Tónlist vikunnar: „ÁRANGUR ÁFRAM, EKKERT STOPP!“

– Spekingar spá í kosningaslagara

Nú eru sveitastjórnarkosningar á næsta leyti (á morgun meira að segja). Eins og allir vita er það besta við sveitarstjórnarkosningar lögin og tónlistarmyndböndin sem framboðin senda frá sér. Þar er eitthvað fyrir alla: Einlægt hamfarapopp, kaldhæðið hamfarapopp, órætt hamfarapopp. Og einusinni Botnleðja.

Tónlist vikunnar vildi spá aðeins í þessu öllu og sendi því skeyti á fullt af málsmetandi fólki útíbæ. Hér að neðan er hægt að lesa svör þeirra sem svöruðu, hugleiðingar þeirra um kosningaslagara og samband tónlistar og pólitíkur. Þetta er alveg frekar langt, en mjög skemmtilegt, svo ég mæli eindregið með því að áhugasamir lesi til enda.

Hér er bréfið sem sent var á gengið:

Hæ [nafn viðtakanda]!,

hér eru nokkrar spurningar um framboðslög, eins og við ræddum. Hugmyndin er að fá álit og hugleiðingar frá góðu gengi um þessa grein tónlistar og vægi hennar. Síðan verður allt heila bullið birt á Starafugli að morgni föstudags.

Nema hvað, ég byrja semsagt á nokkrum spurningum almennt um tónlist og kosningamúsik og í kjölfarið eru nokkrir hlekkir á lög sem gaman væri að fá einhverjar hugleiðingar um (hér er frjálst flæði í fyrirrúmi, en t.d. gætu spekingar spurt sig …

-„Hvað finnst mér um þetta?“
-„Er þetta alvöru tónlist?“
-„Er þetta gott lag?“
-„Ef ekki, af hverju? Hvað klikkaði?“
-„Er lagið einhvernveginn einkennandi fyrir stjórnmálaaflið sem það auglýsir?“
-„Er hugmyndin að þetta sé grínlag? Og ef svo er, hvaða skilaboð gætu fylgt gríninu, ef maður ímyndar sér að stjórnmálaöfl vilji senda önnur skilaboð en að þau séu hress?“

Flest áhlekktra laga eru tónlistarmyndbönd og þá er um að gera að pæla í pródúksjón, myndmáli og svoleiðis, en það er allavega eitt lag sem er bara lag sem bara varð að vera með af því að það varð bara að vera það.

Þér er að sjálfsögðu frjálst að sleppa því að svara hverju sem þér svo sýnist.

Og að lokum: ef þú svarar í fyrra fallinu er ekki óhugsandi að ég svari um hæl með einhverjum spurningum, reyni jafnvel að skapa einhvern díalóg.

Nema hvað, eftir fylgja spurningar og svona! Takk aftur fyrir að nenna að standa í þessu!

Haukur SM


Þátttakendur og svör þeirra við spurningunni „Ein setning um þig (bara svo fólk viti, ef það veit ekki neitt)“:

Arnar Eggert Thoroddsen (AET): Ég heiti Arnar Eggert Thoroddsen, er doktorsnemi í tónlistarfræðum við Edinborgarháskóla og auk þess tónlistarblaðamaður hjá Morgunblaðinu og víðar.

Arnar Eggert Thoroddsen (AET):
Ég heiti Arnar Eggert Thoroddsen, er doktorsnemi í tónlistarfræðum við Edinborgarháskóla og auk þess tónlistarblaðamaður hjá Morgunblaðinu og víðar.

Helga Þórey Jónsdóttir (HÞJ): Fyrrum tónlistarblaðamaður, núverandi doktorsnemi í kvikmynda- og menningarfræði.

Helga Þórey Jónsdóttir (HÞJ):
Fyrrum tónlistarblaðamaður, núverandi doktorsnemi í kvikmynda- og menningarfræði.

Ólafur Halldór Ólafsson (ÓD): Ég sé um þáttinn Straum á X-inu 977 og er ritstjóri tónlistarsíðunnar straum.is, auk þess sem ég starfa sem plötusnúður.

Ólafur Halldór Ólafsson (ÓD):
Ég sé um þáttinn Straum á X-inu 977 og er ritstjóri tónlistarsíðunnar straum.is, auk þess sem ég starfa sem plötusnúður.

Árni Hjörvar Árnason (ÁÁ): Árni Hjörvar heiti ég og er tónlistarmaður búsettur í Bretlandi.

Árni Hjörvar Árnason (ÁÁ):
Árni Hjörvar heiti ég og er tónlistarmaður búsettur í Bretlandi.

Birkir Fjalar Viðarsson (BFV): Tónlistarmaður, tónlistarblaðamaður, ritstjóri vefritsins Halifax Collect og ráðgjafi á meðferðarstofnun.

Birkir Fjalar Viðarsson (BFV):
Tónlistarmaður, tónlistarblaðamaður, ritstjóri vefritsins Halifax Collect og ráðgjafi á meðferðarstofnun.

Dr. Gunni (DRG): Dr. Gunni, tónlistar og allskonar-maður

Dr. Gunni (DRG):
Dr. Gunni, tónlistar og allskonar-maður

Hefurðu einhverjar einarðar stjórnmálaskoðanir? Ertí flokk? Hvað ætlarðu að kjósa og af hverju?

