Skáldsagan Allt sem ég man ekki eftir Jonas Hassen Khemiri kom út í fyrra í þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Bókin kom fyrst út hérna í Svíþjóð árið 2015 og hlaut þá Augustpriset, sem eru virtustu bókmenntaverðalun Svíþjóðar og heita eftir Augusti nokkrum Strindberg. Það er nokkuð óhætt að segja að bókin hafi gert stormandi lukku útum víða veröld síðan. Hér á eftir langar mig í stuttu máli að ræða erindi bókarinnar og nokkur áhugaverð þemu. Í stuttu máli þá fjallar Allt sem ég man ekki mest um þrjár persónur, vinina Samúel og Vandad og svo Laide en hún og Samúel stofna til ástarsambands sem svo skapar togstreitu í sambandi Samúels og Vandads. Aðrar persónur eru höfundurinn sjálfur en sagan er sögð í lauslegu viðtalsformi og höfundurinn á það til að brjóta fjórða vegginn, svo að segja svo og Pardusinn sem er ung listakona. Þess má svo geta að allar ofantaldar persónur, að höfundinum meðtöldum, eru af erlendu bergi brotnar og vinna ýmist í málefnum innflytjenda (Samúel og Laide) eða einfaldlega klassísk innflytjendastörf með öðrum innflytjendum (Vandad) og fjallar sagan því öðrum þræði um hvernig það er að vera innflytjandi í Stokkhólmi frá mismunandi sjónarhornum.
Fyrst langar mig að minnast aðeins á hversvegna bókin átti erindi við mig hversvegna ég ímynda mér að hún geti átt erindi við íslenska lesendur. Ég hef búið í Stokkhólmi í rúm sex ár og bók Khemiris gerist í Stokkhólmi og persónurnar eiga sumar, rétt eins og ég, í nokkuð flóknu ástar-haturssambandi við borgina og landið. Pardusinn lætur það til dæmis fara mikið í taugarnar á sér hvað Stokkhólmur er ólíkur Berlín og, merkilegt nokk, þá hugsaði maður oft á svipuðum nótum fyrstu árin. Ég hef annars alltaf reynt að vera mjög þolinmóður, opinn og auðmjúkur gagnvart Svíum og allra þeirra furðum, dyntum og kenjum. Ég flutti hingað út síðsumars árið 2011 vitandi það eitt að þegar maður kemur frá Íslandi þá er maður í afleitri stöðu til þess að finna að og veita tilsögn varðandi rekstur heilbrigðs samfélags og þetta hugarfar á enn ágætlega við. Ég er líka alltaf að reyna að vara mig á að rugla ekki saman einstaklingi og þjóð, fletja ekki sérvisku eins manns út í grímu einhverskonar þjóðarsérkennis sem maður svo í hugsunarleysi reynir að smeygja á alla strolluna. Ennfremur eru Svíar margbrotið fólk en þeir mega eiga það að þeir virðast sjálfir vera mjög áhugasamir um ýmis einkenni og skilgreiningar á sænskri menningu og þjóðarsál. Á þeim tíma sem ég hef verið hérna hef ég rekist á ótal bækur, sitcom þætti og uppistandssýningar helgaðar þessu viðfangsefni. Það ekki síst í þessu samhengi sem maður áttar sig á hvað bók Khemiris er þarft innlegg í þá umræðu alla; hvað þróun einhverskonar sjálfsmyndar er gallað og ófullkomið ferli og manneskjan sjálf í eðli sínu óhæf til að sjá, skilja og/eða segja frá sínum þætti í einhverri atburðarás og þá er ég langtum hæfari til þess arna því glöggt er gests augað.
