Dauðinn tiplar á tánum í kyrrlátum næðingnum

Um ljóðabókina Dvalið við dauðalindir eftir Valdimar Tómasson. JPV gefur út og kom bókin út fyrr á þessu ári. Er þetta þriðja ljóðabók höfundar. Áður hafa komið út Enn sefur vatnið (2007) og Sonnettugeigur (2013).

Umrætt verk lætur ekki mikið yfir sér, ekki frekar en tala dauðsfalla á blaði kann að gera. Verkið telur þrjátíu og eina síðu. Í því er að finna 433 orð í það heila með forsetningum og samtengingum. Textinn er meitlaður. Öll fita skorin burt. Stærðarlega passar bókin ágætlega í vasa. Hún er 12×17 sm, svört að lit sem hæfir umfjöllunarefninu. Bókin inniheldur myndræn fríljóð. Engu að síður er notast við stuðla. Gefur það verkinu hrynjandi og formfestu. Verkið má lesa sem ljóðaflokk eða þá einstök ljóð.

Eins og gefur að skilja af titli verks er tekið á dauðanum.

Spor mín liggja til dauðans
og þrá mín
þekkist við hann

Lífið hverfist
í laufvana greinar
og nákaldan næturblæ.

(bls. 7)

Dauðinn eins og hann birtist á síðum verksins er kyrrlátur, kaldur, dimmleitur, yfir honum ríkir ísköld þögn og næðingur, eina hljóðið sem berst er hægur niður vatnsins. Dauðinn er óhjákvæmilegur, vakir „[y]fir vegleysum lífsins“ (bls. 10). Hógvær en styrkur / bíður dauðinn við dyrnar.“ (bls.22) Það er ekki laust við að þær myndir sem dregnar eru upp í verkinu skapi hugrenningatengsl við myndheim þýska listmálarans Caspars Davids Friedrichs (1774-184) sem oftlega felur í sér værð þar sem „[í næturskímu / bíður nakin trjágrein.“ (bls. 19). Í rökkrinu býr alltént „[a]ngurvær birta“ (bls. 26) sem vensla mætti við téðan málara og fleiri af hans sauðahúsi. Aukinheldur má vel spyrða Tunglskinssónötu Beethovens við stemmningu verksins.

Dauði dauðalinda á lítt sammerkt með hinum sínálæga en samt fjarlæga dauða hvunndagsins. Endalokin kunna jú að taka á sig allslags myndir. Dauðinn í formi stríðs og hörmunga, náttúruhörmunga og hungursneyða er alltaf móðins. Svo eru það auðvitað allir Rambóar og John MacClane-ar kvikmyndanna sem stytta líf. Það eru þó allt illmenni sem enginn saknar. Og Hörmungarsögurnar eiga sér stað í öðrum löndum, oftar en ekki múslimalöndum. Fer fólk alltént alloft út með hvelli eða dramatík.

Hvorugt, stríð og hörmungar, er allajafna líklegt til að fá fólk til að staldra við og leiða hugann að þeim örlögum sem öllum eru ásköpuð. Í þeim hraða sem er einkennir samfélagið má og leiða að því líkur að fólk sé ekki með á hreinu að það verði:

Leiftrandi minning
lífs á jörð

Líf sem skartaði
lit og blóði

 

Líf sem féll
í feigð til jarðar

(bls. 18)

Eða þá að það ýtir frá sér þeirri staðreynd að dauðinn sé hluti af lífi þess, ekki það sem bara hendir hina. Dauðinn er persónulegur þótt margar tilraunir hafi verið gerðar til koma honum í

„Endlösung-form” sem auðvelt er að sjá sem tölur á blaði. Þær tölur geta jafnt verið æpandi sem sem fallið milli þilja. Þannig má lesa verk Valdimars Tómassonar; útfrá því sem það er ekki.

Eigi að síður fer betur á því að leyfa þessu látlausa, kyrrláta verki að vera það sem það er: Ferð ljóðmælanda til dauðans „[y]fir hjarnbreiður lífsins“ (bls. 10) með seiðandi næturklið og næturbrim í „[u]naði eilífrar þagnar“ (bls. 15) þar sem „[l]ífið hverfur / í ljóðrænan fjarska.“

(bls. 31). Þetta er verk sem hverfist um þögnina sem ætla má að fylgi þegar sagt er skilið við lífið. Þetta er lítið verk sem, eins og lífið og dauðinn, leynir á sér.