Hún langamma mín er bara byrjuð að ríða [1]

Um sjötíu og níu blaðsíðna skáldsöguna Tvöfalt gler eftir Halldóru Thoroddsen (1950) sem Sæmundur á Selfossi gaf út 2016 en var frumútgefin í tímaritröðinni 1005 árið 2015. Önnur verk Halldóru sem komið hafa út eru ljóðabækurnar Stofuljóð (1990), Hárfínar athugasemdir (1998) og Gangandi vegfarandi (2005) auk örsagnasafnsins 90 sýni úr minni mínu (2002). Var þessum verkum nokkuð vel tekið. Tvöföldu gleri var og vel tekið og það ekki að óskekju. Hlaut verkið Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, árið 2016.

I: Ellikerling bankar á dyrnar

Allt eins og blómstrið eina
upp vex á sléttri grund
fagurt með frjóvgun hreina
fyrst um dags morgunstund,
á snöggu augabragði
af skorið verður fljótt,
lit og blöð niður lagði, –
líf mannlegt endar skjótt.

(„Allt eins og blómstrið eina“ eftir Hallgrím Pétursson)

„Ó! Reykjavík, ó! Reykjavík með gamalmennum, staflað eins og sardínum á elliheimilum“ skrifaði skáldkonan Didda og hljómsveitin Vonbrigði flutti við ræflarokkslagið „Ó, Reykjavík, ó Reykjavík.“ Vita það þær sem komnar eru til vits og ára. Skáldkonan sjálf er nú fimmtíu og tveggja ára. Verður hún fimmtíu og þriggja ára á þessu herrans ári. Pönkarar eldast líka og áður en við vitum af mun Dead Kennedys, Purrkur Pillnikk og Crass hljóma á elliheimilum landsins. Pönkarar eru og auðvitað byrjaðir að deyja eins og aðrir, „því eitt sinn verða allir menn að deyja“, eins og Vilhjálmur Vilhjálmsson söng eitt sinn án þess að geta séð fyrir að hann myndi deyja í bílslysi í Lúxemborg árið 1978, þrjátíu og þriggja ára að aldri, og að lagið myndi síðar meir fylgja Íslendingum til grafar og þannig sumpart taka við af „Allt eins og blómstrið eina.“

Þetta kemur þó umfjöllunarefni þessa pistils ekki beinlínis við. Sagan sem er til umfjöllunar tekur þó, meðal annars, á ellinni. Fólk fellur einnig fyrir ljánum í henni (bls. 8).

II: Konan bakvið tvöfalda glerið

Sagan skiptist í fjóra hluta og hefst hver hluti að hausti. Ef útreikningar standast hefst sagan á „mesta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar“ (bls. 7) haustið 2005 og endar haustið 2008. Sögusviðið er Reykjavík þótt afturlit aðalpersónunnar flytji vettvanginn á aðra staði og aðra tíma. Til dæmis til Parísar þar sem söguhetjan lagði stund á heimspeki og stærðfræði.

Sagt er frá konu sem líkast til er fædd árið 1927 eða 1928. Í fyrsta hluta er hún  sjötíu og átta ára. Býr hún við Lindargötu í Reykjavík í nágrenni barnaheimilis. Konan, sem „tíminn hefur nagað“ (bls. 9) er komin í þá stöðu að vera fremur áhorfandi að lífinu en þátttakandi. Maður hennar, Guðjón, hefir sagt skilið við jarðtilvistina. Hún horfir á lífið og tilveruna fyrir utan gluggann, „talar oft við útvarpstækið“ (bls. 7) og „reglusemin er [henni] fyrir öllu.“ (bls. 6) „Bein reynsla verður minni, hjartsláttur hægist, lífið fer hraðar hjá.“ (bls. 10) Vinir hennar eru smám saman að týna tölunni. Og þó að hún eigi það til að eyða tíma með „sonum og fylgifiskum“ (bls. 11) er hún oftlega ein.

En síðan bregður svo við að á blaðsíðu tuttugu kynnist hún Sverri. Hann er sjötíu og fimm ára fyrrum skurðlæknir. Þrátt fyrir nálægð við grafarbakkann fella þau smám saman hugi saman. Þau ganga þar af leiðandi gegn því hugarfari að karlar og kerlingar eigi ekki að hafa ást á öðru en barnabörnum og afstöðu sem sér ekki fyrir sér „krumpuð og þurr gamalmenni að riðlast hvort á öðru með aðstoð sleipiefna.“ (bls. 52) En það er ekki nóg með það heldur hafa þau í hyggju að eyða restinni af ellinni í elliblokk. Ættingjum og vinum hugnast þessi ráðagerð misvel enda eiga „[á]stfangnir gamlingjar […] það til að eyða í lystisemdir og gleyma höfuðskyldu sinni í genabaráttunni að tryggja kyni sínu framgang.“ (bls. 52)

III: „Tíminn […] vill að það sama verði alltaf nýtt“ (bls. 11)

Sagan inniheldur ekki neonljós eða flugeldasýningu. Hún er hvunndagsleg eins og önnur verk Halldóru. Þótt sú sé raunin er henni ekki alls varnað. Fyrir það fyrsta er búningurinn sem þessi einfalda saga er sett í vel lukkaður og nær að setja vel kunnuga hluti í áhugavert form; slíta þá upp úr uppþornuðum farvegi. Stíllinn er knappur og myndrænn og sver sig í ætt við ljóð. Og eins og kann að vera raunin hvað ljóð áhrærir auðnast hér að segja mikið með fáum orðum.