HÞJ: Ég er óflokksbundin vinstrimanneskja, mér leiðist einstaklingshyggja og er farið að lengja eftir aðskilnaði ríkis og kirkju. Ég geng reyndar stundum í stjórmálaflokka til þess að kjósa í prófkjörum, stundum man ég að segja mig aftur úr þeim, stundum ekki. Ég ætla ekki að gefa upp hvað ég kýs—aðallega vegna þess að ég er ekki búin að ákveða mig.

AET: Almennt vinstrisinnaður og vel það, en hallur undir anarkíska útópíu líkt og vinir mínir í Frjálshyggjuflokknum.

ÓD: Óflokksbundinn og er ekki búinn að ákveða hvað ég mun kjósa.

BFV: Mér finnst óábyrgt að vera flokksbundin(n), slík hræðsla og íhaldssemi er ekki góð blanda heldur lykilinn að stöðnun og óbreyttu ástandi.

DRG: Ég er alinn upp af léttum sósíalistum svo ég er smá þar. Ég var í 11 sæti Besta flokksins árið 2010, fannst þetta bara svo sniðugt framtak hjá Jóni Gnarr, sem ég hafði lengi dáð fyrir grínið, en átti aldrei von á að flokkurinn fengi allt þetta fylgi. Þegar ég vel hvern ég kýs reyni ég að velja það fólk sem virðist vera minnst illmenni, pakk eða fávitar, en það getur stundum verið snúið.

Sú litla reynsla sem ég hef af stjórnmálum segir mér að þetta sé ömurlega leiðinlegt og ég skil alls ekki hvernig fólk nennir þessu, nema þá sem þægilegri innivinnu—allir þessir fundir endalaust, úff! Ég hef nógu miklar áhyggjur af eigin bankareikningi að ég myndi aldrei meikaða að hafa áhyggjur af heilu byggðarlagi eða landi líka. Ég er svo stress-fælinn, skilurðu.

Hvaða tilgangi, ef einhverjum, þjónar tónlist fyrir pólitíkusa, í kosningabaráttum og svona?

ÓD: Hún auðveldar stjórnmálamönnum að ná til almennings og orka mannlegri í augum hans.

DRG: Smá flipp til að sýna hvað flokkurinn er „mannlegur,“ hress og skemmtilegur, líklega.

HÞJ: Góð spurning. Hún getur virkað vel eins og Bestaflokkslagið en gerir það samt eiginlega aldrei annars. Þetta er auðvitað bara markaðsetning og allir vita það. Ég held að þessi lög hafi aðallega skemmtanagildi fyrir síníska menningarvita, þar sem þau geta verið vitnisburður um þá vandræðalegu örvæntingu sem einkennir stundum pólitikusa í framboði.

Svo er tónlistin oft léleg, það er aldrei verra fyrir skemmtanagildið.

ÁÁ: Er framboðsmúsík ekki bara fyrst og fremst vont vinnustaðagrín til að sýna kollegum á árshátíðum og svoleiðis? Er það ekki bara internetinu að kenna að við hin verðum vör við svona vitleysu? Tilgangurinn gæti jafnvel bara verið að auðvelda handritshöfundum Áramótaskaupsins verk sitt.

Ég vona allavega heitt og innilega að tilgangurinn sé ekki að veiða atkvæði. Það þætti mér lítillækkandi fyrir bæði flokkana og kjósendur.

AET: Tilgangurinn er aðeins einn. Að hala inn atkvæði þá og þá stundina. Tækifærishyggja alger. Árangur endaslepptur. Held að ekkert þessara battería hugsi þetta til langframa, sem er skammsýnt viðhorf. Ég trúi því að það væri hægt að hagnýta tónlistina betur og lengur.

BFV: Það er önnur hraðsoðin leið til að ná fólki á sitt band á stuttum tíma, oft lægsti samnefnarinn sem blívur. En fólk kann gjarnan að meta slíkt og sveiflast.

Þannig þú heldur að svona lög geti raunverulega haft áhrif? Flestir sem hafa svarað eru á öndverðu meiði… veistu einhver dæmi, eða er þetta bara tilfinning? Hefur afstaða tónlistarmanna sem þú virðir og málflutningur þeirra um hin ýmsu mál einhverntíman haft áhrif á afstöðu þína? Mótandi jafnvel?

BFV: Ég er ekki með nein hörð dæmi. Og þó. Hljómsveitin Crass fékk mig til að efast um allt sem mér var kennt að trúa varðandi eðli stjórnmála og „venjulegra“ flokka. Eftir að ég las texta þeirra trúi ég að trúgirni mín hafi fljótt og örugglega rénað. Ekki svo að segja að þau hafi heilaþvegið mig, heldur drógu þau gluggatjöldin frá augum mínum og þannig hafi ég byrjað að hugsa sjálfstæðar. Heilbrigður efi og spurningar komu í stað trúgirni og foringjahollustu. Ég var átján ára þegar þetta ferli byrjaði og það er enn í þróun.

