Pælingar um Blade Runner 2049 og óhagstæður samanburður við frumgerðina

Blade Runner 2049
Leikstjórn: Denis Villeneuve
Handrit: Hampton Fancher og Michael Green

Ég fór á Blade Runner 2049 og ég velti henni mjög mikið fyrir mér eftir á. Mér fannst fremur erfitt að komast að niðurstöðu hvað mér fannst. Svo ég fór aftur til að komast að niðurstöðu. Hér er hún:

Fyrir það fyrsta þá finnst mér upprunalega myndin Blade Runner 1982, miklu stærra listrænt afrek, bæði sjónrænt séð en einnig sagan sjálf. Það má finna margt að 1982 mynd Ridleys Scott en það var hið sjónræna sem var langt á undan sinni samtíð, og hún ruddi brautina fyrir þá sem á eftir komu. Blade Runner 1982 varð ekki það „box office hit“ sem henni var ætlað að verða, þannig varð hún Hollywood framleiðendunum vonbrigði. Ridley hafði gert vísindahrollvekjuna Alien þremur árum fyrr sem varð „box office hit“og sem vann til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndabrellur.  Það er nokkuð kaldhæðnislegt að svipað er uppi á teningnum nú með mynd Villeneuves, það er að Blade Runner 2049 mistekst í aðsóknartölum eins og forveri hennar.

Í  fjölmiðlaviðtölum við Ridley Scott þá lýsti hann því hvernig hann missti eftirvinnslu Blade Runner 1982 úr höndunum á sér  til stúdíósins og þannig var ákveðið að breyta ýmsu þvert á vilja hans, t.d. var „voiceover“ sett yfir myndina í Philip Marlowe einkaspæjarastíl sem eyðilagði framvindu myndarinnar að mati Ridleys. Einnig var endinum breytt, en Ridley vildi að Deckard og Rachel og þeirra örlög héngu í lausu lofti í lokin en stúdíóið setti þess í stað happy ending og fékk þyrluskot lánuð úr tökum Stanley Kubricks frá the Shining þar sem Rachel og Deckard fljúga inn í sólarlagið. Í The Directors Cut Ridleys Scott sem kom út 1992 og svo The Final Cut sem kom út 2007, er Ridley búinn að leiðrétta þessi inngrip.

Í Blade Runner 2049 er Dennis Gassner production designer og breska hugverkastofan Territory sá um visual design. Leikmyndin og brellurnar náðu mér ekki sérstaklega í Blade Runner 2049 þrátt fyrir að vera skotheldar og fagmannlegar. Vissulega er margt mjög eftirminnilegt eins og VR heimili og vinnustaður Dr Ana Stelline (dóttur Deckards og Rachels), höfuðstöðvar illmennisins Niander Wallace og líflaust landslag í eyðimörkum Kaliforníu. Það er vafalaust að vissu leyti ósanngjarnt og jafnvel hrokafullt að gefa útliti Blade Runner 2049 falleinkunn en samanburðurinn við fyrri myndina er bara svo innilega óhagstæður. Í viðtölum virðast hönnuðir sem koma að Blade Runner 2049 vera í erfiðleikum með að fá upplýsingar frá framleiðendum og leikstjóra til að þeir geti unnið verk sitt vegna gríðarlegs leyndarhjúps sem ríkti yfir verkinu í upphafi. Einnig hafði Villeneuve mjög ýkta stjórn á því hvað hann vildi fá fram og hafnaði mjög mörgum af upprunalegum hugmyndum frá hönnuðunum á grundvelli þess að þær litu of stafrænt út en heimur Blade Runner 2049 væri post-digital heimur (sem er reyndar mjög áhugavert).

En Blade Runner 2049 er mannlegri en frumgerðin hún reynir að komast nær persónunum heldur en mynd Ridleys  gerði og leikararnir kafa dýpra í persónur sínar. Deckard, sem í sögu Philips K Dick er þreyttur lögreglumaður á lúsarlaunum á jörðinni þar sem vistkerfið er ónýtt  býr í úthverfi og konan hans er þunglyndissjúklingur og öryrki. Ekki beint Hollywood-hetju uppskrift svo í útfærslu Ridleys er Deckard breytt í töffara (Harrison Ford) sem er piparsveinn og býr í miðbænum í samt sem áður fullkomlega dysfuncional heimi. Villeneuve bryetir aðalhetjunni úr manneskju (Rick Deckard) í replikantinn Officer K, svo að því leyti snýr hann valdajafnvægi Blade Runner á hvolf og hristir upp í sögunni sem er gott mál.

