Úr Richard III.

Edinburgh Fringe: Uppgjör 2 af 3 – Pólitísk heróp (út í tómið?)

Í þessum öðrum kafla um listahátíðina gríðarlegu, Edinburgh Fringe, er litið til pólitískra verka sem mér tókst að sjá þetta árið. Hvaða málefni mér eru mikilvæg verður ykkur nokkuð augljóst. Þau eru kannski ekki þau sömu og brenna á ykkur en þetta er minn pistill. Þannig er það bara.

Til hvers er pólitískt leikhús? Er ekki bara verið að predika fyrir kórinn? Eða er verið að breyta heiminum? Já og nei, það fer eftir hver er í kórnum …

The Red Shed eftir Mark Thomas – séð 31a júlí

Mynd: Sally Jubb.

Mynd: Sally Jubb.

Uppistandarinn og aktívistinn Mark Thomas fjallar um kommúnískt uppeldisheimili sitt, stéttabaráttu og baráttuskúr Verkamannaflokksins (Labour) – The Red Shed í Wakefield  – í nýjasta verki sínu. Hann fær upp á sviðið 6 einstaklinga úr áhorfendahópnum sem hann velur úr röðinni fyrirfram og sitja þau á sviðinu, við pöbbsleg borð, og lyfta grímum af og til til að gefa til kynna hvaða fólk Mark er að tala við hverju sinni. Við hin sem sitjum úti í sal fáum ýmis hlutverk líka, syngjum Solidarity Forever og fleira og sprengjum konfetti yfir hvort annað þegar Mark segir til. Hann stjórnar okkur með stakri prýði og eins og góðum grínista sæmir á hann í nokkrum óvæntum samskiptum við áhorfendur. Formið virkar og áður en langt um líður hefur tekist að búa til einhverskonar sameiningu innan hópsins, svona eins og við séum öll á sama pöbbnum í hverfinu. Voða næs.

Hvað varðar inntak sýningarinnar þá er rauði þráðurinn sá að Mark telur sig muna eftir göngu kolanámuverkamanna aftur til vinnu eftir að verkföll þeirra báru ekki árangur í stríðinu gegn Thatcher. Hann er sannfærður um að skólabörn hafi komið út til að bera þessu vitni og kennarinn hafi grátið meðan börnin sungu Solidarity Forever. Nema hvað að enginn annar man söguna svona. Þannig að hann leggst í rannsókn á þessu og hyggst búa til úr fundinum leiksýningu sem sitt framtak til heiðurs afmælisárs skúrsins.

Verkið fjallar um minningar vs sögufölsun, verkalýðsbaráttuna og vöntun á stéttarfélögum og baráttu þeirra í dag og svo gildi þess að hafa rautt heimili (þar sem hætt er við að nýliðun verði lítil og meðlimir sitji aðallega og hugsi um eigin minningar). Hugmyndirnar eru fínar, pólitíkin skýr (farið og drullist í stéttafélag og berjist fyrir réttindum ykkar) og sagan skemmtileg á að hlýða og hreyfir mikið við manni á köflum. Saga kolanámuverkamanna í Bretlandi er svo sjúklega trist (þó að hér sé ekki um nein harmakvein að ræða, bara verið að tala um staðreyndir málsins). En umhverfið svíkur boðskapinn, það kostar 15-20 pund inn, við erum í borg þar sem millistéttin er allsráðandi og áhorfendur eru þar af leiðandi ekki þeir sem þurfa helst á vakningunni að halda, þó við ættum eflaust að ganga í stéttafélag (það er ekkert djók hvað fáir eru í stéttarfélagi hér). Það er þómargt sem situr eftir samt, hjá okkur hvíta millistéttarfólkinu. Nagar af og til.

Expensive Shit eftir Aduru Onashile – séð 4a ágúst og aftur 28a ágúst

Mynd: Sally Jubb.

Mynd: Sally Jubb.

Kona vinnur fyrir þjórfé á klósetti á skemmtistað. Hún er svört og með afrískan hreim og ungu konurnar á klúbbnum gefa lítið fyrir að tala við hana og eru nískar á pundin sín, sama hvað hún gefur þeim mörg tískuráð, lánar þeim varalit og gefur þeim vatn (og náttúrulega klósettpappír þegar hann er búinn). En einu sinni eyddi sama kona talsverðum tíma inni á klósetti annars klúbbs við að undirbúa dans rútínur með vinkonum sínum í þeirri von að verða hluti af bandi Fela Kuti og sjá byltinguna breyta Nígeríu. Tvö klósett, tvö lönd, tveir tímar en sami skíturinn.

