Lífleg og skemmtileg: Þröskuldur góðra vona

Þröskuldur góðra vona er fyrsta plata hljómsveitarinnar Óreglu. Hér er um að ræða jazzplötu sem stöku sinnum á sínar fönkuðu stundir. Eins kemur glettni nokkuð við sögu. Á skífunni eru ellefu lög, þrjú þeirra sungin.

Óregla er ekki að feta nýjar slóðir hér. Heldur er leitað á mið Miles Davis og Charlie Mingus um hápunkta ferla þeirra auk fönks áttunda áratugarins. Lögin, sem eru öll samin af Daníeli Þ. Sigurðssyni, eru lífleg og skemmtileg. Nokkuð sem manni hefur oft finnst vanta í norrænan jazz, hvort sem sú tilfinning á rétt á sér eða ekki. Hljóðfæraleikarar eru allir vel færir á sín hljóðfæri og oft hrein unun á að hlusta.

En það eru gallar á plötunni sem draga hana verulega niður. Til að byrja með þá er eins og markviss tilraun hafi verið gerð við hljóðvinnslu hennar til að murka úr henni lífið. Það er allt of mikil kompression í masteringunni og það bitnar mest á trommunum. Stundum heyrist varla í snerlinum á mikilvægum augnablikum. Hluti af sökinni gæti þó líka legið í mixinu. Þetta er svo slæmt að það liggur við að tónlistin nánast missi swingið á köflum en við því liggur dauðasök í jazzi. Berið t.d. saman youtube vídeóið af hljómsveitinni flytja lagið Einbeittur brotavilji, annað af bestu lögum plötunnar, við upptökuna á disknum og munurinn er augljós. Hljómurinn er betri á youtube.

Sóló plötunnar eru flest góð en sum eru betri en önnur. Mestu flugi ná strákarnir í laginu Lopapeysur og lundar sem mér þykir jafnframt besta lag plötunnar. Síst þykja mér gítarsólóin í Snjókorn og Eat Your Own Dog Food. Það þýðir samt ekki að þau séu endilega slæm, í fyrrnefnda laginu á Jóhann Guðmundsson gítarleikari góða spretti þrátt fyrir visst hik og það að sólóið fjarar út frekar en að enda. Í seinna laginu er sóló hans mun betra fyrir utan endinn sem eins fjarar bara út og það aðeins of fljótt.

Í.þ.m. tvö sungnu laganna hefðu mátt missa sín. Daníel er ekki góður söngvari sem er að öllu jöfnu skylda í djasstónlist og fyndnin í þeim er misheppnuð, alla vega finnst mér þau ekkert fyndin. Vissulega eru til fordæmi um kýmin jazzlög sungin af söngvurum af vafasömum gæðum og kemur þá helst til hugar Charles Mingus. En, kýmnigáfa Mingusar leitaði oftast innávið eða þá hæddi rasista og hann var þó tónviss og fullur meiningar. Það skortir hér. Mér finnst þó groovið í Óreglumanninum gott, það hefði bara mátt vera instrumental.

Þrátt fyrir gallana þá er Þröskuldur góðra vona góð og skemmtileg plata flutt af hæfum tónlistarmönnum. Langflest laganna eru vel sett saman og ég er ekki búinn að fá fylli mína af plötunni enn. Ef þetta væri pönkplata þá væri ég ekki að kvarta yfir flestu því sem ég finn að hér en þetta er jazzplata og sem slík hefði mátt vera betur unnin.