Geta í því samhengi skapast hugrenningatengsl við önnur frambærileg verk þar sem söguhetjurnar eru komnar af léttasta skeiði. Sögur sem á yfirborðinu segja einfalda sögu en vísa út fyrir sig. Er því ekki úr vegi að minnast á Börn náttúrunnar (1991) eftir Friðrik Þór Friðriksson og þýsku kvikmyndina Wolke 9 (2008) eftir Andreas Dresen. Báðar þessar bíómyndir fjalla um gamalmenni sem synda gegn straumnum og neita að samþykkja þann stað sem samfélagið ætlar þeim. Stað sem rúmar ekki ástarsambönd og í samfélagi sem hefur „afmarkað dauðanum bás utan alfaraleiðar.“ (bls. 54) Þess má til gamans geta að Wolke 9 inniheldur nokkuð grafískar ástarsenur.

Bosníski rithöfundurinn Meša Selimović (1910-1982) lætur sögupersónu sína, Ahmed Nurudin, á einum stað í skáldsögunni Dervis og dauðinn (Dervis i smrt frá árinu 1966) segja „Ég er fjörutíu ára að aldri, hræðilegur aldur – nógu ungur til að dreyma en of gamall til að láta draumana rætast.“ Ekki er óhugsandi að sumpart megi heimfæra það upp á vor hrukkudýr. Líklega eru ófáir ellismellirnir bundnir á klafa viðlíka þankagangs og festast því bakvið gluggann og verða áhorfendur a‘ lífinu.

Slík verða örlög söguhetjunnar sem var á undan sinni samtíð og storkaði kynjahlutverkunum 1950 í Kaupmannahöfn.

Á kvöldin fóru stúlkurnar fyrr í rúmið til að leyfa strákunum að spjalla um bókmenntir, listir og póitík. […] Hún gerði uppsteyt þá, fór ekki í rúmið, sat hjá strákunum. Fann þó óvildina og undrunina í loftinu. (bls. 15)

Hún er komin á stað þar sem „allir [eru] að breyta veröldinni. [En] [h]ún situr hjá, við gluggann“ (bls. 63) og þekkir fólk sem er bara til í minni hennar (bls. 19) og „getur einungis gengist við brotabroti af lífi sínu, stöku vörðum.“ (bls. 62). Sú gamla man tímana tvenna, hefir upplifað breytingar tuttugustu aldarinnar auk stafrænar byltingar nútímans. Hún sér hvernig allt gengur aftur og sér hlutina endurtaka sig en hugsar sem svo að „[s]em betur fer halda þau að mannkynssagan hefjist með þeim, að það sem liðið er hafi bara verið miskilningur.“ (bls. 14)

Sagan spyr engra beinna spurninga en ef hún gerði það þá mætti forma þær á þennan máta: Hvert er hlutverk gamalmenna í nútímanum? Eiga gamalmenni eitthvað með að haga sér eins og ástfangin ungmenni? Er kynlíf þeirra tabú? Stendur aldurinn í vegi fyrir því að skapa nýjar minningar? Á eldra fólk að orna sér við afturlit og barnabörn? Er raunsætt hlutskipti gamalmenna í samfélaginu að þau bíði eftir dauðanum?

IV: Hold er mold hverju sem það klæðist

þó af þér skíni útlensk draktin

yfirlætis og visku praktin

trú þú mér að minnkar maktin

af möðkunum þá snæðist

hold er mold hverju sem það klæðist.

(þetta er eitt af erindum „Hvörsu fánýt að fordildin“ eins og það birtist á geislaplötu Megasar og Senuþjófana, Hold er mold frá árinu 2007. Hallgrímur Pétursson orti.)

Eins og sómasamlegra sagna er siður þá má lesa ýmislegt í Tvöfalt gler. Og þar sem sagan gerist á útrásarvíkingatímbilinu er vissulega tekið á því með tilheyrandi áherslum á heimsósóma og doða nútímalífsins sem er búinn að gleyma sér í merkjavörukapphlaupi svo og að „[u]nglingar og gamalmenni gætu talað saman en nútíminn býður ekki upp á mikinn samgang milli kynslóða. (bls. 12) Það er vissulega hægt að gera því skóna að verkið taki á samfélagsbreytingum og kristallast umhyggja fyrir framtíðinni í þönkum gömlu konunnar.

Tvöfalt gler er margslungið verk um ástríður, samfélagsbreytingar, eftirsókn eftir vindi, allt endurtekur sig og síðast en ekki síst að allir menn deyja en að óþarfi sé að vera dauður úr öllum æðum fyrr en hold byrjar að verða mold.

Það mætti skrifa meira um þessa stuttu bók en þetta skal látið nægja.