Hver ætli besta leiðin sé til að tjá einhverjum það að maður elski hann ekki lengur. Ætli best sé að koma orðunum frá sér sem fyrst, ljúka óþægilegheitunum af og leiða hugann annað.
Jæja, ég hafði nánast ekkert gaman af Passíusálmum Einars Kárasonar. Mér finnst formúlan: Mörg sjónarhorn, fyrsta persóna, sífelldar skoðanir; ekkert spennandi og leiða til endurtekninga og ótal útúrdúra, kannski er það bara stíll höfundar.
Ég er af þeirri kynslóð sem gerir ekki merkingarbæran greinarmun á Einari Kárasyni og Halldóri Kiljan Laxnesi (ég þykist heyra vandlætismuldur bergmála um kosmósinn við það eitt að sjá þetta á prenti). Ég stend með þessarri setningu, fólk hnussar og þvaðrar um nóbela en hversu margir munu ræða stíleinkenni eða aðra greinanlega gildishlaðna eiginleika verka þeirra, sem greina á milli þeirra? Í þeim heimi afþreyingarfíknarinnar þar sem sjónvarpsþættir eru konungbornir og við búum í eru þeir sem nenna að velta hlutum á borð við stíleinkennum fyrir sér fágætir. Að sama skapi mætti segja að þeim fari fækkandi sem líkar við krefjandi skáldverk. Stíll Thors Vilhjálmssonar er talinn krefjandi og hefur mér ekki enn tekist að sýna jafnöldrum mínum fram á snilldina í verkum hans. Það sem ég las af Halldóri Laxness í menntaskóla var flest, að mér fannst, ofmetið. Hann virtist hafa orðspor sem krafðist undirgefni, rétt eins og Stephen King hefur orðspor sem veldur því að margir fara á mis við hann og neita að verk hans hafi nokkra fagurfræði. Aftur á móti var ég hrifinn af Einari Kárasyni. Bók hans, Óvinafagnaður, fannst mér sniðug og frásagnarformið – sem ég hafði aldrei séð áður og heillaði mig – var nýtt og spennandi. Ekki skemmdi heldur fyrir, í huga sextán ára unglings sem leit á skyldulestur sem hina mestu kvöð, að hún var auðlesin. Ef ég myndi lesa hvort tveggja aftur – Íslandsklukkuna og Óvinafagnað – grunar mig að ég væri á öðru máli. Laxness kynni ég eflaust að meta betur því ég er mun betur lesinn og lít skáldskap gagnrýnni augun en áður en Óvinafagnað myndi ég gagnrýna – og mun í raun gagnrýna seinna meir í þessarri gagnrýni, óbeint – fyrir frásagnarformið.
Flatt og þvingað
Í inngangi bókarinnar forar höfundur vatnið. Hann gefur í skyn að atburðir bókarinnar séu bæði raunverulegir og skáldaðir. Með því dregur hann gáfumannslegan sperring Guðbergs Bergssonar um skáldævisöguna upp úr gröf sinni, þar sem hún er að mínu viti best geymd. Óákveðni höfundar í þeim efnum er ansi augljós og spyr lesandi sig í sífellu hvort að höfundur vilji ekki bara ákveða sig svo hægt sé að lesa söguna í því samhengi sem höfundur ætlar henni. Vitaskuld má ómerkja öll orð mín um samhengisleysi ef lesandi kaupir inngang höfundar, ótrúlega sögu varnarskjalsins og tilkomu þess. Í framhaldi læddist sá grunur að undirrituðum að einfaldlega væri verið að endurskrifa bókina Storm með fáeinum breyttum nöfnum og dramatíkin skrúfuð aðeins hærra, í mótvægi við húmorinn sem er ögn lágstemmdari í þessarri bók.