Til þess að byrja virkilega að ná til botns í þeim svensku þá þarf maður að kunna þá list að halda tveim fullkomlega andstæðum hugmyndum í höfðinu samtímis, en þó án þess leyfa þeim að núlla hver aðra út. Þannig hef ég tekið eftir því að sænskurinn er upp til hópa nokkuð vinstrisinnaður og leggur mikið uppúr hófsemi og jöfnum rétti allra óháð stétt, stöðu, kyni, kynhneigð, kynþætti og þess háttar. Þetta sama fólk er svo upp til hópa kapítalískir neysluboltar með aristókrasíublæti á nokkuð háu stigi, með sína konungsfjölskyldu og blessuð börnin sem þrá ekkert heitar en að verða seleb (s. kändis) þegar þau verða stór. Svo er þetta hlutlaus friðarþjóð sem selur vopn í gríð og erg, og Stokkhólmur, það er barnaleg borg þar sem sumar göturnar heita eftir pipar og kanil en það er líka stórborg með allskonar stórborgarvandamálum. Mikilvægast af öllu, að minnsta kosti hvað bókina Allt sem ég man ekki áhrærir, þá er Stokkhólmur bæði galopin og harðlokuð borg; fjölmenningarsamfélag þar sem einskonar aðskilnaðarstefna hefur fengið að þróast, því miður, því hér eru bæði hverfi þar sem íbúar eru nánast eingöngu Svíar og svo önnur þar sem varla býr nokkur einasti Svíi.
Samband Íslands og Svíþjóðar er líka nokkuð merkilegt. Í fornsögunum okkar eru hinir sænsku gjarnan hin mestu dusilmenni og er Glámur líklega þekktasta dæmið þar um en stundum nægir Íslendingasögum að kynna nýja persónu til leiks í fylgd með sænskum félaga til þess að lesandinn viti að þarna sé líklega drullusokkur á ferð (til dæmis Sigmundur Lambason í Njálu sem kom inn í söguna í fylgd Skjaldar sem var sænskur). Það er svo kannski til marks um hina öfugsnúnu mynd af Svíþjóð að í íslenskri umræðu er landinu gjarnan stillt upp á víxl, annaðhvort sem eftirsóknarverðu fyrirmyndarsamfélagi eða víti til að varast.
Sjónarhornið fer augljóslega mikið eftir því hvaða fjölmiðla maður les en ég hef til dæmis orðið var við að hugmyndir séu réttlættar eða rökstuddar með því að benda á að þetta eða hitt sé gert svona í Svíþjóð og hljóti því að vera hið besta mál (eins og til dæmis nýlegar hugmyndir um að skerða leikskólatíma fyrir eldri börn fólks í fæðingarorlofi). Á hinn bóginn sér maður reglulega dúkka upp fréttir sem lýsa því hvernig lögreglan sé búin að missa tökin í svo og svo mörgum hverfum í Stokkhólmi og víðar, hætti sér jafnvel ekki inn í þau. Ég sá þetta síðast í frétt á Rúv.is sem var unnin uppúr frétt á Eyjan.is sem var unnin uppúr frétt norska ríkisútvarpsins NRK sem var unnin uppúr skýrslu sænsku lögreglunnar um „félagslega berskjölduð svæði“ (s. utsatta områden). Á fjær enda hvísluleiksins voru jafnvel dauðyflislegustu einbýlishúsahverfi orðin fullsköpuð no-go zone og spurningin „viljum við virkilega enda eins og Svíþjóð?“ allt í einu orðin hið eðlilegasta umræðuefni meðal íslendinga, að minnsta kosti í einhverjum kreðsum. Látum nægja í bili að fyrir alla sem hafa áhuga á Svíþjóð, Svíum og lífi innflytjenda í Stokkhólmi þá er eftir heilmiklu að slægjast í sögunni Allt sem ég ekki man. Innflytjendaþátturinn er til dæmis settur fram á mjög áhrifaríkan hátt og manni finnst maður vera heilmiklu nær um líf aðfluttra í Stokkhólmi og þó að talið berist oftar en ekki í hinni almennu umræðu að hinum berskjölduðu svæðum, eins og ég minntist á hér að ofan, þá er það í raun og veru sjálfar manneskjurnar sem eru hvað mest berskjaldaðar, fyrir ofbeldisfullum mökum, atvinnurekendum sem vilja arðræna það o.s.frv. Þó að þetta sé ekki sjálf sagan þá er þetta engu að síður eitt stærsta viðfangsefni bókarinnar.
