Hlý og draumkennd

Ófelía er ný plata frá Kristjönu Stefánsdóttur sem hún gefur út undir hljómsveitarnafninu Bambaló. Platan inniheldur 11 lög tíu frumsamin og eitt eftir Jackie Allen og Bill Anschell. Textarnir eru eftir Kristjönu sjálfa og Berg Þór Ingólfsson. Þeir ensku eru eftir Kristjönu en Bergur skrifaði á íslensku. Dimma gefur út.

Kristjana syngur og leikur á ýmis hljómborð, Daði Birgisson sér um bassaleik, lúppur og hljóðgerfla, Daníel Helgason spilar á gítar, Kristin Snær Agnarsson og Bassi Ólafsson sjá um ásláttarhljóðfæri og lúppur. Ýmsir aðrir koma eins við sögu og þar sjálfsagt helstur Svavar Knútur sem syngur í þremur lögum. Áður nefndur Daði Birgisson sá um upptökur.

Tónlistinni á plötunni er best lýst með orðum Kristjönu sjálfrar sem kallar hana Adult Alternative/Contemporary Pop. Þetta er nokkuð tímalaus tónlist áheyrnar og oft draumkennd. Hljóðfæraleikur er uppfinningasamur án þess að nokkur hljóðfæraleikara sýni af sér nokkra sýniþörf. Gott dæmi um slíkt er trommuleikurinn í Hvar varstu. Það liggur ekki beint við að setja þennan hraða Drum & Bass trommuleik við þetta annars rólega lag. Hljómur plötunnar er hlýr og lífrænn.

Söngur Kristjönu er traustur og góður sem endranær og samsöngur hennar og Svavar Knúts í I Would Run Away With You Again er skemmtilegur. Ég hef sérstaklega gaman af því hvernig hún syngur með sjálfri sér í laginu Snjókornið. Minnir mig mikið á sönginn í laginu Einskonar ást með Brunaliðinu. Ég veit ekkert hvort það er viljandi eður ei. En skemmtilegt er það. Að öðru leyti minnir lagið á ekki neitt annað en sjálft sig.

Þessi plata er hálfgerður kafbátur að því leyti að það er ekkert lag sem stendur upp úr og grípur við fyrstu hlustun. Heldur er það hlýr hljómurinn sem fær mann til að staldra við og svo opinbera lögin sig hvert af öðru við frekari hlustun. Þannig eru bestu plöturnar oft. Bestu lögin eru Dásamlega drenginn minn og svo fyrrnefnd I Would Run Away With You Again og Snjókorn.

Ófelía er góð plata, sett saman af mjög hæfum tónlistarmönnum. Það þarf að gefa henni smá tíma en það er hins vegar ekkert erfitt þar sem hún er mjög þægileg áheyrnar.