Af gíröffum, ljónum og börnum: umfjöllun um Allt fer

Nú er sko gaman að vera bókagagnrýnandi. Jólin eru löngu búin og jólabókaflóðið víðsfjarri. Ég finn varla fyrir nokkrum þrýstingi úr neinni átt. Í huga mínum og í eldhúsi mínu er algjört logn. Bókin sem ég ætla að fjalla um er Allt fer eftir Steinar Braga. Það er búið að skrifa talsvert um þessa bók og því lendir það ekki á mér að skera úr um hvort bókin sé góð eða vond (ef það hefur þá einhverntímann lent á mér). Allt fer hefur fengið allskonar góða umfjöllun, var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna og hefur eftir því sem ég best veit gert stormandi lukku. Fólk ber einhverja óttablandna virðingu fyrir Steinari Braga, nú sem aldrei fyrr; Víðsjá lýsir því hvernig „hann búi yfir stílgáfu sem fáir aðrir hafi tök á“ og Egill Helgason sagði einhversstaðar eitthvað á þá leið að Steinar Bragi væri á allt öðrum stað en aðrir íslenskir höfundar. Stóra vandamálið sem snýr að mér og minni umfjöllun er því einfaldlega að reyna að höggva ekki í sama knérunn og aðrar umfjallanir. Ég er búinn að taka mér margar vikur í að lesa þessa bók, stundum blaða ég í henni endum og eins, gleymi tilvist hennar þess á milli, allt á hraða fljótsins Ganges. Öðrum stundum er maður eins og sigurvegari í Formúla 1 kappakstri. Maður skakar bókina eins og kampavínsflösku í magnum stærð, úðar yfir vini sína, hellir yfir hausinn á sér, hlær eins og andsetinn vitleysingur.

Það er líklega best að byrja aðeins á sjálfum mér og hlutverki gagnrýnandans. Margir líkja gagnrýnandanum við þangblöðku sem liggur í flæðarmálinu og sannfærist um það öðru hverju að það séu hreyfingar hennar sem skapa ölduganginn í sjónum, en ekki öfugt. Þannig varð ég fyrir því skömmu eftir að mín síðasta umfjöllun birtist að ég sá gagnrýnendur borna saman við leikara. Þar sem að umfjöllunin mín kom á undan athugasemdinni liggur beinast við að draga þá ályktun að umfjöllunin mín hafi komið umræðunni af stað en það getur stundum verið erfitt að aðgreina haf og þang í þessum efnum eins og ég kom inná hér að ofan. Samlíkinging sat þó föst í huga mínum lengi á eftir. Fyrst fannst mér leikarinn og gagnrýnandinn vera svo gerólík fyrirbæri að ég bara hristi hausinn en svo fór að renna upp fyrir mér ljós. Bæði störfin eru eins súbjektíf eða huglæg og hugsast getur og í báðum tilvikum er starfskrafturinn rígbundinn við eitthvað eitt handrit. Fjarlægðin frá handritinu getur verið mismunandi en rétt eins og gerfihnöttur á sporbaug þá hverfast allar hreyfingar um þetta eina handrit. Ímyndum okkur eftirfarandi: Ungur maður er nýútskrifaður úr fræði og framkvæmd. Honum fellur mikið tækifæri í skaut, að leikstýra verki eftir sjálfan Shakespeare í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Það mikilvægasta sem þessi ungi maður veit um listsköpun vissi hann jafnvel áður en hann byrjaði í fræði og framkvæmd en út á þetta atriði komst hann inn í námið: Maður á einfaldlega að fremja sína list eins og manni sé alveg sama hvað mömmu finnst, jafnvel þó þetta sé allt fyrir hana gert og hana eina. Nú er frumsýningarkvöld og aðalleikarinn stendur á sviðinu og fer með sama mónólóg og leikstjórinn okkar fjórum árum áður í inntökuprófinu. Þrátt fyrir stróbljósið og reykvélina fer ekki á milli mála að okkar maður er kviknakinn. Leikhúsgestirnir hugsa sitt, sumir einbeita sér að textanum, aðrir að ljósinu með græna kallinum yfir dyrunum og vonda rauðvíninu bakvið dyrnar. Enn aðrir eru ófeimnir við að stara bara beint á leikarann miðjan þar sem mótar fyrir hrukkóttum gammsunga í hreiðri og spyrja sig sem von er: Er þetta sprellinn á Hilmi Snæ eða er þetta sprellinn á Macduff?

Og hvort er það svo? Það er erfitt að segja en það sem þessi litla dæmisaga kennir okkur umfram allt er að leikarar og gagnrýnendur eru nokkurskonar systkini, og störf þeirra mjög í sama anda.