Ég saknaði ég þessarar áherslu Ridleys á dysfunctional heim í Blade Runner 2049, sem skiptir svo miklu máli í sögu Philips K. Dick Do androids dream of electric sheep. (Reyndar talar Villeneuve um það í viðtölum að hann sjái sig einmitt leggja meiri áherslu á þennan dysfunctional heim miðað við Blade Runner 1982 en ég er ekki sammála að það hafi tekist). Það eru flest dýr útdauð og allir eru farnir frá jörðinni nema fólk sem sinnir löggæslu, fatlað fólk og svo replicants/þrælar. Þetta vissi R Scott og það er lögð mikil áhersla á það í myndinni hans. En aftur að hinum mannlega þætti, það eru mun trúverðugri persónur í nýju myndinni, það er í raun engin hetja ég og vinur minn sem sem fór með mér á myndina vildum meina að eina góða „manneskjan“ í myndinni hefði verið Joi, forritaða kærasta Officer K, allir aðrir væru vondir.

Í Blade Runner 1982 voru leikmynd og kvikmyndabrellur þrekvirki, allir sem hafa stúderað hana eru sammála um það. Lawrence G. Paull sem production designer, David Snyder sem art director Syd Mead concept artist, Lawrence G Paul production designer og Doug Trumbull og Richard Yuricich special effects; þessi nöfn eru mikilvæg í Blade Runner 1982. Það er gríðarleg visual hugsun á bak við hana eins og til dæmis áhrif frá Métal Hurlant; franskri scifi teiknimyndasögu-seríu og fútúrista-arkitektinum Antonio Sant´ Elia. Og smáatriði eins og skákin sem Tyrell og Sebastian eru að leika er fengin frá the Immortal Game einu frægasta skákeinvígi allra tíma á milli Lionel Kiseritzki og Adold Andersen árið 1851. Rúm Eldons Tyrell er eftirlíking af rúmi John Paul II og svo mætti lengi telja.

Ég held, eins og fyrr sagði, að Villeneuve hafi ákveðið að leggja aðaláhersluna á hið mannlega og minna á leikmynd og brellur, ég skil það vel en ég tel að það séu mistök í gerð scifi kvikmyndar að ákveða það, hafi hann ákveðið það. Einnig finnst mér áberandi að Villeneuve virðist vera með mjög sterka skírskotun í söguna um Ævintýri Gosa eftir ítalann Carlo Collodi. Hann ákveður í raun að finna samúðina með Joe og hinum mannlegu vélmennum sem eru úrhrök samfélagsins, með því að gefa okkur tilfinningu fyrir því að þau sé í sömu aðstæðum og trébrúðan Gosi. Einnig verður að segjast að myndin er óþarflega löng og margar senur eru óþarflega langar eins og maður sé staddur í Ingmar Bergman mynd en ekki vísindaskáldsögu. (Kannski er það vandamálið, kannski er Blade Runner 2049 snobbuð).

Það sem mér finnst verulega athugavert við handrit Blade Runner 2049 er þessi ákvörðun Villeneuves að leita ekki í smiðju Philips K. Dicks sem svo sannarlega er sneisafull kista af sögum, hugmyndafræði og heimspeki. Mér finnst eins og hann hafi ákveðið að leita ekki í þann sagnaheim heldur búa þess í stað til einfalda sögu með tilvísun í Ævintýri Gosa með sterkum karakterum og með áherslu á leik. Honum tekst það að vissu marki, leikararnir í aðalhlutverkum eru frábærir, karaktersköpunin tekst afar vel, sérstaklega K og Joi en einnig Dr Ana Stelline, Luv og Lieutenant Joshi. Þannig eru persónur Blade Runner 2049 að flestu leyti sterkari, heilsteyptari og hafa meiri dýpt.  En  fjarvera Philips K Dick er æpandi í Blade Runner 2049.

Niðurlag

Upprunalega myndin Blade Runner 1982 er miklu stærra kvikmyndalegt afrek, bæði sjónrænt séð en einnig sagan sjálf.  Villeneuve virðist hafa ákveðið að leggja aðaláhersluna á hið mannlega og minna á leikmynd og brellur, það er mjög skiljanlegt en ég tel að það séu mistök í gerð vísindaskáldsögu-kvikmyndar. Í viðtölum virðast hönnuðir sem koma að Blade Runner 2049 vera í erfiðleikum með að fá upplýsingar frá framleiðendum og leikstjóra til að þeir geti unnið verk sitt vegna gríðarlegs leyndarhjúps sem ríkti yfir verkinu í upphafi. Einnig verður að segjast að myndin er mjög löng og margar senur óþarflega langar, eins og maður sé staddur í Ingmar Bergman mynd.

Það sem er verulega athugavert við handrit Blade Runner 2049 er þessi ákvörðun Villeneuves að leita ekki í smiðju Philips K. Dicks heldur lítur út fyrir að hann hafi ákveðið að leita í Ævintýri Gosa ásamt fókusi á að búa til sterka karaktera og leggja áherslu á leik. Honum tekst það að vissu marki, leikararnir í aðalhlutverkum eru frábærir, karaktersköpunin tekst afar vel. Þannig eru persónur Blade Runner 2049 að flestu leyti sterkari, heilsteyptari og hafa meiri dýpt.  En  fjarvera Philips K Dicks er ærandi í Blade Runner 2049 og þar stendur líklega hnífurinn í kúnni.