Ekki þið, hálfvitarnir ykkar

Um Hvítsvítu eftir Athenu Farrokhzad

Einu sinni þegar ég var ungur og reiður, ákvað ég að rífa niður eftirprent af Mattisse verki úr stigaganginum þar sem ég bjó. Ég var eflaust búinn að ákveða að hann hefði gerst sekur um að mála frekar myndir og dytta að rósum en að berjast gegn nasistum með list sinni. Ég hef réttlætt ódæðið með því að listamenn ættu að berjast gegn fasisma en ekki að sinna garðyrkju. Nei, það var þá. Núna er hetjur mínar þær sem eru ekki að farast úr áhyggjum og kvíða.

Ég er hræddur við pólitíska ljóðlist — stundum alla pólitíska list — ekki sökum þess að ég óttist áhrif hennar, heldur leiðist mér að þurfa að gefa fagurfræðilegan afslátt af því að einhver meinar vel. Á Íslandi höfum við tvö nýleg dæmi: Þorum við að vera við? eftir Hallgrím Helgason og Fjallkonan eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur. Ma’ er orðinn sjóaður í því að sætta sig við fasisma, yppta öxlum yfir órettlæti,  jammogjæja yfir misskiptingunni — en það reynist mér erfitt að sætta mig við slöpp ljóð af því að maður ætti að vera sammála þeim. „En skiptir byltingin ekki meira máli en góð ljóð eða viltu óbreytt ástand, karlpungurinn þinn?“  Nei. Nei. Þið getið svo miklu betur. Ljóð er ekki listform ef við gerum engar fagurfræðilegar kröfur.

Og kannski þess vegna þorði ég ekki fyrst um sinn að lesa Hvítsvítu. Hún lá á náttborðinu mánuðum saman án þess að ég liti í hana, stundum huldi ég hana með Biblíunni svo ég þyrfti ekki að vita af henni. Höfundurinn Athena Farrokhzad er kona sem ég hef heyrt eintómar hetjusögur af frá aktivista-vinum mínum. Hvernig gæti ég afborið sjálfan mig ef ég þyldi ekki þessa bók?

Raddlaus en árásargjarn

Textinn er myndrænt árásargjarn. Honum er stillt upp í svörtum ferhyrningum á hvítum síðum og innan ferhyrninganna eru hvítir stafir. Hljómar kannski ekki einsog stórvægileg breyting á hefðbundnu sniði ljóðabóka, svartir stafir á hvítri síðu (afsakið, að ég skuli segja það sem allir vita) en upplifun af lestrinum er allt önnur en ella. Textinn er farinn að æpa löngu áður en augun nema orð.

Textinn er árásargjarn en ljóðmælandi er allt að því raddlaus. Bókin hefst á stuttum inngangi.


Fjölskyldan mín ferðaðist hingað í marxískri hugmyndafræði
Móðir mín tók undireins að fylla húsið af jólasveinadúkkum
Íhugaði kosti og galla plastjólatrésins
einsog það væri hennar vandamál
Á daginn skildi hún á milli stuttra og langa sérhljóða
einsog hljóðin sem hún gaf frá sér
gætu þvegið ólífuolíuna úr húðinni
Móðir mín lét bleikiefnið flæða um setningarliðina
Handan greinarmerkjanna urðu atkvæði hennar hvítari
en vetur í Norrlandi
Móðir mín bjó okkur framtíð úr lífsmagni
Í einbýliskjallara úthverfahússins staflaði hún niðursuðudósum
einsog von væri á stríði
Á kvöldin leitaði hún að uppskriftum og skrældi kartöflur
einsog það væri hennar eigin saga sem dulrituð væri
í ofnréttinn Janssons Frestelse
Að hugsa sér að ég hafi sogið þessi brjóst
Að hugsa sér að hún hafi stungið villimennsku upp í mig

Eftir þennan inngang tekur við nýtt snið. Í hverju erindi endursegir ljóðmælandi eitthvað sem einhver fjölskyldumeðlimur sagði, ljóðmælandi virðist því raddlaus — hann er skilgreindur útfrá því hvernig hann kýs að segja frá því sem aðrir segja. Í bókinni eru kynntir til leiks fimm fjölskyldumeðlimir, mamma, pabbi, bróðir, frændi og amma.


