MUNDU, LÍKAMI

Mundu, líkami er safn þýðinga Þorsteins Vilhjálmssonar á grískum og latneskum ljóðum eftir margvíslega höfunda. Í tilefni jóla birtir Starafugl tvær þýðingar úr bókinni.

Konstantínos Kavafís (1863 – 1933) er eitt fremsta skáld grískrar nútímaljóðlistar. Kavafís bjó og skrifaði í Alexandríu í Egyptalandi, sem enn var þá að miklu leyti grísk borg, og orti um ástir sínar í „földu herbergjunum á bak við“, þar sem hann fann mennina sem hann elskaði.

Mundu, líkami


Mundu, líkami, ekki aðeins hversu mikla ást þú vaktir,
ekki aðeins rúmin sem þú lagðist á,
heldur líka þrána sem blikaði svo skýrt
í augunum, til þín,
og titraði í röddinni – og eitthvert
óhapp gerði svo að engu.
Nú, þegar þetta er loksins allt liðin tíð,
og það er næstum eins og þú hafir
í alvöru gert það sem þú þráðir – mundu
hvernig þráin skein í augunum
sem horfðu á þig,
hvernig hún titraði í röddinni fyrir þig, mundu, líkami.

Martialis (c. 38 – 104 e. Kr.) var rómverskur níðkvæðahöfundur, þekktur fyrir magnaðan dónaskap og yfirgengilega en kómíska fyrirlitningu sína á kúguðum hópum í Rómarveldi til forna.


4.42
Ef einhver vina minna vildi gera mér greiða –
þú, Flaccus, hlustaðu – þá vildi ég fá þræl
sem er einhvern veginn svona. Fæddur
við bakka Nílar, fyrir það fyrsta;
Egyptaland á sér enga sína líka
í að fóstra perraskap.
Hvítari en mjöll skal hann vera:
Því við myrkt Mareótis-vatn
verður þess konar húð þeim mun fegurri.
Augun skulu líkjast stjörnum og mjúkt hárið
leika um hálsinn: Nota bene, Flaccus,
ég fíla ekki krullur. Ennið skal vera lágt
og nefið örlítið bogið, en ekki um of,
og varirnar skulu vera rósrauðar.
Oft skal hann koma mér til þegar ég er ekki í stuði,
og oft neita mér um það þegar ég er graður.
Hann skal jafnan vera frjálsari með sig en húsbóndinn
en halda sig frá öðrum strákum, og loka á allar stelpur.
Hann má vera karlmaður fyrir öðrum
en alltaf strákur fyrir mér – einum manna.
„Ég skil“, segir þú, „þetta er allt satt og rétt
og ég er þar til vitnis. Þú ert að lýsa
honum Amazonicusi mínum.“