Kortakaup og sexísviptir smartkórar

Septemberpistill um leikhús

Í einu ljóða Vilborgar Dagbjartsdóttur segir að það séu lítil börn með skólatöskur sem koma með haustið. Sá kveðskapur er síðan fyrir hálfri öld eða meira og þá var kortasala ekki orðin fastur liður í rekstri leikhúsanna. Þau tóku við af annars konar kerfi þar sem fólk gat keypt sér aðgöngumiða á leiksýningar á ýmsu verði. Skólaafsláttur á miðum var algengur, fastur 50 prósent afsláttur fyrir stúdenta og iðnnema, ólíkt verð eftir meintum gæðum sæta, alls konar hópafsláttur og guð veit hvað. Þetta hvarf flestallt með tilkomu kortanna og nú eru kortakaupsauglýsingar leikhúsanna eitt af því sem kemur með haustið.

Þegar kortasalan hefst í stóru leikhúsunum verður áþreifanlega ljóst hve þau eru háð áhorfendum og meta eigin árangur oft og kannski alltaf af því hversu mörgum slíkum þeim tekst að landa á ári hverju. Líkast til er ekkert óeðlilegt við þessa áhorfendasýki. Það kostar heilmikla peninga að reka leikhús þar sem öll tækni er upp á það nýjasta og fólk fær greitt fyrir vinnu sína – höfundar og þýðendur leiktexta fá sína þóknun, leikstjórar og hönnuðir ljósa, búninga og leikmyndar sín laun, líka dramatúrgar, leikmunaverðir og hvíslarar, leikarar og skúringafólk, förðunarmeistarar og hárgreiðslumenn, afgreiðslufólk í miðasölunni, dyraverðir, hljóðfæraleikarar og tónskáld, búningaskraddarar og málarar, smiðir, sýningastjórar, sviðs- og ljósamenn. Þetta er ekkert smábatterí og ugglaust man ég samt ekki í svipinn eftir öllu því fagfólki sem í leikhúsi kann að starfa.

Auðvitað krefst allur þessi mannafli og kunnátta hans peninga og þess vegna mikilvægt að selja eins marga aðgöngumiða og kort á eins háu verði og markaðurinn gefur færi á. En er ekki eitthvað einkennilegt við það að í leikhúsunum tveimur í höfuðstaðnum sem fá mesta peninga úr sjóðum samfélagsins kosta bæði leikhúskort og stakir aðgöngumiðar miklu meira en þar sem minna fé er fyrir? Mér sýnist að Tjarnarbíó slái bæði Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið gersamlega út hvað aðgöngumiðaverð varðar. Í Tjarnarbíói er hægt að kaupa leikhúskort sem kostar 25000 kall og gildir á 10 sýningar. Og leikhúsgesturinn getur notað kortið þegar honum hentar best – að því gefnu auðvitað að sæti séu laus á sýningarnar. Svo fer verðið á leikhúskortum Tjarnarbíós hlutfallslega stighækkandi eftir því sem færri sýningar eru í kortunum.

Stóru stofnanaleikhúsin hafa annan hátt á – þau auglýsa fast verð á kortunum sínum og bjóða áhorfendum gjarnan fjórar kortasýningar að eigin vali. Í Þjóðleikhúsinu kostar svona kort 15. 500 krónur og þúsundkalli meira í Borgarleikhúsinu. Verðlagningin er reyndar flóknari því ef fólk er í viðskiptum við ákveðinn banka getur það fengið tvö þúsund krónu afslátt í Þjóðleikhúsinu og ef verðandi leikhúsgestur er yngri en 25 ára getur hann fengið kort í leikhúsunum þar sem aðgangur að hverri sýningu kostar orðið svipað og í Tjarnarbíó.