Bestilag2

Einhverntíma var víst meiri stemmning fyrir baráttusöngvum og svona hvetjandi músík, en upp á síðkastið hefur borið meira á glensi í kosningamúsík/pólitískri músík/rallímúsík (þó varla í kjölfar Besta flokksins-dæmi hér að neðan sýna fram á annað). Hefur þú hugmynd um hvenær þessi þróun hefst—og varpa þessar áherslubreytingar ljósi á einhverja stefnu- eða hugarfarsbreytingu meðal almennings? Eru „baráttuframboð“ liðin tíð – má ímynda sér að glens eða grínlög hafi eða geti haft vægi á einhverjum ögurstundum (hjá spænskum andfasistum eða eitthvað)?

DRG: Ég hef nú bara ekki kynnt mér pólitísk lög svo vel, en mér sýnist þetta vera almennt lægsta tegund tónlistar ásamt fótboltastuðningslögum. Bæði eru álíka mikið drasl. Þetta er svona smá kökuskreyting á meðan sjálf kakan er innantóm loforð sem allir ættu að sjá í gegnum (en gera ekki), eða það er verið að búa til einhverjar Múhammeðs-Grýlur og æsa upp fáfræðina og heimsenda-óttann í fólki.

BFV: Ekki hugmynd um hvenær þessi þróun hófst. Í hreinskilni sagt hef ég lítið velt þessu fyrir mér, þar sem þessi „grein“ tónlistar og áróðurs skýtur gjörsamlega yfir markið hjá mér nánast undantekningarlaust. Klárlega gekk Besti flokkurinn lengra en áður þekktist hvað þetta varðar og það mældist afskaplega vel fyrir—nú vilja margir aðrir vera jafn hispurslaus, einlæg, „afslöppuð“ og hress í þeirri von að lukkan snúist þeim í hag. Baráttuframboð eru ekki liðin tíð, en þau hafa vikið tímabundið fyrir léttúðugum samfélagsmiðlaframboðum.

HÞJ: Ég veit ekki, það er eins og við höfum allt í einu hætt að vera einlæg og orðið írónísk. Ísland úr Nató finnst mér einmitt svo einlægt og gengur upp sem slíkt, en einlægir baráttusöngvar eru kannski minna áberandi nútildags. Mér finnst mjög í takt við tímann að fólk með talsvert menningarkapítal að taki miðlungs lag með Tinu Turner og geri það að baráttulagi sínu. Auðvitað er auðveldara að láta svoleiðis grín ganga upp þegar Jón Gnarr er aðalmaðurinn í partýinu. En kaldhæðni er auðvitað lykilatriði.

Simply the Best er nú ekkert miðlungslag – stórgóð melódía hjá Tinu okkar. En upp á djókið, gætirðu ímyndað þér lag sem hefði virkað betur (verið meira viðeigandi meina ég, lagið virkaði auðvitað mjög vel) fyrir fólk með svona kúltúrkapítal?

HÞJ: Nei, ég held að bæði Bestaflokkslagið – og reyndar BF-lagið núna – séu mjög vel valin. Munurinn á þeim er mergjaður flutningur Jóns Gnarr. Það er hvorki ekki hægt að leika flutninginn né kosningastöntið hans eftir og nýja lagið dregur athygli að því að hann er ekki með. Það er svolítið eins og Illur arfur, fín plata en bara ekki Life’s Too Good.

ÁÁ: Mér þykir nú tiltölulega langsótt að ætla að sækja of mikla merkingu í framboðssöngva og gefa þeim vigt. Mér þykir líklegast að áherslubreytingin í svona lögum haldist í hendur við tæknivæðingu. Hver sem er getur tekið upp hvað sem er. Það er svo miklu auðveldara að framkvæma vondar hugmyndir núna en það var fyrir ekki svo löngu síðan. Pabbi minn er grunnskólakennari og þeir vinnufélagarnir búa til svona myndband árlega til að skemmta útskriftarárganginum sínum. Sá brandari virkar ef til vill betur en þegar pólitíkusar gera þetta, þar sem áhorfandinn þarf bara að sjá þetta einu sinni. Hann útskrifast ekki úr tíunda bekk oftar en það allavega.

Jú það er spurning hvort það meiki eitthvað sens að gefa svona glensi einhverja vigt, en oft eru samt poppkúltúr og angar merkilegar birtingarmyndir stærri hreyfinga í samfélaginu. En þú semsagt sérð þetta sem tómt grín, án alls innihalds?

ÁÁ: Nei, ég er einmitt að reyna að halda því fram að svona brandarar séu einmitt birtingamynd stærstu hreyfingar samtímans. Eilífð augnabliksins hefur aldrei verið sterkari en það er núna, og það er að mínu mati mikilvægasta hvataafl okkar kynslóðar. Ég á allavega erfitt með að ímynda mér nokkuð sem hefur haft meiri áhrif á poppkúltúr en dreifikerfi internetsins. Við getum deilt öllu og gerum það hiklaust, hvort sem um er að ræða myndir af nýfæddum börnum okkar, lögum á demostigi eða jafnvel vondum bröndurum.

