Haustkvöld með viskíglas og vindil

Um Introducing Anna með Bjössa

Björn Thoroddsen þarf vart að kynna fyrir Íslendingum. Hann hefur á löngum ferli gefið út fjölda platna þar sem gítarleikur hans er í forgrunni og þá þessum tíma skapað sér sess sem einn ástkærasti tónlistarmaður landsins. Eins hefur hann verið mörgum gítarleikaranum lærifaðir og er undirritaður einn þeirra. Ég sótti tíma hjá honum hjá FÍH í eitt og hálft ár fyrir um tuttugu árum síðan.

Á dögunum kom út ný plata frá honum Bjössi Introducing Anna sem er gefin út af JR Music. Anna sú sem hann kynnir á skífunni er ung mær frá Bolungarvík og er þetta fyrsta skipti sem hún syngur á plötu. Upptökur fóru fram í höfuðstað kántrýtónlistarinnar Nashville, TN, BNA með einvalaliði hljóðfæraleikara og þar er fremstur meðal jafningja Robben Ford sem stýrði einnig upptökum. Tommy Emmanuel leikur einnig á gítar í einu lagi.

Á plötunni er að finna tíu lög, fimm eftir Björn sjálfan, fjögur með textum eftir Erling Thoroddsen og eitt instrumental, þrjú eftir Robben Ford og svo tvær Bob Dylan ábreiður. Þó Björn sé helst þekktur fyrir jazzgítarleik þá leitar hann hér á kántrýskotnar Americana slóðir og það verður að segjast eins og er að það fer honum vel.

Lögin eru öll nokkuð jafngóð og verður að segja Birni og Ford til hróss að þeirra lög eru alls ekkert síðri en lög Dylans og sum jafnvel betri. Dylan lögin eru lög sem komust ekki inn á plötur hans sjálfs á sínum tíma sem í tilfelli Dylans þýðir ekkert endilega að þau séu gæðalítil enda meistarinn gjarn á að gefa ekki út mörg af sínum bestu lögum. Golden Loom kom út seinna á Bootleg Series safninu og Seven Days lét hann Rolling Stones gítaristann Ronnie Wood hafa fyrir sólóplötu sína Gimme Some Neck, árið 1979.

Bestu lög plötunnar finnst mér vera lag Ford´s The Call og lög Björns When I Was Young og hið ósungna The Hammer. The Hammer er, myndi ég segja, eina lagið þar sem jazzrætur Björns koma skýrt fram. Án þess þó að hægt sé að kalla það jazzlag. Heldur er þetta flott bluegrasslag þar sem samleikur gítars og fiðlu minnir mikið á Django Reinhardt og Stéphane Grappelli.

Allur hljóðfæraleikur á disknum er til fyrirmyndar, sem kemur ekkert á óvart þegar um mannskap sem þennan er að ræða og söngur Önnu er góður. Þetta er þægilegur og hnökralaus diskur og aldrei þvælast gítarsnillingarnir hver fyrir öðrum og hvergi er að finna ofleik, sem er ekkert sjálfgefið þegar menn af svona kalíberi koma saman.

Þetta er vel heppnuð tilraun hjá Birni og Anna er góð söngkona sem á eflaust eftir að verða enn betri. Þess plata er góð fyrir þægilega kvöldstund á köldu hausti með góðum félagsskap, viskíglas við hönd og ef ég væri ekki hættur að reykja fengi ég mér vindil með.