Einsleit en vex: Stages með Look, Orion

Hljómsveitin Look, Orion! er kvintett skipaður fjórum svíum og einum íslendingi og hefur höfuðstöðvar sínar í Uppsölum. Carl Nordqvist syngur, Jens Lindman og Samuel Johansson leika á gítar, Nils Melin spilar á bassa og Pétur Rafn Jónsson sér um trommur. Hér er um að ræða aðra EP plötu þeirra, Stages, og kom hún út í dag. Árið 2014 gáfu þeir út EP plötu samnefndri hljómsveitinni.

Það er talsverður Zwan keimur af þessari plötu. Söngurinn minnir talsvert á tilfinningaríkt Billy Corgan, trommurnar eru vel nýttar að hætti Jimmy Chamberlain, samspil gítarleikaranna er klingjandi að hætti David Pajo og Matt Sweeney en bjögunin er samt að mestu í bakgrunninum. Bassinn er traustur djúpt í súpunni eins og bassaleikur Paz Lenchantin.

Það eru fjögur lög á skífunni (ég leyfi mér að tala um þetta að fornum hætti þó þessi gripur komi eingöngu út í stafrænu formi). Lagasmíðarnar eru epískar og dramatískar og auk Zwan má greina áhrif frá Sigur Rós, Coldplay og jafnvel Polvo. En að öllum samanburði slepptum að þá er stíllinn þeirra eigin og einskis annars. Ég er hrifnastur af síðasta laginu, Among The Embers, sem er rúmlega átta mínútna langhundur.

Helsti gallinn við þessa plötu er að hún er heldur einsleit, lagasmíðar eru keimlíkar og allur hljómur nokkurn vegin sá sami á milli laga. En, svona eru EP plötur oft. Hljómsveitir nota þær til að þróa hugmyndir og setja oft á þær lög sem myndu aldrei rata á breiðskífur.

Umslagið, ef hægt er að tala um umslag á stafræna útgáfu (kannski avatar færi betur(hvað er íslenska orðið fyrir avatar)), er afar fínt. Myndin er flott og skemmtilegir litir.

Þegar allt kemur til alls þá er Stages fín EP plata og vel virði tímans sem fer í að hlusta á hana. Hún vex við hverja hlustun. Look, Orion! er vaxandi band sem verður gaman að fylgjast með í framtíðinni.