Ættjarðarljóð


Heimur sem ég átti
skilmálalaust
hér í útjaðri veraldar:
fjaran angaði af bóluþangi
klettarnir bergmáluðu leyndarmál hafsins
túnin voru græn með gulum flekkjum
húsin smá og bárujárnuð
með pottablóm í gluggum
strætisvagnar stuttir og kubbslegir
með strjálum viðkomustöðum
boddíbílar með hörðum bekkjum
til berjaferða á haustin
mamma við kolavélina
að baka flatkökur á glóandi plötu
pabbi daglangt á eldhúskollinum
ef ekki var atvinnubótavinna
og lék af fingrum fram á borðbrúnina
að bíða eftir næstu törn

Þá var tíminn óendanlegur

Hann var hilling sólskininna dægra
og hvarf í regnskúrum gróandans
þegar hólminn breyttist í virki voldugra bankamanna
og fólkið varð feitt og sællíft
í krafti skjóttekins gróða
og skjóli járnbentra steinbákna
verðbólgið og vansvefta
vegna örfleygja stunda
sem týnast áðuren tími verður til


Sigurður A. Magnússon rithöfundur lést 2. apríl. Ljóðið Ættjarðarljóð birtist í bókinni Í ljósi næsta dags (1971).