Greitt í píku

Um skáldsöguna Norma eftir Sofi Oksanen

Ekki alls fyrir löngu kom út í íslenskri útfærslu skáldsaga finnsk-eistnesku ritkvinnunnar Sofi Oksanen (1977), Norma. Í Finnlandi kom verkið kom út í fyrra. Íslenska útgáfan telur þrjú hundruð og sautján síður og er gefin út af Máli og menningu.

I

Sofi Oksanen er íslenskum bókmenntaunnendum kunn enda er Norma fjórða skáldsagan sem kemur út á íslensku. Norma er hennar fimmta skáldsaga í heildina. Aukinheldur var leikritið Hreinsun á fjölum Þjóðleikhússins árið 2011 og árið á undan fóru Sofi og Linda Blöndal dagskrárgerðardama Ríkisútvarpsins í hár saman eftir að sú fyrrnefnda hafði veitt Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs viðtöku í Norræna húsinu í Reykjavík. Sofi vildi meina að þær spurningar sem Linda bar upp væru þunnur þrettándi.

Höfundur þýðingar er, eins og í fyrri skiptin, Sigurður Karlson (1946) sem hefir verið ötull við íslenskun finnskra verka undanfarin ár. Þær skáldsögur Sofi sem íslenskaðar hafa verið og komið út á vegum Máls og menningar eru, auk Normu, Þegar dúfurnar hurfu árið 2014 (Kun kyyhyset katosivat 2012), Kýr Stalíns árið 2011 (Stalinin lehmät 2003) og Hreinsun árið 2010 (Puhdistus, 2008). Baby Jane frá 2005 hefir ekki enn verið verið frónskuð.

Sofi Oksanen telst til fremstu rithöfunda Finnlands en hefir enn fremur hlotið allnokkra upphefð erlendis. Hafa bækur hennar verið þýddar á ófá tungumál og vegsemdaraukarnir í formi verðlauna eru aukinheldur ófáir. Einkum og sér í lagi jók Hreinsun orðstír hennar til muna og hefir bókin verið færð í búning 39 tungumála og fengið fjölmörg bókmenntaverðlaun. Þess má og geta að Hreinsun var kvikmyndaaðlöguð árið 2012.

Hreinsun, Þegar dúfurnar hurfu og Kýr Stalíns eru sögur sem taka á sögu Eistlands, skilunum milli austurs og vesturs, hernámi Rússa og Þjóðverja. Þær eru kynslóðasögur og eiga sér stað á ólíkum tímaskeiðum. Þetta eru stórar sögur, spanna langan tíma, sumpart sögulegar, myrkar og fullar af ofbeldi, leyndarmálum, morðum og hrolli. Baby Jane er aftur á móti samtímasaga sem snertir á geðrænum kvillum. Með Normu er Sofi kominn aftur í samtímann, þótt verkið sé ekki laust við afturlit. Sagan á sér að mestu leyti stað í Finnlandi.

II

Norma hefst með jarðarför Anítu móður Normu. Hún kvaddi lífið er hún lenti undir neðanjarðarlest í Helsinki. Lögregluyfirvöld eru á því að um sjálfsvíg hafi verið að ræða en engu að síður er ekki laust við að tilfinning fyrir maðki í mysunni geri vart við sig. Eftir jarðarförina, rétt áður en hún ætlaði að taka leigubíl til að komast hjá erfisdrykkjunni, „kom ókunnur maður til að votta samúð sína. […] Hún vildi engan félagsskap. […] Maðurinn fór ekki heldur rétti fram höndina. Norma sneri sér undan og svaraði ekki kveðjunni, hún kærði sig ekki um samskipti við ókunna menn. En maðurinn lét það ekki á sig fá. Hann tók hönd Normu sjálfur í sína.“ (bls. 8-9)

Maðurinn sem hér um ræðir heitir Max Lambert og segist vera gamall vinur Anítu. Síðar kemur í ljós að hann var eiginmaður Helenu, Geggjaðu-Helenu, vinkonu Anítu. Hún fór yfir um þegar Lambert tók aðra konu framyfir hana. Hún er móðir og Alvars og Marion sem spila stóra rullu í sögunni.