Svo við snúum okkur að máli málanna, þá langar mig að nefna fyrst annan höfund sem ég vil meina að geti ljáði lestrinum á smásagnasafninu Allt fer aukna dýpt en það er þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche. Mér fannst gaman að sjá tilvitnun í hann við upphaf Allt fer en ég skil svona tilvitnanir á þann hátt að höfundur sé að stilla verki sínu upp í víðara samhengi og gefa manni einhverja vísbendingu um megininntak, þema eða þemu. Mér fannst líka gaman að sjá Nietzsche þarna því það er eiginlega eini heimspekingurinn sem ég hef nokkurntímann nennt að lesa að einhverju ráði. Það má alveg ganga svo langt að segja að heimspekiáhugi minn byrji og endi í Nietzsche. Mér hefur oft orðið hugsað til hans, karlangans, upp á síðkastið því maður hefur fengið það á tilfinninguna að hann sé einhvernveginn ekki í tísku, þyki ekki nógu móðins eða relevant eða hvað það er. Ég byggi þetta álit mitt einna helst á því þegar ég spurði gáfaða vin minn útí Nietzsche um daginn (gáfaði vinur minn skrifaði MA ritgerð um Nietzsche) og sá varð svo skömmustulegur að mér fannst sem hann hefði blygðast sín minna ef ég hefði spurt hann útí gamla Offspring diskinn hans. Ég byggi þessar grunsemdir mínar ekki á neinu öðru.

Hvað um það, það eru helst tvær hugmyndir Nietzsches sem ég vil meina að fari vel saman við lestur Allt fer. Ég biðst fyrirfram afsökunar ef skilningur minn á þessum atriðum er of grunnur eða túlkun mín röng og vil gjarnan verða leiðréttur ef svo ber undir. Fyrst er að nefna þá Appólon og Díonýsos sem Nietzsche skrifar um í bók sinni Fæðing Harmleiksins. Þar er Appólon persónugerfing formfestu, hógværðar og hins rökrétta; kaldrar vísindalegrar fjarlægðar gagnvart viðfangsefninu sem og lífinu sjálfu. Díonýsos aftur á móti stendur fyrir óreiðu, taumleysi, algleymi og óttalausa nálægð við lífskraftinn sem tengir allar manneskjur. Þessi tvö element koma svo saman í vel heppnuðum listaverkum, ýmist sem togstreita, díalektík eða einhverskonar samruni, en Nietzsche vildi meina að þetta síðastnefnda hefði náðst fram í harmleikjum Sófóklesar og Æskilosar og, þökk sé áhrifum frá leiðindapúkanum honum Sókratesi, aldrei síðan uppfrá því (eða þangað til Nietzsche komst í tæri við Wagner en það er önnur saga).

Í bókinni Allt fer má finna fyrir þeim Appóloni og Díonýsosi nokkuð víða og eru þeir bræður beinlínis leiddir fyrir sjónir lesandans strax í fyrstu sögu, „Reykjavík er að vakna“, þar sem sögusviðinu, ónefndum flugvelli, er lýst sem Appólonísku hofi öryggis og skynsemi (11), sem myndar þannig algera andstæðu við óreiðuna sem býr innra með söguhetjunni sem og þeirri óreiðu sem vofir stöðugt yfir mannkyninu öllu, nú sem aldrei fyrr. Ef maður hugsar sig um þá mætti eflaust túlka fleiri sögur í Allt fer, jafnvel allar sögurnar, með hliðsjón af þessum tveim kumpánum, sonum Seifs; en við látum það öðrum eftir og skoðum þess í stað annað atriði sem er nokkuð skylt.

Bókin hefst semsagt á tilvitnun í annað verk eftir Nietzsche, Svo mælti Zaraþústra, og þaðan er hinn hálf-búddíski, hálf-níhílíski titill Allt fer fenginn. Zaraþústra er brjáluð bók en mér hefur alltaf verið einn kaflinn sérstaklega minnistæður en sá fjallar um hinar þrjár myndbreytingar andans, fyrst yfir í úlfalda, svo frá úlfalda yfir í ljón og svo þaðan yfir í barn. Mér fannst eins og í bókinn Allt fer væri ákveðin brauðmolaslóð að einmitt þessum kafla og þessari hugmynd, bæði vegna tilvitnunarinnar í Zaraþústru og svo vegna þess að í annari sögunni er ljón í stóru hlutverki og í enn annari, reyndar miklu síðar, er barn. (Það er reyndar enginn úlfaldi í Allt fer en það er reyndar gíraffi í einni sögu og maður verður víst bara að taka það sem býðst í þeim efnum).