Ódýrustu miðarnir í leikhús eru eftir sem áður semsé á 2.500 kall en þeir dýrustu á eitthvað miklu meira – ætli það verði ekki áfram dýrast á sýningar Íslensku óperunnar – allt að tíu tólf þúsund kall fyrir miðann? Varla fara margir örorku- atvinnuleysis- og ellilífeyrisbótaþegar að eyða aurunum sínum í leikhúsmiða á því verði. Og það eins þótt fjármálaráðherra hafi sagt að kaupmáttur bóta sé á hraðri uppleið hérlendis. Sú athugasemd hans er raunar eins og skrítin replikka úr lélegri revíu frá liðinni öld. Mér sýnist að með því fyrirkomulagi sem er á verðlagningu leikhúsmiða þá sé búið að ganga þannig frá að í leikhúsunum sem að stórum hluta eru rekin fyrir almannafé þá séu ákveðnir hópar í samfélaginu sem verða að láta sér nægja að skoða kynningarbæklinga leikhúsanna og finna reykinn af réttunum í snaggaralegum úttektum krítíkera í blöðum og á ljósvakamiðlum.

Eftir sem áður er mikil aðsókn að leiksýningum á Íslandi en hópurinn sem sækir leikhús er tæpast settur saman úr öllum stéttum samfélagsins. Mér segir svo hugur um að mikill meiri hluti leikhúsgesta sé úr millistétt, hafi stundað eitthvert nám að loknum grunnskóla og telji það við hæfi sinnar samfélagsstöðu að verja tíma sínum og einhverjum peningum í að sækja leiksýningar og aðra menningarviðburði. Ekki leikur heldur neinn vafi á því að í hópi leikhúsgesta eru mun fleiri konur en karlar og oftast eru það konur sem velja kortasýningarnar og stjórna leikhúsklúbbunum, þessum óformlegu stofnunum sem leika stórt hlutverk í aðsókn að leikhúsunum og ráða kannski úrslitum um það hvaða sýningar fá mesta aðsókn og hafa þess vegna heppnast best að flestra mati.

Þetta er auðvitað gott og blessað svo langt sem það nær. En ég álít að stóru opinberu leikhúsin hafi ríkar skyldur við alla samfélagsþegna og ættu að gera átak til þess að víkka út áhorfendahóp sinn, ná til fleiri örorkubótaþega, fleiri nýbúa, fleiri ellilífeyrisþega og sjómanna, fleiri bænda og bifvélavirkja, fleiri unglinga og fleira útigangs- og landsbyggðarfólks. Til þess að þetta megi gerast þarf margs konar átak. Leikhúsin verða að laða að sér alls konar fólk með því að gera öllum fjárhagslega kleift að sækja sýningar sínar, bjóða upp á ríkulegan afslátt á miðaverði fyrir láglaunahópa og sýningar sem ekki hika við að fjalla um það margvíslega félagslega misrétti sem blasir við hverjum þeim sem vill opna augun fyrir hversdagsveruleikanum á bak við stóraukin bílakaup þjóðarinnar undanfarna mánuði. Til þess að gera leikhúsunum mögulegt að taka þennan kúrs gætu alþingismenn til dæmis sett lög þar sem kveðið væri á um að eitthundrað þúsund kall af skattinum af hverjum nýjum seldum bensínfólksbíl rynni til leikhúsanna og tvö hundruð þúsund kall af jeppum.

Leikhúsin þurfa líka að vera á varðbergi gagnvart smartheitadýrkuninni. Tíðarandinn er nefnilega sá sýnist mér að allt á að vera svo ofursmart og sexí. Það er ekki gott fyrir leikhús sem taka hlutverk sitt alvarlega. Gísli Marteinn fær til sín gesti í sjónvarpssal á laugardagskvöldi, nefnir einhverja nýlega frumsýningu leikhúsanna og segir með hvellri rödd og glaðbeittu fasi að þetta sé nú flott sýning. Þar með eiga allir að vita og samþykkja að tiltekin leiksýning sé vel heppnuð og glæsileg og þeir sem ekki taka umsvifalaust undir með smartkórnum eru álitnir nöldrarar og leiðindaseggir. Fúlir á móti eins og þeir sem voguðu sér hér rétt fyrir hrun að benda á að kannski væri eitthvað athugavert við svokallaðar árangurstengdar ofurgreiðslur til fólks í fjármálageiranum og himinháar útborganir á einu bretti til stjórnenda sem fengu starfslokasamninga við einhver groupfyrirtækin.

