Þrjú ljóð úr bókinni Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur
í nótt fjúka orðin
inn í vitund mína
líkt og snjókorn
inn um opinn glugga
innlyksa
hugsa ég um
botnfrosin vötn
hlusta á
bresti þeirra
horfi á deyjandi ljós
í bylnum
í sumar vil ég
að við hlykkjumst saman
eftir strandlengjunni
keyrum tvö yfir sandana
– sofum í bílnum
meðan jökullinn hvíslar að okkur
orðum í ró
að morgni titrar jörðin
og þú segir: þetta eru hjörtun
að ljúkast upp í sólinni
og kolmórauð skriða fellur
sumir dagar
hvíla í lófa mínum
tunglhvítar perlur
ég óttast að glata þeim
á öskuhaugunum
sunnan við bæinn
liggja sundurtætt hræ
annarra daga
ég hef sætt mig við
að komast ekki undan
kveinstöfum þeirra
á nóttunni