Ókunnugra á milli: Stranger to Stranger með Paul Simon

„Hello darkness my old friend“. Svona voru fyrstu kynni manna af Paul Simon og kveðskap hans. Síðan hefur Simon gefið út margar plötur bæði einn og með gamla félaga sínum Art Garfunkel. Það sem hefur helst einkennt feril hans er að oft hefur verið litið á hann sem léttvigtarmann í skáldskap og svo nokkuð stöðug gæði tónlistar hans. Hið fyrra er helst að rekja til þess að amerísku þjóðlagakreðsunni fannst að þjóðlagahefðinni vegið með rafhljóðfærunum í Sounds of Silence, þaðan sem tilvitnunin kemur. Þegar kemur að gæðum tónlistar hans þá hefur hann á löngum ferli sínum aðeins gefið út eina plötu sem gæti kannski talist afleit. Það er Songs From The Capeman frá 1997. Eflaust má finna rútur fullar af Paul Simon aðdáendum sem eru ósammála mér um það.

Einhverntíman sá ég grein þar sem var reifað að sú gjörð Paul Simon að hunsa viðskiptabannið við Suður Afríku hafi gert meira fyrir svarta íbúa landsins og átt meiri þátt í að brjóta niður Apartheid en nokkuð annað sem listamenn vesturlanda gerðu til að spyrna á móti stjórnvöldum þar. Afraksturinn platan Graceland, líklegast hans besta plata og sú vinsælasta, var mjög ritmísk án þess þó að vera á kostnað melódíunnar.

Á sinni nýjustu plötu Stranger To Stranger, leitar Paul aftur á ritmísk mið og gerir það enn án þess að fórna melódíunni. Textarnir fjalla flestir um lítilmagnann, þann fátæka, þann sem á sér enga von, geðsjúklinga og svo bara venjulegt fólk. Þung viðfangsefni frá manni sem ég heyrði í viðtali í vor segja að hann reyndi að hafa lögin sín soldið björt til að vega á móti myrkum huga hans sjálfs. Önnur lög eru ástarjátningar til eiginkonu hans, Edie Brickell, en síðast heyrðist af þeim þegar þau voru handtekin bæði fyrir að berja á hvoru öðru á heimili sínu í Bridgeport, Connecticut. Eins eru nokkur merki um það að hann er farinn að sjá fyrir endann á lífi sínu, 74 ára gamall maðurinn. Hár aldur Simons hefur samt engin áhrif á orku plötunnar. Hún er full af lífi sem margir yngri tónlistarmenn gætu verið stoltir af. Eins og á síðustu tveimur plötum koma kristin sjónarmið einnig nokkuð við sögu.

Bestu lög plötunnar eru Werewolf sem fjallar um hvernig auðvaldið sópar að sér flestum gæðum landsins og skilur lítið eftir handa venjulegum borgurum. Lagið er ritmískt groove með doo wop röddum ofan á. Í Wristband leitar hann á djössuð Drum and Bass mið með smá doo woppi ofan á. Textinn byrjar á sjálfsháði þar sem Paul hefur læst sig úti af tónleikastað sem hann er að fara að spila á og dyravörðurinn veit ekki hver hann er og vill ekki hleypa honum inn þar sem hann hefur ekki armbandsmiða. Það kemur svo í ljós að hann er að nota þessa sögu sem analógíu til að sýna fram á aðgangsleysi almennings að lífi elítunnar þar sem fáir sem engir miðar eru í boði.

Besta lag plötunnar þykir mér titillagið Stranger To Stranger. Það er eitt af fáum lögum hennar sem byggja á hefðbundinni lagasmíð fremur en ritma. Þetta er rólegt og fallegt lag þar sem höfundur spyr elskuna sína ef þau væru að hittast í fyrsta sinn í dag hvort hún héldi að þau yrðu samt ástfanginn eins og fyrr. Ósungna lagið In The Garden Of Edie er svo annar óður til eiginkonunnar og er ágætt lag. Önnur verulega góð lög eru Cool Papa Bell og Insomniac´s Lullaby. Eina lag skífunnar sem ég er ekkert voðalega hrifinn af er The Riverbank, sem er einhverskonar Tom Waits lite blúshjakk, en jafnvel það er fullt af lífi.

Það er ekki hægt annað en að hafa gaman af þessari nýjustu afurð Paul Simons. Ef þetta er hans síðasta plata, sem er ekkkert ólíklegt miðað við háan aldur hans, þá er hún frábær endalok á ferli eins helsta tónlistarmanns okkar tíma. Tónlistarmanns sem hefur alltaf farið sínar eigin leiðir í listsköpun sinni og hefur að mestu leiti náð að halda uppi stöðugum gæðum sem flestum samferðarmönnum hans var ekki gefið. Paul Simon er þungavigarmaður í sinni listgrein.