AET: Þekki ekki tildrögin, en net- og YouTube-væðing samfara almennri samfélagsmiðlanotkun (Fésbók, Tvítl) hefur mikið um þetta að segja. „The medium is the message…“ og allt það. Einfalt og auðvelt að koma einhverju á framfæri svona. Einhverra hluta vegna er þetta mest í svona árshátíðarflippsgír. Veit ekki af hverju „alvöru“ baráttusöngvar á la Guthrie og Jara eru ekki settir í svona samhengi. Of „leiðinlegt“ líklega og ekki nógu fljótt og skilvirkt.

Gítarinn hans Woody Guthrie drap fasista.

Gítarinn hans Woody Guthrie drap fasista.

Hvað með stöff eins og pólitísk lög XXXR og Erps, sem þeir gerðu til dæmis í kjölfar hrunsins? Þau voru ekki á vegum neins flokks, en tóku hinsvegar harða afstöðu gegn öðrum og voru svona í alvarlegri kantinum. Sem einum helsta tónlistarspekingi þjóðarinnar, kom þér á óvart hvað fátt var um baráttu/mótmæla/pólitíska músík í kjölfar hrunsins? Var kannski meira af henni en fólk frétti af?

AET: Já, það kom mér á óvart satt að segja. Alvöru pólitískir textar hafa komið frá einangruðum fyrirbærum (Erpur, Bubbi) en það varð aldrei nein sena, ekki einu sinni smá holning í einhvern tíma. Ég hélt að andspyrna við hruninu myndi sýna sig í hnyttnum, jafnvel djúpspökum textum, alvörugefinna ungra manna (a la UK ’80) en svo varð ekki. Þetta hefur stundum komið fram hjá einhverjum brjáluðum pönkböndum hér heima, en þá iðulega með grínundirtóni, jafnvel yfirtóni.

Stundum hallast ég að því að landið sé of lítið til að bera svona. Svo er fullt af þessum tónlistarmönnum rammpólitískir en slíkt virðist sjaldan skila sér af e-u viti í tónlistina. Eins og það séu skil á milli listar og pólitíkur í dag, kannski þetta renni saman síðar þegar vindar blása þannig en það virðist hreinlega ekki vera tilfellið í dag.

Eru útlenskir flokkar með svona glenslög? Eða lög almennt? Ég hreinlega hef ekki tekið eftir svoleiðis sjálfur, en það gæti vel verið.

AET: Þekki það ekki nógu vel.

HÞJ: Ég man það ekki heldur, allavega ekki þegar kemur að gríni. Bill Clinton notaði Don’t Stop með Fleetwood Mac í sinni kosningabaráttu og var auðvitað æðislegur á saxann. Er nema von að þetta steinlá hjá honum?

DRG: Ekki hef ég tekið eftir neinu svoleiðis, enda ekki borið mig eftir því.

ÁÁ: Ég veit ekki hvernig þetta er annars staðar, en í Bretlandi er pirringur yfir playlista íhaldsflokksins orðinn ómissandi hluti af hverri kosningabaráttu. Flokkurinn heldur eitthvað landsþing og spilar einhver bresk popplög og það verður allt vitlaust. Johnny Marr er búinn að banna Cameron að vera aðdáandi The Smiths og síðan hafa allskonar aðrir artistar farið í opinbera fýlu útí flokkinn fyrir að nota lögin þeirra á ráðstefnum eða í kynningarmyndböndum eða eitthvað. Til dæmis má nefna Keane, XX og Primal Scream.

Hversu kjánalegt sem það má hljóma að flokkarnir séu að eigna sér einhver bresk popplög, þá eru flokkssöngvarnir þeirra kannski ennþá skrýtnari. Flokkssöngur „Labour“ flokksins er The Red Flag, sem er einskonar baráttusöngur sósíalista, en það hlýtur að teljast ansi langt síðan Labour voru sósíalistar.

BFV: Hef ekki rekist á það. Framapólitík er mér ekki að skapi þannig að þetta fer gjarnan framhjá mér; ég ver tíma mínum í annað en slíka smeðju og leikaraskap.

Sprengjuhöllin

Sprengjuhöllin

Nú er frægt þegar stjórnmálaleiðtogar útí heimi leita stuðnings frægra poppmenna. Daður Tony Blair við britppoppara á sínum tíma – Obama og Jay Z og þar fram eftir götunum. Hafa íslenskir stjórnmálaleiðtogar lagt sig eftir svipuðu? Getur stuðningur poppara verið verðmætur íslenskum pólitíkusum? Eða þurfa þeir sjálfir að vera popparar? Samfylkingin réði einusinni Sprengjuhöllina til að fara í tónleikaferðalag um landið í aðdraganda kosninga. Ég man svo að við í hljómsveitinni Reykjavík! vorum einusinni bókaðir að spila á tónleikum á Akureyri og svo komumst við að því svona eftirá að það var baráttusamkoma fyrir UVG. Það var aðeins skrýtið, en reyndar mjög skemmtilegt (við lentum líka í því einusinni að bóka okkur á tónleika til styrktar krabbameinssjúkum börnum, sem svo var óvænt slegið saman við Andkristnihátíð. Amma var ekki ánægð).

