Kómedíuleikhúsið á Ísafirði, atvinnuleikhús Vestfjarða, hefur undanfarnar vikur verið í heimsókn í Þjóðleikhúsinu. Minnsta og fámennasta leikhús landsins drap semsé á dyr þess virðulegasta leikhúss sem við eigum og sýndi þar Gísla á Uppsölum, leiksýningu sem Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson hafa samið og byggja textann að langmestu leyti á rituðu máli sem fannst að Gísla Oktavíusi Gíslasyni látnum, en hann hafði alla ævi sína átt heima á sama stað og í sama bæ á Uppsölum í Selárdal yst að sunnanverðu við Arnarfjörð. Orðin í sýningunni sækja þeir Elfar Logi og Þröstur Leó þannig til Gísla sjálfs en skipta þannig með sér verkum að Elfar Logi leikur Gísla en Þröstur Leó leikstýrir.
Gullin jörð og dimmrauður grunnur leiksýningar
Snemma vors, líklega í aprílmánuði, göngum við fjögur fullorðin og tvö börn yfir móa í Selárdal og stefnum í átt að bænum Uppsölum. Mér er ekki alveg rótt því þótt ég hafi látið til leiðast að heimsækja einbúann þar, þann hinn sama og einleikur Kómedíuleikhússins fjallar um, finnst mér eins og við séum að forvitnast um mann sem okkur kemur lítið við og fullorðnar manneskjur ættu að sjá sóma sinn í að láta í friði.
Jörð er snjólaus þennan dag og hefur verið um nokkra hríð svo stráin í dalnum sem Gísli Oktavíus hefur haft fyrir augum hvern vordag sem hann hefur lifað eru með þeim gullna jarðarblæ sem vorsólin kallar ár hvert fram í ásýnd þeirra. Álengdar sjáum við að Gísli hefur orðið var ferða okkar og bíður átekta við bæ sinn. Skotið er á stuttum fundi í ferðanefndinni og vilja sumir hætta við að ganga alla leið í þessari sjálfboðnu heimsókn til einbúans. Mér finnst þá með öllu ótækt að hörfa af hólmi því að það væri nánast viðurkenning á því að við værum bara eins og hverjir aðrir krakkaasnar sem hefðum ætlað að gera at í saklausum manni. Svo ég geng hægum skrefum á undan hópnum áleiðis til fundar við Gísla. Hann heilsar mér afar rósamur á svip og þegar allir í þessum leiðangri eru komnir heim á hlað á Uppsölum býður bóndinn þar okkur í bæinn. Við setjumst inn í baðstofuna hans með orgelinu, hann spilar svolítið fyrir okkur á þetta hljóðfæri sitt og andlegan förunaut á lífsbrautinni. Svo býður hann okkur kaffi sem sum okkar þiggja. Ég verð Gísla á Uppsölum ævinlega þakklátur fyrir móttökurnar. Sál hans og andi voru svo augljóslega miklu þroskaðri en okkar gestanna sem þó höfðum öll gengið í einhverja skóla og sum meira að segja í útlöndum þangað sem hann aldrei kom þótt hugur hans hafi staðið til slíkra menntandi ferðalaga.
Þessi minning um heimsóknina að Uppsölum fyrir bráðum fjörutíu árum kviknaði aftur og aftur ljóslifandi í huga mér meðan ég horfði á Elfar Loga leika Gísla á Uppsölum í Kúlunni en svo kallar Þjóðleikhúsið sinn minnsta sýningarsal sem undanfarin ár hefur einkum hýst sýningar ætlaðar börnum. Og þetta kvöld urðum við öll sem þarna sátum á ný einhvers konar börn af því tagi sem Jesús sagði að boðin yrðu velkomin í guðsríki. Við tókum á móti leiksýningu Elfars Loga og Þrastar Leós eins og börn sem þó hafa til að bera nokkra reynslu fullorðinsára og vonandi einhvers konar þroska því samfara.
