Tónlist vikunnar: Duglegasti tónlistarmaður í heimi

Internetið fer stundum ægilega í taugarnar á mér, eins og líklega flestum sem höngsuðu eitthvað á jörðinni áður en það varð til (eða þúveist, meðan það samanstóð bara af einhverjum vísindamönnum og rólpleinördum að skiptast á ASCII klámi). Yfirleitt finnst mér internetið samt frábært – og þá sérstaklega þegar ég hitti þar fyrir fólk eins og hinn ágæta Matt Farley (og líka þegar ég þarf að senda vísindamönnum ASCII klám). Án internetsins hefði ég aldrei kynnst Matt og margslunginni tónlist hans, raunar er hæpið að sú gerð tónlistar er Matt ástundar væri yfirhöfuð til ef internetsins og þess ágætu dreifingarleiða nyti ekki við.

Það er kannski óþarfi að vera tala um þetta, þú ert líklega búin að frétta allt um Matt og hlusta á öll lögin hans nú þegar og orðin ógeðslega leið á honum (þetta er eitt af því sem ég þoli hvað minnst við internetið, það eru allir alltaf búnir að frétta allt og orðnir leiðir á því strax og maður þorir varla að segja neitt því það er hvorteðer allt útumallt alltaf). Þessi grein frá Boston Globe varð t.d. vinsæl á internetinu í janúar og í kjölfarið birtist þessi grein á Guardian viku síðar. Þú ert örugglega búin að lesa þær báðar (ef ekki ættirðu að kýla á það, þær eru skemmtilegar).

Nema hvað, Matt Farley er Bandarískur tónlistarmaður frá bænum Danvers í Massachusets fylki. Matt er 35 ára gamall. Til þessa hefur hann gefið út tónlist undir eftirfarandi nöfnum:

Moes Haven, Papa Razzi and The Photogs, The Passionate & Objective Jokerfan, The Toilet Bowl Cleaners, The Singing Animal Lover, The Singing Film Critic, The Paranormal Song Warrior, The Hungry Food Band,The Vampire & Werewolf Experience, The Strange Man Who Sings About Dead Animals, The Guy Who Sings Songs About Cities & Towns, The Guy Who Sings Your Name Over and Over, The Family Party Song Singers, The Best Birthday Song Band Ever,The Smokin’ Hot Babe Lovers, The Very Very Awesome Song Band, The Best Friend Song Fun Band, The Wedding Proposal Music Song Band, The Prom Song Singers, General Cordswainer, The Athletic Sports Band, The Atlanta Sports Band, The Baltimore Sports Band,The Boston Baseball Band, The Boston Basketball Band, The Chicago Sports Band, The Cincinnati Sports Band, The Cleveland Sports Band, The Detroit Sports Band,The Extreme Left Wing Liberals,The Farley Flower Band, The FL Love Song Warriors,The Green Bay & Milwaukee Sports Band,The Los Angeles Sports Band, The MA Love Song Warriors, The Miami Sports Band, The Minnesota Sports Band, The Name Project, The New England Football Band, The New Orleans Sports Band,The New York Sports Band, The New York Sports Fan, The NH Love Song Warriors, The Oklahoma City Sports Band, The Philadelphia Sports Band, The Pittsburgh Sports Band, The RI Love Song Warriors, The River Mud Warriors, The San Diego Sports Band, The San Francisco Sports Band, The Seattle Sports Band, The Singing Texas Sports Fan, The Spoiled Chefs, The Sports Band of Denver, Colorado, The Sports Band of Indianapolis, Indiana, The Sports Band of Phoenix, Arizona, The St. Louis Sports Band, The Ultra Right Wing Conservatives, The Washington Sports Band,The Birthday Band For Old People, The Sorry Apology Song Person, The Boston Sports Band of New England, The Odd Man Who Sings About Poop, Puke, and Pee, The Very Nice Interesting Singer Man

Plata um samgöngumáta ýmisskonar.

Plata um samgöngumáta ýmisskonar.

