Tónlist vikunnar: Pink Street Boys – móteitur við hey!mæði

Hæ,

með því að smella hér (og hugsanlega gera eitthvað svona hægrismellsfiff) er hægt að sækja plötuna Trash from the Boys með hljómsveitinni Pink Street Boys. Það verður alveg hægt fram á næsta föstudag (eftir viku) – og það er heldur ekki þjófnaður eða neitt (umbeðnir gáfu þeir plötuna sjálfir til niðurhals, sem er lýsandi) – en ég myndi bara drífa mig og gera það strax.

Það er ekki eftir neinu að bíða. Hún á ekkert eftir að batna með aldrinum. Hún er fullkomin núna, eins og hún er.

Fljót, fljótur.

Ertu búin? Búinn? Gott. Hlustaðu á hana smá. Og spjöllum aðeins meira. Þú getur horft á þetta myndband, líka.

pinkstreetboysÉg held Trash from the Boys sé mjög mikilvæg plata, og að Pink Street Boys sé mjög mikilvæg hljómsveit. Og lýsandi fyrir mikilvæga hreyfingu (köllum það hreyfingu, þó hreyfingar séu eiginlega bara til eftirá og þetta dót sé spriklandi af lífi núna) eða viðbragð sem er held ég nauðsynlegt og var svona aðeins farið að vanta, eða mér fannst það allavega.

Það er aðeins flókið að útskýra þetta. Ég mun hugsanlega ekki koma orðum að því nægilega vel. Ég er ekki viss um að mér endist þrek til að sinni. Nauðsyn PSB og gæði skífunnar eru líka margbrotin og flókin. Þetta útskýrir sig kannski reyndar mest sjálft. En, það er líka alveg nóg að hlusta bara á plötuna og horfa á eitt eða tvö myndbönd af internetinu til að skilja og elska. Eða allavega til að hafa gaman.

Hér er tilraun:

Um daginn skrifaði ég eftirfarandi í leiðara fyrir tímaritið Reykjavík Grapevine (á ensku, ef þú vilt frekar lesa á ensku geturðu smellt á hlekkinn og lesið á ensku þar, þar er allt á ensku. “Yes sir, alright”):

Trash from the Boys er besta íslenska plata sem ég hef heyrt í langan tíma. Hún gæti verið besta íslenska plata sem nokkurntíman hefur verið búin til. Það gæti vel verið. Ég veit það ekki.

Eins og 21stu aldar útgáfa af yngri, svengri, reiðari, skítugri, úrkynjaðri, kaldhæðnari, eitraðri, sjálfseyðandari útgáfa af hljómsveitinni Singapore Sling (ég sakna Singapore Sling) veita Pink Street Boys fullkomið og satt best að segja nauðsynlegt móteitur við allri hey!mæðinni sem hefur mengað loftbylgjurnar síðustu misseri.

Þetta er ekki heilbrigt og ekki fallegt. Mér hefur ekki tekist að greina neina texta en ég er nokkuð viss um að þeir eru heimskulegir og spennandi. Hljómsveitarmeðlimir sjálfir er ekki sérlega myndarlegir eða klárir. Ég er ekki viss um að þeir séu góðir að spila á hljóðfærin sín heldur. Ég elska þá. Ég elska plötuna þeirra.

Þeir eru einmitt það sem Reykjavík þarf.

Takk, Pink Street Boys!

Þetta er augljóslega skrifað af nokkrum galsa og einhverri spennu. Ég var undir áhrifum þegar þetta var ritað: tónlistin fyllti mig galsa og gerði mig spenntan. Í seinni tíð er ekki mjög algengt að tónlist geri það við mig, þó það komi alveg fyrir. En í gamladaga var það alltaf að gerast. 

Nema hvað. Það er liðin rúm vika síðan ég skrifaði þetta og í millitíðinni sá ég hljómsveitina leika á tónleikum og hlustaði fullt meira á plötuna, og ég er ennþá alveg sammála. Eða: ég er meira sammála ef eitthvað er. Og ég hef hugsað aðeins um af hverju ég held þetta sé bæði mikilvægt og nauðsynlegt.

Fyrir utan að vera skemmtileg og hressandi, þá er hún líka svona andlag. Viðbragð.

Síðustu ár hefur landslag popp og rokktónlistar (og danstónlistar og raftónlistar og kammerpopps – Jakob Frímann vill kalla þetta einu nafni hryntónlist. Það er ágætt) tekið allnokkrum stakkaskiptum.

