Hin heilaga tilraun – um Skordýr Benna Hemm Hemm

Ekkert verður af engu, og allskonar. Kannski er best að lesa þessa rýni með soundtrakki. En það skiptir ekki máli. Gildir einu. En ég get sagt ykkur það strax, hún er full af einhverju, trú á eitthvað; dulúð sköpunar og sjálfstrausti og auðmýkt, en kannski fyrst og fremst leik og drunga og leiðslu og hugsunarleysi, þessi bók altso, ekki rýnin. (Þú veist aldrei hvert þú ferð, þú veist ekki neitt.)

„Ég elska það, ég elska þau, ég elska ykkur.

ÉG ELSKA ALLT

NÚNA.

NÚNA

ELSKA ÉG ALLT.“ (42)

EKKERT ER ÓMÖGULEGT

Það er auðvitað ómögulegt, ef maður vill setja það þannig upp, að fjalla um ljóðabók sem ljóðabók, ef hún er í raun plata og myndbandsverk að auki. Skordýr Benedikts H. Hermannssonar er einmitt þessi ljóðabók sem á ekki skilið að fá um sig rýni á þeim forsendum að vera bók, einungis. En hún er um leið of „efnismikil“ sem polyfónískt myndlistarverk (sem er besta skilgreiningin) til að maður fjalli um alla þætti verksins svo þeim séu af sanngirni gerð skil. Tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm stígur út úr skápnum sem ljóðskáld, en um leið myndskáld – og með flýtur gjörningaleg tónlist, sem er nokkurskonar kynningarefni, ef maður skilur skáldið rétt. Þrennir tónleikar í mengi við Óðinsgötu, þar sem „ljóðabókin“ var flutt með ýmsum aukaflytjendum kórónuðu svo sköpunarverkið sem einhverskonar allsherjargjörning; því miður getur undirritaður ekki deilt reynslu af þeim tónleikum.

Í grunninn er ljóðverkið Skordýr óður til sköpunargáfunnar og tjáningarþrárinnar og fylgir stefinu um það sé í gildi leyfi til þess að láta það koma sem kemur. Ósjálfráð skrif koma upp í hugann og óritskoðaðir textar sem fylgja engu trendi, nema því að að vera einlægir á einhvern afhjúpandi hátt. Maður áttar sig ekki beint á því hvort þeir „eiga að vera“ birtingarmynd einhverskonar kjarna hugsana (eins og ljóð vilja oft sýnast vera) eða hvort þeir eru bara samansafn hversdagslegra hugsanaferla. Og að mörgu leyti skiptir það ekki máli. Textinn líður ljúflega inn og gæti allur verið sunginn og raulaður á síðsumarkvöldi, eins og heyra má af hljóðverkaútgáfu bókarinnar; en um leið er svo margt sem fær mann til að staldra við þar sem það passar ekki inn í myndina af einlæga trend-hippanum sem stendur sig alltaf svo vel í ammælum. Í verkinu er að finna texta sem lýsa þeirri angist þegar ekkert stenst væntingar og alheimurinn virðist á öndverðri leið við mann sjálfan, en þeir gera það að einhverju leyti án þess að „dramatísera“ hlutina eða falla í gryfju listræns bölmóðs um getuleysi annarra til að uppfylla óskir manns og draumsýnir. Þessir textar, sem eru á skjön og fjarri því að vera til þess fallnir að „komast í tísku“ eða „falla í kramið“, mynda kontrapunkta við ljóðin í bókinni sem renna áreynslulaust fram og varpa upp myndum af hinu sjálfsagða og ljúfa. Eða hinu ómögulega og uppgefna. Vandinn við suma textana sem bókmenntir er að þeir „virka ekki“ sem ljóð á blaði í fyrstu, en ef maður er kominn með rödd höfundar í hausinn, eftir hlustun á verkið, þá verða einfaldar línur að einhverskonar möntrum, einhverskonar óði, bænastunum og brjálæðisöskrum.

Úr Uppgefinn bls. 41

Ég er uppgefinn, ég get þetta ekki / viltu sýna mér hvað ég get gert / hvað ég get gert til þess að vera góður / til þess að vera öðrum að gagni

Ekkert drama þó það sé dramatískt

Ímyndunaraflið er mikilvægara en mikið safn vitneskju – á hvaða formi sem hún er – og öll speglun byggir á þolinmæðisvinnu sem er háðari ímyndunaraflinu heldur en vitneskjunni. Vitneskjan er takmörkuð á meðan ímyndunaraflið umlykur heiminn og gefur honum líf, eins og einhver snillingurinn sagði. Þessi speglun er kannski ekki greining, hún er ekki gagnrýni, hún endar ekki í stjörnufans þó hún umlyki heiminn og gefi honum líf. En hún byggir á sömu forsendum, sömu trú, einhverskonar samhljómi í bænagjörðinni til sköpunarinnar – og í því felst álit mitt á heildarverkinu; ég finn í því samhljóm og það er heildstætt þrátt fyrir að vera mjög ólíkt sér og skitsó innbyrðis í fjölbreytileika formsins; ljóð – lag – mynd (og leikræn tjáning, þar sem það á við). Þetta er drama án þess að verða dramatískt.

Auðmýktin lykilatriði og ævintýraþráin

Og þannig verður maður að mæta verki af þessu tagi, sleppa greiningu og gagnrýni sem byggja á þekkingu og vitneskju; þannig verður ljóðið að íhugunarefni fyrir ímyndunaraflið, tómarúmi sem kann að vera myrkt og þokukennt en er þó hlýlegt og frjótt af tunglsljósi, dulúðugu ástarljósi sem þjónar tilgangi sem andlegt fóður, eins og skáldskapur á að gera; Skordýr skapar andrými fyrir hversdaginn með því að taka sig jafn „óhátíðlega“ og raun ber vitni og er því farvegur nokkuð jarðbundinnar guðfræði. Bjartsýni, ævintýraþrá, svartsýni, sorgarsöngvar og eftirsjá; þetta er allt þarna og allskonar trúarleg sannindi sem fylla manninn jákvæðni gagnvart því að halda áfram, halda af stað, halda heim, hvernig sem viðrar, því mennskan og ófullkomleikinn muni sigra að lokum; því það eitt sé fullkomið. Eða eins og segir í Íslands Vonarsöng (bls.53):

Við verðum við eins og við eigum að vera / og það verður ógeðslega gaman.