Expensive Shit er saga konu en um leið saga landa, saga kúltúrs og svo er auðvitað plottið – annarsvegar sagan af því afhverju hún missir trúna á byltinguna og hinsvegar sagan af því hvað það er sem hún er raunverulega að gera á þessu klósetti í Bretlandi, þar sem karlmenn hafa borgað extra til að horfa í gegnum tvöfaldan spegil á allt sem fyrir augu ber. Úr þessum tveimur þráðum verður sterk sögn um hið karllæga gláp (male gaze) og hugsunina um eignarhald á líkömum kvenna, þrælfeminískt verk sem stuðar áhorfendur og spyr þá hvað þeir séu að glápa á. Hin sögnin er svo um viðhorf okkar til lágstéttarinnar, til þeirra sem vinna skítastörfin og er þar ekki beint sparkað í rasismann þó hann sé þarna líka heldur aðallega forréttindi hinna vestrænu þjóða. Tvær neglur og áhorfendur eru sigraðir, tvö núll og geta ekkert annað en farið heim til sín og hugsað sinn gang. Brilljant.

Blow Off eftir Juliu Taudevin – séð 22n ágúst

blow-off-credit-niall-walkerÞegar einhverju er lýst sem „Explosive new guerilla-gig-theatre“ og „This fierce and playful feminist work explores the psychology of extremism with haunting melodies and progressive punk riffs“ finnst mér það gefa til kynna að það séu hreðjar, eða öllu heldur hard core túttur á bakvið sýninguna. Svo var ekki.

Hér er saga af konu sem ákveður að sprengja upp kapitalíska risann sem hún vinnur fyrir og sjálfa sig með. Ókei, það er áhugavert. Hún er sögð í gegnum ljóð og tónlist. Það lítur út eins og fólkið á sviðinu vilju vera í Bikini Kill, líka strákarnir. Eða kannski er PJ Harvey átrúnaðargoð Juliu. Eða Patti Smith. Ætti að vera gott. Nema hvað að það er það ekki. Við erum engu nær eftir rúma klukkustund um hvað er bakvið verknaðinn. Hverju vinkona okkar er að mótmæla. Verst að kúl átrúnaðargoð gera manns eigin framkomu ekki endilega kúl. Og maður verður að hafa eitthvað alvöru að segja ef maður ætlar að kenna sig við feminísma, pönk og górillu hernað. Það er ekki nóg að mamma hafi sagt þér að vera kvenlegri þegar þú varst lítil. Ef það er það eina sem þú getur orðið raunverulega reið yfir þá hefuru haft það tussugott.

Mér finnst ekki gaman að tæta í mig leiksýningar. Ég veit hvað það fer mikil vinna í þær. Því skulum við bara segja að þessi er hvorki „guerilla“ né „fierce“ né feminísk, né pönk. Því miður.

Hot Brown Honey eftir Briefs Factory – séð 24a ágúst

hot-brown-honeyTil að hreinsa burt óbragðið sem ég hafði eftir Blow Off var nauðsynlegt að sjá gott feminískt leikhús og mér hafði verið tjáð að Hot Brown Honey væri það besta í boði. Það voru engar lygar.

Á sviðinu eru sex ungar konur af mismunandi uppruna, komnar frá Ástralíu til að berjast við feðraveldið. Á toppi risastórs hunangsbús (sem eru staflar af lömpum) stendur MC og býður okkur að berjast með þeim: „Þegar ég segi „Fuck“ segið þið „the patriarchy““. Áhorfendur sturlast, við erum tilbúin að berjast. Þær dansa, syngja, gera ótrúlega hluti með húllahringjum, beat boxa, halda fyrirlestra, strippa og sveiflast yfir okkur, allt hlutir sem við könnumst við, en í þeirra meðförum eru loftfimleikar besta leiðin til að tjá kynferðislegt ofbeldi, stripp besta leiðin til að fokka í karllægu glápi okkar, dans besta leiðin til að sparka í hundruðir ára af niðurlægingu svertingja og kvenfyrirlitningu. Útþurrkun hins upprunalega kynstofns í Ástralíu og kólóníalisminn fá þyngstu höggin. Samt skemmta sér allir, ef þeir vilja ekki sjá hina útpældu merkingu á bakvið atriðin þurfa þeir þess ekki, en það er verið að berjast við feðraveldið engu að síður því enginn er svo heimskur að sjá ekki neitt af þeim táknum sem borið er á borð fyrir okkur.

Sterkast er að sjá frelsið sem þeirra eigin reiði gefur þeim og þær ljóma af gleði við að fá loksins að segja okkur hvað er hvað. Ekki snerta á okkur hárið. Ekki spurja hvaðan við séum „upprunalega.“ Ekki koma fram við okkur eins og þjónustustúlkur, við erum ekki hérna til að gera líf ykkar auðveldara. Þetta er minn líkami, ég geri við hann það sem mér sýnist og það er ekki fyrir ykkur, heldur fyrir mig.