HÞJ: Mér finnst þessi tenging auðveldlega geta litið út eins og tækifærismennska, sérstaklega af hálfu stjórnmálamanna. Tónlistarmenn eru oft bara að reyna að redda sér giggi og koma sér á framfæri, og ég hef samúð með strögglandi bílskúrsböndum. Mér finnst skemmtilegast þegar tónlistarmenn stunda sjálfsprottna samfélagsgagnrýni. Þess vegna eru þessar stelpur alveg frábærar:

ÓD: Stuðningur poppara er mjög verðmætur íslenskum pólitíkusum. Hver man ekki þegar hljómsveitin Reykjavík Spirits spilaði fyrir Baldur á Bessastaði 2004 :). En ef ég væri í hljómsveit myndi mér ekki detta í hug að bendla mér við stjórnmálaflokk. Stjórnmálaflokkar eru ekki verðmætir poppurum.

BFV: Þegar ég var 19 ára í Bisund þá spiluðum við á einni uppákomu Samfylkingarinnar í Kópavogi. Af því að við fengum mikinn bjór. Við vorum líka ungir og ekki búnir að móta okkur sterkar skoðanir á sambandi stjórnmála og listar. Auðvitað er stuðningur poppara við stjórnmálaflokka þeim flokkum til happs. Popparar eru jafn ólíkir og stjórnmálamenn, þar má finna kjána og snillinga sem allir eiga skap saman með einhverjum kjósendum. Óþolinmóðir og hræddir kjánar er stór hluti kjósenda. Flestir stjórnamálamenn vita að þeir sjálfir eru leiðinlegir. Þess vegna getur verið gott að lokka einhvern poppara í lið með sér, því þeir eru oft ekki jafn leiðinlegir.

ÁÁ: Ég er ekki viss að ég hafi neitt til málanna að leggja hérna. Þannig að þú færð smá anecdote í staðinn:

Fyrsta borgun sem ég fékk fyrir að spila tónleika var á einhverri fjölskylduhátíð í Hveragerði. Ég hef verið svona 15 ára gamall og okkur félögunum í nu-metal bandinu Dice var boðinn 20.000 kall fyrir að spila um hábjartan dag á grasbletti fyrir utan Hótel Örk. Við áttuðum okkur ekki á því fyrr en við mættum að um væri að ræða kosningahátíð á vegum Sjálfstæðisflokksins og þrátt fyrir hik, þá seldum við okkur eins og skot þar sem við gátum ekki séð eftir öllum þessum peningum.

Við tæmdum grasblettinn á svona 10 mínútum og vorum þá vinsamlegast beðnir um að hætta. Við hlýddum og skriðum af sviði með skottið á milli lappanna, en fengum þó borgunina sem okkur hafði verið lofað. Tilraun D listans klikkaði greinilega, þar sem þeir töpuðu síðan kosningunum. Það getur vel verið að stuðningur poppara geti undir einhverjum kringumstæðum hjálpað pólitíkusum, en það virðist ekki hafa gert það í þessu tilviki.

AET: Einmitt. Reagan og Springsteen og sá frægi misskilningur allur. Flokkarnir eru að fá tónlistarfólk til liðs við sig og með því eru sveitirnar væntanlega að lýsa yfir stuðningi. Man þó eftir að því að Helgi og hljóðfæraleikararnir léku á tvennum tónleikum, með og á móti einhverju baráttumáli, sem mér fannst kúl.

Tónlistin er yfir allt hafið á endanum. Ég held að yfirlýstur stuðningur þungavigtarlistamanna hafi eitthvað að segja a.m.k., en líklega ekki mikið. Grunar að fólk telji að velflestar íslenskar hljómsveitir og listamenn í framsæknari kantinum séu til vinstri, þannig að stuðningur þaðan við vinstriflokka er talinn sjálfsagður og hefur þá kannski ekki mikið að segja? Pæling.

Manstu í augnablikinu eftir einhverjum íslenskum músíköntum sem hafa verið harðir til hægri?

AET: Man ekki eftir neinum hægri, því miður.

DRG: Það er líka vinsælt að fá „frægt fólk,” m.a. poppara, til að vera andlit í svona stuðnings-auglýsingum. Ég hef stundum lent í einhverju svona. Bullaði eitthvað um hvað Ólafur Ragnar ætti frábæra fjölskyldu í eitthvað stuðningsblað þegar hann bauð sig fram fyrst og svo var talað við mig frá Þóru framboðinu, en mér tókst að snúa mig út úr því. Alltaf þegar Grímur Atlason bíður sig fram í eitthvað neyðist ég til að styðja hann opinberlega því hann er vinur minn, en annars forðast ég þetta helst eins og heitan eldinn.

Nú ert þú mikill poppsagnfræðingur. Arnar Eggert heldur að flestir taki því sem gefnu að listafólk, þar með talið tónlistarfólk, sé vinstramegin línunnar. Manstu einhver dæmi um íslenska músíkanta sem hafa tekið hægrisnúning, farið í framboð eða opinberlega stutt miðju og hægriöfl?

DRG: Það eru vissulega miklu fleiri sem eru vinstra megin já, en nokkrir samt hægra megin. Fólk eins og … öömm, Eyþór Arnalds og Védís Hervör Árnadóttir, væntanlega. Bubbi ætlaði einhvern tímann að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í viðtali í DV– ef ég man þetta rétt. En ég veit svo sem ekkert hvað fólk eins og meðlimir Of Monsters and Men, Dikta og Kaleo kýs. Kannski eru þetta allt bullandi Sjallar eða Framsóknarfólk!

