Ljóð eftir Athenu Farrokzhzad


Sunnudagskvöldið 2.október, á Gauknum, Tryggvagötu 22, halda Starafugl og Samtök ungra skálda (SUS) ljóðapartí.

Heiðursgestur kvöldsins, Athena Farrokhzad (f. 1983), er sænskt ljóðskáld af írönskum uppruna. Ljóðabók hennar Hvítsvíta, sem er væntanleg á íslensku, vakti gríðarmikla athygli í heimalandi hennar, var tilnefnd til Augustpriset og fleiri verðlauna og hefur komið út víða um heim. Eiríkur Örn Norðdahl þýddi.

Hér er brot úr ljóðabókinni Hvítsvíta sem er væntanleg frá Máli og menningu á næstu dögum.

Fjölskylda mín ferðaðist hingað í marxískri hugmyndahefð

Móðir mín tók undireins að fylla húsið af jólasveinadúkkum
Íhugaði kosti og galla plastjólatrésins
einsog það væri hennar vandamál

Á daginn skildi hún á milli stuttra og langra sérhljóða
einsog hljóðin sem hún gaf frá sér
gætu þvegið ólífuolíuna úr húðinni

Móðir mín lét bleikiefnið flæða um setningarliðina
Handan greinarmerkjanna urðu atkvæði hennar hvítari
en vetur í Norrlandi

Móðir mín bjó okkur framtíð úr lífsmagni
Í einbýliskjallara úthverfahússins staflaði hún upp niðursuðudósum
einsog von væri á stríði

Á kvöldin leitaði hún að uppskriftum og skrældi kartöflur
einsog það væri hennar eigin saga sem dulrituð væri
í ofnréttinn Janssons Frestelse

Að hugsa sér að ég hafi sogið þessi brjóst
Að hugsa sér að hún hafi stungið villimennsku sinni upp í mig

Móðir mín sagði: Það er einsog það hafi aldrei hvarflað að þér
að í nafni þínu megi finna rætur siðmenningarinnar

Móðir mín sagði: Myrkrið í maga mér er eina myrkrið sem þú höndlar

Móðir mín sagði: Þú ert draumórakona gerð til að skásetja lárétt augu
Móðir mín sagði: Ef þú gætir talið aðstæðurnar mér til málsbóta
myndirðu kannski leyfa mér að sleppa með skrekkinn

Móðir mín sagði: Ekki vanmeta hvað fólk er tilbúið til að leggja á sig
til að setja fram sannleika sem það getur lifað við
Móðir mín sagði: Þú fæddist ekki einu sinni lífvænleg

Móðir mín sagði: Kona nokkur klóraði augun úr móður sinni
svo móðirin þyrfti ekki að horfa upp á úrkynjun dótturinnar

Faðir minn sagði: Þú hneigist að frumspeki
Samt kenndi ég þér allt um framleiðsluhættina
áður en þú misstir fyrstu mjólkurtönnina

Móðir mín sagði: Faðir þinn lifði fyrir hinn efsta dag
Móðir þín sömuleiðis, en hún neyddist til að beina metnaði sínum annað

Móðir mín sagði: Í svefni föður þíns eru þið tekin af lífi saman
Í draumi föður þíns myndið þið ættartré byltingarsinna

Faðir minn sagði: Móðir þín mataði þig með innfluttum silfurskeiðum
Móðir þín var alltaf framan í þér
greiddi hamslaust krullurnar úr hárinu