Þegar skynsemina dreymir

„Þegar skynsemin sefur fara óargadýrin á kreik,“ segir Francisco Goya í Kenjunum, textanum við ætingu númer 43. Myndin er flóknari en virðist við fyrstu sýn og hún kann að vera ósammála textanum, því kvikindin sem flögra upp af sofandi skynsemisverunni, Goya sjálfum, eru annars vegar leðurblökur – myrkrið, illskan – og hins vegar uglur. Eru uglur ekki vísdómsfuglar? Jú. Upp af sofandi skynsemisverunni stíga uglur. En það eru áhöld um þetta því uglur voru heimskan sjálf í spænskri þjóðtrú á tíma Goya, birtingarárið var 1799.

„Þegar skynsemin sefur fara óargadýrin á kreik.“ Nú er að vísu líka deilt um merkingu textans á frummálinu, „El sueño de la razón produce monstruos“ (bókstaflega: Svefn skynseminnar framleiðir skrímsli), því „sueño“ þýðir ekki bara svefn heldur líka draumur.

capricho43

Æting 43 eftir Francisco Goya.

Maðurinn sefur fram á borðið, upp af honum stíga skepnurnar. Sú í miðið horfir beint á okkur: við erum þátttakendur í uppákomu myndarinnar og sleppum ekki. Kattardýrið í horninu, gaupan, hefur verið túlkað sem gæfudýr, skepna sem sér í gegnum þykkasta svartnætti og greinir umsvifalaust sannleika frá villu. Efst trónir leðurblaka, sú skuggalegasta þeirra allra, ættuð úr veröld djöflafræða og hindurvitna, og svo hverfa þær í fjarskann, leðurblökur og uglur á víxl og vart sér mun. Fjarvíddin segir eitthvað. Hvað? Samfélag Goya er til umfjöllunar í myndinni, um það er varla deilt. Goya fjallar um sálarástand og hugmyndir samtíma síns, hér birtist spillt sál samfélags á glapstigum, samfélags þar sem ímyndun og skynsemi eiga í óheilbrigðu sambandi. Einnig listsköpun kemur við sögu því ein uglan réttir hinum sofandi manni krít.

„Sueño“ þýðir ekki bara svefn heldur líka draumur. Enn er deilt um merkingu textans. Í þessum síðari skilningi orðsins merkir setningin í Kenjum Goyja: „Draumur skynseminnar getur af sér skrímsli.“

Sú skoðun heyrist sífellt oftar að það sé rangt að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Rangar skoðanir, hverskyns, séu ekki virðingarverðar. Umburðarlyndi skal ekki hafa með umburðarleysinu. Mér verður alltaf hugsað til Páls Skúlasonar heimspekings þegar þetta kemur upp því ég held að hugsunin sé frá honum komin. Svona mælist Páli í bók sinni Siðfræði:

Ég held að það sé ámælisvert að virða skoðanir annarra, ef maður veit að þær eru ekki réttar. Rök mín fyrir þessu eru ekki mjög flókin: skoðanir eru ekki einkamál þeirra sem þær hafa og þess vegna er manneskju ekki sýnd nein óvirðing þó að skoðanir hennar séu ekki virtar. Öðru nær, ein mikilvæg leið til að sýna fólki virðingu og tillitssemi í hinu daglega lífi er að gagnrýna hugmyndir þess og skoðanir, enda leitast vinir við að leiðbeina hver öðrum.

Er sú staðreynd að ótal margir virðast telja sjálfsagt að virða skoðanir annarra vísbending um það hvernig nútímafólk hugsar um siðferði? Þessi skoðun, sem að mínu viti er sannarlega og sannanlega röng, hefur verið talin bera vitni frjálslyndi og víðsýni hins upplýsta manns. Ég tel hana bera vitni afar barnalegri afstöðu til siðferðis, yfirborðsmennsku og jafnvel tvöfeldni. Barnaskapurinn er sá að trúa þessu rakalaust, yfirborðsmennskan lýsir sér í því að halda þessu á lofti sem tákni umburðarlyndis og tvöfeldnin er sú að í reynd fer enginn heilvita maður eftir þessu. Hver kysi til að mynda að virða þá skoðun nágrannans að hann hafi fullan rétt til að drepa ketti eða þjófa sem laumast inn í húsið hans? Eða þá skoðun að allir sem ekki trúa á Guð séu hættulegir villutrúarmenn?

Augljóst er að sú hugmynd að ekki eigi að bera virðingu fyrir skoðunum annarra er ögrun, hún er stríðni, ekki háheilagasta alvara. Að hugsa er að alhæfa. Að hugsa er að stríða. Og ögra. Klóra í það sem á hverjum tíma virðast sjálfsögð sannindi. En kann ögrunin að hafa átt betur við á ritunartímanum en í dag? Því þankar um hve gott og rétt sé að lítilsvirða rangar skoðanir eru engan veginn sjaldgæfir í dag, þeir eru úti um allt eins og skrímsli sem stíga upp af dreymandi skynsemi. Það að bera skuli virðingu fyrir skoðunum allra er sárasjaldgæf og róttæk hugmynd, almennt litin hornauga, í besta falli talin hugarórar sakleysingja. Langflestir álíta mikilvægt að uppræta hættulegar skoðanir og telja ákveðnar aðferðir bestar til þess.

