Óttar er óragur við að fara úr fræðimannshlutverkinu og lýsa sínum persónulegu skoðunum, hvort heldur er um persónur, hópa eða einstaka þætti tengda sjálfsvígum. Áhrifamestu kaflarnir lýsa hans eigin sálarkreppum, þar sem hann var kominn fram á brúnina milli lífs og dauða.
Fyrir þá sem ekki þekkja hljóta kaflarnir um sögu viðhorfa yfirstjórnar kristinnar kirkju til sjálfsvíga að vekja upp undrun. Á fyrstu öldum kristinnar kirkju ríkti upphafning á þeim sem fórnuðu lífi sínu fyrir trúna, en seinna fordæming og útskúfun á þeim sem sviptu sig lífi, hvort heldur í trúarlegum tilgangi eða í örvæntingu og uppgjöf.