Að elta frelsið fram af bjargi

- Um Grænmetisætuna eftir Han Kang

VEI TVÍHYGGJAN

Ég tala líkt og talað er í mér. Ekki röddu sem þráast við að líkjast mennskri rödd heldur hinni sem ber vitni um að ég hef ekki hætt að eiga heimkynni í skóginum. 

(Alejandra Pizarnik, „Extracción de la Piedra de Locura“, bls. 203. Drög að óútgefnum þýðingum Hermanns Stefánssonar.)

Í angistarfullum orðum argentíska játningaskáldsins Alejöndru Pizarnik birtist ákveðið raddleysi. Rödd hennar á sér ekki heima í okkar mannlega umhverfi, heldur í útjaðrinum, með dýrunum og öllum hinum. Þesskonar raddleysi lýsir einkar vel stöðu konunnar, samkvæmt Simone de Beauvoir, og hvernig notkun á karllægu tungumáli hefur orðið til þess að klofnun verður í sjálfi kvenna. Hið ráðandi sjálf, er mótað af samfélagslegum gildum og eftirvæntingum, fölskum röddum og raddleysi, hið víkjandi sjálf er frjálst, villt og hefur sína eigin rödd. Rödd sem er þeirra og aðeins þeirra. Í samfélagi tvíhyggju þar sem maður er lífið, er kona dauði. Það sem maður er hugur og skynsemi, er kona líkami og rökleysi. Þar sem maður er konungur, er kona þræll. Í því samhengi verður konan raddlaus og þarf í sífellu að lifa við klofið sjálf.

Í náttúrunni býr dauðinn, dauðinn býr í náttúrunni.

Sem hinn, hefur konan verið sett undir regnhlíf alls þess sem maðurinn er ekki. Hið líkamlega, hið dýrslega, hið náttúrulega, hið órökrétta, hið illa, og að lokum, hið deyjandi og deyðandi afl.  Dauðinn er því ekki sorglegur, heldur aðeins óhugnalegur. Dauðinn er huggun hjá líkama sem aldrei hefur átt sér rödd. Dauðinn er mótspyrna gegn þeim gildum sem henni er ætlað að lifa þegjandi við. Í brotnu sjálfi endurspeglast frelsi. Frelsið er hrátt og miskunnarlaust, en verðlaunin í dauðanum gætu verið þess virði.

Aðalpersóna Grænmetisætunnar, Yeong-hye, fékk að komast að því.

AÐ DEYJA EÐA EKKI DEYJA

Grænmetisætan eftir Han Kang er saga um konu sem hættir að borða kjöt. Í raun er þetta stríð hennar við eigin sjálfsmynd, líkama og verund, en það verður útskýrt síðar. Sagan gerist í Suður-Kóreu og í þrem hlutum fær maður glitta í þrjú mismunandi sjónarhorn af lífi hennar og baráttu. Í fyrsta hluta er sagan sögð frá eiginmanni hennar í fyrstu persónu, í öðrum hluta er sagan færð yfir til eiginmanns systur hennar, í þriðju persónu, og í lokin er systir hennar áhorfandinn í þriðju persónu. Augljóst er því strax að rödd aðalpersónunnar er lítil sem engin, og glittir aðeins í hana í þokukenndum draumalotum sem einkenna fyrsta hluta.

Fyrsti hluti byrjar á hrokafullum og hvimleiðum fullyrðingum eiginmannsins. Hann lýsir því hversu einstaklega venjuleg og óeftirtektarverð Yeong-hye hafi verið áður en hún gerðist grænmetisæta. Svo einn morguninn fer allt á haus. Hann vaknar ekki á réttum tíma í vinnuna af því hún hafði ekki vakið hann, það var enginn morgunmatur né heitt kaffi á borðinu og skyrtan hans var ekki nýþvegin og straujuð. Ég meina er það nú mannvonskan. Í staðin stendur eiginkona hans fyrir framan ísskápinn og starir á innihald hans. Frosin dýrshræ og afgangar liggja út um allt gólf, á leiðinni í ruslið.  ‘Mig dreymdi draum’  er það eina sem hann fær út úr henni, ‘mig dreymdi draum.’