Gísli á Uppsölum er ekki margbrotin sýning í ytra útliti. Fáeinir en nostursamlega valdir munir skapa ramma og umhverfi um leikinn og á baktjaldinu hanga tvær litlar myndir. Önnur þeirra reyndist vera ljósmynd af móður Gísla en mér sýndist að hin væri af íkonaætt og myndefnið vera María guðsmóðir með barnið. Búningur Elfars Loga var eins og best varð á kosið og minnti sannfærandi á fyrirmyndina, klæðnað Gísla á Uppsölum, án þess þó að líkja of mikið eftir honum. Í annars vandaðri leikskrá Kómedíuleikhússins fann ég hvergi upplýsingar um höfund leikmyndar og búninga en þar er lýsingameistarans, Magnúsar Arnars Sigurðssonar, getið. Lýsing hans kórónaði einfaldleikann sem er aðalsmerki sýningarinnar og undirstrikaði um leið djúpa undiröldu efnisins með því dimmrauða ljósi sem féll á neðri hluta leikmyndarinnar og umbreytti oft búningi leikarans á áhrifaríkan hátt þegar hann hreyfði sig um leiksviðið.
Ástin – Die Liebe
Allt væri þetta þó umbúnaður einn ef Elfar Logi færi ekki með hlutverk Gísla á Uppsölum á svo tilgerðarlausan og trúverðugan hátt að unun var að verða vitni að túlkun hans. Oft hreif sýningin mig mest þegar Gísli bara þagði og hreyfði sig ofurhægt um sviðið með þeim sérkennum í göngulagi og limaburði öllum sem Elfar Logi beitti í túlkun sinni. Öll atriði sýningarinnar voru eftir sem áður gædd sterku innra lífi og leikarinn brá sér léttilega á milli ólíkra æviskeiða Gísla á Uppsölum. Leiksýningin sem hann horfði á ungur og ástarjátningin á þýskri tungu voru eins og slípaðar perlur í meðferð Elfars Loga. Ich liebe dich, segir Gísli á þýsku við bóndann í sveitinni hvers tengdasonur hann vill verða og lætur þess um leið getið að hann hafi jú leitast við að fóta sig í því tungumáli með aðstoð tungumálakennslu útvarpsins.
En þrátt fyrir menntaþrá biðilsins og einlægan hug hans á því að þau Fljóða feti lífsstíginn saman neitar hún honum og eftir það hryggbrot mótast ævi Gísla af stöðugt meiri einveru. Hann hefur reyndar frá blautu barnsbeini átt erfitt uppdráttar í samfélagi manna og orðið fyrir aðkasti jafnaldra frá því að hann man eftir sér, einkum fyrir þá sök að eitthvað er öðruvísi í framburði hans á mæltu máli en gerist og gengur. Mér fannst að næstum öll hin einstaka ævisaga Gísla á Uppsölum birtist í sýningu Kómedíuleikhússins þótt vissulega væri hún sögð með því að bregða upp myndbrotum úr lífi hans. Sýningin hrífur jafnt tilfinningalega og vitsmunalega og göfgar hvort tveggja, hræringar í sál og anda og starfsemi hugarins. Þetta gerir hún vegna þess hve hún er yfirlætislaus og unnin af sannri þrá listamanna til þess að skapa listaverk.
Fegurð leikslokanna
Í leikskránni sem áður er nefnd er að finna handrit að sýningunni. Ég ákvað að lesa það ekki áður en ég fór að sjá Gísla á Uppsölum í Kúlunni. Því varð ég feginn vegna þess að hefði ég haft ákveðna hugmynd um það fyrirfram hvernig sýningunni myndi ljúka er trúlegt að sú snilldarlega lokamynd sem þar er sett á svið hefði ekki orðið mér jafnauðug reynsla og raunin varð.
Sýningin á Gísla á Uppsölum er samin og samsett af trúmennsku og ást á viðfangsefninu, auk mikillar þekkingu og reynslu leikara og leikstjóra á list leikarans og þeim einföldu miðlum leikhússins sem oft verða áhrifamestir. Þess vegna er hún sjálfstætt listaverk þótt jafnframt sé hún óður til þess manns hverrar ævi hún byggir á og orðinn var næstum helgur maður áður en yfir lauk. Þannig mæltist að minnsta kosti lækninum sem annaðist Gísla síðustu æviár hans og flutti hann á sjúkrahúsið á Patreksfirði á Þorláksmessu árið 1986. Jósef Blöndal heitir þessi læknir og steig á svið með Elfari Loga að lokinni þeirri sýningu sem ég sá. Öll frásögn Jósefs af kynnum sínum af Gísla einkenndist af djúpri virðingu fyrir honum og þakklæti fyrir að hafa hitt hann fyrir á sínum læknisferli.