Móðir mín sagði: Súrefni fyrir þann líflausa
vítamín fyrir þann duglausa
gervilimi fyrir þann fótalausa
og tungumálið fyrir þig

Textaheimurinn er allskonar. Allt frá persónulegum textum, um uppgjör fjölskyldunnar við fortíðina, landið sem hún kemur frá, og hvernig hún reynir að aðlagast aðstæðum í nýju landi, upp í staðhæfingar og vangaveltur um samfélagsgerðina og tungumálið. Þegar textinn kemst á mest flug verður hann einsog hávært leikverk, þar sem aðalleikarinn stendur stjarfur á miðju sviðinu á meðan að tilmæli og umræður annara leikenda dynja á honum.


Faðir minn sagði: Þegar við leggjum af mörkum eftir getu og berum úr býtum eftir þörf


Móðir mín sagði: Þegar við leggjum af mörkum eftir getu og berum úr býtum eftir þörf


Bróðir minn sagði: Þegar öllu óréttlæti og sjálfri mannkynsögunni er lokið


Amma mín sagði: Þegar þú ert orðin jafn gömul mér


Þá mun öllu óréttlæti og sjálfri mannkynssögunni ljúka

Og það er áhugavert hvernig þessi fjarlægð frá hinu hefðbundna ÉG-i breytir textanum. Það eru fjölmargar línur í bókinni sem hefðu sómt sér vel í ÉG slam ljóðum, línur sem hefðu fengið klöpp, hróp, læk og sjer. En þær verða margvídda við að fá ólíkar raddir.


Faðir minn sagði: Bróðir þinn rakaði sig áður en skeggið fór að vaxa
Bróðir þinn sá andlit hryðjuverkamannsins í speglinum
og bað um slettujárn í jólagjöf


Bróðir minn sagði: Einhvern daginn vil ég deyja í landi
þar sem fólkið getur borið fram nafnið mitt

Þó að bókin sé ekki ÉG bók er hún miklu meira ÉG en flest pólitísk ljóð. Mörg pólitísk ljóð eru óáhugaverð greining á samfélaginu, fyrirsjáanleg, með gnægð af boðhætti, og mörg VIÐ í merkingunni ÞIÐ HÁLFVITARNIR YKKAR. Athenu tekst að forðast þetta með því að láta staðhæfingar og greiningar koma frá öðrum, hugmyndir fjölskyldumeðlima geta stangast á, hugmyndaheimurinn verður að fjölskyldusögu. Átökin við samfélagsgerðina, verða að átökum við fjölskyldumeðlimi, átök við sig sjálfa.


Faðir minn sagði: Talaðu málið sem borgar brauðið þitt


Amma mín sagði: Talaðu málið sem viðheldur fjarlægðinni til þess sem hefur gerst í orðunum


Bróðir minn sagði: Talaðu málið sem gefur vélinni líf


Móðir mín sagði: Talaðu málið sem lætur það borga sig að svíkja mig

Æ, ég hefði kannski átt að minnast á það að höfundurinn Athena fæddist í Íran og flutti til Svíþjóðar, og greina svo alla ljóðabókina sem einhverskonar sjálfsævisöguleg skrif — en fökk, þá yrði dómurinn kannski meir um hana og hennar aktivisma en minna um ljóðin sjálf og það vildi ég forðast. Og svo er það kannski ekkert nær sannleikanum.


Móðir mín sagði: Allar fjölskyldur eiga sínar sögur
en til þess að þær komi fram þarf einhvern
sem hefur eindreginn vilja til að fara rangt með

Pólitíkin í bókinni dylst engum. Það þarf einbeittan brotavilja til að hún fari framhjá manni. En það sem gleður mig mest er hvað þetta eru góð ljóð. Ég þurfti ekki að gefa fagurfræðilegan afslátt því textinn er svo miklu meira en ódýr greining á einhverju ástandi. Þetta er góður og listrænn texti, en á sama tíma kveikja að miklu áhugaverðara pólitísku samtali en læk!greinar samtímans. Það er kalt í úthverfinu mínu og rósirnar útí garði eflaust dauðar. Ég skammast mín fyrir smáborgarahátt minn, og finnst ég ekki hafa neitt sérstakt til málanna að leggja en ég get alveg áreynslulaust hrifist af Hvítsvítu.


Bókina þýddi ritstjóri Starafugls, Eiríkur Örn Norðdahl, en hann kom hvergi að ritstjórn eða birtingu þessa texta