Stenst það einhverja athugun að lítilsvirða skuli skoðanir náungans ef maður veit að þær eru rangar?

Meðan sá sem er þeirrar skoðunar að allir sem trúa ekki á Guð séu hættulegir villutrúarmenn grípur ekki til neinna aðgerða til að framfylgja þeirri skoðun er ekki hægt að banna honum að hafa sína skoðun. Og hví að vanvirða hana, varla er skoðunin hættuleg villutrú.

Meðan nágranninn tekur ekki upp á því að drepa ketti í raun og veru er skoðun hans ekki tilefni til frekari vanvirðingar en sú skoðun að sápukúlur séu skemmtilegar.

Hvað er skoðun? Skoðun er eitthvað sem hver og einn álítur rétt. Eðli skoðunar er að sá sem er á henni álítur hana rétta. Sem merkir ekki að allar skoðanir séu réttar. Ef almenn regla er að virða ekki skoðun náungans hefur fólkið með röngu skoðanirnar enga ástæðu til að bera virðingu fyrir skoðunum fólksins með réttu skoðanirnar.

Hvernig umræðuhefð myndast í landi þar sem ríkjandi viðhorf er að virða ekki skoðanir náungans? Hvernig samræða fer fram í umhverfi þar sem sjálf hugmyndin um að rétt sé að virða og umbera allar skoðanir er óvinsæl, róttæk og framandi? Það verður til demónísering. Skoðanir annarra eru skrímsli sem þarf að takast á við.

Eftir að skrímsli dulhyggjunnar liðu undir lok, uglan varð meinlaus, leðurblakan að spendýri og Grýla er dauð, hófst leit að nýjum skrímslum. Skynsemina tók að dreyma. Skrímslin hafa fundist og eru meðal annars eftirfarandi: Barnaníðingar, nauðgarar, hrunverjar, fjárglæframenn, pólitískir öfgamenn af öllum sortum, og síðast en ekki síst: Fólk með aðrar skoðanir en við sjálf.

Ef skynsemin er skynsöm hefur hún á réttu að standa þá er hún greinir einhverja skoðun sem ranga. Ef skynsemin er dreymin taka skrímslin að voma yfir vitundinni og drottna yfir lífinu öllu.

Það er lítil áskorun að fyrirlíta þá skoðun grannans að hann hafi rétt til að drepa ketti. Hin raunverulega áskorun væri að virða þessa skoðun, umbera hana og ræða; allt annað er eiginlega nauðaeinfalt, útheimtir ekkert hugrekki og enga djúpa hugsun. Útheimtir hálfgerða einfeldni. Að virða merkir ekki að látið sé ógert að gagnrýna skoðunina. Hinsvegar er mjög ólíklegt að nokkur manneskja láti af rangri skoðun og komist á aðra rétta af því tilefni að viðkomandi skoðun sé sýnd lítilsvirðing.

Raunar er líklegt að óskynsemin sé það ríkjandi þáttur í mannshuganum að komi nógu margir saman og fordæmi nógu sterklega þá skoðun að rétt sé að drepa ketti verði það þess valdandi að sífellt fleiri sjái kostina og heillandi háskann við þá skoðun; sífellt fleiri munu láta flæma sig í flokk kennilegra kattamorðingja. Og þá er auðvitað líka hugsanlegt að fyrr en síðar muni svo einhver kýla á það að drepa kött og jafnvel marga ketti og líka þjófa sem koma inn í húsið.

„Þegar skynsemina dreymir fara óargadýrin á kreik.“ Nú er það ekki einhlítt í texta Goya að merkingin sé draumur, að skrímslin kvikni af draumi skynseminnar fremur en af þeirri ástæðu að skynsemin sefur. Til eru skissur og drög að þessari frægustu mynd Kenjanna, á einni þeirra eru uglurnar mennskar, eða allavega líkar mönnum, djöfullegum en kannski ekki órafjarri hugmyndum um vitrar uglur. En margt bendir til þess að merkingin sé svefn: „Þegar skynsemin sefur fara óargadýrin á kreik.“ Ítarlegri skýringar við myndina er að finna í handritum (eins og reyndar kemur fram í íslenskri útgáfu Guðbergs Bergssonar á Kenjunum). Í handritinu á Prado-safninu í Madríd segir: „Fantasía sem skynsemin yfirgefur framleiðir ómöguleg skrímsli: Í tengslum við skynsemina er fantasían móðir listanna og upprunastaður undra.“ Í handritinu á Biblioteca Nacional: „Þegar mennirnir heyra ekki hróp skynseminnar verður allt að sýnum.“

Ég myndi samt ekki útiloka þann möguleika að skynsemina geti dreymt og af draumum hennar verði skrímsli, fleiri skrímsli í samtímann.