Björk Þorgrímsdóttir (f. 1984) skrifar myrkraverk og ávaxtahnetti. Hún hefur gefið út ljóðabókina Neindarkennd (2014) og prósaverkið Bananasól (2013) – sem hafa báðar vakið talsverða athygli í grasrótinni. Björk er menntuð í heimspeki Wittgensteins, ritlist og bókmenntum og hefur eytt síðustu misserum á faraldsfæti.
Veturlangt sólsetur
pírir sig inn um glerþunna augasteina.
Botnfall í glasinu og ég bíð eftir þér
í sólarhring og annan.
Þú svarar ekki og glasið er annað glas.
Laufin eru næstum því og söngur er næstum því og
ég beygi mig niður svo ég verði ekki fyrir.
Birtan í augunum heldur áfram um kyrrt og ég má ekki
standa undir regnhlíf í friði
hlusta á ræður í garði sem er ekki minn og ekki þinn.
eins og sólin verður
verður þú þegar dagarnir líða
söngur og lauf