ÞVAGAN Á KNATTLEIKNUM

Þýðing: Ragnar Helgi Ólafsson


Þvagan á knattleiknum
hrærist sem heild

í anda þýðingarleysisins
sem gleður þau –

allar hinar æsandi fléttur
eltingaleiksins

og undankoman, mistökin,
snildartaktarnir –

allt til einskis ef ekki væri fyrir fegurðina
að eilífu –

Þannig að: Í nærmynd eru þau,
þvagan, fögur

og vegna þess
viðsjárverð

hyllt og mönuð –
Hún er lifandi, meinfýsin

brosir af vægðarleysi
orð hennar skera –

Þessi glysgjarna þarna,
með móður sinni, hún fær að kenna á því –

Gyðingurinn, hann fær það óþvegið – hún
er banvæn, skelfileg –

Hún er rannsóknarrétturinn,
franska byltingin

Hún er sjálf fegurðin
sem lifir

innra með þeim, dag eftir dag
fánýt –

Svona er
orkan í andlitum þeirra

Það er sumar, það eru sólhvörf
þvagan

fagnar, þvagan hlær
í nærmynd

stöðugt, af alvöru
hugsunarlaust