Hér eru nokkur svona stakkaskipti sem gætu eða gætu ekki hafa haft áhrif á hvernig umhverfið hefur mótast og orðið móttækilegt fyrir ógeði eins og Pink Street Boys eða beinínis kallað á það.

• Meðal annars var hér stofnuð Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ég var þar starfsmaður fyrstu árin og hafði gaman af, enda gott starf unnið), sem hefur það markmið að aðstoða íslenskt tónlistarfólk við að koma verkum sínum á framfæri alþjóðlega sem og að búa í haginn fyrir fagmennsku í tónlistarbransanum (að því marki tók ég m.a. saman og hélt námskeið um skattamál, kynningarstarfsemi og styrkjaumsóknir í boði ‘skrifstofunnar). Þetta er vitaskuld gott og göfugt markmið – og nauðsynlegt líka – en fagmennsku fylgja einatt fagmenn. Og þeir þurfa að fá greitt og skapa tekjur, og til þess þarf áætlanir og ramma.

Eins, eftir langa stund og mikinn áróður tónlistargeirans, fóru stjórnvöld og stofnanir að gefa því gaum að íslenskt tónlistarfólk (oftast af jaðrinum) hefur haft mikið að gera með aukinn áhuga heimsins á Íslandi og íslenskri menningu, og að nýta megi íslenska tónlist í landkynningarskyni á markvissan hátt (í gamladaga laumuðu múm og Sykurmolar sér bara framhjá, skáleiðis inn í vestræna poppmenningu, meðan embættismenn fluttu Rombigy og Strax til tónleikahalds í íslenskum sendiráðum hér og þar um heiminn). Allt í einu, upp úr þurru, var orðið  hagsmunamál þjóðarinnar að styðja sigurvænar sveitir til landvinninga og landkynningar.
krafturfridurfrelsi

• Svo fóru ógeðslega margir ferðamenn að koma með peninga. „Landkynning“ fór að skipta miklu meira máli, hún varð svona hagsmunamál. Einhver bjó til einhverja svona „ímyndarnefnd“ (munið skýringarmyndina með eldgosinu) og hún svona fór að segja fólki hvaða ímynd væri gott að hafa og hvernig best væri að byggja undir hana.
• Kurteis, óframfærin, innísig krúttkynslóð vék smátt og smátt fyrir næstu kynslóð. Sú greip með sér kurteisina og naflakroppið, en þótti sjálfsagt að reyna koma sér á framfæri eftir mætti (enda þá orðið ljóst að eithvað mætti jafnvel hafa upp úr krafsinu). Nú er gott og fallegt að vilja vera næs og engan móðga eða stuða með offorsi eða öfgum, en þegar framagirni og/eða sölumennska blandast næsheitunum er maður orðinn pínu eins og banki eða tryggingafélag. Síðustu ár hafa verið góð, það hefur ótrúlega mikið af góðri íslenskri músík lekið fram á sjónarsviðið. En, margar sveitir sem í orði eru afsprengi jaðarsins (jaðarinn heitir svo því hann er á jaðrinum að fokkast í rugli: hann leikur sér, hann ögrar, hans öfgar göfga), arftakar krútta sem vinna með arfleið þeirra, eru stundum hálfgerð tryggingarfélög eða bankar.

• Almennt, um heim allan, fóru einhverjir (ég veit ekki alveg hverjir það eru) að gera þá kröfu til listamanna, líka tónlistarmanna, að þeir ættu að vera mjög gott, heilsteypt og næs fólk, sem gerði falleg og arðbær listaverk en væri líka mjög kurteist og viðkunnanlegt. Tráma og lost urðu smátt og smátt einhver verstu hlutskipti sem fólk gat orðið fyrir, og því varð nauðsynlegt að forðast og afnema allt sem kveikt gæti á svoleiðis. Námsefni háskólastúdenta í Ameríku kemur núna stundum með viðvörunarmiðum ef viðkvæm málefni eru til umræðu. Svo enginn móðgist. Það er hræðilegt að móðgast.

• Kitl og erting og eip og óþægindi eru ekki lengur ásættanleg. Kvikmyndir hættu að enda illa. Það varð bannað að vera ekki í stuði. Neikvæð gagnrýni er svona eins og persónuárás, eða jafnvel líkamsárás, og sprettur alltaf af illgirni, fáfræði eða hvoru tveggja (fyndið: í kjölfar hins svokallaða hruns, samhliða því að Íslendingar sammældust um að hið svokallaða hrun væri m.a. sýkófantískum fjölmiðlum að kenna – sem hefðu sofið á verðinum og ekki stundað rannsóknir og gagnrýna umræðu- kepptust hagsmunaaðilar við að þagga niður í öllum sem vildu fjalla um listir, eins og tónlist, á krítíska og jafnvel neikvæðan máta. „Það má ekki tala niður  tónlistina“.) Reiði og vond lykt eru óþægileg fyrir alla og það er best að forðast allt svoleiðis.