Telurðu líklegt að hæfileikar í listum komi að einhverju gagni í stjórnmálum? Þá hvaða hæfileikar—og, af hverju?

ÁÁ: Pólitíkusar ættu að koma úr öllum stéttum þjóðfélagsins, þar á meðal úr stéttum listamanna.

BFV: Hæfileikinn til að lesa áhorfendur og fá ólíklegasta og ólíkt fólk í lið mér sér er hæfileiki sem margir listamenn búa yfir. Þegar kosningar nálgast verða flokkarnir örvæntingarfullir í viðleitni sinni til að toppa hvorn annan og ná inn wild card atkvæðum og óákveðnum kjósendum. Þá koma listamenn að góðum notum.

DRG: Alveg eins, en fyrst og fremst finnst mér mikilvægast að frambjóðandinn sé hvorki illmenni, pakk eða fáviti.

AET: Þetta sannaðist eftirminnilega á þegar Besti flokkurinn yfirtók borgina. Sykurmolakynslóðin er búinn að reka heila borg með sóma og eftir því hefur verið tekið, hér sem annars staðar. Hæfileikar til að hugsa út fyrir boxið og að vera nettur í alvöru hafa mikið að segja og ná til fólks. Þegar grámenn og möppudýr rembast við að vera nett þá fer aulahrollurinn í yfirgír.

HÞJ: Ég held það skipti miklu máli að stjórnmálamenn hafi vit á listum, annars styðja þeir ekki við góð verkefni.

Áttu þér uppáhalds stjórnmálaflokkalag? Væri geðveikt að fá hlekk. Og eins ekki verra ef þú gætir sagt aðeins frá af hverju.

ÓD: Árangur áfram ekkert stopp sem Framsókn sendi frá sér árið 2007 er svo ótrúlega skúnkslegt að ekki er annað hægt en að elska það. Það er uppáhalds stjórnmálaflokkslagið mitt. Þetta er ekki alvöru tónlist og hræðilegt lag, en textinn er skemmtilega kaldhæðinslegur í ljós þess sem síðar gerðist.

BFV: Ég man ekki eftir neinu sem á skilið að vera plöggað hér. Það segir meira en mörg orð.

HÞJ: Uppáhaldið mitt er auðvitað Framsóknasamba!

AET: Pass.

ÁÁ: Ég er nógu mikill aðdáandi Botnleðju til að fyrirgefa þeim drengjum allt saman, þar á meðal Eurovision brandarann í ár og svo kosningalag Samfylkingarinnar, „Ég er frjáls.“ Það var ekki nóg til að fá mig til að kjósa Samfylkinguna, en lagið er gott engu að síður.

DRG: Það er nú skást þarna Bestaflokkslagið síðan 2010, af því maður var hluti af þeirri uppsveiflu. Dásamlegast við þá uppsveiflu var sjokkið sem „ráðandi öfl“ fengu yfir sig þegar „trúðurinn“ brast á.

Jæja, hér koma svo lögin

Byrjum á einu án myndmáls. Hér er Framsóknarlagið Áfram árangur ekkert stopp frá árinu 2007, sem hala má niður af Moggabloggsíðu Binga  en er líka á SoundCloud.

HÞJ: „Árangur áfram, ekkert stopp“ er stórmerkilegt í ljósi þess að ekkert virðist ætla að stoppa Framsóknarflokkinn og „árangur“ hans. Ég vildi óska þess að einhver hefði búið til myndband, það hefði verið frábært.

ÓD: Ég endurtek: þetta lag svo ótrúlega skúnkslegt að ekki er annað hægt en að elska það. Það er óumdeilanlega uppáhalds stjórnmálaflokkslagið mitt. Þetta er ekki alvöru tónlist og hræðilegt lag, en textinn er skemmtilega kaldhæðinslegur í ljós þess sem síðar gerðist.

AET: Illa sungið og kauðslegt eins og íþróttaliðalög. Fyndið og kjánalegt, ekki meira en það. Nett halló.

ÁÁ: Framsókn er sjálfri sér samkvæm og býður uppá innihaldslausan stikkorðaslagara. Takk.

DRG: Þetta er ágætis íslenskt hallæriskántrí. Vantar bara meira baul.

BFV: „Árangur áfram ekkert stopp“ viðlagið felur ekki geðveikina, heldur skín hún í gegn. Þetta slagorð hentar svínum samfélagsins jafn sem svínunum í Animal Farm. Ábyrgðarleysi og græðgi hreiðrar um sig í svona góli. Er þetta mjútuð kúabjalla sem ég heyri þarna? Þeir hefðu ekki átt að mjúta hana! En já, þetta er hresst og ömurlegt.

Hérna leigðu Samfylkingarmenn hljómsveitina Botnleðju til að plögga sig fyrir Alþingiskosningarnar 2003, með ábreiðu af laginu Ég er frjáls.