Í seinni hluta fær lesandi sjónarhorn inn í líf eiginmanns systur hennar,  sem er listamaður og furðulegt blæti hans fyrir Yeong-hye. Hann verður heltekin af blárri valbrá sem enn hvíldi á annarri rasskinn hennar, og minnir hann á blátt blóm. Hugmyndin um valbrána gerir hann svo heltekinn af losta að hann verður að fá hana í næsta listaverk, til að stunda kynlíf, máluð blómum, fyrir framan myndavél. Á þessum tímapunkti hefur eiginmaður Yeong-hye farið frá henni og hún býr ein. Hún hefur slitið sig að mestu frá fjölskyldu sinni og talar aðeins í stöku orðum. Einnig hefur hún horast gríðarlega. Því fannst honum þetta hin fullkomna tímasetning til að biðja hana um að taka þátt, og Yeong-hye, algjörlega búin að segja skilið fyrir fyrirframskipuð samfélagsleg gildi, er til í slaginn. Hann málar á hana blóm og tré og vonast til þess að hún sé til í að stunda kynlíf við vin hans fyrir framan myndavél. Þegar vinur hans hættir við, ákveður hann að stíga sjálfur í leikinn og fær Yeong-hye til að mála á sig blóm. Hann þvingar sig svo ofan á hana þar til hún grætur. Systir Yeong-hye kemur í heimsókn fyrir tilviljun, sér upptökurnar og maðurinn reynir að drepa sig með því að hoppa fram af svölunum. Bæði Yeong-hye og maðurinn eru lögð inn á geðsjúkrahús.

Í síðasta hluta er skyggnst dýpra inn í líf systur hennar, In-hye, og samsvörun hennar við Yeong-hye sem er nú að svelta sig til dauða á geðsjúkrahúsi.  Sömuleiðis fær maður sögur úr barnæsku þeirra, hvernig faðir þeirra lamdi Yeong-hye og hvernig æska þeirra beggja mótaði þær að þeim konum sem þær urðu. Hvernig Yeong-hye hafi eitt sinn ákveðið að verða eftir í skóginum, og búa þar til æviloka en In-hye hafi talað hana af því, sem rödd röksemdarinnar. Hún minnist þess einnig þegar Yeong-hye flúði af geðsjúkrahúsinu og út í skó þar sem hún fannst blaut og köld í myrkrinu milli trjánna þar sem hún var að vonast til þess að sogast ofan í jörðina. Þessar hugrenningar renna saman við heimsóknir In-hye á geðsjúkrahúsið að hitta Yeong-hye sem liggur á dánarbeðinu. Hún neitar að borða þar sem hún er staðföst á því að hún sé að breytast í tré og þurfi ekki að borða lengur, hún ætli sér að ljóstillífa. Hún sé ekki að fara að deyja, hún sé aðeins að breyta um form, og verða loksins partur af því sem hún átti alltaf að vera.  Hún er að koma heim.

Í náttúrunni er frelsið, sem kemur kallandi, en það er ekki svo sjálfsagt að fá aðgangsmiða að öflum þess. Systir hennar finnur sömuleiðis fyrir kallinu, og hefur fengið svipaða drauma, en skynjar að trén vilja ekki hleypa henni inn og neyta að ‘taka lífið hennar frá henni’. Trén samþykkja hana ekki strax, en rétt eftir að Yeong-hye deyr þá sér hún trén loga eins og grænt bál, „sem iðar eins og gáráttur feldur ógurlegs dýrs, villt og óheflað“ (183).

AÐ EIGA HEIMKYNNI Í SKÓGINUM

Í bókinni má finna mörg mjög sterk þemu um baráttu anda og efnis í sjálfi kvenna, um fáránleika samfélagslegra gilda, um rödd og raddleysi, og að lokum frelsið og dauðann. Þessi þemu birtast hvað sterkast í martörðum hennar,  svo hræðilegar að þær halda fyrir henni vöku.

Martraðirnar kalla á hana í sífellu. Þær sýna hana sem villidýr, blóðugt um kjaftinn með nýdrepna bráð á milli tannanna. Allt er þakið blóði. Svartur skógur umkringir hana og það er stanslaust myrkur. Þetta er staður sem hún hefur einhverntímann þekkt, en þó er hún týnd. Rétt eins og Alejandra Pizarnik, á Yeong-hye ennþá heimkynni í skóginum. Hún tekur draumunum sem fyrirboða og í von um að losna við martraðirnar hættir hún að neyta allra dýraafurða. Nokkru síðar hættir hún að tala, líklegast þar sem rödd hennar samræmist ekki hugsunum hennar. Hið mannlega tungumál sem henni hefur verið kennt að nota er ekki hennar eigin rödd.

Í sjálfi Yeong-hye ríkir blóðugt stríð rándýrsins og bráðarinnar. Í fyrstu er henni lýst sem óvirkri og þögulli eiginkonu, sem hægt og rólega fer að sjá rándýrið í speglinum. Draumar og raunveruleiki skerast á, en hið dýrslega sjálf draumanna eltir hana inn í raunveruleikann. Hún umturnast hægt og rólega frá samfélagslegri veru yfir í dýrslega veru, eins og snákur að skipta um ham. Í dýrinu hefur hún kastað af sér öllum samfélagslegum gildum og hömlunum og verður hvoru tveggja hetja, og fangi, fáránleikans, eftir því hvort lesandi telji örlög hennar sigur eða tap.  Kynverund hennar verður sömuleiðis óhefluð, dýrsleg, blóðug, óhrein, dimm og hættuleg. Allt sem hún á ekki að vera samkvæmt samfélagslegum stöðlum.  Þegar hún breytist í tré vill hún að blóm vaxi úr klofi sínu og hún muni þá opna fæturnar vítt vítt í sundur. (148)