Þetta er samt kannski bara rugl. En samt, eitthvað af ofangreindu gæti alveg verið satt. Ég veit það ekki.

Ég veit samt, að:

• Tónlist – eða bara öll list – sem drifkraftur hugsanlega nauðsynlegra breytinga og/eða endurnýjunar og/eða til útbreiðslu og þróunar nýrra hugmynda er ekkert endilega næs eða þægileg og hún verður aldrei allra. Ekkert sem er allra er einhvers virði.

• Ég elska tónlist og list, bæði sem eitthvað svona mikilvægt og spennandi sem opnar mér nýja heima og býr til trans en líka svona bara sem maður dansar við eða hummar með í útvarpinu. Ég hef ekkert á móti U2 og ég fíla Sálina.

• Tónlist sem eflir utangarðsbörn og unglinga og ungt fólk og kveikir í því og hvetur það til dáða og býr til nauðsynlegt rúm fyrir það í samfélaginu, líkamlega og félagslega, er ekki tónlist sem kveikir á markaðsfræðingum og ímyndarráðgjöfum meðan hún er að gerast.

• Og það er alveg til fullt af utangarðsbörnum og unglingum og ungu fólki sem þarf rými, líkamlegt og félagslegt, sem þarf að læra að það er í fínu lagi að skapa og búa til eitthvað djöfuls kjaftæði sem allir í bekknum manns hata ef maður hefur sjálfur gaman af því, að það er gott og göfugt að lifa af því að til dæmis spila tónlist, en það er líka alveg jafn gott og göfugt að til dæmis spila tónlist án þess að lifa af því.

• Þegar ég var barn sturlaðist ég af hræðslu fyrst þegar ég heyrði Slayer, Pixies, Death og Nirvana. Mér fannst tónlistin ljót og ógeðsleg. Og ég elskaði hana. Ég þurfti svoleiðis. Örugglega þurfa margir aðrir svoleiðis held ég. 

Pink Street Boys míga á Alþingi

Pink Street Boys míga á Alþingi

Fyrir mér kjarna Pink Street Boys á þessari plötu og á tónleikum aðeins ógeðið og framandleikann. Þeir sniffa lím í tónlistarmyndböndum og það er svitalykt af þeim og þeir eru ógreiddir margir (einn er reyndar algjört hönk, en sá virkar samt meira svona eins og íþróttahönk en hljómsveitahönk. Þeir halda tónleika og það sándar hræðilega stundum og þeir eru reiðir og árásargjarnir á sviði og þeir ruglast oft og það er stundum feedback og ýl út heilu settin. Trash from the boys sándar oft eins og hún hafi verið tekin upp á vasadiskó í bílskúr við hliðina á bílskúrnum sem hún var spiluð í (og engin tvö lög eru eins há, þannig að ef maður vill hlusta á hana alla í röð þarf maður alltaf að vera að hækka og lækka og svona). Tónleikastemmningin gefur til kynna að þeim þætti alveg jafn merkilegt/skemmtilegt að vera fullir inní skúr í efra Breiðholti að spila fyrir þrjá vini sína.

Þeir eru búnir að vera gera sína músík núna um árabil, undir nokkrum mismunandi nöfnum, alveg frá því hún var tískuleg síðast, meðan hún var ekkert tískuleg og svo núna þegar þeir eru sjálfir að gera hana tískulega aftur .

Pink Street Boys er bara eitthvað svo dásamlega sama hvort þú fílir þá eða ekki. Og það er eitthvað svo hressandi. Alveg það hressandi að lúðar eins og ég reyna eins og þeir geta að sannfæra þig til að fíla þá (heitir það meðvirkni?). Eins og ferskur andblær inn í hið staðnaða andrúmsloft tillitsemi, ítarlegra fréttatilkynninga, vandaðra heimasíðna og þægilegra útvarpssmella sem hér hefur ríkt um of langt. Og það eru nokkur fleiri svona bönd líka. Til dæmis Börn! KVÖL! Kælan mikla! Og þær eru fleiri fleiri! Spennandi tímar! Pláss fyrir nýtt? Já.

Allavega. Góð helvítis langatöng, Pink Street Boys.

Lógó PSB mælir svo fyrir að þú eigir að fokka þér.

Lógó PSB mælir svo fyrir að þú eigir að fokka þér.