BFV: Veit ekki hversu frjáls Samfylkingin er, en Botnleðju skipa prinsippmenn með sannfæringu. Þetta er ágætis ábreiða hjá þeim, byggð á góðum efnivið. Ég er að klóra mér í hausnum yfir því hvort Botnleðja hafi tekið þetta lag og svo hafi Samfylkingin gert það að sínu. Var það ekki þannig? Eða tóku þeir þetta lag sérstaklega fyrir flokkinn. Það breytir jöfnunni tiltölulega mikið. Það sem klikkar er að textinn endurspeglar flokkinn tæplega, en það skiptir ábyggilega engu máli. Fólk hugnast helst að tralla og horfa á skemmtileg myndbönd.

Já ég held ég fari örugglega með rétt mál að Samfó hafi ráðið leðjuna til verksins á sínum tíma. Gott ef þeir fóru ekki í túr um landið líka, Sprengjuhallar-style. Hvernig breytir það jöfnunni segirðu?

BFV: Af því að textinn í laginu er ekki XS specific (ég hlustaði þó ekkert svaka eftir því) þá hélt ég kannski að þessi ábreiða hafi bara verið eitthvað sem Botnleðja gerði á „sínum eigin“ tíma og XS hafi síðar heyrt það og hugsað, „hey, fólk fílar orðið ‘frelsi’ og ungt fólk fílar Leðjuna, notum þetta!“

Kannski var ég bara svo illa tengdur þegar þetta lag datt inn á sínum tíma að ég tengdi það aldrei við XS. Að því sögðu þá virkar þetta lag ekki djakk í pólitískum tilgangi og ég velti fyrir mér hversu mikið Botnleðja töluðu máli XS á þessu tónleikaferðalagi, eða hvort þeir rokkuðu bara á hverjum stað fyrir sig og fóru síðan heim.

ÁÁ: Ég fyrirgef Botnleðju allt.

HÞJ: Ég veit ekki hvað ég á að segja um þetta.

ÓD: Góð útgáfa af þessu fína lagi og skemmtilegt myndband. Þetta er alvöru lag og fagmannlega gert.

AET: Stórkostleg ábreiða frá stórkostlegri hljómsveit. Veit ekki með pólitískar tengingar, en „kúl“ útspil.

DRG: Ég skil ekki hvernig þetta tengist Samfylkingunni? Gaman samt að sjá Gunnar leika.

Hér er lag sem Sjálfstæðismenn í Ísafjarðarbæ teldu fram árið 2007 að mig minnir (þeir gersigruðu kosningarnar, svo því sé haldið til haga):

AET: Þetta er svo mikil snilld. Halldór er stórkostlegur. Leikur illa en það er einhver „árshátíð grunnskóla“ ára yfir þessu sem er heillandi. Og þetta flipp komandi frá X-D. Það slær öll vopn úr höndunum á manni. Captain Beefheart er eins og Michael McDonald við hliðina á þessari djöflasýru.

DRG: Lofi-sjálfsstæðis-moppuraggí—what’s not to like?

HÞJ: Mér finnst æðislegt þegar ég veit ekki hvort fólk er einlægt eða að grínast, en þetta lag er einmitt þannig. Ég skil ekki af hverju Sjálfstæðismenn í Reykjavík nýttu ekki efnið með Halldóri og létu rímixa þetta fyrir kosningabaráttuna núna. Það hefði verið töff.

ÓD: Þetta er náttúrulega algjör snilld og löngu orðið klassík. Horfi á þetta að minnsta kosti einu sinni á ári. Ótrúlega aulalegt. Eiginlega eitt af því aulalegasta sem ég hef séð á netinu.

ÁÁ: Klassískt dæmi um vinnustaðagrín sem hefði átt að deyja á árshátíð ísfirskra Sjálfstæðismanna.

BFV: Ég sá þetta myndband á sínum tíma. Það kom á óvart. Var ekki jafn leim og ég gerði ráð fyrir. Vitaskuld þykir mér lagið lélegt og ég hata flipp yfirleitt, en myndbandið, einlægnin og firringin og gaurinn aftast í rútinni bjarga því sem bjargað verður. Ég verð að setja á mig mannfræði- og félagsfræðigleraugun til að átta mig á því hvað fór úrskeiðis hjá fólki ef svona lög hafa skoðanamótandi eða – styrkjandi áhrif … Mér finnst það alveg skuggalegt.

Hér er lag sem Vinstri Græn telfdu fram í kosningunum 2009:

HÞJ: Af hverju hef ég ekki séð þetta fyrr? Þær eru frábærar og alveg hrikalega fyndnar.

ÓD: Þetta finnst mér skemmtilegt lag og hressandi flutningur, en það er kannski heldur langt. Skemmtileg frásögn hjá þeim.
AET: Heillandi í einfaldleikanum og greinilega meðvituð vísum í hippíska baráttusöngva upp úr 1970. Fíla þetta.