Fljótlega kemur og á daginn að Lambert er ekki sá geðfelldasti, heldur eins konar glæpaforingi (foringi klansins eins og það er kallað í verkinu) og hefir með mansal, morð og ólöglega staðgöngumæðrun að gera. Jafnframt er hann virkur í kaupum á hári víðsvegar um heiminn. Hár sem fer í hárlengingar á hárstofunni Hárgaldrar sem rekin er af dóttur hans Marion og hvar Aníta vann. Hann hefir og menn (kallaðir rakkar Lamberts) á sínum vegum til að inna skítverk af hendi.

Norma er ekki, ólíkt því sem nafnið gefur til kynna, venjulegur kvenmaður. Hún hefir afbrigðilegan hárvöxt. Hár hennar vex einn meter á dag. Hár sitt felur hún með vefjarhetti og auðvitað þarf að klippa hárið reglulega. Sá móðir hennar um þá hlið mála. Ekki er svo nóg með að hárvöxturinn sé ör heldur býr hún yfir fágætum hæfileikum og hæfileikar þeir búa í hári hennar. Getur hún lesið í hár fólks og þannig séð í gegnum lygar, hún verður þess áskynja ef fólk er markað feigð, hún skynjar hættu auk þess sem hárið virðist lifa sínu eigin lífi. Síðan má nota það sem vímuefni, reykja það.

Norma og móðir hennar bjuggu í sömu byggingu í sitthvorri íbúðinni og gerir móðir hennar hvað hún getur til að halda leyndarmáli dótturinnar leyndu frá umheiminum. Hún óttast hvernig umheimurinn myndi taka henni og hefir söguleg dæmi sem hún hefir lesið sér til um á takteinum (hún er sérfróð um hár) og er þekktasta dæmið 19. aldar fyrirsætan og málarinn Elizabeth Siddal sem þekkt var fyrir sitt síða koparlitaða hár svo og Sutherland-systurnar, einnig frá 19. öld, sem voru eins konar sýningargripir sakir þeirra síða hárs og eru taldar hafa verið hafðar að féþúfu.

Töfra-hár Normu, sem móðir hennar klippir, notar hún í hárlengingar fyrir Hárgaldra. Hún selur það sem úkraínskt hár sem hún þykist fá í gegnum frændsemi þar í landi. Er hárið það besta í bransanum; remy virgin hár. Norma veit ekki af þessari iðju móður sinnar. Nú þegar Aníta er fallin frá vill Lambert-klanið gjarnan hafa hendur í hári hársins og bera sig Lambert, Alvar og Marion eftir því en þar er þó ekki allt sem sýnist, sérstaklega þegar kemur að samskiptum Marion og Anítu.

Mál æxlast svo þanng að Norma hefur störf hjá Hárgöldrum og kemst í kjölfarið að því að móðir hennar leyndi fyrir henni mörgum atriðum sem varða hana sjálfa og fjölskyldu þeirra sem og því að móðirin Aníta bjó yfir upplýsingum um vafasöm viðskipti Lambert-klansins. Að stærstum hluta til kemst hún að þessum upplýsingum gegnum myndbönd sem Aníta hafði útbúið fyrir hana. Í gegnum þau kynnist hún til að mynda hún skyldmenni sínu Evu sem hafði sama hárafbrigðileika. Eva er afar nálæg í sögunni og talar raunar beint til sögupersóna þótt hún hafi verið upp á sitt besta á þriðja áratugi síðustu aldar.

III

Tónninn sem sleginn er í byrjun minnir á glæpa- eða spennusögu enda ber verkið keim af sögum sem smám saman leiða í ljós atvik og leyndarmál. Og vissulega tekur sagan á glæpum þótt engan sé lögregluforingjann að finna. En þar sem lesarinn fær meiri og meiri upplýsingar eftir því sem sögunni framvindur er varhugavert að uppljóstra of miklu.

