Forsetakosningar og hin langa niðursveifla

Nú um stundir beinast augu heimsbyggðarinnar að forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Tveir frambjóðendur hafa öðrum fremur skorið sig úr hópnum og vakið mikil viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð: Donald Trump og Bernie Sanders. Þeir tveir eru vissulega gjörólíkar persónur og ekki hægt að leggja þá að jöfnu, en þrátt fyrir það má greina viss líkindi í málflutningi þeirra og stefnuskrám. Í báðum tilvikum er undirliggjandi viss sýn á hvað það er sem hefur farið úrskeiðis í Bandaríkjunum og trú á að hægt sé að hverfa aftur til annarra og betri tíma. Þetta sést til dæmis í slagorði Trumps „Make America great again“. Í ræðu sem Sanders hélt við háskólann í Georgetown í nóvember 2015 sagði hann:

I don’t believe government should take over the grocery store down the street or own the means of production, but I do believe that the middle class and the working families who produce the wealth of America deserve a decent standard of living and that their incomes should go up, not down. I do believe in private companies that thrive and invest and grow in America, companies that create jobs here, rather than companies that are shutting down in America and increasing their profits by exploiting low-wage labor abroad.

Sem sagt: markmið þeirra er að bæta kjör hins venjulega vinnandi manns, færa þau aftur á fyrri stall, og snúa við ýmsum stefnum og ákvörðunum sem hafa haft neikvæðar afleiðingar. Þeir hafa þó ólíkar hugmyndir um hvernig eigi að ná því markmiði. Sanders, sem kallar sig sósíalista, vill t.d. hækka skatta á hina ríku og hækka lágmarkslaunin. Trump vill taka hart á ólöglegum innflytjendum. Þeir vilja hins vegar báðir segja upp eða endurskoða verslunarsamninga eins og NAFTA og koma í veg fyrir að fyrirtæki flytji framleiðslu sína til annarra landa, og helst ná tilbaka þeim störfum sem þegar eru farin. Þeir eru því sammála um að vandamálið, hrakandi kjör vinnufólks, sé tilkomið vegna vissra stefna og ákvarðana stjórnmálamanna og það sé því í verkahring stjórnmálamanna – þ.e.a.s. þeirra sjálfra – að leysa það. En á meðan að Trump er aðhlátursefni hjá stórum hluta heimsbyggðarinnar þá hefur Sanders fengið mikinn stuðning, sérstaklega meðal vinstri manna.

Sannleikurinn er hins vegar sá að hvorugur þeirra er að fara að bæta kjör vinnandi fólks að neinu ráði (ef við gefum okkur að Trump sé alvara með það, og að Sanders ætti séns á að verða forseti). Þótt þeir myndu verða forsetar og ná öllum stefnumálum sínum í gegn myndi það ekki leysa neinn vanda. Ástæðan fyrir því er útbreiddur og alvarlegur grundvallarmisskilningur á því hvert vandamálið er.

Rót þeirra vandamála sem liggja mest á hjörtum stuðningsmanna þeirra beggja: ójöfnuður, atvinnuleysi, völd stórfyrirtækja og fjármálageirans, stjórnmálaelítur sem hlusta ekkert á raddir vinnandi fólks, o.s.frv., liggur í upphafi 8. áratugar síðustu aldar. Þá hófst tímabil sem hagfræðingurinn Robert Brenner kallar the long downturn, viðvarandi krísa hins bandaríska hagkerfis og heimsins alls sem birtist í síminnkandi ávöxtun fjárfestinga og þar með hagnaðar og auðsöfnunar – drifkrafts hins kapítalíska hagkerfis. Frá þeim tímapunkti hefur heildarhagnaðurinn aldrei aftur náð hæðum eftirstríðsáranna.

Ástæðurnar fyrir þessari krísu eru flóknar og hann ræðir þær í bók sinni The Economics of Global Turbulence. En Brenner bendir á innbyggða tilhneigingu til offramleiðslu í iðnaði heimsins sem aðalástæðuna. Á sínum tíma komu fleiri og fleiri iðnaðarríki fram á heimsmarkaðinn – Þýskaland, Japan, asísku „tígrarnir“, og svo Kína. Þessi iðnríki, sem komu seinna fram á sjónarsviðið, fóru að framleiða sömu vörur og gömlu framleiðsluríkin – bara ódýrara. Afleiðingin var alltof mikið framboð miðað við eftirspurn í hverjum iðnaðinum á fætur öðrum sem leiddi aftur til lægra verðs og þar með minni hagnaðar. Fyrirtækin sem upplifðu minnkandi hagnað gáfust hins vegar ekki upp. Þau lögðu meiri áherslu á nýsköpun og fjárfestingar í nýrri tækni. Þessar tilraunir gerðu þó vandamálið enn verra.