Út dansa um 200 manns sem þrá ekkert heitar en að geta sjálfir sparkað svo kyrfilega í rassa. Út dansa 200 manns og um 50 langar strax heim að gera eitthvað pólitískt. Út dansa 200 manns og um 150 brosa en óttast að þau séu sek um að vera forréttindapésar í þessum heimi. Út dansa 200 manns og um 75 eru karlmenn sem þakka í laumi fyrir að vera svo heppnir og vona að það að hafa séð feminíska sýningu með kærustunni geri þá stikkfrí þegar feðraveldið verður rifið niður. Út dansa 200 manns og vona að þau séu hluti af lausninni frekar en vandamálinu. Út dansa 200 manns og innst inni finnst þeim þau hafa gert sitt, lagt sitt á vogaskálarnar, tekið afstöðu. Er ekki kominn tími á bjór? Dansi dansi dans.

World Without Us eftir Ontroerend Goed – séð 27a ágúst

world-without-us

Ontroerend Goed gerðu eina sterkustu „sýningu“ síðasta árs, A Game of You, sem fjallaði um hvern og einn sem tók þátt, um hvað aðrir hugsa um þau, hvað þau hugsa um aðra og hvað við erum öll sjúklega dómhörð á bæði okkur og aðra. Hún fokkaði í fólki, sendi suma út brosandi, aðra út náföla og umfram allt sat í fólki margar vikur á eftir. Það var því með yfirdrifnar væntingar sem ég mætti á World Without Us. Á sviðinu stendur kona í svörtu með míkrafón límdan á andlitið, eins og söngleikjastjarna, fyrir framan turn. Annað er ekki að sjá. Hún gerir okkur meðvituð um umhverfi okkar, um hvar við sitjum, um sætisfélaga okkar, um herbergið og ljósið, hvern hósta og hvern andardrátt. Svo býður hún okkur að ímynda okkur að allt í einu, fyrirvaralaust og án útskýringa séu allar mannverur farnar. Eftir ákveðinn tíma deyja ljósaperurnar, skordýr og rottur gera rýmið að sínu, vatn vinnur þrotlaust við að komast inn, ryk safnast upp, rottur éta sætin sem við sitjum í. Þannig talar hún okkur í gegnum hundraðir ára af lífi á jörðinni án mannvera, að því mestu í myrkri.

Þetta er ekki sýning fyrir þá sem leitast eftir sjónrænum upplifunum og hún er ekkert lík A Game of You. Þetta er ekki sýning fyrir þá sem vilja sögu með upphafi, miðju og endi. Þetta er hinsvegar sýning sem er lúmsk í sinni pólitík, hér er ekki rætt um hversu mörg tonn af plasti myndu ekki rata í sjóinn ef við værum ekki til, hvað hlýnun jarðar myndi taka mikið lengri tíma, hvað margir ísbirnir myndu lifa, hve mörgum færri fílum yrði slátrað, hvað kjúklingar yrðu hamingjusamir, hvað náttúran myndi blómstra ef við myndum hverfa á braut. Nei. Hér er aðeins beint sjónum sínum að þremur manngerðum rýmum og því hvernig þau myndu breytast án okkar.

Og það er nóg, nóg til að við hugleiðum afleiðingarnar sem vera okkar hefur á umhverfið. En umfram allt hugleiðum við hvað það er sem mannlegt líf gefur. Símtöl. Kvikmyndir. Bakarí. Jafnvel það að klifra upp á fjall og njóta útsýnisins, það gerir það enginn nema við. Allt sem við elskum er til af því að við erum til. Það er nokkuð mögnuð tilhugsun. Er það nóg til að halda uppi heilli sýningu? Já. Ekki skemmtilegustu sýningu í heimi, ekki jafn dúndrandi góð og þeirra síðasta, en hún er vel skrifuð, vel framsett og sú tækni sem er notuð er áhrifamikil. Umræðuefnið er áhrifamikið. Það er nóg.

Richard III eftir William Shakespeare í förum Schaubühne – séð 28a ágúst

Rikki litli þriðji er það verk eftir Shakespeare sem ég kann best, um einn þriðja utan bókar eftir að hafa leikstýrt einleik upp úr verkinu og fylgst með því flakka um heiminn í 16 mánuði. Það var því sérstaklega gaman að sjá verkið á þýsku í Skotlandi og minna mig á hvernig við höfum skorið textann og hvernig aðrir eiga til að skera hann. Það er líka gaman að sjá Thomas Ostermeier sýningu, ekki svo oft sem færi gefst hér norður í kuldanum. Og hvílík sýning. En fyrst, smá formáli.