Hér er ekki um hefðbundinn þriller eða sakamálasögu að ræða. Ef til vil mætti segja að hér sé töfraraunsæisblönduð spennusaga á ferð. Raunsæinu er enda storkað á fleiri vegu en með hári Normu. Og líkt og sakamálasagna er oft siður, einkum og sér í lagi þeirra sem fæðast í höfðum Norðurlandahöfunda, þá er glímt við samtímamál. Samtímamál sem rekin voru í öðrum hluta og endurspeglast í þessum tilvitnunum:

Lambert-hjónin [Lambert er ekki einn í þessu. Kona hans, Alla, er síst eftirbátur hans og einnig eru Marion og Alvar með] eru með mikilmennskubrjálæði, þau vilja allan heiminn og hafa valið réttu markaðina fyrir krossferð sína. Sá sem ræður yfir draumunum ræður yfir heiminum. Sá sem ræður yfir hárinu ræður yfir konunum. Sá sem ræður yfir frjósemi kvenna ræður líka yfir karlmönnum. Sá sem heldur konum fullnægðum fullnægir líka karlmönnum og sá sem læknar hár- og barnsjúkar manneskjur er konungur þeirra. (bls. 220)

[…] enn um sinn héldi hún út að ljúga að þær [sumir viðskiptavina Hárgaldra] væru efni í módel eða madonnur, að stjörnufrægðin væri innan seilingar og Hollywood biði handan við hornið og að í prufumyndatöku fyrir Playboy þyrfti ekki annað en fallegt hár og stórar túttur. (bls 120)

Nú hafa konur sömu réttindin, sömu möguleikana, og samt fáum við ekki hagnaðinn. Við leggjum til allt sem þarf í fegrunariðnaðinn, við leggjum til vinnuafl okkar […] móðurlíf okkar, brjóst okkar og enn sem fyrr safna karlmenn í eign vasa seðlum sem fást fyrir það. (bls. 135)

Má nokkuð ljóst þykja að fengist er við spurningar um fegurð og kvenleika. Hárið er táknmynd kvenleika og fegurðar í heimi þar sem „[f]egurð kvenna af hennar [Normu] tagi nyti ódauðlegrar aðdáunar.“ (bls. 78) Það er tekist á við afbrigðileika og geðveiki í heimi staðla sem þó kemur einatt þannig fyrir sjónir, án þess að hægt sé að vera hárviss, að „[a]llir furðufuglarnir […] [séu] komnir út úr skápnum.“ (bls. 242). Einnig er tekið á siðferðislegu spurningunni um „rétt“ fólks til að eignast börn og í því samhengi glímt við vestræn lúxusmál og vestræna valkosti í valdaójafnvægi samtímans, hvort sem það felst í ríkum og fátækum, lituðum og hvítum eða konum og körlum. Valdajafnvægi sem fær suma til að fríka út á valkostunum og hina til að til að falbjóða sig; selja móðurlífið, skaut sitt eða þá hár.

IV

Efniviður sögunnar, nálgunarleiðin og sú staðreynd að þekkt margverðlaunuð ritkvinna, er virðist vita upp á hár hvað hún er að gera, vekur vissulega áhuga á að taka Normu í lestrarhöndina. Sagan er hreint ekki slæm og sú staðreynd að innan þess heims sem lýst er í þriðju persónu útfrá sjónarhornum persóna bókarinnar, þótt Norma sé óneitanlega miðpunkturinn, geti allt skeð er lestrarhvetjandi og til þess er leikurinn gerður. Gallinn við verkið, sem hugsanlega skrifast á þýðinguna sem þó er að mestu laus við flóka, er að persónurnar eru álíka flatar og sá stíll sem notaður til að lýsa verkinu. Og stíllega séð er greitt í píku fremur en hanakamb. Svo er sitthvað innan verksins sem virkar ekki trúverðugt (vel að merkja þarf það mögulega ekki að gera það þar sem töfraraunsaæið er ekki raunsætt). En til dæmis það að rakkar Lamberts geti ekki fundið út hvaðan úkraínska hárið kemur er undarlegt. Allt í allt er þetta þó áhugaverð saga sem tekur á málum sem eru sorglega venjuleg.