Ég er persónulega þeirrar skoðunar að hápunkt skáldsögunnar sem listforms sé að finna í nítjándu aldar raunsæinu. Þar vega auðvitað ensku- og frönsku bókmenntahefðirnar – höfundar eins og Dickens, James, Stendhal, Flaubert, Hugo, o.s.frv. – þyngst. Sökum einstakra sögulegra og menningarlegra aðstæðna og skilyrða sker rússneska hefðin sig þó töluvert frá evrópskum bókmenntum og býður uppá marga af allra bestu rithöfundum og skáldverkum allra tíma. Rússnesku meistararnir, þrátt fyrir að vera um margt ólíkir, deila vissri einstakri sýn og nálgun a bókmenntir, eiithvað sem er vel greinanlegt í þýðingum Áslaugar Agnarsdóttur á smásögum þeirra helstu. Þýðingarnar hafa nýverið komið út á vegum forlagsins Uglu undir heitinu Sögur frá Rússlandi.
Ástæðan fyrir þessari einkennandi sérstöðu rússneskra bókmennta eru nokkrar. Einna helst menningarleg einangrun Rússlands þess tíma, en þrátt fyrir að rússneskt menntafólk hafi lesið og verið undir miklum áhrifum frá evrópskum bókmenntum og einhver samskipti hafi átt sér stað á milli hinna ólíku höfunda (en Henry James fékk t.d. strax uppúr 1850 mikið dálæti á Túrgenev og ásamt því að verða góðir kunningjar gerði James sitt besta til að kynna verk hans í Evrópu og Ameríku) þá voru rússneskar bókmenntir lítið sem ekkert lesnar í Evrópu. Þýðingar á helstu verkunum byrjuðu fyrst að koma af alvöru og vekja raunveruleg viðbrögð undir lok nítjándu aldar. Annað sem skýrir frumleika þeirra eru efnahagslegu og pólitísku aðstæðurnar, en bændaánauðin var ekki afnumin fyrr en um 1861 og jafnvel löngu eftir það samanstóð Rússland að langmestu leyti af bláfátækum bændum sem kúgaðir voru grimmilega af aldagamalli keisarastjórn sem var ekki í neinum takti við samtímann og tíðarandann. Þessi kúgun og eymd alþýðunnar leiddi þó til mikillar gerjunar í ýmsum róttækum hugmyndum eins og anarkisma og níhilisma (eins og sést einna frægast í persónunni Bazarov í Feður og synir Túrgenevs). Þessar róttæku hugmyndir blómstruðu á sama tíma í jarðvegi mikillar trúarástríðu (eins og sést kannski best hjá Dostojevskí), sem þær runnu í einhverjum tilfellum saman við og úr varð einkennileg blanda (Tolstoj).
Segja mætti því að Rússar hafi innbyrt helstu stefnur og strauma sem Evrópa bauð upp á, en gert þær þó svo mikið að sínu að útkoman varð að einhverju nýju fyrirbæri sem var í senn kunnuglegt og framandi. Þetta á ekki síst við um raunsæisbókmenntir. Það sem rússnesku meistararnir eiga helst sameiginlegt þar er þessi mikli húmanismi, sögur þeirra kljást oft við stórar hugmyndir, jafnvel trúarlegan forskilvitleika, en það er þó ávallt gert með sterkum fókus á hinn venjulega, hversdagslega einstakling – sem þeir bera allir mikinn velvilja til og vilja einlæglega hjálpa að skilja sjálfan sig. Sögurnar einkennast oft af húmor og íroníu, en þó aldrei á neinn illkvittinn hátt. Fyrir utan það er það helst skalinn, en sýn þeirra á skáldsöguna byggir á gríðarlegum metnaði sem tekst á við sögulegar, heimspekilegar, trúarlegar og siðfræðilegar hugmyndir á einstakan hátt (Stríð og friður er þar auðvitað frægasta og besta dæmið, en sama metnað má sjá í Glæpur og refsing, Karamazov-bræðurnir, o.fl.)
Fyrstu tvær sögur safnsins sem hér er til umfjöllunnar falla þó fyrir utan þessa rússnesku raunsæishefð, en þar eru á ferðinni þjóðarskáld Rússa Aleksander Púshkín annars vegar, og hinn áhrifamikli Níkolaj Gogol hins vegar. Verk Púshkín eru auðvitað fyrst og fremst undir áhrifum rómantíkurinnar, þótt hann hafi vissulega rutt brautina fyrir raunsæið og eru áhrif hans á síðari rússnesk skáld ómælanleg. Sama má segja um Gogol, þótt í minna mæli sé, en þrátt fyrir að verk hans eigi margt sameiginlegt með raunsæinu og er hann þannig mikilvægur undanfari, þá einkennast verk hans einnig af hryllingi og jafnvel súrrealisma sem hafði minni áhrif. Sögurnar sem þessir guðfeður rússneskra bókmennta bjóða hér uppá eru þó stórgóðar og áhugaverðar þjóðsögur eða jafnvel ævintýri – en falla þó í skuggann af þeim sem koma síðar.