Vá! Fáránlega margar hljómsveitir! Og mjög skrýtin nöfn á sumum þeirra! Hvað er í gangi?

Ekki nóg með að Matt hafi gefið út tónlist undir öllum þessum nöfnum – við lok síðasta árs hafði hann gefið út meira en 14.000 lög! Það eru ótrúlega mörg lög! Útgáfufélagið sem Matt starfrækir, Motern Media, tók saman Spotify playlista með 460 bestu lögum Matts, en það tekur um tólf tíma að hlusta á þau öll (ég mæli með því að hlusta á allavega nokkur, mörg eru mjög skemmtileg).

Að eigin sögn semur Matt og tekur upp milli fimm og hundrað lög á dag þá þrjá daga vikunnar sem hann helgar tónsmíðum (meðaltalið er í kringum tuttugu), en hann starfar einnig við liðveislu. Greinilega mjög duglegur náungi. Þegar hann er kominn með hundrað lög brennir hann disk og sendir á CDBaby dreifingarþjónustuna, sem sér um að koma tónlistinni fyrir á Spotify, iTunes, Amazon og víðar gegn fimmtíu dollara gjaldi (plötur Matts telja allar 100 lög þar eð iTunes veitan leyfir ekki plötur með fleiri lögum). Og svo hlustar fólk. Oftast óvart.

Nú spyrja kannski einhverjir sig (sem hafa ekki lesið allar hinar greinarnar um Matt) hvað manninum gengur eiginlega til? Matt segist hafa tekið eftir því þegar hann í fyrndinni dreifði plötum með „alvarlegri“ músíkverkefnum sínum á veitum eins og iTunes að oft seldust lög sem voru með kyndugum titlum betur, til dæmis ef orðið „monkey“ var þar að finna. Segist hann hafa áttað sig á því að fólk leitar að hinu og þessu þegar það vafrar um forrit eins og iTunes og Spotify og stundum leggi það í að allavega skima yfir lög sem bera áhugaverða titla.

Þannig kom það til árið 2008 að Matt ákvað að semja lög um „every topic imaginable“. Ef einhverjum gæti dottið í hug leita að tilteknu orði vildi Matt vera til staðar og skila niðurstöðum, til að gleðja.

Hann virðist nú kominn á góða leið með að uppfylla þennan metnað. Í sarpi hans má meðal annars finna afmælissöngva fyrir nánast öll nöfn sem fyrirfinnast á enskri tungu (eða allavega mjög mörg), lög um hin og þessi íþróttalið og leikmenn þeirra (Jason Avant is a Great Receiver m/The Philadelphia Sports Band), lög um vinsælar hljómsveitir og tónlistarmenn (I Am Losing Interest in Radiohead. I Feel Disillusioned og Rod Stewart Does Great Tom Waits Covers m/The Passionate & Objective Jokerfan), lög um fræga (Channing Tatum, Every Girl Wants to Hug You m/Papa Razzi and the Photogs), lög um útvarpsþætti, lög um tónlistargagnrýnendur (Music Writer Mark Richardson Blocked Me On Twitter m/Passionate & Objective Jokerfan), lög um dýr (m.a. lög um órangútan apa og líka ketti), kvikmyndagagnrýnislög (gagnrýnislagið um Reservoir Dogs er skemmtilegt) og þar fram eftir götunum.

Hlustendum til hægðarauka eru lögin skrifuð á hljómsveitir sem fjalla einvörðungu um umfjöllunarefnið (Papa Razzi and the Photogs gefur út músík um frægt fólk, meðan tónlist The Prom Song Singers er sérhönnuð til að spila fyrir fólk sem maður vill bjóða með sér á svona prom ball).