Þetta ástand þýddi það að kapítalistarnir fengu sífellt minni hagnað úr fjárfestingum sínum. Því höfðu þeir engra annarra kosta völ en að hægja á vexti verksmiðjanna, uppfærslu á tækjabúnaði og nýráðningu. Á sama tíma – í tilraun til að ná hagnaðinum upp aftur – frystu þeir laun starfsmannanna á meðan að stjórnvöld drógu einnig úr eyðslu í velferðarkerfinu. Afleiðingin af þessum sparnaði hefur verið langvarandi minnkun á heildareftirspurn. Þessi viðvarandi veika heildareftirspurn er rótin að vandamáli heimshagkerfisins, og sést hvað best hjá Bandaríkjunum, Vestur-Evrópu og Japan.

graf

Kerfið hefur gert þónokkrar tilraunir til að ná hagnaðinum upp aftur. Hagfræðingar fóru að hvetja til skuldasöfnunar, bæði hjá almenningi og hinu opinbera. Fjármálavæðing hagkerfisins hófst, en með henni var hægt að ná fram skjótum og gígantískum gróða sem skaut heildarhagnaðinum tímabundið upp. Til lengri tíma litið gerði fjármálavæðingin hins vegar meira slæmt en gott fyrir hið kapítalíska hagkerfi, en hún gerði ekkert til að leysa vandamálið þar sem heildarhagnaður hefur haldið áfram að falla á sama tíma og hún opnaði dyrnar að öðrum alvarlegum vandamálum, kreppum og bólum eins og þeirrar sem leiddi til krísunnar 2008. Við höfum á undanförnum einum og hálfum áratug eða svo orðið vitni að þeim stórmerkilega og fáheyrða atburð að auðsöfnun heimshagkerfisins byggir á spákaupmennsku – studd með ráðum og dáð af stjórnvöldum og ráðgjöfum þeirra.

Tilhneigingin til minnkandi hagnaðar í hinu kapítalíska framleiðslukerfi er auðvitað vel þekkt og umdeilt fyrirbæri innan hagfræðinnar sem t.d. Adam Smith, David Ricardo og ekki síst Karl Marx fjölluðu um á sínum tíma. Samkvæmt Adam Smith stafaði tilhneigingin af því að aukin auðsöfnun leiðir til aukinnar samkeppni sem minnkar hagnaðinn. Ricardo færði hins vegar rök fyrir því að samkeppni geti aðeins haft áhrif á hagnað einstakra fjárfestinga, en ekki á heildarhagnað. Hann hélt því fram að heildarhagnaðurinn gæti aðeins fallið ef laun hækkuðu (nema í einstökum, sjaldgæfum tilvikum).

Í kafla þrettán í þriðja bindi af Das Kapital gagnrýnir Marx þennan skilning Ricardo og heldur því þvert á móti fram að tilhneigingin til minnkandi hagnaðar sé innbyggður eiginleiki hins kapítalíska framleiðslukerfis. Í Grundrisse handritinu gengur hann jafnvel svo langt að kalla þetta fyrirbæri mikilvægasta lögmál stjórnmálahagfræðinnar. Minnkandi hagnaður getur átt sér aðrar skýringar, en það er einnig kerfisbundin ástæða fyrir honum sem er óháð sveiflum á mörkuðum.

Samkvæmt Marx gera tækninýjungar og framfarir framleiðslu skilvirkari. Raunveruleg afköst aukast og fjárfesting í vinnuafli skilar sífellt meira af sér. Hins vegar þá fara vélar að leysa fólk af hólmi og þannig eykst lífræn samsetning fjármagnsins.[1] Ef gert er ráð fyrir að aðeins vinnuafl geti skapað umframvirði, þá mun þessi aukna framleiðsla leiða til minni umframvirðis, miðað við virði fjármagnsins sem fjárfest er í framleiðslunni. Afleiðingin er sú að heildarhagnaður iðnaðarframleiðslu minnkar með tímanum. Þversögnin er sú að hagnaður minnkar ekki vegna þess að framleiðsla minnki, heldur einmitt vegna þess að hún eykst í gegnum fjárfestingu í tækjum og búnaði. Með öðrum orðum þá leiða tækniframfarir til minni þarfar á vinnuafli og langtíma afleiðingarnar eru þær að framleiðsluhagnaður fellur– alveg óháð sveiflum á mörkuðum.

Marx tekur þó fram að minnkandi hagnaður sé tilhneiging sem kerfið getur unnið á móti með ýmsum hætti. Dæmin sem Marx tekur eru m.a. aukin kúgun á vinnuaflinu, lækkun launa undir virði vinnuaflsins, lækkun á kostnaði hins stöðuga fjármagns með ýmsum hætti, aukinn vöxtur umframvinnuafls (atvinnulausra) eða minni kostnaður í gegnum erlend viðskipti. En þrátt fyrir að þessi atriði geta unnið tímabundið á móti tilhneigingunni, þá mun hún þó ávallt á endanum hafa vinninginn. Kapítalíska hagkerfið mun á endanum hnigna og leysast upp vegna innbyggðra mótsagna – spurningin er einungis hversu lengi þessi mótvægi halda áfram að virka.