Fyrir utan Tsjekhov þá sést þessi umhyggja fyrir meðalmanninum og daglegu lífi í Rússlandi sem áður var minnst á hvað best hjá Túrgenev. Hann tekst á við epískar spurningar á mun látlausari hátt en t.d. Dostojevskí og Tolstoj – sérgrein hans er ekki svo mikið söguframvinda og frásögn sem slík heldur að skapa persónur svo vel að þær öðlast sjálfstætt líf og stökkva út úr síðum bókanna. Frásögn verka hans er alla jafna svo lausleg að maður fær það á tilfinninguna að höfundurinn hafi skapað persónurnar og hallað sér svo einfaldlega aftur og leyft þeim sjálfum að stýra ferðinni. Hvað svo sem er til í því þá er bókmenntaleg snilligáfa Túrgenev, sem gerir skáldsögur eins og Feður og synir og Úr dagbókum veiðimanns að tímalausum verkum heimsbókmenntanna, til sýnis í frábæru sögunni sem Áslaug þýðir hér og nefnist „Múmú“.
Dostojevskí er hins vegar með tvær smásögur, „Jólatré og brúðkaup“ og „Litli drengurinn við jólatré Krists“. Þær eru mjög áhugaverðar að því leyti að martraðarkennd sýn hans á andlega, trúarlega þjáningu og efa – eitt helsta hugðarefni hans – er ekki beinlínis sjáanleg. Hins vegar má þar greina hugleiðingar hans um hina verst settu og endurlausn. Trúarlegu, kristnu áherslur hans eru því svo sannarlega til staðar. Smásögur bjóða ekki upp á eitt helsta stílbragð hans og einkenni: ótrúlega löngu ræður persónanna þar sem þær kryfja sjálfar sig sálfræðilega niður í minnstu agnir – meðferð sem gefur Freud ekkert eftir (en sá mikli frumkvöðull sálgreiningarinnar var auðvitað mikill aðdáandi, og undir miklum áhrifum frá, Dostojevskí). Hér sýnir hann sem sagt nokkuð aðrar hliðar fyrir þá sem aðeins hafa lesið skáldsögur hans. En þeir verða þó svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum.
Hvað þá með framlag Tolstojs „Þrjú dauðsföll“. Yfirnáttúrulegur skáldskapar- og frásagnarhæfileiki hans er til sýnis hér eins og í Anna Karenína, Dauði Ivan Illyich og Kreuzer sónötunni: hvernig hann getur gert stórbrotna epík úr svo gott sem hvaða efnivið sem er, svo mikið að við lesturinn gleymir maður ætíð að þar sé skáldskapur á ferð, öllu vindur fram á svo fullkominn og vandræðalausan hátt að maður þarf að hafa töluvert fyrir því að skipta um sjónarhorn og lesa verkið krítískt og greina tæknina sem hann beitir.
Það er mjög sjaldgæft að Tolstoj sé í félagsskap þar sem hann ber ekki höfuð og herðar yfir alla aðra. En þegar kemur að smásögum er Tsjekhov óumdeilanlega á heimavelli og sigrar hvern sem er. Ótrúleg bókmenntaleg snilligáfa hans skín í gegn í þeim tveim sögum sem finna má í Sögur frá Rússlandi: „Eftir leikhúsferðina“ og „Leiðindamál“. Í rauninni eru þær mjög týpískar smásögur eftir hann – en týpískt á mælikvarða hans eru þó bókmenntalegir töfrar sem langflesta dreymir einungis um að nálgast. Snilligáfa hans er þó mjög sérstök, ekki yfirþyrmandi eins og Tolstojs eða ásækjandi eins og Dostojevskís. Öllu heldur felst hún í ótrúlegum einfaldleika: Tsjekhov reiðir fram ótal brot úr daglegu lífi fólks í hinum ólíkustu stöðum og aðstæðum. Sögurnar eru mest megnis lausar við mikla dramatík, þær áhyggjur og vandamál sem persónur hans kljást við er eitthvað sem við könnumst flest við og þegar við erum í svipuðum sporum leiðum við sjaldnast hugann að því að hér gæti verið efniviður í góðan skáldskap. En það er einmitt málið: í gegnum sögur sínar, þessi snöggu innlit inn í daglegt líf venjulegs fólks, tjáir Tsjekhov allt litróf tilvistarinnar á einstaklega mannlegan hátt. Þessi hlýja og velvild sem einkennir rússneskar bókmenntir, einkum Túrgenev eins og ég minntist á ofar, nær algjörum hápunkti í verkum Tsjekhovs sem virðist ekki eiga til illvild eða mannvonsku af neinu tagi. Enda var hann einnig skv. öllum samtímamönnum hans sem þekktu hann ljúflingur og hjartahreinn með eindæmum. Tolstoj var einhver dómharðasta persóna sem sögur fara af og var enginn hægðarleikur að umgangast hann yfirhöfuð. Hann hikaði ekki við að úthúða og fordæma hverja þá sem urðu á vegi hans af hvaða litla tilefni sem er – og hlífði hann engan veginn sjálfum sér í þeirri gagnrýni. En Tolstoj tók strax við fyrstu kynni ástfóstri við Tsjekhov og hafði hann hann aldrei í neinu öðru en allra hæstu metum. Það eitt og sér segir allt sem segja þarf um persónulegan karakter rússneska smásagnameistarans.