Það tók lækninn og bifreiðastjóra sjúkrabílsins sjö klukkustundir að komast frá Uppsölum í Selárdal og á sjúkrahúsið á Patreksfirði – sem þó mun ekki vera nema í kringum 50 kílómetra vegalengd. Þungur bíllinn festist í læk sem fellur um Selárdal svo kalla varð á mannskap og tæki til þess að ná honum upp, aurskriður féllu á veginn sem fara varð um og kannski kom eitthvað enn fleira fyrir sem tafði för með sjúklinginn sem þurfti aðhlynningar við. Jósef túlkaði þetta svo að sveitin hefði viljað halda í sinn mann og er ugglaust rétt en jafnframt má hér sjá náttúruna alla taka þátt í því að kveðja mann sem lifði í svo nánu samlífi við hana alla sína ævi að næstum einstakt er. Kannski er það tilviljun að Gísli kveður þennan heim nær vetrarsólhvörfum og áður en nýtt ár rennur upp, en hann lést á sjúkrahúsinu á Patreksfirði á gamlársdag 1986. En sé það tilviljun ein að dauða Gísla ber að höndum í þann mund að sól fer að hækka á lofti á norðurhveli þá er það að minnsta kosti fögur tilviljun.
Fegurð sýningar Kómedíuleikhússins á Gísla á Uppsölum er hins vegar engin tilviljun. Hún er þrauthugsuð og þaulunnin.
Ástin – L’amour
Gísli Oktavíus Gíslason á Uppsölum átti svo sem kunnugt er ekki neinn einkarétt á ástarsorginni, enda má leiða að því líkur að fá efni önnur en kannski píslir Krists og þjáningar píslarvotta hans hafi jafnoft og á eins fjölbreyttan hátt verið tjáð í listum Vesturlanda og ástarsorgin.
La voix humaine, einleikur fyrir kvenrödd eftir Jean Cocteau og ópera byggð á því verki eftir Francis Poulenc, fjalla einmitt um ástarsorgina og eru grundvöllurinn að sýningu Íslensku óperunnar á Mannsröddinni í Kaldalóni í Hörpu sem var frumsýnd 11. febrúar. Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona hefur vafið verkin tvö saman í eina sýningu sem hún leikstýrir sjálf. Óperan og leikritið spegla augljóslega hvort annað í þessari sýningu; Auður Gunnarsdóttir syngur óperutextann á frönsku en Elva Ósk Ólafsdóttir fer með hann í íslenskri þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar; og Eva Þyrí Hilmarsdóttir leikur píanóútsetningu tónlistarinnar – en Poulenc skrifaði músíkina upphaflega fyrir hljómsveit og gaman hefði verið að heyra fleiri hljóðfæri óma á sviðinu í Kaldalóni en slaghörpuna eina þótt einkar vel sé á hana leikið.
Mannsröddin í Kaldalóni er fremur áferðarfalleg sýning. Flest í leikmynd og búningum Helgu I. Stefánsdóttur er hvítt – þótt ýmis litbrigði bætist þar við í lýsingu Pálma Jónssonar og myndbandsívafi Elmars Þórarinssonar í leikmyndina og stöku leikmunum. Mestur styrkur sýningarinnar felst samt í því hve góðir listamenn eru á sviðinu – þær Auður, Elva Ósk og Eva Þyrí gæða Mannsröddina því lífi sem hún hefur á sviðinu í Kaldalóni.
Leikrit Cocteau er eintal konu sem eftir fimm ára samband við elskhuga sinn sér á bak honum því hann er nýbúinn að segja henni upp og er daginn eftir að hún á við hann símtalið í Mannsröddinni að fara að giftast annarri konu. Það er lítið vit í því að reyna að halda í þetta samband en Hún – eins og þessi persóna er nefnd – gerir eigi að síður örvæntingarfulla tilraun til þess að missa hann ekki alveg með því að halda honum í símanum og leggjast býsna lágt í því að reyna að hafa áhrif á líf hans þrátt fyrir sambandsslitin.
Poulenc semur við þennan texta tónlist þar sem söngurinn minnir stundum býsna mikið á söngles – eða resítatív – sem aftur minnir dálítið á það hvernig mannsröddin hljómar í tali hversdags, ásta og ástarsorgar. Það er töluvert um þagnir í músíkinni þegar frá hendi Poulenc – og endurtekningar – en hvort tveggja gerir það auðveldara fyrir Brynhildi að nálgast ætlunarverk sitt að sameina í einni sýningu þessi tvö verk– einleik Cocteau og óperu Poulenc. Þetta tókst að mörgu leyti vel af því hve góðir flytjendur tónlistar og texta eru en eftir sem áður voru allnokkrir veikleikar í sviðsetningunni á þessu einfalda en sára angistarverki.