Í Fréttablaðinu þann 5. september hefur Magnús Guðmundsson það eftir Tove Janson, skáldinu snjalla sem skrifaði Múmínálfasögurnar, að leikhús séu mikilvægust allra heimsins stofnana. Leikhúsin sýna fólki hvernig það ætti að vera og gæti verið ef það bara þyrði, segir Magnús að Tove Janson hafi skrifað. Líka hvernig fólk er í raun og veru. Þetta er stórt og mikilvægt hlutverk og erfitt að rækja það vel, enda bendir Magnús á að nokkuð skorti á að leikhúsin séu í virku og raunverulegu samtali við samfélag sitt og samtíma. Til þess að leikhúsin fái þann sess í hugum almennings sem þeim ber, leiklistin fái verulega að blómstra og hefji sig upp úr afþreyingarfarinu þurfum við að komast frá fyrrnefndum fáfengileika sexívipta smartkórsstefsins og leyfa vitsmunum okkar, innsæi og tilfinningum að takast á við það verkefni að meta skemmtanagildi leiksýninga og íhuga listrænt, menningarlegt og félagslegt erindi þeirra við áhorfendur, jafnt einstaklinga og samfélag. Leiðin að þessu marki er ekki endilega neitt auðfarin, hún krefst átaka leikhúsanna við sjálf sig og virkrar þáttöku áhorfenda, sem hafa þarfir fyrir andlega og vitsmunalega næringu en geta sótt sér næga afþreyingu í aðra brunna en leikhúsið, því að af henni er kappnóg.

Það eru leikhúsin sem ala upp públikum, sagði Oddur Björnsson leikritaskáld í blaðagrein fyrir mörgum áratugum en sannindi þessara orða eru enn þau sömu og þá var. Enginn verður sjálfkrafa læs á jafnmargbrotið listform og leikhús er og gott uppeldi leikhúsgesta, ekki bara barnanna heldur líka okkar hinna, er beinlínis skylda þeirra leikhúsa sem að stórum hluta eru rekin fyrir almannafé. Þau eiga þess vegna að sýna vel unnar sýningar á vönduðum verkum og hyggja að því að blekking er ekki list. Leikhúsin eiga ekki að kasta ryki í augun á áhorfendum með glimmeri og gauragangi heldur huga að því að sannfæra áhorfendur og vinna þá á sitt band með því að auðga anda þeirra og auka skilning þeirra á sjálfum sér og öðrum. Vissulega leitast leikhúsin oft við að sinna þessu hlutverki sínu en kapphlaupið við að elta ímyndaðan smekk leikhúsgesta setur býsna stóran og of sterkan svip á verkefnaval þeirra og markaðstakta.