Ókei í fyrsta lagi er ekki í lagi að segja fólki ekki frá því fyrirfram að sýningin er tæpir þrír tímar án hlés en voðalega þýskt og maður gat svosem sagt sér það sjálfur. Í öðru lagi þá fengum ég og sviðshönnuður Ostermeier sömu hugmynd fyrir mismunandi verk, sandkassa (var reyndar drullukassi hjá mér) og bakvegg sem er lýstur upp með vídjóum af fuglum. Mér fannst það skemmtilegt. Ég var samt með miklu minna budget, sem mér fannst leiðinlegt. Í þriðja lagi sá ég sýninguna með listræna stjórnendur leikhúss sem mig langar mikið að vinna hjá fyrir framan mig. Þá eru upp taldir þeir þættir sem höfðu óvenjuleg áhrif á upplifun mína. Kannski skiptir það engu fyrir neinn annan en mig.

Allavega. Okkur er gefin öll forsagan af Rósastríðinu og persónur kynntar til leikst í svaðalegu svalli meðan „Now is the winter of our discontent“ hljómar, bæði á þýsku og svo aftur á ensku. Gull konfetti rignir. Það á að heilla okkur upp úr skónum og við erum algjörlega memm.

Ríkharður er hér skemmtilega vanskapaður kripplingur, þó hvernig bak hans er bæklað er öllum ljóst þegar leikarinn fer úr öllum fötunum og sýnir okkur hnúðinn á bakinu (sem er svartur og rosa Brechtískur). Hann er líka óvenjulega mikill aumingi í fasi. Reiðin sem svo margir hafa gefið hlutverkinu liggur dýpra og hið snjalla en svikula eðli er hér mikilvægara, en mikilvægast að hann sé pathetic, aumkunarverður. Þetta er sterk túlkun og gerir persónuna illgjarnari, þar sem orsakasamhengið fyrir því afhverju honum finnst í lagi að láta salla niður bróðir sinn og frændur er betur falið. Hann beinir reiðinni helst að áhorfendum, sem honum finnst ekki vera nógu líflegir og dónalegir að fara á klósettið meðan hann er að tala, en er auðmjúkur í kringum kóngafólkið. Hann rappar fyrir okkur, gengur hringi með míkrafón í bandi úr loftinu og djammar með hljómsveitinni, skemmtir okkur jafnt og skammar, sem er jú leið til að vinna okkur á sitt band en um leið halda vissri fjarlægð.

Sena þeirra Ríkharðar og Lafði Önnu er endalaus en snilldarlega leikin og eru áhorfendur alveg jafn gáttaðir og lafðin á því að hún hafi gefist þessum ömurlega, smeðjulega, veiklulega, nakta vesaling þegar upp er staðið. Virkilega vel gert. Morðið á Clarence er til að byrja með pjúra grín sem snýst upp í eitt það mest brútal morð sem ég hef séð á sviði og sprautast blóðið yfir fremstu röð með svo miklum krafti að þegar Ríkharður kemur aftur á svið getur hann ekki annað en beðið viðkomandi afsökunar og sannfært þau um að þetta náist úr í þvotti. Áhorfendur engjast um af hlátri. Ég gapi af gleði (og listrænu stjórnendurnir hnippa hver í aðra). Blóðpollurinn litar sandinn rauðan og er svo það sem eftir lifir sýningu.

Önnur morð eru látin eiga sér stað utan sviðs að mestu. Leikhópurinn er sterkur og nær að fela smæð sína með flottum skiptum og skýrleika. Ostermeier velur að gera prinsana að leikbrúðum sem hefði getað orðið til þess að morð þeirra skipti okkur minna máli en hið gagnstæða reynist raunin. Eftir krýninguna setur hann Ríkharð í korsett til að rétta úr honum, sterkt tákn og gáfulegt. Formælingar Margrétar fá hér mikilvægari sess en í öðrum sýningum sem ég hef séð, er tekið sem forspá alls þess sem gerist, galdri sem dregur fólk niður í svaðið eitt af öðru. Draugasenan er mögnuð en lokabaráttan bendir helst of sterklega til þess að það sé Ríkharður sjálfur sem verði Ríkharði að falli. Svo má vissulega túlka textann en mér finnst persónulega skemmtilegra þegar slíkar megin niðurstöður verka eru ekki mataðar ofan í áhorfendur og stingur í stúf við formælingarþemað. Ofeldaður endir á annars þrusugóðri sýningu (þó hún sé átakanlega löng og öllum sé orðið illt í rassinum).

Hvers vegna set ég RIII í pólitíska flokkinn, jú, því að verk um vald og valdníðslu er í eðli sínu þrælpólitískt, í dag og fyrir rúmum 400 árum. Það skilja þau í Schaubühne og þess vegna er bit í sýningu sem annars hefði getað verið stíltilraun. Ekki það að áhorfendur á Alþjóðlegri listahátíð í Edinborg láti sig það miklu varða, það er bara svo mikilvægt að vera séður hérna.