Hin ýmsu þemu bókarinnar eru kunnugleg, aðallega vinátta, peningar og ást. Höfundurinn stundaði hagfræðinám í einhvern tíma og í bókinni má greina ákveðna hagfræðilega nálgun gagnvart þessum þemum. Peningar eru mikilvægt hreyfiafl í lífi og samskiptum aðalpersónanna og það þótt sumar persónurnar reyni að láta sem peningar skipti ekki máli. Samúel og Vandad búa til dæmis saman og skiptast á að borga leiguna og bjórinn á barnum en svo snýst þetta vinalega fyrirkomulag smám saman upp í tortryggni og allskonar vesen en nú vil ég ekki segja of mikið. Eðli góðgerðastarfs er líka tekið sundur í órómantískari minni einingar; sá sem gefur er að fá eitthvað annað í staðinn eins og vellíðan, hugarró eða gott umtal. Góðmennsku Laide er þannig legið á hálsi að vera eins konar tækifærissinnað, borgaralegt „lip-service“ en þetta atriði togast svo á við hugmyndina um hreina gjöf. Segja má að ástin sé á sama hátt gerð ódýr. Það er ekkert þannig séð merkilegt við ástina á milli Samúels og Laide, hann bara rakst á hana þegar hann var hugsjúkur af einhverri furðulegri blöndu af ástsýki og forvitni, hún í einhverju rugli líka og þau lágu bara vel við höggi hvert fyrir öðru.
Bókin er sett upp á nokkuð óhefðbundinn máta. Ólíkir sögumenn skiptast gjarnan á frásögninni, og oft er skipt eftir hverja málsgrein, stundum bara eftir tvær línur. Þetta getur verið ruglingslegt í byrjun en hefur síðar þau áhrif að maður veit ekki alveg hvar maður á að hætta að lesa. Ég stóð mig þannig að því oftar en einu sinni að lesa 50 blaðsíður í einum rykk, en ég er annars enginn sérstakur lestrarhestur, bara vegna þess að næsta málsgrein blasti alltaf við og maður vildi ekki hætta í miðri frásögn. Hinn einfaldi stíll ruglar mann líka í ríminu og það er í rauninni ekki fyrr en eftirá að maður áttar sig almennilega á hversu margbrotin og úthugsuð bókin er. Sem áður sagði er sagan sögð af mismunandi persónum og verður fljótt ljóst að þær eru hugsanlega ekki allar jafn áreiðanlegar. Frásagnir bókarinnar frá ólíkum sjónarhornum bæði styrkja hver aðra og grafa undan hver annari en þetta er kannski mest áberandi hjá Laide og Vandad. Þetta er líka mjög vel gert og höfundurinn hefur gott vald á því hvaða upplýsingum hann mylgrar í lesandann og hvað hann lætur ósagt. Þetta verður svo enn flóknara þegar sögumönnum er ekki lengur treystandi og lesandinn þarf gjarnan að leyfa ýmsum andstæðum að móta veruleika sögunnar. Þessi hlið bókarinnar er kannski sú sem veitir hvað besta innsýn inní hugarheim Svíans, kannski sjálfrar mannskepnunnar, þar sem mótsagnirnar svífa um eins og sápukúlur, rekast stundum saman á flugi og ýmist gróa saman í stærri sápukúlur eða hálfkringlótt afstyrmi úr tveim kúlum eða springa og hverfa í algjörri þögn.
Hvað sem því líður þá er þetta ein allra áhugaverðasta bók sem ég hef lesið lengi.