Hljóm­sveit­in Fleet Foxes. Wikipedia/​Dan­is­hdrum­mer

Dýpt og alvara: Fleet Foxes á Iceland Airwaves

Á laugardagskvöld lék bandaríska þjóðlagarokksveitin Fleet Foxes í Eldborgarsal Hörpu en tónleikarnir voru hluti af dagskrá Iceland Airwaves. Hljómsveitin sló í gegn með plötu samnefndri sveitinni árið 2008 en hljóðheimur hennar, útsetningar og lagasmíðar þóttu minna um margt á þjóðlagarokk sjöunda og áttunda áratugarins og var sveitin gjarna borin saman við Crosby, Still, Nash & Young í plötudómum. Útlit sveitarinnar og yfirbragð vísaði líka aftur til fyrri áratuga en þeir voru síðskeggjaðir og síðhærðir, klæddust (að því er virtist) óbreyttum vinnufötum og í viðtölum virkuðu þeir einlægir og jafnvel feimnir. Allt þetta gerði Fleet Foxes að eftirlætisbandi hipstera, manngerðar sem gerði sig heimakomna á litlum kaffihúsum í stéttuppfærðum (e. gentrification) hverfum stórborga Evrópu og Ameríku.

Sjálfur virtist forsprakki sveitarinnar Robin Pecknold gera sér grein fyrir því að hann væri málpípa ákveðinnar kynslóðar, í viðtali við tónlistartímaritið Rolling Stone árið 2011 ræddi hann tilurð annarrar plötu sveitarinnar Helplessness blues og sagði eitthvað á þessa leið: „Þessi plata er tilvistarlegri. Hún tekur á spurningum um það hver þú ætlar að vera, af hverju gerirðu það sem þú gerir, sambandsdót. Mér fannst það OK, af því að ég er af kynslóð sem er upptekin af sjálfri sér.“ Pecknold var aðeins 24 ára þegar hann lét þessi orð falla en var greinilega þjakaður af tilgangsleysi. Eitt þekktasta lag annarrar plötunnar „Montezuma“, hefst á þessum orðum: „So now I am older than my mother and father / When they had their daughter / Now what does that say about me“? Spurningin er persónuleg en hún endurspeglar líka vanda kynslóðar hvítra millistéttarkrakka sem gengur illa að spegla sig í foreldrum sínum. Þessi kynslóð hefur oft og tíðum kosið að fresta barneignum, lifa neyslufrekum lífstíl sem hún telur sér trú um að sé umhverfisvæn og til fyrirmyndar og hún spekúlerar og spáir, vinnur aðeins í apple-tölvunni, skrollar yfir skjáinn á símanum meðan kaffibaununum er flogið frá Afríku og rómönsku Ameríku. Í viðtölum við Pecknold má gjarna greina meðvitund um, jafnvel viðkvæmni fyrir, að textar hans og tónlist sé ekki pólitísk í fyrrgreindu viðtali í Rolling Stone kemur hann ítrekað að skorti á pólitísku inntaki og segir á einum stað: „Hefurðu einhvern tímann flett gömlum Sears-bækling frá þar síðustu aldamótum og sé svona skrítið hljóðfæri þar sem er eins og sett saman úr þremur? Við eigum eitt þannig. Það heitir Marxophone. Það er pólitískasti hluti plötunnar.“

Um það leyti sem Helplessness blues kom út fóru að heyrast alls kyns sögur af erfiðleikum í vinnsluferli plötunnar, fullkomnunarárátta Pecknolds þekkti sér víst lítil takmörk og þannig var t.d. langt komnum upptökum hent og byrjað aftur frá grunni því honum líkaði ekki sándið. Biðin eftir þriðju plötunni varð líka löng, heil sex ár, sem er eilífð í popp- og rokkárum. Platan leit svo dagsins ljós í sumar og ber heitið Crack-Up. Hún hefur fengið misjafna dóma og hefur verið gagnrýnd fyrir að vera óaðgengileg, ómstríð og uppbygging laganna óvenjuleg, allt þetta má til sanns vegar færa en á móti kemur að platan vinnur mjög á við frekari hlustun. Textarnir hafa sömuleiðis verið gagnrýndir fyrir að vera illskiljanlegir en það má skýra með því að Pecknold leitar hér enn lengra inn á við en á fyrri plötum, segja má að textarnir séu ekki aðeins persónulegir heldur beinlínis á einkamáli.

Á tónleikunum í Hörpu á laugardagskvöld stóðu Fleet Foxes liðar sex á sviðinu, þeir voru búnir að snyrta hár sitt og skegg, minntu einna mest á kæruleysislegt pabba-rokk-band þar til þeir byrjuðu að spila, þá kom í ljós að galdurinn var enn til staðar, prógrammið hófst á fyrstu lagafléttunni af Crack-up: „I Am All That I Need / Arroyo Seco / Thumbprint Scar“. Hlé milli næstu laga voru lítil sem engin en meðan á tónleikunum stóð máttu tveir rótarar hafa sig alla við að stilla gítara og rétta meðlimum sveitarinnar. Lifandi flutningur laganna af Crack-Up var opnari og blæbrigðaríkari en á plötunni en þar er hljóðheimurinn oft knúsaður. Þegar kom að flutningi eldri laganna þá hljómuðu þau sum hver tregafyllri en áður, eins og greina mætti eftirsjá eftir einhverju sem áður var. Og það hefur heilmikið breyst, það sást greinilega á tónleikagestum í Hörpu sem voru flestir hverjir slétt-rakaðir og greiddir. „Það er mjög hátt hlutfall af blazer-jökkum,“ heyrði ég einhvern hvísla á leið út úr salnum eftir tónleikanna. Eru hipsterarnir sem keyptu fyrstu plötu sveitarinnar árið 2008 búnir að finna sinn stað í tilverunni? Bíllauslífsstíll í meðalhófi. Lausn undan leigumarkaði. Farsæl sala á kjallaraíbúð í 101. Kannski. En kannski hafði miðflóttaaflið sent hipsterana eitthvað annað. Kannski.

En hvað sem öllu líður þá er áhugavert að fylgjast og þroskast með Robin Pecknold. Það er dýpt og alvara og fegurð í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Nú er spurning hvað biðin verður löng eftir næstu plötu Fleet Foxes.