Slagharpan er hjartað
Í leikskrá sýningarinnar segir Brynhildur: „Við hittum Elle fyrir á þriðja degi djúprar ástarsorgar. Ágeng upphafstónlist Poulenc setur ólguna af stað og í klukkustund fylgjumst við með Elle engjast af sársauka þar sem hún á síðasta samtalið við ….“ Í mínum eyrum hljómaði tónlist Poulenc úr slaghörpunni í Kaldalóni ekki bara þannig að hún setti ólgu ástarsorgarinnar af stað og fylgdi henni eftir í klukkutíma. Ef einhvers staðar var að finna miðkontrapunkt og hjarta og í þessu konsepti þá var það í píanótónunum sem tengja söngkonuna og leikkonuna og gagnast best til að gera þær að einni og sömu konunni, Henni. Flygillinn er hins vegar staðsettur lengst til vinstri á sviðinu [úr sal séð] og þótt fyrirferðarmikill sé verður hann fyrir sök þeirrar staðsetningar svolítið útundan í heildarmyndinni sem áhorfendur sjá. Þetta minnti líka mjög á hefðbunda uppstillingu fyrir einsöngstónleika með píanómeðleik – og var fjarska lítið leikhúslegt. Og píanóleikarann sá ég ekki nema með því að teygja mig yfir fólkið á bekknum fyrir framan mig. Slagharpan er hin sláandi æð þessa nýja verks, samruna óperu og leikrits, og knýr það áfram. Þessa hefðum við áhorfendur átt að fá að njóta með því að hafa flygilinn miðlægan í myndinni sem fyrir augu bar og leyfa okkur um leið að sjá almennilega hljóðfæraleikarann sem sló slaghörpuna svona listilega.
Staðsetning flygilsins lengst til vinstri á sviðinu gerði það líka að verkum að aksjónin leitaði öll í þá átt og sviðið hægra megin var afar lítið notað. Það var mikill léttir og fagnaðarauki þegar Auður Gunnarsdóttir stóð þar stöku sinnum og sendi okkur þaðan sinn hárnákvæma og hjartaskerandi söng. Framan af sýningunni bar mikið á því að lýsingunni var ábótavant. Þaðan sem ég sat á tíunda bekk sáust augu söng- og leikkonu hreint ekki og birtust bara eins og myrkar tóftir. Ég hélt fyrst þetta væri bara tæknivandamál en þegar á leið sýninguna urðu augu Auðar og Elvu Óskar, þessi mikilvægu tjáningartæki sviðslistamannsins, vel sýnileg. Og um leið lyftist söngur þeirra og leikur upp á annað plan fyrir áhorfandann. Ekki svo að skilja að Auður og Elva Ósk færu að syngja og leika svona miklu betur en áður; þær áttu bara greiðari leið inn í hjarta okkar í salnum af því að við sáum sorgina í augum þeirra, einkum þó Auðar.
Fjöllyndi og franskur settleiki
Cocteau og Poulenc voru báðir samkynhneigðir og auk þess vinir hvort sem samband þeirra var einhvern tímann erótískt eða ekki. Cocteau skrifaði Mannsröddina seint á þriðja áratug síðustu aldar þegar hann var enn í fráhvarfi frá ópíumneyslu eftir að hafa farið í meðferð við þeirri fíkn. Að hann skuli hafa ljáð kvenrödd orð sín til að tjá angistina er kannski tímanna tákn því að þrátt fyrir ákveðið frjálslyndi í ástamálum þá þoldi líklega hinn borgaralegi franski heimur þessara ára ekki að ástir karlmanna og sambandsslit væru höfð að viðfangsefni í leikhúsi. Fágað yfirborð franskrar borgaramenningar með fjöllyndri erótík rétt þar undir er mjög greinilegur bakgrunnur leikrits Cocteau og þessi efni eru iðulega að baki textanum sem Elva Ósk flytur – og getur vel verið að hið sama eigi við um tónlist Poulenc en um það treysti ég mér ekki að dæma. Þetta fer hins vegar dálítið forgörðum í sviðsetningunni sem var óþarflega endurtekningasöm og afar einlit.