Eins og segir í gömlum kristilegum barnasöngvísum þá er sá maður heimskur sem byggir hús sitt á sandi. Leikhúsin þarfnast þess mjög að velja sér ekki slíkt byggingarland. Þau þurfa að treysta stoðirnar sem þau reisa verk sín á, leggja rækt við grunninn og sinna uppeldishlutverki sínu af kostgæfni. Þetta er krefjandi verkefni en getur verið hrikalega skemmtilegt ef tekist er á við það af skapandi innsæi og eilífum æskuþrótti blönduðum reynslu og þekkingu. Mér fannst einstaklega gaman að fylgjast með því átaki í að auka hróður og útbreiðslu svokallaðrar klassískrar tónlistar sem Rúv og Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa staðið að undanfarna mánuði. Fólki gafst kostur á að taka þátt í að kjósa um hvert væri vinsælasta verkið og svo voru topp níu leikin og sungin á fullu blasti í Eldborgarsal Hörpu föstudagskvöldið 2. september. Engin smástemning í þeim sal það kvöld. Bolerostef Ravels hljómaði endurtekið í átján mínútur – það er nú dálítið langur tími fyrir snapptsjattara að einbeita sér að einhverju einu – en samt ætlaði allt um koll að keyra af fagnaðarlátum. Í lokin var hin fagra gleði svo lofsungin af meistarasöngvurunum úr Reykjavík og mótettukórnum hans Harðar Áskelssonar sem er hreint metfé. Kór- og einsöngvarakafli Níundu sinfóníu Beethovens sigraði semsé í vinsældakeppninni. Miðarnir kostuðu kúk á priki miðað við það sem venjan er og Eldborgarsalurinn var fullur af fólki sem naut hvers augnabliks þótt stór hluti gestanna væri hreint ekki úr þeim hópi sem að jafnaði sækir tónleika hjá Sinfó. Og svo voru allir þeir sem fylgdust með beinu útsendingunni í sjónvarpi af þeim áhuga og gleði að áhrifin hafa skilað sér inn í spjall óbreyttra Íslendinga í heitum pottum, á bingókvöldum og í stórmörkuðum.

Kannski leikhúsin gætu gert eitthvað svipað – spurt væntanlega gesti sína hvað þá fýsi að sjá. Hvert er uppáhaldsleikritið þitt? Er það Hamlet eða Rómeó og Júlía? Kannski Galdra Loftur eða Gullna hliðið? Hart í bak eða Kamelíufrúin? Bugsy Malone eða Bílaverkstæði Badda? Það væri mjög gaman að sjá úrslit slíkra kosninga og fá að vera viðstaddur þegar einhverjir þeirra fjölmörgu sem sjaldan eða aldrei sækja leikhús mæta í aðalsal Þjóðleikhússins og fá kannski að sjá Mikka ref og My Fair Lady sama kvöldið. Ég er ekki að grínast. Ef metnaður og alúð væri lögð í svona verkefni gæti það skilað miklum árangri í leikhúsuppeldi fólksins sem byggir Ísland og orðið hvati fyrir nýja leikhúsgesti að slást í hópinn með þeim sem þegar eru félagar í kortakaupaklúbbunum.

Sjálfur er ég ótrúlega heppinn í upphafi þessa leikárs. Þjóðleikhúsið ætlar nefnilega – meira að segja án þess að ég bæði nokkuð um það – að sýna eftirlætisleikritið mitt. Það heitir A View from the Bridge á frummálinu og frumsýningin verður á stóra sviði Þjóðleikhússins í lok september. Hilmir Snær Guðnason mun fara með hlutverk Eddie Carbone og Harpa Arnardóttir, sem er líka ein af mínum uppáhalds, leikur Beatrice, konuna hans Eddie. Auk þess mætir Arnar Jónsson með alla þá leikreynslu og þekkingu á list leikarans sem hann hefur þroskað með sér í fimmtíu ár og túlkar Alfieri lögmann. Fleiri ágætir leikarar eru kynntir til sögunnar svo Hilmir Snær mun áreiðanlega fá marga góða fyrirgjöfina í þessum leik, hitta boltann á lofti og spyrna honum viðstöðulaust í netið.

Ég hlakka til að sjá uppáhaldsleikritið mitt í Þjóðleikhúinsu og bendi um leið á að þessi sjónleikur hans Arthurs Miller fjallar öðrum þræði um að því er virðist óendanlegan vanda kapítalískra samfélaga sem kallaður er ólöglegir innflytjendur. Það efni þess á því verulegt erindi við okkur á tímum þegar við þurfum að móta okkur stefnu í málefnum innflytjenda og tileinka okkur skapandi viðhorf til flóttamanna. Undirliggjandi blóðskammarmótív leikritisins er líka sígilt en hvort er sterkara í fari og gerðum Eddie, girnd hans til Katrínar eða eðlisávísun hans og þörf sem föður fyrir að vernda fósturdóttur sína fyrir óvönduðum karlmönnum, finnst mér að við áhorfendur eigum að fá að meta hver fyrir sig.