Í stuttu máli má lýsa myndbreytingunum þremur á eftirfarandi hátt: Að Guði liðnum stöndum við frammi fyrir veruleika sem er bæði án tilgangs og merkingar. Úlfaldinn táknar það form andans sem gerir sér grein fyrir þessu þungbæra ástandi (það er jú hlutverk úlfaldans að bera þungar byrðar) og arka af stað út í eyðimörkina í leit að tilgangi, merkingu, skilningi, hverju sem er. Í einsemd eyðimerkurinnar kviknar svo sú þrá andans að verða að minnsta kosti sinn eigin herra þarna mitt í eyðimörkinni og þannig umbreytist andinn í ljón. Ljónið áttar sig á því að tilgangs- og merkingarleysið þýðir líka algjört frelsi frá öllum gildum, kreddum og kennisetningum; og ræðst gegn drekanum „þú skalt“ með orðin „ég vil“ að vopni. Ljónið er til margra hluta nytsamlegt, svosem til niðurrifs gilda og að slást við hina ýmsu andstæðinga, en það getur ekki byggt neitt nýtt. Þar kemur barnið inn í myndina. Barnið táknar hreint borð, nýja byrjun, gleði, sakleysi, hið heilaga „já“. Fyrir mér er barnið kannski það stig sem er hvað erfiðast að henda reiður á, hvað þá að útskýra svo vel sé, en kannski er það líka skiljanlegt útaf fyrir sig að maður sjái fjarlæg (og kannski ómöguleg) vitsmunaleg þroskastig í hálfgerðri móðu.

Svo við höldum áfram þá fannst mér mjög áhugavert að lesa sögurnar í Allt fer með þessar þrjár myndbreytingar í huga. Eins og ég sagði að ofan þá er áhugavert að lesa sögurnar með Appólon og Díonýsos til hliðsjónar og það kemur ýmislegt útúr þeim vinkli, til dæmis það að sjálfri hamingjunni er að minnsta kosti tvisvar stillt upp sem ólistrænum Appólonískum konformisma, en með smá hugarleikfimi er hægt að sjá þá tvo bræður í öllum sögum og þessvegna í öllum allskonar listaverkum. Myndbreytingarnar þrjár mynda aftur á móti mjög skýran kvarða og þar sem grunnforsendur hinnar fyrstu myndbreytingar eru til staðar í flestöllum sögunum, þ.e. tilgangs- og merkingarleysi í Guðlausum heimi og það að einhver geri sér grein fyrir þessu ástandi, þá gat maður tekið þann vinkil skrefinu lengra og velt því fyrir sér hvar á kvarðanum tiltekin persóna er stödd á tilteknum tíma.

Í sögunni „Kólfurinn“ er svo barn sem er kemur eins og á ská inn í þessar hugrenningar um myndbreytingarnar þrjár en þar er dregin upp skemmtileg mynd af hinu táknræna barni Zaraþústru ef það myndi skyndilega birtast hinu borgaralega samfélagi holdi klætt, þá líklega sem holdgerfingur siðleysis, óhugnaðar, ljótleika og dómsdags.

Svo ég ljúki þessu á kunnuglegum nótum, sem hugleiðingu um mig og mína stöðu í veröldinni, þá langar mig að koma aftur inná þetta sem ég minntist á hérna að ofan, að Nietzsche þyki kannski ekki sérstaklega relevant, þá finnst mér það raunverulega mjög undarlegt. Ég fæ það oft á tilfinninguna (ég er sko ekki einn af þessum vísindalegu gagnrýnendum) að Nietzsche hafi einhvernveginn verið afgreiddur of fljótt og of auðveldlega og þetta eigi kannski sérstaklega við okkur hérna í Skandinavíu. Þá meina ég fyrir þær sakir að samfélögin eru flest meira eða minna sekúlar og það velkjast fæstir í vafa um það að tilgangurinn og merkingin er í augnablikinu eitt stórt núll, svona að minnsta kosti í samanburði við það sem var í boði hérna á árum áður. Hugmyndir Nietzsches urðu mjög áhrifamiklar um öll Norðurlönd gegnum Strindberg, Georg Brandes og Þórberg okkar Þórðarson (ég kannski ætti að taka það skýrt fram á þessum punkti að ég er ekki einhver svona „Norræn sérstaða“-bulla, þetta eru bara einu dæmin sem ég þekki). Punkturinn er bara sá að hugsuðir, rithöfundar og listamenn kukluðu í Nietzsche í einhvern takmarkaðan tíma og svo sneru þau sér að einhverju öðru. Hann er eftir á að hyggja svolítið eins og dauðarokkið sem berst útúr unglingaherberginu og fram á gang nema fyrir aðeins lengra komna og þessvegna er ég óendanlega þakklátur fyrir að hafa kynnst bókinni Allt fer vegna þess að þetta er í mínum huga allt bullandi relevant. Ég veit það því ég er hérna í Stokkhólmi og drekinn sem er með „þú skalt“ skrifað í hreistrið lifir góðu lífi og það er stundum eins og það sé búið að skipta honum upp í þúsund minni „þú skalt“ dreka og ef að svíinn er spurður hvað orðin „forboðinn unaður“ þýða í hans huga þá segir hann að það sé að fá sér pilsner á virkum degi. Hvað á þetta eiginlega að þýða?!