Mestu skiptir þó held ég að túlkun leikstjórans á Mannsröddinni er í andstöðu við efnið. Um leikrit sitt og leikkonuna í hlutverki hennar sagði Cocteau: „Leikkonan verður að gefa þá ímynd að henni blæði eins og særðu dýri og verkinu ljúki í herbergi fullu af blóði.“ Ég get ekki skilið þetta öðru vísi en svo að skáldið hafi séð fyrir sér að Henni blæddi út af ástarsorg. Og þegar angistarópin í óperu Poulencs voru frumsýnd í París árið 1958 – eða kannski 9 – leikstýrði Cocteau uppfærslunni. Af nokkuð augljósum ástæðum sá ég ekki þá sýningu en ég trúi því að þar hafi Denise Duval, sem söng hlutverkið og tók þátt í því að semja tónlistina með Poulence, blætt svo úr listamannshjarta sínu að hugur áhorfenda hafi baðast rauðum lit blóðsins. Af öllum kenndum mannsins er ástin hættulegust einkalífi fólks. Hún er jafnvel hin eina sanna geðveiki og það er mikill misskilningur að ástin geti ekki ennþá orðið jafnbanvæn og þegar Cocteau skrifaði Mannsröddina.
Mér fannst sýningin í Kaldalóni langt frá því að vera nógu rauð og allt of hvít á litinn og sú túlkun leikstjórans að Hún rísi upp úr ástarsorginni í þann mund sem hún enn einu sinni játar svikulum elskhuga ást sína virkaði ekki fyrir mig.Mér finnst líka eitthvað tilgerðarlegt við að kalla persónuna Elle í leikskránni – veit ekki betur en að Elle sé bara franskt fornafn og þýði Hún.
Vísindi, listir og oggolítið af ást
Okkur fannst báðum mjög gaman á Vísindasýningu Villa á Litla sviði Borgarleikhússins, mér og átta ára gömlum fylgdarmanni mínum. Okkur fannst gaman af því að sýningin er leiftrandi skemmtileg fyrir flesta aldurshópa og hennar getur hver og einn notið á sínum forsendum. Um leið og sýningin hefst eru áhorfendur minntir á það hversu mikilvæg forvitni og ímyndunarafl eru og börnunum er sagt að þau séu mikilvægust af öllu – því að þau eru framtíðin og þeirra er framtíðin. Og forvitni og ímyndunarafl leiða okkur áfram til nýrrar þekkingar og endurnýjaðrar forvitni.
Í samræmi við þetta einkennist Vísindasýning Villa af hugmyndaauðgi og snjöllum leikhúslegum vísindauppátækjum og tilraunum. Við fáum að vita og sjá hvernig á því stendur að við getum flogið um loftin blá í níðþungum flugvélum og hvað gerist þegar kunnáttusamlega er farið með efnahvörf. Fyrir utan allt hitt sem er til fróðleiks og skemmtunar í þessum vísindaóði. Inn í vísindin blandast glettnislegt ívaf lista og leikhúss þar sem bæði Shakespeare og Njála koma við sögu að ógleymdum kvikmyndum og söngleikjum.
Vilhelm Anton naglbítur Jónsson og Vala Kristín leikkona Eiríksdóttir fara bæði á kostum í þessari sýningu sem er undir hugmyndaríkri leikstjórn Vignis Rafns Valþórssonar. Leikmynd og búningar Sigríðar Sunnu Reynisdóttur eru full af ljúfum leyndardómum skapandi ímyndunarafls og hið sama gildir um leikgervi Margrétar Benediktsdóttur, hljóð Garðars Borgþórssonar og lýsingu Magnúsar Helga Kristjánssonar. Tónlistin er eftir Villa naglbít sjálfan og rafmagnsgítarinn hans er töff – það er alveg satt.
Vala Kristín og Vilhelm Anton eru í senn bernsk og fulliorðinsleg í túlkun sinni og framgöngu á sviðinu og mér fannst fjarska gaman að horfa á þau. Vísinda-Villi kemst að því í hita leiksins að svo mikilvæg sem forvitni og ímyndunarafl eru þá spillir ekki að hafa með oggolítið af ást og tvísöngur hans og Völu Kristínar var hreinn hunangsdropi. Vissulega kemur það ekki alveg á óvart að Villi naglbítsvísundur er efni í söngleikjastjörnu en það var óvænt að fá að verða vitni að því. Villi er kannski orðinn fullþroskaður í fýsískum aldri til þess að leika og syngja Tony í West Side Story en mikið svakalega gæti verið gaman að sjá og heyra það gerast.