Tónlistin hljómar yfirleitt eins og maður myndi ímynda sér að tónlist sem er tekin upp í kjallara hjá einhverjum náunga sem semur og tekur upp að meðaltali tuttugu lög á dag myndi hljóma. Losaraleg, illa upptekin, illa spiluð og sungin í einhverju djóki. Einhver gæti kallað þetta hamfarapopp (ekki ég, ég trúi ekki á svoleiðis). En hún er á sama tíma skemmtileg og spennandi, full elju og sköpunargleði (nema kannski afmælislögin. Jú og sum önnur lög. Þetta eru mjög mörg lög sem hann hefur gert). Og textarnir eru oft bráðfyndnir og stundum luma þeir líka á lunknu innsæi.

Nú ætti ég að taka fram að sá vinkill sem jafnan er tekinn í greinum um Matt – og ekki að ósekju, mjög merkilegur vinkill – er sá að hann hefur tiltölulega góða þénustu af þessu havaríi öllu. Árið 2013 hafði hann 23.000 bandaríkjadali uppúr spilun af tónlistarveitum eins og Spotify og sölu á iTunes, en það verða að teljast frábærar heimtur á þessum markaði – streymis og niðurhalsgreiðslur hljómsveita og tónlistarmanna eru jafnan hræðilegar, spurðu bara Bubba. Greinarnar um Matt útskýra það þannig að hann hljóti megnið af sínum tekjum vegna þess að fólk leitar að einhverju sérstöku og spilar hann óvart, eða af forvitni. Áðurnefnt lag um vonbrigði Matts með Radiohead kemur t.d. upp ef maður leitar að sveitinni á Spotify og ef maður hlustar á lagalistann til enda heyrir maður bókað í Matt að lokum (og eins er alkunna að aðdáendur Radiohead eru ótrúlega smásmugulegir og munu bókað prófa að hlusta á lagið ef þeir rekast á það á internetinu, sérstaklega ef það er disslag).

Tónlist Matts er ekki sérstaklega dönnuð að inntaki

Tónlist Matts er ekki sérstaklega dönnuð að inntaki

Ganga einhverjir svo langt að flokka viðleytni Matts sem einhverskonar nýja útgáfu af spami, svona leitarvélaspami. Og það er kannski alveg rétt hjá þeim. Boston Globe greinin tiltekur t.d. Kindle-spam (og hlekkjar á þessa Reuters grein), sem mun vera orðið útbreitt og hvimleitt undanfarið. Í grunninn beita Kindle-spammarar svipuðum aðferðum og Mark vinur okkar – gefa út ógrynni bóka sem falla undir vinsæl leitarorð – en munurinn er helst sá að þær bækur samanstanda jafnan af samhengislausum runum af YouTube kommentum eða jafnvel verkum sem halað er upp undir nýjum titlum (Amazon fylgist víst lítið sem ekkert með hvað er hent inn í þessar útgáfur).

Munurinn á svoleiðis peningaplokks spellvirkjum og því sem Mark okkar stundar virkar frekar augljós, eða hvað? Matt er engin tölva sem safnar saman YouTube kommentum og birtir sem Harry Potter framhöld (manni verður samt óneitanlega hugsað til flarf ljóða og svoleiðis tilraunamennsku – þarf kannski einhver að fara ritrýna þessar YouTube kommentabækur?), hann er svona manneskja og leggur allavega á sig að syngja og spila lögin og fremja texta við þau. Það gildir einhverju.

Sjálfur hef ég gaman af tilfinningum og hugsunum og mennsku í tónlist, og ég fæ ekki betur heyrt en að Mark bjóði fram allt ofangreint í miklum mæli.

Og geri það á máta sem var ómögulegur fyrir bara fimmtán árum síðan.

Og hann er líka fyndinn.

Ég styð Matt.

Matt beinir spjótum sínum að fjölmiðlum. „Hvar er skjaldborginn?“

Matt beinir spjótum sínum að fjölmiðlum. „Hvar er skjaldborginn?“

PS – þegar ég var að upphala þessari grein á internetið fann ég YouTube síðuna hjá Matt. Hann virðist reyna endurtaka leikinn með YouTube myndböndum og er þar útumallt að segja brandara. Mér þykir tónlistartilraunir Matts heldur skemmtilegri og styð þær heldur.