur, lesti og drífið ykkur á hlaupabrettið. Skapið og eyðið og eyðið skapinu í eitthvað uppbyggilegt og hugvíkkandi. Ekki burðast endalaust með fyrirframgefnar hugmyndir. Ég hef alltaf haft dálæti á indversku gyðjunni Kali, eða Kali-Ma, táknmynd sköpunarkrafts og eyðingar. Hún er svo skýr mynd af þessum eiginleika í mannsálinni. Að skapa er að byggja eitthvað nýtt, bræða saman, flæða – það er hættulegur leikur og heillandi – og ef maður hefur ekki stjórn á honum; ef hann verður óheftur máttur, þá tekur hann allt vald yfir öðrum sviðum; maður missir dómgreindina, maður skapar yfir það sem skapað var, maður skapar yfir sig, hið skapaða verður óskiljanlegt; það verður ekki lengur hægt að miðla því og það eyðist í höndum manns; hið nýja verður svo heitt að það brennur, bráðnar saman í myndleysu, flæði lita verður að jarðlitri drullu í stað þess að endurspegla himininn. Það fer allt í mess. Og þessvegna höfum við söguna af því að það sé mikilvægt að stoppa sig af, hvílast á sjöunda degi og líta yfir sköpun sína og segja „þetta er harla gott.“ Hún er góð.
Það er messa í þeirri sögu, þeirri sögn; það er brennifórn – og hún stígur ilmandi til himins.