ÁÁ: Get ekki sett út á þetta. Þeim tekst að syngja þennan texta án þess að skella upp úr. Það hlýtur að vera einhvers virði…

BFV: Textinn í VG laginu er sá snjallasti hingað til af þessum lögum. Öll framboðin grínast, en þetta lag hefur alvarlegasta undirtóninn. Augljóst að það var legið svolítið yfir honum og að textahöfundar brutu heilann og hugsuðu um hvað þær voru að gera. Ólíkt XB og Ísafjarðar XD laginu, þá skín í gegn að hér eru raunverulegir listamenn á ferð, sem aukinheldur falla ekki að staðalímyndinni um „venjulegt fólk,“ sem síðan fær helling af fólki á móti sér af því að flytjendurnir kunna hugsanlega að meta latté og verja einhverjum tíma í hundraðogeinum. Sem snýst svo upp í listamenn í 101 vs landsbyggðin, í hnotskurn. Rof. Því miður. Af hverju þarf það að vera?

DRG: Þetta er nú alveg ágætt. kannski full langt samt. Og vantar katsí viðlag. Kannski vandi VG í hnotskurn?

Hér er hinn frægi Þórudagur, sem allir elskuðu að gera grín að. Spurning hvort að það hafi verið innistæða fyrir? Af hverju virkaði Bestaflokkslagið en ekki Þórudagslagið?

ÓD: Meðan að Bestaflokkslagið var fyndið er þetta kjánalegt. Sumir segja að þetta lag hafi gert vonir Þóru um forsetastólinn að engu!

DRG: Þetta virkaði líklega ekki af Því þetta er einlægt á meðan Besta-lagið var tunga í kinn. Ég hef nú bara aldrei séð þetta fyrr og finnst þetta ekkert svo hlægilegt. Bara einlægt og krútt.

HÞJ: Ætli Bestaflokkslagið hafi ekki verið hæfilega írónískt, eitthvað sem Þórudagslagið er svo sannarlega ekki.

BFV: Hefði ég heyrt þetta Þórulag á sínum tíma þá hefði ég húðflúrað andlit hennar á hálsinn á mér til að leggja henni lið í kosningabaráttunni. Þetta lag er því sem næst fullkomið. Flutningur, upptakan, útfærslan, alveg stórkostlegt. Myndbandið er geðveikt góður fílingur frekar en smeðjulegt flipp. Mikið er ég glaður núna. Fullt hús. Sameinumst!

AET: Einmitt. Það er naívismi þarna mætti segja og „meðvituð“ hallærislegheit eru þetta ekki. Heldur hrein hallærislegheit. Sem gerir þetta auðvitað að heillandi snilld. Einlægt og flott.

Hér má sjá nýjasta stjórnmálasmellinn, lag Bjartrar framtíðar, sem virðist vera tilraun til að endurtaka árangurinn af lagi Besta flokksins frá 2010 (líklega vinsælasta stjórnmálalag okkar tíma, allavega miðað við YouTube spilanir). Hvernig stenst þetta samanburð?

DRG: Stenst því miður illa samanburð enda er enginn Jón Gnarr í þessu og enginn annar grínsnillingur í BF, a.m.k. ekki á sama kaliberi. Og þar að auki er langt í frá sama stemming í loftinu núna og þá. Metnaðarfullt myndband engu að síður og söng-innlegg Einars Arnar er stórgott.

AET: Fíla þetta „Hjálpum þeim“ element. Skemmtilegt, ástríðufullt, einlægt, smart og kúl. Metnaðarfullt. Stenst fyllilega samanburð við fyrra afrekið. Bara brill…

HÞJ: Það er augljóst hverju munar. Það vantar Jón Gnarr. Ég held það geti ekki verið auðvelt að bjóða fram án hans. Svolítið eins og þegar Al Gore bauð sig fram gegn Dubya. Hann var með mjög fína stefnu sem minnti um margt á Bill Clinton, nema að hann var ekki Bill Clinton. Hann var Al Gore.

ÓD: Ég elska We Built This City, en þessi útgáfa mætti vera kraftmeiri, sérstaklega með þessa þungviktarmenn innanborðs. Þetta er samt mjög fyndið á köflum.

BFV: Björt framtíð lagið heldur áfram með Besta flokks pælinguna af því að hún gekk svo vel upp. Það er skynsamleg nálgun og mjög pólitísk. Þannig séð stenst þetta samanburð, en samt ekki. Það vantar Gnarr. Fyrir marga gæti það virkað eins og að fara í hvalaskoðun fullur eftirvæntingar, sitja í bátnum í drykklangastund en sjá svo engan hval. Það kann að hljóma þversagnarkennt og kaldhæðnislegt—og ég er í hrópandi mótsögn við sjálfan mig—en þetta lag og myndband gæti alveg notað slatta meira af flippi.

Að lokum, eitt ferskt og hressandi úr yfirstandandi kosningabaráttu, frá Reykjanesbæ:

ÁÁ: Kommenta ekki á svona rugl…

DRG: Þetta virðast vera elskulegt og „venjulegt“ fólk – svona glaðar konur í gír. Ég myndi alveg kjósa þetta!

AET: Menntaskólaflipp. Ekkert sérstakt en krúttlegt samt.

HÞJ: Það væri mjög auðvelt að afskrifa þetta en það er jákvæð stemming þarna. Ég fíla jákvætt. Svo minna þau mig líka smá á „Cybertreffen“ sem er eitt svalasta menningarfyrirbæri ég sem veit um.

PS – Ú á fasismann.