Það var svo einkar áhugavert að lesa tvo rússneska höfunda sem ég hafði ekki lesið áður: Ívan Búnín og Teffí sem eru með síðustu sögurnar í verkinu. Í tilviki fyrri höfundarins – fyrsta rússneska Nóbelsverðlaunahafans hvorki meira né minna – kom það mér skemmtilega á óvart hversu vel hann nær töfrum Tsjekhovs. Eftir að hafa kynnt mér hann lítillega eftir lesturinn þá virðist nokkurn veginn sammælst um að hann sé einn aðalerfingi þeirrar hefðar rússnesks raunsæis og smásagna sem byrjaði með Tsjekhov (og hafði mikil áhrif á einhverja stærstu höfunda tuttugustu aldar, t.d. James Joyce í Dubliners). Það er allavega engin lygi.
Með Teffí komumst við svo í tæri við annars konar íroníu og húmor sem við höfum ekki séð áður í smásagnasafninu. Rætur hennar liggja þó augljóslega í rússnesku raunsæishefðinni, áhrif Tsjekhovs eru einnig vel greinanleg hjá henni. En skrif hennar eru sjálfmeðvituð á hátt sem er nær t.d. Oscar Wilde – jafnvel Pirandello og Italo Calvino. Eins og ég segi, ég hef einungis lesið þessi tvö stuttu verk eftir hana sem er að finna í Sögur frá Rússlandi og er að byggja þetta mat alfarið á þeim svo þessi greining er kannski úti á túni ef önnur verk hennar eru tekin með í reikninginn. En mér fannst það einstaklega vel valið, að ljúka safninu með henni, þar sem hún beinir í aðrar áttir sem rússneska raunsæið átti svo eftir að þróast út í á tuttugustu öld. Þessir höfundar, frá Púshkín til Teffí, fara þannig með lesandann í ferðalag þar sem hann sér þróun og breytingu rússnesku hefðarinnar – tilurð og fullkomnun raunsæisins fyrst og fremst – á stórmerkilegan og áhugaverðan hátt.
Nú hef ég auðvitað ekki lesið (eða einu sinni kynnt mér) nærri því allt sem hefur eða er að koma út í íslenskri bókaútgáfu í ár. Þó tel ég óhætt að fullyrða að Sögur frá Rússlandi séu þar með því allra mikilvægasta og eitthvað sem íslenskir bókmenntaunnendur hljóta að fagna og njóta. Fyrir því eru kannski aðallega þrjár ástæður: í fyrsta lagi og langmikilvægast er auðvitað hin einstaka fagurfræði sem rússneskar nítjándu aldar bókmenntir bjóða upp á og við höfum þegar rætt. Að fá þær í íslenskri þýðingu er einfaldlega ómetanlegt. Nú get ég ekki lagt mat á þýðinguna úr upprunamálinu, kannast við höfundana að langmestu leyti í enskum þýðingum, en samanborið við þær nær Áslaug framúrskarandi árangri í að tjá raddirnar og andrúmsloftið sem maður þekkir svo vel. Í öðru lagi, í samhengi við minnkandi lestur og áhuga á bókmenntum í nútímanum, þá dettur mér fátt betra í hug en smásögur rússnesku meistaranna til að kynna framtíðar lestrarhesta fyrir töfrum bókmenntanna, en eins og við höfum einnig rætt, þá eru verk þeirra á einhvern stórkostlegan hátt fullkomlega aðgengileg en á sama tíma með nánast botnlausa dýpt. Í síðasta lagi finnst mér þetta mjög góð tímasetning fyrir þessa útgáfu: á hundrað ára afmæli rússnesku byltingarinnar (en allar sögurnar í verkinu eru skrifaðar fyrir byltinguna). Eins ótrúlegt og það er þá er það sem vill einmitt helst gleymast í deilunum um þann stórmerka og umdeilda viðburð – og í allri pólitíkinni í kringum hann – fólkið sjálft: líf þeirra og vonir. Þrátt fyrir að rússnesku meistararnir fangi og tjái sammannlega reynslu, þá eru verk þeirra á sama tíma framsetning og rannsókn á Rússlandi nítjándu aldar og fólkinu sem þar bjó. Til að skilja byltinguna þarf að skilja undanfarann, fólkið fyrst og fremst, og enginn skildi fólkið betur og tjáði reisn þeirra og huglægni á áhrifaríkari hátt en Túrgenev, Dostojevskí, Tolstoj, Tsjekhov, o.fl.