Burtséð frá því hvort greining og spá Marx í þessu tilviki sé fullkomlega rétt – umræðurnar og deilurnar um það eru langar og flóknar, einnig meðal marxista – þá hafa aðrir marxistar eins og Rosa Luxemburg og David Harvey, einbeitt sér að tilhneigingu kapítalismans til að færa sig um set og leggja undir sig ný landsvæði með ódýrara vinnuafli í þeim tilgangi að vinna á móti þessu lögmáli og halda hagnaðinum uppi. Rosa Luxemburg átti þar að sjálfsögðu við nýlendustefnuna en Harvey hefur bent á hnattvæðinguna sem fyrirbæri af sama toga. Robert Brenner er ekki ósammála þessari greiningu, en það skýrir einmitt ofuráhersluna á hnattvæðingu síðustu áratugi. En þrátt fyrir hana hefur ávöxtun og heildarhagnaður haldið áfram að fara lækkandi, á fyrsta áratugi þessarar aldar náði hann sínum lægsta punkti, svo hnattvæðingin hefur ekki reynst vera nein lífsbjörg.

Hver er lærdómurinn af þessu? Hann er sá að vandamálið er ekki stefnur og ákvarðanir vissra stjórnmálamanna og fjármálaelítu, öllu heldur er það sjálft kapítalíska hagkerfið. Nýfrjálshyggjan, sem Bernie Sanders og aðrir beina spjótum að, og allar neikvæðu afleiðingar hennar: ójöfnuður og fátækt, niðurskurður, atvinnuleysi og óöryggi, os.frv., er ekki meðvituð ákvörðun og áætlun stjórnmála- eða viðskiptamanna sem tekin er með illum vilja til að klekkja á vinnandi fólki, heldur óumflýjanleg og nauðsynleg viðbrögð við efnahagslegu aðstæðunum – innan þess níðþrönga ramma sem kapítalíska hagkerfið býður upp á. Að sjálfsögðu er einnig að finna gráðuga og spillta stjórnmála- og viðskiptamenn sem hika ekki við að ná meðvitað fram eigin hagsmunum á kostnað almennings. En að telja að öll þróun síðustu áratuga; aukin skuldasöfnun almennings, fjármálavæðingin, hnattvæðingin og flutningur framleiðslunnar til þróunarlanda, niðurskurður velferðarkerfisins, o.s.frv., skýrist einungis og alfarið af ákvörðunum slíkra illmenna – og að það sé undir góðum stjórnmálamönnum komið að kippa málunum í liðinn og innleiða nýja gullöld – er hættulega vitlaus skilningur.

Það er því ómögulegt fyrir Trump, Sanders eða nokkurn annan stjórnmálamann eða flokk að snúa þróun síðustu áratuga við á meðan að þeir styðja kapítalískt hagkerfi – eins og þeir báðir gera. Svo lengi sem kapítalismi er við lýði þá mun hagkerfið snúast um hagnað og það er nákvæmlega minnkandi ávöxtun á fjárfestingum síðustu áratuga – hin langa niðursveifla – sem er orsök þeirra vandamála sem stuðningsmenn þeirra beggja eru reiðir yfir. Kjör almennings, hins yfirgnæfandi meirihluta, munu óhjákvæmilega versna eftir því sem niðursveiflan dýpkar þar sem hagnaðurinn verður að koma einhvers staðar frá til að halda kerfinu gangandi. Það er ekki stjórnmála- og viðskiptaelítan sem stjórnar kapítalismanum heldur öfugt. Ef við viljum raunverulegar breytingar – og ekki einungis tímabundna plástra eins og t.d. hærri skatta á hina ríku – þá er allavega mikilvægt fyrsta skref að átta okkur á þessu.

 

[1]    Lífræn samsetning fjármagns (organic composition of capital) er hugtak sem Marx býr til og ræðir í tuttugusta og fimmta kafla í fyrsta bindi af Das Kapital. Með hugtakinu á hann við hlutfallið milli stöðugs fjármagns (sem fjárfest er í verksmiðjum, búnaði og hráefnum) og breytilegs fjármagns (sem fjárfest er í launum vinnuaflsins). Hugtakið nær aðeins til fjármagns sem fjárfest er í framleiðslu. Það vísar til hins „dauða“ (tækja og búnaðar) og „lifandi“ (vinnuafls) og því notar hann hugtakið lífrænt. Þetta hugtak útskýrir hina sérstöku mynd sem sambandið milli framleiðsluafstæðanna og vinnuafls tekur á sig í kapítalísku framleiðslukerfi. Það stýrir einnig afkastagetu vinnuafls og sköpunar umframvirðis (surplus value).