Hold Your Own, ljóðabókin eftir Kate Tempest, sem best er þekkt úr bresku rappsenunni, er merkileg fyrir margar sakir. Þar er tekist á við allmargt, með bakland í klassík, í mýtum. Rauði þráðurinn í gegnum bókina er sagan af Tiresiasi, stráki sem sér snáka í skóginum eðla sig, stíar þeim í sundur og breytist í stelpu. Hann, nú hún, yfirgefur sitt fyrra líf og lifir heila ævi sem kona en heldur aftur á heimaslóðir þegar hún finnur ástina. Á sama stað sér hún snáka á ný og breytist aftur í mann og tapar þar með lífi sínu eins og hún þekkir það, rétt eins og í fyrra skiptið.
Guðirnir Zeus og Hera æpa sig hása í rifrildi um hvort þeirra fær meira út úr kynlífi þeirra. Hann vill meina hún og hún er sannfærð um að það sé hann. Þar sem Tiresias hefur upplifað verknaðinn bæði sem kona og karl er hann kallaður á fund þeirra til að dæma úr málinu. Hann segir að konur njóti kynlífs meira og fyrir þann dóm stingur Hera úr honum augun. Zeus er sorrí að Tiresias hafi verið svo illa leikinn af konunni og gefur honum sjö mannsaldra á jörðinni og innsýn spámanns. Það er í því hlutverki, sem spámaður, sem bæði Sófókles og Euripides nota Tiresias í verkum sínum.
Tempest notar hugmyndina um uppgötvun sjálfsins í gegnum kynskipti sem mót fyrir ljóð sín. Í fyrsta kaflanum, Childhood, eða Bernska fær lesandinn innsýn hugmyndar skáldsins um bernsku annarra og minningar af hennar eigin. Missir sakleysis, innreið kynvitundarinnar og hvernig það er að vaxa úr grasi í kvenmannslíkama, án þess að finnast maður passa sérstaklega í það mót, finna ástina og tapa henni eru auðveldlega heimfærð upp á eigin upplifanir lesandans. Sértækari eru lýsingar hennar af því að finna ljóðlistina og fá þar með aðgang að karllægum heimi þar sem virðing er áunnin og sjálfið er augljóslega mótað í gegnum tungumálið og takt. Ljóðin eru hrá, hafa hraða hrynjandi. Þau stökkva af síðunni með krafti þess sem er skrifað af brennandi þrá, þrá til að vera skilin, til að gefa af sér skilning til annarra sem upplifa sig misskilda og til að gera upp eitthvað satt, eitthvað sárt. Stílinn er drifinn áfram af drynjandi rími og skilar af sér tilfinningu fyrir stórborg, þar sem lestarteinarnir gefa lífinu aggressívan takt.
Womanhood, eða Kvenleiki, annar kafli bókarinnar, skoðar kynskiptin sem myndlíkingu fyrir breytingar frá barni til fullvaxta einstaklings. Hve mörgum sinnum þarftu að uppgötva sjálfið? virðist vera grunnspurning í þessum hluta og svarið er sársaukafullt. Oftar en þig langar. Hver uppgötvun er til þess fallin að renna þér úr greipum í hvert sinn sem þú vext eða missir og allt virðist vera breytingum háð. Hér er þó reynt að gera upp hvað er áunnið með þessum missi, þessum breytingum, hvað er gott við það að vaxa úr grasi. Losti spilar þar stóra rullu. Lesandinn er skilin eftir með spurningar varðandi uppvöxt Tempest, hvernig hennar sjálf er speglað í sögu Tiresiasar, hvað henni fannst verst við að vakna einn daginn kona.
Manhood, eða Karlmennska, þriðji kaflinn, er einhverskonar samansafn af þeim lexíum sem lífið hefur gefið sögumanni Tempest/Tiresiasi auk þess að lýsa leitinni að samastað. Seinasti kaflinn, Blind Profit,(skemmtilegur leikur að orðum þar, ekki blindi spámaðurinn heldur blindur gróði) gefur skáldinu lausan tauminn til að taka fyrir hin ýmsu samfélagsmein. Íraksstríðið, trúarbrögð, kapitalismi, græðgi, spilling, raunveruleikasjónvarp og símaofnotkun eru öll tekin á teppið og afleiðingarnar, doði, ótti og vonleysi skoðuð. Allt er þetta sett fram með ofsa, Tempest er mikið niðrifyrir og hefur mikla næmni fyrir að lýsa mannlífi og stemmingu 2014. Spádómurinn? Útlitið er helviti svart ef ekkert er að gert. Spámaðurinn er fullur, þreyttur á mannkyninu og því að þvælast um göturnar með augun sín í poka.
Sem heild er bókin mjög áhrifarík, hægt er að finna sjálfið margoft á síðunum og þess á milli finna hvernig ólgan byggist upp, reiðin kraumar og óréttlæti heimsins öskrar af síðunum, svo ótrúlega augljóslega, sérstaklega með sjónarmið af bresku samfélagi.
Sem dæmi, úr School (s. 34)
We´ll learn to never think but copy blindly.
To ally with the mean and keep them near.
We´ll learn to not be talented or clever,
and the most important lessons
for success in a career:
How to follow orders when you´re bordering
on nausea and your bored and
insecure and dwarfed by fear.
Kate Tempest er ekki bara rappari, hún er þjóðskáld sem augljóslega gæti verið að tala til hvaða vestræna samfélags sem er.