Það er erfitt að tala um Passíusálmana án þess að nefna fyrirrennara hennar, Storm. Sumum finnst einfaldlega að tenging bókanna sé þeirri seinni ekkert til framdráttar, hitt þó heldur, að hún verði verri fyrir það eitt að vera tengd hinni bókinni; eins og það geri manni ómögulegt að meta hana án þess að leiða hugann að Stormi. Ég er á því máli að hægt sé að dæma hvora fyrir sig án þess að tengingin hafi nokkur áhrif þar á. Að því sögðu finnst mér stíllinn mun skemmtilegri í Passíusálmunum, minna er um síendurteknar lýsingar á sama atburðinum í löngu máli þar sem einu breytingarnar eru skoðanir og tilfinningar persónunnar sem hefur orðið á þeirri stundu. Tilfinningar persóna eru mjólkaðar til hins ýtrasta en það fylgir því að vera síhoppandi milli vitunda eins og spíttuð kengúra. Stuttar tilvitnanir í fyrra verkið eru stundum vel gerðar og fengu undirritaðan til að brosa oftar en einu sinni, nokkuð oft var útkoman þó flöt og virkaði þvinguð – eitthvað sem hefði vel mátt laga með ögn meiri ritstjórn. Undirritaður fékk það á tilfinninguna við lesturinn að höfundur sé að reyna að endurskrifa fyrri bókina – leiðrétta aldagömul mistök eða friða gamlan kunningja sem hefur þótt hann vera að lesa um sjálfan sig í fyrri bókinni. Hvort svo er eða ekki skiptir engu máli, erfitt er að gera hið ritaða orð ómerkt. Þær túlkanir og athuganir sem bók hefur um aðrar bækur geta vissulega breytt túlkunum og sýn manna á þau verk; sá háttur sem notast er við í Passíusálmunum til að nánasast út í fyrri bókina, Storm – fáeinar stuttar setningar um hin og þessi smáskítlegu atriði – hefur þó lítið gildi túlkunarlega. Sýn einhverra á fyrri bókina getur þó breyst við lesturinn.
Vandamál (eða kostur eftir því hvernig á það er litið) fyrstu persónu frásagnar margra höfunda er að þeir venja sig á að lýsa sömu aðstæðunum endurtekið með minniháttar breytingum, út frá sjónarhorni þeirrar persónu sem hefur orðið. Þessi aðferð getur komið afar vel út ef hófsemi er gætt, annars kemur höfundur fyrir sem letingi. Dæmi um afar góða bók sem skrifuð er í fyrstu persónu er bókin The Girl Next Door eftir Jack Ketchum. Sú bók hefur reyndar bara eitt sjónarhorn, einn sögumann og eina vitund sem berar sig. Samanburðurinn er því ekki fullkominn en bækur á borð við The Last Testament of The Holy Bible eftir James Frey eru litlu skárri, ef ekki verri, en Passíusálmarnir. Hluti ástæðunnar er vafalaust sá að frásagnarformið er ódýrt, höfundar ná að teygja lopann ótrúlega svo hin allra þynnsta hugmynd að skáldsögu er gerleg og útgefanleg. Tökum sem dæmi þá hugmynd að skrifa þrjú hundruð blaðsíðna bók um búðarferð manns með hnetuofnæmi, það eina sem á sér stað er koma mannsins í búðina, ferð hans niður mjólkurvöruganginn og sá harmleikur að hann smakkar jógúrt sem inniheldur snefilmagn af hnetum. Atburðarásin er svo til engin, áhugi manns ætti að vera í algjöru lágmarki og að öllum líkindum myndi slík saga enda sem smásaga eða jafnvel örsaga í flestum tilfellum. Með tilkomu frásagnarformsins „1. Persóna, mörg sjónarhorn“ væri leikur einn að gera úr þessu mörg hundruð blaðsíðna bók. Svo aftur sé vísað til ritstjóra er ég sannfærður um að bókin Stormur hefði haft gott af því að vera straujuð eilítið hvað þetta varðar. Passíusálmarnir fara mun fínlegar í þessi efni, lesturinn er ekki sífelldar endurtekningar ómerkilegs atviks sem, að því er virðist, hefur snert sálu allra viðmælenda sögunnar. Þó eru aðalatriði bókarinnar margtuggin ofan í lesandann svo undirrituðum bauð við um miðbik bókar bók.
Sprúðlandi mikilmennskubrjálæði
Einar má eiga það að honum hefur tekist að skapa afar skítlega söguhetju. Ekki eru allir rithöfundar tilbúnir að gefa það upp á jafn augljósan hátt hve virkilega ömurlegar og sjálfselskar persónur söguhetjur þeirra eru. Flestir bugast þeir og gefa söguhetjunni eitthvert karaktereinkenni sem veitir henni uppreist æru. Eyvindur „Stormur“ Jónsson, hinsvegar, er skíthæll frá A-Ö og biðst hvergi afsökunar á því. Á sinn hátt mætti segja að Einar reyni að gera hann viðkunnanlegan með hnyttni og því hve húmorískur hann er. Það má vel vera að hann sé viðkunnanlegur, hann Stormur, í það minnsta sé ég ekki hvernig hnyttni gerir skíthæl viðkunnanlegan.