Bókin leiðir lesanda hægt og rólega inn í þykkan skóginn. Frá tómu lífi yfir í dauða. Að drepa sig er ekkert mál fyrir Yeong-hye, því þar liggur frelsið. Dauðinn ákallar þær systur eins og skugginn; hræðilegur en kunnuglegri en allt annað. In-hye verður sömuleiðis hrædd um að hún muni drepa sig, það væri of auðvelt fyrir hana. Í dauðanum geta þær systur kastað af sér öllum þeim beislum sem þær fengu í fæðingararf og gefið sjálf sitt á vald náttúrunnar í von um að finna rödd sem er sannarlega þeirra eigin.

„ÉG ER EKKI LENGUR DÝR, SYSTIR“

Konan sem vitfirrtur leyndardómur, undir stjórn tunglsins og náttúruaflanna, er aldagamalt bókmenntaminni og mýta sem er síendurtekin í gegnum tíðina. Þessari mýtu virðist hinsvegar snúið á hvolf í sögunni og ekki er vitað hvort að höfundur hafi notað mýtuna sér til innblásturs eða til að sýna fram á fáránleika hennar.

Annað hvort stígur Yeong-hye út úr sínu falska sjálfi, úr búning eiginkonunnar, og yfir í hið sanna dýrlsega sjálf. Eða, hún er að ganga inn í ný beisli, í mýtuna um hina illu konu sem spillir karlmönnum og allri siðmenningu með sjálfstæðri kynvitund sinni og yfirskilvitslegum völdum yfir náttúrunni. Þessi mýta, sköpuð af manninum, er eitthvað sem Yeong-hye hræðist í draumum sínum, en þó er augljóst að hennar fyrra sjálf hefur ekki gefið henni neitt, og var aðeins mótað til að þjóna karlmönnunum í lífi hennar.

Í mýtunni finnur hún töframátt sinn, hið sterka vald geldingarinnar, sem eiginmaður hennar og faðir hræðast svo mjög, og mágur hefur afbrigðilegt blæti fyrir. Eina flóttaleið hennar frá fyrra (ó)sjálfi er því í gegnum sjálfsmorðið. Þar sem líf fyrir drauminn, var ekkert líf, engin verund.

Beisk von um hina „sönnu“ rödd drepur líkama hennar, og þannig er hring mýtunnar lokið. Henni er ætlað að deyja. Ef að kona velur röddina, þá velur hún einnig dauðann. Konan verður að leita að röddu innan skógarins og útjaðarins, sem ómar í draumum hennar. Rödd hennar getur aðeins endurspeglað rödd dauðans, og því verður sjálfssvelting eina leið hennar til sjálfstæðis og uppreisnar. Þetta er ekki auðveld leið, en þetta er innvígslunarseremónía veru sem hefur verið fangi falskra radda of lengi. Því er lengi hægt að velta fyrir sér hvort að sjálfsmorð hennar hafi verið sigur eða uppgjöf. Eða hvort það var sjálfsmorð yfir höfuð.

Grænmetisætan lýsir örlagafullri leit konu að eigin rödd, sjálfræði yfir eigin líkama og nýrri verund í nútímasamfélagi. Kjötát er notað til að ramma inn söguþráðinn,  og hægt er að túlka það hvoru tveggja bókstaflega og táknrænlega. Neysla á kjöti er samfélagslega viðurkennd hegðun og því verður ákvörðun hennar að hætta að borða kjöt miklu merkingameiri en aðeins andspyrna gegn þjáningu dýra, heldur verður gjörðin andspyrna gegn öllum samfélagslega viðurkenndum gildum. Hún er hetja fáránleikans, (eða andhetja). Það skiptir máli hvort lesanda finnst sjálfsmorð hennar leið í frelsi, eða endanlegur sigur feðraveldisins yfir líkama hennar og huga.  Þar ætla ég að leyfa næstu lesendum að ákveða.

Hefur hún fundið sína sönnu rödd í trúarfallinu? Fékk hún í raun og veru boðskort inn í kunnuglegan heim náttúruaflanna, þess villta, líkamlega og frjálsa? Eða er hún afleiðing heimilisofbeldis í æsku, kúgunar og að lokum geðsjúkdóms sem dregur hana til dauða? Er þetta sorgarsaga konu, sem leiðist til sjálfsmorðs þar sem hún sér enga aðra útgönguleið úr sorglegri tilvist sinni, eða er þetta táknrænn sigur konu sem streitist á móti þess fangelsis sem hún var sett í við fæðingu, öllum þeim gildum og hömlunum sem hún hefur þurft að lifa við?

Ein með náttúrunni, ein í náttúrunni.