Að dæma bók eftir kápunni

ATH HÉR VERÐUR RÆTT UM EFNISATRIÐI BÓKARINNAR Á HÁTT SEM GÆTI MÖGULEGA SKEMMT FYRIR LESTRARÁNÆGJU

Villisumar eftir Guðmund Óskarsson lofar góðu við fyrstu sýn. Bókin fjallar um listmálara og son hans, svo strigaklædd kápan með málningarkáminu á forsíðunni er ekki bara falleg, heldur rímar hún skemmtilega við viðfangsefni bókarinnar. Ekki skemmdi fyrir þegar ég komst að því að kápurnar eru ekki allar eins, mismunandi litir og form prýða hvert eintak.  Þrátt fyrir að kápuhönnuður eigi hrós skilið, telst þó ekki góð latína að dæma bók eingöngu eftir kápunni svo ég lauk bókinni upp og hóf lesturinn.

Villisumar fjallar um Dagbjart, sem rifjar upp sumar sem hann eyddi með föður sínum í franskri borg, um leið og hann ferðast þangað aftur, mörgum árum seinna, með fjölskyldu sinni. Faðir hans og nafni, er dáður listmálari en á meðan  verkum hans er hampað af ókunnugum er hann erfiður við þá sem standa honum nærri.  Þetta sumar er vendipunktur í lífi Dagbjarts og þroskasaga hans er í fyrirrúmi í frásögninni.

Þegar um þroskasögu er að ræða er ljóst að persónusköpun er gríðarlega mikilvæg. Því miður er henni ábótavant í Villisumri. Þeir feðgar eru karakterarnir sem halda uppi frásögninni en þeir virka báðir tvívíðir og klisjukenndir . Dagbjartur eldri þykir mikill listamaður og verk hans njóta hylli en hann er óútreiknanlegur drykkjusjúklingur sem lifir eins og bóhem. Dagbjart yngri dreymir um að feta í fótspor föður síns en á erfitt með að brjótast út úr skugga hans. Hann kennir sjálfum sér um sjálfsmorð móður sinnar og óöryggi hans bitnar seinna á samböndum hans. Ef þér líður eins og þú hafir heyrt þessa sögu áður, þá er það vegna þess að þú hefur örugglega gert það, margoft meira að segja.

Uppbygging sögunnar er snyrtileg. Sögumaðurinn, Dagbjartur yngri ferðast með lest til borgarinnar sem hann varði örlagaríku sumri í með föður sínum mörgum árum áður. Á leiðinni rifjar hann upp atburði sumarsins sem höfðu djúpstæð áhrif á hann. Spennan í sambandi þeirra feðga byggist upp eftir því sem líður á bókina þangað til hin óumflýjanlega úrlausn kemur fram. Þetta minnir í raun helst á grískan harmleik þar sem feðgarnir fljóta að feigðarósi, með sögumanninn í hlutverki kórsins. Líkindin með einum ákveðnum harmleik, Ödipusi konungi, eru raunar sérstaklega eftirtektarverð, enda verður Dagbjartur yngri hugfanginn af konu sem hann sér föður sinn sofa hjá og lýkur svo sínu villta sumri með því að verða föður sínum að bana. Þetta er áhugaverð hugmynd en gallinn er sá að flötu persónurnar og agaði stíllinn sjá til þess að spennan nær aldrei suðupunkti, heldur mallar í kringum  herbergishita. Úrlausn sögunnar virkar því ekki óumflýjanleg, heldur ónauðsynleg.

Eitt sem má telja bókinn til tekna er að þrátt fyrir erfiðleika höfundar að gæða persónur sínar lífi, þá tekst honum einkar vel að mála upp umhverfið í kringum þá. Borgin verður ljóslifandi fyrir hugskotssjónum lesandans, sér í lagi gamla prentsmiðjan inni í miðju iðnaðarhverfinu þar sem þeir feðgar setja upp vinnustofu sína. Hann er afar laginn við að setja upp atriði í bókinni þannig að maður finnist maður vera á staðnum sjálfur, finni fyrir hitanum og svitni í samstöðu með persónunum.

Helsta hindrunin sem Villisumar glímir við er fyrirsjáanleiki. Samband föður og sonar, þroski ungmennis á barmi fullorðinsaldurs, listin og tengsl sköpunar og sjálfseyðingar. Þetta eru háleit umfjöllunarefni, sem hafa verið vinsæl hjá listamönnum í gegnum tíðina og eru fyrir löngu orðin sígild. Í meðförum Guðmundar verða þau hins vegar að klisjum og í stað þess að velta upp nýjum flötum á þessum sammannlegu viðfangsefnum minnir sagan á útfyllt eyðublað, þar sem búið er að færa inn allar réttu upplýsingarnar. Útkoman er langt frá því að vera alslæm, en grípandi er hún ekki.

Þegar öllu er á botninn hvolft er Villisumar vönduð bók en óspennandi. Hún hefur ýmsa góða eiginleika og oft og tíðum má sjá neista að einhverju meira spennandi en hún nær bara ekki því flugi sem hún þarf til að hægt sé að mæla með henni. Ég stóð mig sjálf til að mynda að því að hafa miklu sterkari skoðun á kápunni heldur en innihaldi bókarinnar og það geta varla talist góðar fréttir.