Áhugi og áhersla Storms á sögum og litríkum atburðum úr lífi fólks bera sögunni miklar málsbætur. Það er einstaklega flott hvernig hann, í löngu máli, lýsir sögu úr lífi Kúdda Káboj og nefnir stuttlega í lok kaflans hvernig farið hafi fyrir máli hans og hve merkur maður lögfræðingur hans sé. Það gefur til kynna að þarna, undir niðri, búi eitthvað ósiðlegt og skömmustulegt – fantabrögð lögfræðingsinsins máske – eða þá að höfundur hafi ekki alveg vitað hvert hann ætlaði með það mál.
Á einhverjum tímapunkti er höfundur sjálfur kynntur til sögunnar. Hann ryðst inn í atburðarásina með pompi og prakt. Þá var búið að „preppa“ innkomu höfundar með orðagjálfri um fyrri bókina, hvaða mann „þessi Einar Kárason“ hefði að geyma og hversu góður með sig hann væri. Hvort ætlunin hafi verið að sýna auðmýkt með því að láta söguhetju bókarinnar vera ekki mikið fyrir „þennan Einar Kárason“ í sögunni gefinn veit ég ekki. Ég veit það eitt að auðmýktin er stuttlíf, í sömu málsgrein og fyrstu kynni söguhetjunnar við höfund koma fram – þar sem veist er að honum með einum tveimur neðanbeltisskotum um uppskrúfaðan stílinn og hve mjög rignir upp í nefið á honum – er gagnrýninni á höfundinn gleymt og dæmd dauð og ómerk með orðum um hnyttni hans og orðfæri. Hvort að bókin hefði orðið betri ef höfundur hefði hlíft lesendum við egói sínu og mikilmennskubrjálæði get ég ekki sagt, líklega hefði Egill Helgason þurft að sitja ögn lengur í dimmum kjallara Rúv í hugleiðslu og leit að einhverju öðru í bókinni sem kalla mætti „sprúðlandi“. Eflaust mætti skrifa í löngu máli um það orð, sprúðlandi, hvernig íslenskunördar keppast um að nota það, skilgreina og endurskilgreina; hvernig gagnrýnendur eru farnir að apa þetta upp eftir Agli, hinum blessaða, Helgasyni. Við skulum þó ekki „fara í þá passíusálma“ í miðri gagnrýni.
Dan Brown eða Einar Kárason?
Passíusálmarnir er bók sem heldur áhuga manns við lesturinn en gerir ekki mikið annað. Samanborið við fyrri bókina, Storm, er hún afar góð en það segir meira um fyrri bókina heldur en gæði þessarar. Ég er ekki betri maður fyrir að hafa lesið um Storm og fjölskyldu hans, ég er ekki fullur réttlætislegrar mæru um hinn siðblinda Eyvind Storm Jónsson. Ef valið stendur á milli Dan Brown og Einars Kárasonar á flugvelli í þriggja tíma bið myndi ég eflaust kaupa Einar, þó líklega aðeins ef ég væri ekki þreyttur og þyrfti að vaka – eins og allir vita hafa bækur Dans Brown sömu virkni og rótsterkur kaffibolli, svo spennandi eru þær. Einar hefur verið kallaður sagnamaður mikill, búinn að endurskrifa Sturlungasögur og glæða fólk úr braggahverfum lífi – að miklu leyti út frá viðtölum, skilst mér. Samkvæmt aldagamalli orðabók frænda míns er sagnamaður: „maður sem kann, segir eða ritar sögur, sagnaþulur.“ Það er að einhverju leyti réttnefni fyrir hann Einar, hann kann vissulega sögur og ritar þær afar fallega og listuglega. Þó finnst mér að einhverju leyti sem hann sé ekki mikið fyrir það gefinn að semja. Þó Passíusálmarnir séu vissulega afar hressilegir á köflum er þessi sami andi yfir öllu og í Stormi. Sömu drykkjulætin, sama íbúðin, sama hneykslið með bókaforlagið að viðbættri afar fallegri sögu af Thor Vilhjálms sem mig grunar að hafi ekki þurft mikið ímyndunarafl til að flétta þarna inn. Á stundum varð mér hugsað að hann væri að gefa Storm út aftur, í endurbættri mynd. Í það minnsta tel ég öruggt að halda því fram að þeir sem ekki höfðu gaman af Stormi á sínum tíma geti látið þessa bók framhjá sér fara.